Döpur er dráttlaus kona.

...besti páskamálsháttur ever!!!

Thursday, March 31, 2005

...

Meðan veðrið er stætt
berðu höfuðið hátt
og hræðstu ei skugga á leið.
Bak við dimmasta él
glitrar lævirkjans ljóð
upp við ljóshvolfin björt og heið
þó steypist í gegn
þér stormur og regn
og þó byrðin sé þung sem þú berð
þá stattu fast og vit fyrir víst
þú ert aldrei einn á ferð.

Eyddu nóttinni í skíðalyftu

Tveir Parísarbúar eyddu síðastliðinni nótt í skíðalyftu í Ölpunum í fjögurra stiga frosti vegna þess að starfsfólk skíðastaðarins slökkti á henni í gær og fór heim. Mennirnir tveir, sem eru 26 og 36 ára, fundust í morgun þegar skíðastaðurinn var opnaður. Voru þeir fluttir á sjúkrahús vegna ofkælingar.
Skíðastaðurinn er í 1.800 metra hæð yfir sjávarmáli. Þar var fjögurra stiga frost í nótt. Yfirmenn staðarins segja vanrækslu starfsfólks um að kenna hvernig fór, og hafin er lögreglurannsókn á málinu.

Þessi skemmtilega frétt er í boði mbl.is

Tuesday, March 29, 2005

Sálin hans Jóns míns..!

Já Sálin klikkar ekki, það hefur hún ábyggilega aldrei gert. Það var komin tími á að fara frá Selfossi enda búin að hanga þar allt páskafríið. Ég brunaði því hingað til Keflavíkur seinnipartinn í gær og skellti mér svo á ball í Stapanum í góðum hópi. Það var náttúrulega stappað eins og sardýnudós á ballinu og eitthvað var aldurinn hjá undirritaðri í hærri kantinum en....who gives a fuck...ég var bara komin til að dansa. Dansaði alveg rassinn úr buxunum og söng af öllum kröftum við hvert einasta lag. Gaman að þessu. Nokkur eftirminnileg atvik:

Stelpa sem var í nælonbuxum og mjög, mjög stuttu pilsi. Hefði verið töff klæðnaður á grannri stelpu en rassinn á þessari kom algerlega niður fyrir pilsið, það gægðist lítið m niður fyrir pilsið. Hún hefur alla vega ekki átt góðar vinkonur, ég hefði aldrei hleypt minni vinkonu svona á ball.

Strákur með geðveikt hallærislega línu. Sagði við stelpu sem honum fannst vera að tékka á sér: hei, taktu frekar mynd heldur en að stara svona á mig, hún endist lengur...! OJ OJ OJ og gaurinn var því miður ekki störuvaldandi.

Systirin sem ældi á bakvið Stapann! Hver skyldi það vera? og gellan á klósettinu sem bókstaflega ældi á bakið á stelpunni í röðinni fyrir framan sig.....gæsahúð við tilhugsunina.

Ég skal segja ykkur það að ég er með átta bit á líkamanum. Fjögur á fætinum, tvö á bumbunni, eitt á bakinu og eitt á hálsinum. Hvaða kvikindi geta verið að bíta mig? Ég veit ég er sæt en fyrr má nú bíta en éta.

Ég er loksins, loksins að komast í gegnum stærðfræðibókina sem ég er búin að vera að þýða, geðveikt skemmtileg bók svo ég segi sjálf frá. Ef þið munið ekki stærðfræðina sem ykkur var kennd í 2 bekk skal ég lána ykkur þessa bók. Hún er hrein snilld. Styrkt af amazon.com og uhu!

Þá ku svefninn kalla.

Sunday, March 27, 2005

...og svo óvenjulegur dagur!

Í dag var Janus algjört sófadýr, ég meina það, ég horfði svo lengi á sjónvarpið að mér er illt í augunum með bullandi hausverk og allt. Það væri réttast að fara út núna og hlaupa svolítið, þá myndi ég sofna vel. Bara mesta furða hvað fjallið skyldi lítil eymsli eftir sig. Var sannfærð um það þegar ég fór að sofa í gærnótt að ég myndi vakna eins og Gosi spýtustrákur! En viti menn, smá aum í öðru hnéinu en annars í fínasta formi. Hefði alveg verið til í annað fjall í dag. Greinilegt að spinning er góður grunnur fyrir fjallgöngur, enda sömu vöðvahópar lagðir undir.

Hættulegt að leggjast svona yfir imbann, hefði getað skellt mér á ball áðan en rassinn var hreinlega límdur við sófann og ég fékk hann alls ekki af stað. En það kemur dansiball eftir þetta dansiball og þar fyrir utan togar á móti sól ekki neitt fast í mann eða konu.

Það koma tímabil þar sem ég vakna dauðþreytt því ég hef svo mikið að gera í einhverjum draumum alla nóttina. Síðustu þrír draumar hafa verið mjög krefjandi skal ég segja ykkur. Í þeim fyrsta var ég að synda í sjónum fyrir utan Ástralíu með Guggunni minni.....Guggan var í rólegheitum en ég synti eins og brjálæðingur því ég var svo hrædd við hákarlana! Sama hversu hratt ég synti þá hreyfðist ég ekki neitt, heldur buslaði bara þarna við hliðina á Guggu. Undarlegur draumur. Önnur nótt og annar draumur, þá var ég í bílnum mínum, var að verða bensínlaus, og leitaði og leitaði að bensínstöð, þannig gekk draumurinn heila nótt, alltaf logaði bensínljós, ég var að fara eitthvað en varð fyrst að kaupa bensín á bíllinn, en fann hvergi bensínstöð....! Þriðji draumurinn síðastliðna nótt sló ekki út undarlegheitin í hinum tveimur. Þá var ég að passa hús, það var búið að brýna mikið fyrir mér hvað ég þyrfti helst að passa...þú verður að passa kertin, þú verður að passa pottana, þú verður að passa þetta og hitt o.s.frv. Einhverja hluta vegna fór ég út úr húsinu til að ná í eitthvað og náði við það að læsa mig úti. Draumurinn snérist því um það að ég hékk á öllum gluggum að horfa á hlutina sem ég átti að passa en komst hvergi inn í húsið....!

Undarlegt finnst ykkur ekki? Samnefnarinn í öllum draumunum: þú ert að hjakka í sama farinu. Í öllum draumunum er ég að reyna að komast eitthvað en sit föst í öllum þeim aðstæðum sem ég finn mig í. Undarlegt finnst ykkur ekki? Þvílíka þvæla sem draumar geta spunnið upp. Ég þyrfti að finna mér svona draumaráðningarbók.

Anyways....Janus þarf heldur ekki að fara til útlanda til að vera bitin af einhverjum undarlegum kvikindum. Núna er hann bara á Selfossi og er að verða eins og sigti....! Hver þarfnast útlanda?

Saturday, March 26, 2005

Föstudagur til fjalla!!

Loksins, loksins, loksins, loksins komst Janus á fjöll eða réttara sagt fjall. Fór í góðum hópi upp á fjall sem heitir Þríhyrningur. Þríhyrningur er 670 m hátt og er í Fljótshlíðinni. Það ber nafn sitt af hornunum þremur. Fjallið leynir á sér og kom rosalega á óvart hversu víðsýnt er frá því þegar á toppinn er komið. Við blöstu hrepparnir, jöklarnir í kringum Þórsmörk, Eyjafjöllin og síðast en ekki síst Suðurlandsundirlendið með Vestmannaeyjar brosandi kátar í sólskininu. Toppurinn var þakinn þoku þegar lagt var í ferðina en þegar komið var að fjallsrótum hreinsaðist þokan í burtu og heiðskýr blár himinn svo langt sem augað eygði. Reyndar var geggjað rok á toppnum og því var ekki hægt að stoppa lengi þar uppi. Ferðin tók á sjötta tíma, þó gangan á fjallið sjálft hafi ekki tekið nema einn og hálfan tíma, það þurfti að ganga svo helvíti langt í drullu til að komast að fjallinu - það er víst ennþá bara vor. Vegalengd (sjónlína) er 12 km og því má ætla að lagðir hafi verið ca. 14 km að baki :) Gaman, gaman.

Vildi aðeins leiðrétta það að ég er ekki sammála þeirri meðferð sem Bobby greyið hefur fengið hann hefur svo sem ekki átt sjö dagana sæla. Ég bara skil ekki hvers vegna Íslendingar eru að pota sínu nefi í svona mál, eigum við bara ekki nóg með okkur sjálf og þau vandamál sem fólkið í landinu þarf að díla við. Og og og og ohhh my god hvað þetta fjölmiðladæmi er hallærislegt. Það er verið að rífast um hver fékk fyrsta viðtal við manninn? Eins og börn að rífast um sleikjó - talandi um að aðrir sýni Bobby vanvirðingu, í gær var hann eins og leiksoppur í rándýraleik. Hefði verið nær að eyða peningum í að sýna beint frá fundi piparjúnkuklúbbsins Sveinssínu....fólk hefði alla vega gaman af þeirri sýningu :)

Hemmi Gunn var bara helvíti skemmtilegur - maður bara söng og söng og hugsaði og hugsaði...!

Kisa mín er í veiðileik, markmiðið er að stúta fyrstu flugu sumarsins. Flugan er samt klókari en kisa, enda tilgangslaust að láta veiða sig þegar maður er búin að slaka á mánuðum saman. Það er svo sem sanngjarnt að kisa fari að fá sumarmatinn sinn því ég fékk sumarmat áðan þ.e. grillmat :) Anyways sat og spilaði kana á Víðivöllunum í hvorki fleiri né færri en fjóra tíma í kvöld. Það var svo gaman að við tímdum varla að fara að pissa.

Svona gekk nú dagurinn í dag, nú er fríið á undanhaldi, minna eftir en búið. Nú fer maður bara að pakka í kassa, ekki nema tveir mánuðir til flutninga....!

Hvert á ég að flytja?

Thursday, March 24, 2005

Hvað er með þennan.....

...rugludall. Hvers vegna í ósköpunum erum við að berjast fyrir því að fá þennan Bobby hingað?? Mér er ófært að skilja þetta bull. Væri ekki ráð að fá hingað fólk sem gæti bætt okkar samfélag. Hvað á þessi maður að gefa okkur? Eeee kannski kenna skák? Hver vildi svo sem læra það af honum og mér sýnist að manngreyið eigi í erfliðleikum með að koma frá sér fimm orða setningum. Mér finnst þetta bara bjánalegt og mun telja mínúturnar sem Bobby á eftir að dvelja hér á landi. Hann verður ekki lengi að nota þennan frábæra ríkisborgarastökkpall út í heiminn.

Skilaboðin sem við sendum frá okkur - ef þú ert Íslandsvinur máttu brjóta lögin að vild því við komum til hjálpar svo þú þurfir ekki að svara fyrir það. Flott að bæta því við stuðningsyfirlýsinguna við Írak. En.....bull, bull hver nennir að lesa fleiri en fimm línur um svona leiðinlegt málefni. Sem betur fer þarf maður ekki að fylgjast með þessu - enda hefur það ekkert að segja hvað fólkinu í landinu finnst - til hvers þá að vera að svekkja sig yfir þessu.

Núna er ég bara helvíti góð í bakinu, held ég hafi sjokkerað bakið þegar ég fór að burðast með borð og stóla í Verahvergi í gær. Mig rámar í að það hafi sagt...."þú hlýtur að vera að grínast?" Var búin að gleyma hvað er gaman að setja saman svona veislur, kannski ég ætti bara að fara að vinna í svona þjónavinnu aftur, það var alltaf svo skemmtilegt og þreytandi.

Ég fór svo í afmæli í gærkvöldi. Drakk ábyggilega líter af kók því ég var svo þyrst eftir hrossakjötið hjá mömmu - það þarf að taka kjötið úr tunnunni. Í dag er svo fermingarveislan, meira að segja matarveisla en ekki eitthvað kökusull...mmmm.

Anyways - ég ætla á tónleika á annan í páskum með Pál Óskar og Moniku hörpuleikara. Þau eru svo flott og rómantísk saman. Fæ ennþá gæsahúð að hugsa til tónleikana sem ég fór á með þeim fyrir nokkrum árum. 1000 krónur inn og það er ennþá pláss við aðra hliðina á mér :)

Hvenær skyldu verða búin til páskaegg úr lakkrís eða hlaupnammi? Er þetta súkkulaði ekki að verða soldið þreytt?

Wednesday, March 23, 2005

Þessi stutta....!

Þessi stutta færsla verður tileinkuð Bjarna vini mínum í Danmörku :) Bjarni rekur gistiheimili í Danaveldi og stjanar við alla þá sem þangað koma. Ég fer bráðum í heimsókn :)

Bjarni virðist lesa bloggið mitt á hverjum degi og veit fréttirnar af blogginu á undan pabbanum mínum. Svo skoðar hann líka litlu barnabörnin sín af minni síðu því það er svo erfitt að muna þessar barnalandsaddressur, hann er algjör perla. Vel af verki staðið. Er hann kannski bara alltaf í tölvunni?

Anyways - ef ykkur vantar gistingu í DK kíkið á Bjarna, hann á tengil hérna til hliðar.

Ég fer að búa til eitt stykki fermingarveislu á eftir og svo er afmæli í kvöld....

Til hamingju með afmælið á morgun elsku Alla mín :)
Lífið breytist heilmikið við það að verða 20h :) hmmmmm!

Tuesday, March 22, 2005

Heimskuverðlaun!

Heimskuverðlaun dagsins hlýtur Janus Jólasveinn!
Janus var að drepast í bakinu í gær, fór til hnykkjarans og leið náttúrulega eins og blómi í eggi eftir það. Vaknaði bara helvíti hress í morgun.

Nú þar sem bakið var svona flott fannst Janus tilvalið að fara að spilla bílnum sínum svolítið. Langt síðan hann hefur fengið dekurmeðferð. Ég fór því á verkstæðið og þvoði og skrúbbaði og skúraði og bónaði og strauk. Mamma var líka að þvo sinn bíl. Við ákváðum svo að taka bílinn hjá pabba í smá dekur líka. Allt gott og blessað nema???????????? Á eftir var ég að drepast í bakinu - langt síðan þetta hálfónýta bak hefur hlaupið í svona rembihnút. Hefði kannski átt að sleppa því að hjakkast svona í dag.

Annars fékk ég mér tvær íbúfen, lagðist í pottinn og sötraði einn bjór - núna er mér ekkert illt í bakinu - eða er alla vega bara alveg sama :)

Það er þetta með...

....lífið. Það virðist vera algerlega ómögulegt að sjá hvað bíður handan við hornið. Gamlir draugar skjóta upp kollinum þegar maður síst býst við þeim. Má segja að sá nýjasti hafi algerlega komið aftan að mér.

Fór til hnykkjarans í dag og vá hvað það var gott, ég lengdist ábyggilega um 10 sentimetra og get dregið andann án þess að fá sting í bakið. Alveg magnað....Bergur ég gæti bara næstum því elskað þig, eða kannski það sem þú gerir!!!

En, átti góðan dag með fjórum ellefu ára börnum, fór í keilu, fór í gönguferð, í Hallgrímskirkju, á listasafn, borðaði ís, skammaðist aðeins, ellefu ára börn eru ennþá í "rífa af húfu leik". Þetta á eftir að verða skemmtilegt sumar.

Get ekki betur séð að auminginn með steinhjartað (að eigin sögn) sé að leggja inn fyrir nýrri. Sárvorkenni henni og vona að hún sjái í gegnum hann fyrr en seinna. Kannski hún stígi bara á hans kalda hjarta og leyfi honum að finna hvernig er að sitja við þann enda borðsins. Það er erfitt að vera svona æðislegur. Ég og Guggus urðum sammála um það aldrei á allri okkar ævi höfum við dregið eins rangar ályktanir um nokkurn einstakling - skil ekki hvers vegna enginn sá í gegnum hann. Ég fæ bæði velgju og klígu, ég segi það aftur velgju og klígu. Ég krefst betri dómgreindar af vinahópnum því ég virðist vera ófær um að dæma sjálf!

Á síðustu tveimur vikum hafa hvorki fleiri né færri en fimm nýjir bílar bæst í fjölskylduflotann. Pabbi keypti nýjan vörubíl, mamma keypti Boru, Siggi keypti Lexus, Anna keypti Golf og Gunna+Guðni keyptu Subaru. Nú er bíllinn minn allt í einu orðin eins og hálfgerð "drusla", alla vega orðin einn af gamlingjum í heimkeyrslunni. Minns er samt flottur og það sem meira er Janus á hann, en er ekki bara notandi eða áskrifandi.

Svona var þetta í dag. Er að fara í viðtal á morgun - krosslagðar fingur takk!!!

Monday, March 21, 2005

Bjór, bjór og bjór!!

Það komast tæplega tuttugu manns í sæti í stofunni í íbúðinni sem ég bý í! Alveg hreint merkileg staðreynd. Föstudagurinn var mjög skemmtilegur, öll leikrit gengu frábærlega og börnin fengu frábærar viðtökur :) Gaman að því. Föstudagskvöldið var líka skemmtilegt - fínt að fagna páskafríinu í góðra vina vinnuhópi. Prumpdiskurinn eini sanni sem ekki hefur verið spilaður í laaangan tíma sló í gegn og lá við að kalla þyrfti eftir súrefni svo vel sló hann í gegn. Ég bara trúi ekki hvað ég er búin að vera ódugleg við að slá í gegn með honum.

Laugardagurinn var pínulítið þunnur, þá ákvað ég að hætta að drekka bjór. Alveg þangað til ég opnaði annan nokkrum tímum seinna. Þá var það heima hjá Ingu, Svenni og Kristjan á landinu, horfðum og stúderuðum sænska-júróvísíon og íslenska lagið..If I had your love :) Ekki flókið að læra þann texta. Svo var arkað í bæinn. Niðurstaðan - ef ég væri samkynhneigð á Íslandi myndi ég flytja erlendis. Nú veit maður af hverju Svenni vill bara vera í útlöndum :) Hræðilegt að horfa upp á þetta - gaurar að taka í nefið fyrir framan alla, aðrir merktir Bónus og allir hinir Asíubúar! Ég og Inga fórum á Pravda, síðan á Rex og síðan aftur á Pravda og síðan heim. Skemmtilegt kvöld í skemmtilegum félagsskap - tók fullt af myndum sem ég mun troða inn á síðuna í vikunni.
Sunnudagurinn var bara geðveikt hress, borðaði djúpsteikta ýsu og ís. Knúsaðist í litlu frændunum, lagði mig, klippti í sundur eina stærðfræðibók sem ég er að þýða. Og síðast en ekki síst fór í pottinn með mömmu í TVO KLUKKUTÍMA og náttúrulega drakk einn bjór í pottinum. Allt er þegar þrennt er.

Jón Gunnar, Bjarna sonur í DK, sofnaði næstum oní poppið, sefur í staðinn hjá Sigga bróðir, like father like son og kisa klikkaði á fimleikaatriðinu sínu, leit ekki vel út.

Ég er búin að fá fjórða barnið í hópinn minn og komin í hörkubréfaskriftir við eitthvað fólk í langt, langt í burtu löndum....gaman af því. Það styttist í messu Jóns.

Eníhú.................! Það er svo gaman að vera í svona páskafríi.

Wednesday, March 16, 2005

(Páska)frí

Sælir allir!

Frétt 1: Margt fer öðruvísi en ætlað er. Ég fór í smá fýlu frá skólanum sem ég sótti um síðasta fimmtudag. Var svolítið önug yfir þeim svörum sem ég fékk þ.e. að ég fengi ekkert að vita fyrr en 15. apríl. Minns varð því meira en lítið hissa þegar hann símtal þar sem hann var beðin um að koma í viðtal helst í gær :) Jú, kannski einhverjum þyki ég spennandi kostur :) Þar sem engin tími er aflögu þessa dagana verður viðtalið því að bíða fram í næstu viku eða eftir páska. Slapp fyrir horn með aðra umsókn sem ég var næstum búin að senda, Gugga bjargaði mér á síðustu stundu. Úfff það hefðu verið hræðileg mistök :/

Frétt 2: Ég á hús! Eða ég er búin að panta eitt stykki hús sem mun í nánustu framtíð rísa á Selfossi. Hef reyndar lítil plön um það að búa í því sjálf, en hver veit. Ódýrt hús = góður peningur í vasann þegar selt er :)

Frétt 3: Helena samkennari og íþróttaálfur með meiru er líka að fara í sumarbúðir í sumar, jei! Þá á heldur betur eftir að spjalla :) Gaman að vera saman.

Frétt 4: Ég held ég fari að leggja leikrita-skrif handa börnum fyrir mig...þetta er bara geeeeveikt fyndið :)

Partý, partý, partý!!!!! og frí, frí, frí!!!!!

Sunday, March 13, 2005

Það er svo undarlegt...!

Mér er það alveg óskiljanlegt hversu látt sumt fólk leyfir sér að leggjast. Já, bara algerlega óskiljanlegt. Hvernig skyldi vera hægt að líta í spegil án þess að sjá þá heimskulegu sýn sem á móti blasir. Vá, þetta er einhver undarleg firring. Þá er ég ekki að tala í einhverri svartsýni (við erum öll glötuð) heldur bara hvernig hægt er að lifa sátt við sjálfan sig, án þess að horfast í augu við sjálfs síns galla og reyna svo að bæta þá frekar að spóla endalaust í sama farinu. Mikið vildi ég óska að ég væri gallalaus - en oh my god! þá væri ég öðruvísi en allir aðrir - þá er betra að horfast í augu við þá. Ég lifi því bara með mínum göllum og vona að þeir taki ekki stjórnina af mér.

Anyways....undarlegt fólk.

Ég trúi varla að það sé aftur að koma mánudagur. Var að semja árshátíðarleikrit fyrir börnin mín - bara fyndið (þar tók sjálsmínsfyndnigallinn yfirhöndina). Ég veit ég sagðist ekki ætla að leggja í svona leikritsvinnu strax aftur, en þetta var svo gaman eftir á. Ég bjó til leikrit úr sögunni um Mjallhvít, tók smá bút úr sögunni og setti hann í fjóra mismunandi búninga. Fyrsti búningurinn er sá upprunanlegi, annar er söngútgáfa, þriðji er fýlu/reiðiútgáfa og síðasti er nútímalegur. Já, já maður er á kafi í einhverjum leikritum.

Er búin að fá gistingu á flottasta gistiheimili í Njarðvík þegar búslóðin flytur til Reykjavíkur! eða fer hún kannski á Selfoss?

...Er bloggið mitt að stækka eða er hausinn á mér að springa úr míns eigin sjálfsumgleði?

Saturday, March 12, 2005

Ekki vildi ég lifa til að vinna...!

Undanfarið hef ég verið að koma heim úr vinnunni um klukkan tíu á kvöldin. Ekki það að þessi tími sé leiðinlegur en...oh my god hvað hlýtur að vera leiðinlegt að lifa fyrir það að vinna. Ég er búin að vera að plana allt með vinnuna í huga því þegar maður tekur eitthvað að sér verður maður náttúrulega að standa sig í því en...mér er þetta óskiljanlegt. Hvers vegna vill og nennir fólk að vinna svona lengi? Kannski ef ég ætti mitt eigið fyrirtæki væri mér nokk sama þó ég ynni allan daginn en fólk sem bara vinnur allan daginn og stundum langt fram á nótt og jafnvel telur sér trú um að það sé ómissandi í einhverri vinnu sem gæti verið horfin á morgun og standa þá jafnvel uppi allslaus því allt þeirra líf snérist um einhverja vinnu. Getur þetta fólk nokkurn tíma eignast fjölskyldu? Blessunarlega veit ég bara um eina manneskju sem forgangsraðar svona - sem er skiljanlegt því svona fólk er náttúrulega alltaf í vinnunni og þekkir engan nema vinnufélaga, en er til mikið af svona fólki? Alla vega á allt mitt samstarfsfólk líf eftir vinnu.

Það er að koma vor, það angar allt af fiski í Keflavíkinni, bjakk! Mætti ég þá frekar biðja um góða íslenska kúadellustækju. Fór í Bónus og verslaði fullt fyrir ekki neitt. Hvað er málið með mjólkina? Ég varð næstum því að berjast fyrir því að kaupa ekki mjólk. Einhver Bónus gæi stóð þarna og deildi út mjólk, aðeins fjórir lítrar á mann!! Ég skal segja ykkur það, það hefði tekið meiri háttar skipulagningu ef ég hefði átt að koma fjórum lítrum út áður en þeir yrðu súrir. Frú Sigríður hefði þurft að þamba að minnsta kosti tvo lítra - hefði komið henni niður með smurolíu, könnu og stórri trekt!! Hvernig í ósköpunum hamstrar fólk mjólk? t.d. mjólkurgrautur í þriðja sinn í þessari viku og það er bara þriðjudagur :)

Anyways, ég er búin að senda umsókn fyrir næsta vetur, nú er bara að bíða og sjá, er að hugleiða að senda aðra, jafnvel tvær til að vera alveg viss. Ísland verður að duga að minnsta kosti í eitt ár enn, meðan kostir eru skoðaðir og svo væri ekki verra að læra smá norsku áður en lengra er haldið. Þó er ég ekki neitt stressuð, þetta ræðst, annars er þetta bara vinna! Húsnæðisplanið fór út um þúfur og enn ein lexían sem ég ætti fyrir löngu að vera búin að læra - get engum kennt um nema sjálfri mér, mér virðist falla það vel að slá hausnum í stein. Svo ef þið vitið um einhvern sem langar að leigja herbergi í þriggja herbergja íbúð í Reykjavík á móti mér er bara að láta mig vita. Sá má ekki hafa ofnæmi fyrir kisu :) og verður náttúrulega að vera reyklaus, en ekki hvað.

Mér líður eitthvað undarlega, er með fiðrildi í hausnum, fær maður fiðrildi af hálfum bjór. Kannski er þetta bara kjúklingasalatið hennar Hönnu Lísu...mmmmmm borðaði yfir mig. Kannski er þetta hamingja yfir nýju Idol stjörnunni....hahahaha. Til að hnýta saman fyrirlesturinn um vinnusýki þá þarf ég að vera mætt á námskeið klukkan eitt á morgun og sunnudagskvöldið fer í æfingar. Það er því sennilegast best að smella sér í rúmið.

Er svo busy og bloggskrifin því ekki eins tíð og ella - en ég kem aftur! Alltaf aftur!

...og svo ku aðeins vera ein vinnuvika í páskafrí :) JEI!

Tuesday, March 08, 2005

Það lá í loftinu...

...en það liggur ekki lengur. Ég vissi að það væri á leiðinni og hræddist það, en það er komið og ekki var það auðvelt. Hefði frekar viljað að það kæmi í hausinn á mér heldur en á þennan hátt. Oft verður maður orðlaus og nú er ég orðlaus. Þá leitar maður í fallegustu bókina sína og finnur eitthvað sem hugsanlega gæti styrkt þá sem þurfa á því að halda, eða mann sjálfan. Ég segi því bara: Tilvera okkar er undarlegt ferðalag og allir atburðir, sérstaklega þeir erfiðuðu, sem við verðum að horfast í augu við hljóta að styrkja okkur þegar fram líða stundir. Meira að segja þeir atburðir sem maður ekki skilur, sumt á bara ekki að gerast.

Ég veit ekki hvað þetta ljóð heitir en það er eftir Sigurbjörn Sveinsson.

Eins og lækur loks er vorar
löngum eykur dropafall,
klífur sundur klettastall,
mikill, góður maður sporar
mörgum braut í tímans fjall.

Þetta kennir þér að stunda
það, sem gott og fagurt er.
Lærðu að nota nú og hér
öll þau duldu öfl er blunda
innst og dýpst í sjálfum þér.

Hvort sem þú í hendi hefur
hamar, skóflu eða pál,
pentskúf, meitil, penna, nál,
hvaða starf sem Guð þér gefur,
gerðu það með lífi og sál.

Láttu dag hvern ljós þitt stærra
lýsa, klýf þú sérhvern múr,
áfram gegnum skin og skúr,
kjörorð þitt sé: Hærra, hærra!
Hugsjón þinni vertu trúr.

Thursday, March 03, 2005

Að setja út í horn...!

eða kannski (varúð vinna)!!!

Ég heyrði eina nemöndina mína segja þetta í dag, ef þú vilt að Kristjana setji þig út í horn skaltu bara hafa mikil læti!!! Það er mér algjörlega framandi og ég hef enn ekki, þó ég hafi hugsað í allan dag, fundið skýringu á þessu horni :) Ég er að hugsa um að spyrja pjakkinn á morgun í hvaða horni ég hef látið hann standa. Stundum skil ég ekki hvað þessum ormum dettur í hug.

Þetta var dagur hins stressaða Janusar. Vinna til tvö, fá að fara fyrr til að bruna í bæinn, pikkaði upp börn um allan bæ og fór í gönguferð, fengum okkur ís, flottir krakkar hér á ferð. Bruna til systir minnar, máta föt...núna á ég geðveikt flotta klæðskerasaumaða dragt sem ég borgaði nákvæmlega 2200 krónur fyrir. Geri aðrir betur. Næst brunað á bensínstöð, brunað til Öllu, brunað til Keflavíkur, brunað í leikfimi, brunað í spinning. Mæling....já Janus fer bara alveg að vera mjór :) Græddi reyndar svolítið á því að verða 28 ára því 28 ára gamlar konur mega vera með aðeins meiri fitu í líkamanum heldur en 27 ára. Jei! Núna er ég bara eins og ég á að vera. Fyndið því mér finnst alveg að mikkkklllu meira að taka :) Bara gaman.

Vissuð þið að það er hægt að kaupa tveggja herbergja íbúð í Keflavík fyrir sex miljónir? og þriggja herbergja fyrir sjö komma eitthvað. En hver vill búa í Keflavík?

...ég komst af því í gær að í fjölda, fjölda ára hef ég missungið ekki ómerkara Stuðmannalag en "Taktu til við að tvista". Var að söngla lagið með unglingum í skólanum á æfingu fyrir leikritið þegar ég rak augun í textann sem er víst svona:
Taktu til við að tvista,
teygja BÚKINN og hrista... o.s.frv.

Héldu fleiri að það ætti að vera punginn?

Wednesday, March 02, 2005

Það gerðist...

..ekkert í dag. En samt er allt á fullu. Er kannski bara fullt tungl eða er að koma djúp lægð? Vona að skýringin felist þar. Annars gerist eitthvað á morgun. Eitthvað spennt.

Hei það var ekki frost í dag, sem þýddi að allar þvottaslöngur voru settar út, sem þýddi að ég gat þvegið bílinn minn, á milli tveggja töffara sem kaupa sér barnabox á Mcdonalds (fyrir þig Guggus), sparaði mér pening því ég gat sleppt því að fara í bílaþvottastöð, og bíllinn þurfti ekki að fara í gegnum þann hrylling. Það hefði verið í annað sinn sem greyið hefði þurft þess. Siggi asni fór með hann í sínu fyrstu og einu ferð í gegnum bílaþvottastöð. Skyldi vera til bílasálfræðingur?

Ég borðaði banana klukkan sjö! Ég er svöng. Langar í eitthvað slikk....!! Mæling á morgun, hittingur á morgun, stress á morgun, úfff mátun á morgun!!! Er ekki fimmtudagur?

Later.

Tuesday, March 01, 2005

Það liggur eitthvað í loftinu!!

Ég vaknaði í svitapolli í morgun með hjartsláttinn suðandi fyrir eyrunum. Í allan dag er ég svo búin að bíða á tánum, því það liggur eitthvað í loftinu. Ég fæ nú ekki oft svona tilfinningu en þegar hún kemur á annað borð er það ekki að ástæðulausu. Er reyndar með eina hugmynd um hvaðan þessa sprengja kemur en vona heitt og innilega að það sé ekki rétt hjá mér....! En það gerist eitthvað, ég finn það.

Ég fékk mjög skemmtilega heimsókn áðan, tvær húsmæður í orlofi úr sveitinni. Skyldu bara eftir börn, dýr og menn og brunuðu til Keflavíkur í snakk og súkkulaði. Eitt af því sem maður græðir á því að setjast að á nýjum stöðum er heill haugur af kunningjum. Nú hef ég allar nýjustu Tungnafréttir á hreinu og því er svona overflow í huganum.

Ég skammast mín svo fyrir bílinn minn, ég held hreinlega að ég neyðist til að fara með hann í bílaþvottastöð því það er hvergi neina kústa að finna eða fá. Aumingja greyið bíllinn, hann sér varla út.

Ég á til með að segja ykkur enn eina söguna af kettinum mínum. Eins og þið kannski vitið þá er hún fröken Sigríður alger snilldar köttur, það er heilagur sannleikur. Í nótt gafst ég upp á henni þar sem hún fór í gardýnubolta löngu fyrir fótatíma alls venjulegs fólks. Ég tók því köttinn og henti henni fram og gang og lokaði að mér inni í svefnherbergi. Í smá stund á eftir heyrði ég hana krafsa í hurðina en svo sofnaði ég aftur og tók því ekki eftir ferðum Sigríðar eftir það. Í morgun þegar ég kom fram, fann ég strax að eitthvað óvenjulegt hafði gerst. Já! Það fór ekki á milli mála að það angandi kattahlandslykt í íbúðinni. Flott að byrja þennan "spennta" dag á svoleiðis. Á þessum tveimur árum hefur það bara gerst einu sinni að Sigga hafi skilað af sér inni í íbúð. Ég setti súpernebbann í gang og leitaði um alla íbúð, þefaði af mottunum, úr sófanum, kíkti í öll horn og þræddi alla veggi en hvergi fann ég neitt. Ég ávkeð því bara að þetta sé eitthvað bull í mér og byrja morgunverkin. Pissa! Þar sem ég sit á dollunni verður mér litið í baðkarið og þar fann ég uppsprettu lyktarinnar. Fröken Sigríður hafði migið í baðið!!!! Frekar ógeðslegt...en betra er að míga í baðið heldur en sófann!! Ég tók svo bara sturtuhausinn og skolaði bjakkið úr baðinu. Á morgun ætla ég að svo að byrja KPK103 (köttur pissa klósett 103) sem hefur það markmið að kenna kettinum að míga í klósettið :) Fékk góðar ráðleggingar frá gaurnum í "Meet the Fuckers".
Fröken Sigríður er snillingur!!

Anyways - það liggur eitthvað í loftinu og please, please, please láttu það ekki lenda í hausnum á mér!!!