Döpur er dráttlaus kona.

...besti páskamálsháttur ever!!!

Friday, November 30, 2007

Afmælisbarn dagsins


Hún mamma mín á afmæli í dag, hún er á óræðum aldri enda algjör hressingarbolti.

Til hamingju með daginn elsku mamma mín .

Sunday, November 25, 2007

Í pottinum

Ég ákvað að hendast á Selfoss um helgina. Dósafjallið sem ég sé um að telja var farið að þrengja inngönguleiðina í bílskúrinn hjá pabba. Hvað var svo hægt að nota svona letihelgi í annað en að liggja í leti. Samtals eyddi ég 7 klukkutímum í heita pottinum. Samtals sötraði ég sex bjóra í þessum pottaferðum. Samtals púslaði ég 500 bita af púslinu. Samtals skrifaði ég 8 diska með tónlist og myndum. Sem sagt yndisleg helgi í meiriháttar slökun :)

Aðeins fimm dagar í Boston.

Wednesday, November 21, 2007

Boston

So I think I go to Boston! Núna eru einungis sjö dagar þangað til ég fer til Boston. Vá hvað mig hlakkar til. Ég átti alvarlegt samtal við greiðslukortið mitt síðustu helgi og tel ég mig hafa hughreyst það svo það sé í stakk búið til að takast á við strauið. Ég er farin að sjá í hillingum hina stórkostlegu búð sem aðeins finnst í henni Ameríku BARNS & NOBELS!!! Uppáhaldsbókabúðin mín, hér kem ég!

Fyrir nokkrum vikum síðan keypti ég mér bók í Eymundsson, svona ekta bók til að lesa fyrir svefninn og glugga í aftur og aftur til að láta aðra halda að maður sé klárari en maður í rauninni er. Bókin heitir The top 10 of everything 2007 - svona top tíu heimsmet í öllum mögulegum hlutum. Ég var að klára bókina í gærkvöldi og finnst alveg magnað hversu oft nafn Íslands kemur fyrir. Það er meira að segja einu sinni í efsta sæti. Eruð þið ekki spennt að vita í hverju?

Jú jú engin þjóð í öllum heiminum gefur út eins mikið af dagblöðum á hverjum degi miðað við höfðatölu eins og okkar ástkæra Ísland.

Ég hlakka svo til að gramsa eftir fleirum svona gersamlega tilgangslausm bókmenntum hjá Baldri og Nóa!! JEI

Saturday, November 17, 2007

Launamálin

Hér er bréf sem allir grunnskólakennarar í Reykjavik fengu sent í gær. Mér þætti gott að þið mynduð gefa ykkur tíma til að lesa það, sérstaklega þið sem finnst laun grunnskólakennara vera ásættanleg.

Grunnskólakennarar flýja...VIÐVÖRUN

Hæstvirtur borgarstjóri Dagur B. Eggertsson

Ég undirrituð er grunnskólakennari og starfa sem umsjónarkennari 25 barna í stórborginni Reykjavík.
Starfið mitt er skemmtilegt, gefandi, fjölbreytt og nauðsynlegur hlekkur í því samfélagi sem við lifum í. Menntun er grundvöllur nútíma samfélags. Samfélagið kallar á vel menntaða og hæfa einstaklinga til að sinna fjölbreyttum störfum. Grunnskólinn er hornsteinn og grunnur í þessari keðju sem við þekkjum svo vel.
Ég og aðrir grunnskólakennarar leggjum okkur fram við að mennta komandi kynslóðir.
Við erum dugleg, drífandi, ómissandi og einstök....það finnst okkur og eflaust fleirum.

En stóri vandinn er sá að grunnskólakennarar eru fjárhagslega ósjálfbjarga í samfélaginu. Fjárhagslega eru kennarar háðir öðrum. Grunnlaun grunnskólakennara eru engan veginn í takt við það sem gengur og gerist annars staðar á vinnumarkaðnum og við getum alls ekki sætt okkur við það.

Við erum þátttakendur í því lífi sem stjórnvöld, bankar og auðmenn stjórna á þessu ágæta landi og við erum alltaf neðsti og efnaminnsti hlekkurinn í lífskeðju háskólamenntaðs fólks.
Við berum okkur saman við aðrar stéttir og þá sérstaklega þær sem við teljum sambærilegar. Alltaf komumst við að sömu niðurstöðunni, við stöndum VERST. Miklu ver en ágætir kollegar okkar, leikskólakennarar.
Stöðug niðurlæging og niðurbrot á eigin ágæti sem fagmenn og einstaklingar er yfirþyrmandi. Grunnskólakennarar eru svekktir, leiðir, sorgmæddir og allt þar á milli og einróma sammála um að við getum ekki látið bjóða okkur þetta lengur.

Kjarasamningur grunnskólakennara er ekki laus fyrr en á vordögum 2008. Grunnskólakennarar geta ekki beðið og vonað að komandi samningur gefi þeim tækifæri til að öðlast langþráða sátt og stolt með launakjör sín.

Grunnskólakennarar sem einstaklingar geta ekki fórnað sér endalaust fyrir málstaðinn; ,,góð menntun er nauðsyn fyrir samfélagið.”
Grunnþarfir einstaklinga eru m.a. sjálfstæði og sjálfsbjargarviðleitni. Við höfum þessar þarfir og þurfum að leita leiða til að svala þeim.
Það þýðir að ef ekkert verður gert til að bæta launakjör grunnskólakennara áður en þessu skólaári lýkur og ÁÐUR en samningar eru lausir, verða margir og sérstaklega þeir ungu í stéttinni, að segja upp sínu ágæta starfi. Neyðarástand mun blasa við í grunnskólum, samfélagið allt mun finna fyrir neyðinni.

Reykjavíkurborg og önnur sveitarfélög eru vinnuveitendur grunnskólakennara.
Viðvörun þessi er því send til þín sem æðsti maður stærsta sveitarfélagsins. Ég vænti þess að þú komir þessum skilaboðunum áleiðis til yfirmanna hinna sveitarfélaganna.

Oft er þörf en nú er nauðsyn, það þarf að bregðast við óánægju grunnskólakennara með launakjör sín.
Með von um góð viðbrögð og skjótar úrbætur!

Virðingarfyllst
Herdís Kristinsdóttir,
grunnskólakennari í Reykjavík, 30 ára, með 218.000 kr. í grunnlaun, 25 nemendur í umsjón

Friday, November 16, 2007

Á degi íslenskrar tungu.

16.nóvember er dagur íslenskrar tungu og þá minnist maður hinna öldnu snillinga sem höfðu svo ótrúlega gott vald á íslensku máli að verk þeirra eru enn í miklum metum. Jónas Hallgrímsson hefur lengi verið mitt uppáhaldskvæðahöfundur. Í tilefni af því fletti ég upp í ljóðabókinni minni sem Gurrý gaf mér þegar ég útskrifaðist og fann uppáhaldsljóðið mitt í henni. Svo skemmtilega vill til að ljóðið er eftir Jónas og heitir Móðurást. Ég vona að þið gefið ykkur tíma til að rifja þetta ótrúlega fallega ljóð upp.


MÓÐURÁST

Fýkur yfir hæðir og frostkaldan mel,
í fjallinu dunar, en komið er él,
snjóskýin þjóta svo ótt og svo ótt.
Auganu hverfur um heldimma nótt
vegur á klakanum kalda.

Hver er in grátna, sem gengur um hjarn,
götunnar leitar, og sofandi barn
hylur í faðmi og frostinu ver,
fögur í tárum? En mátturinn þver.
Hún orkar ei áfram að halda.

"Sonur minn góði! Þú sefur í værð,
sérð ei né skilur þá hörmunga stærð,
sem að þér ógnar og á dynja fer.
Eilífi guðssonur, hjálpaðu mér
saklausu barninu að bjarga.

Sonur minn blíðasti, sofðu nú rótt.
Sofa vil ég líka þá skelfingarnótt.
Sofðu! Ég hjúkra og hlífi þér vel.
Hjúkrar þér móðir, svo grimmasta él
má ekki fjörinu farga".

Fýkur yfir hæðir og frostkalda leið,
fannburðinn eykur um miðnæturskeið.
Snjóskýjabólstrunum blásvörtu frá
beljandi vindur um hauður og lá
í dimmunni þunglega þýtur.

Svo, þegar dagur úr dökkvanum rís,
dauð er hún fundin á kolbláum ís.
Snjóhvíta fannblæju lagði yfir lík
líknandi vetur, en miskunnarrík
sól móti sveininum lítur.

Því að hann lifir og brosir og býr
bjargandi móður í skjólinu hlýr,
reifaður klæðnaði brúðar, sem bjó
barninu værðir og lágt undir snjó
fölnuð í frostinu sefur.

Neisti guðs líknsemdar, ljómandi skær,
lífinu beztan er unaðinn fær,
móðurást blíðasta, börnunum háð,
blessi þig jafnan og efli þitt ráð
guð, sem að ávöxtinn gefur.

Jónas Hallgrímsson

Hornstrandir

Á svona dimmum rigningardögum getur maður ekki annað en leitt hugann að sumrinu. Munið þið hvað síðasta sumar var geggjað? Munið þið frásögnina mína um dagana mína í Hornstrandar-paradísinni? Í dag fékk ég þennan póst og vá hvað ég hlakka sjúklega mikið til að henda mér af stað í enn eitt sumarið á Hornströndum.

Svona verður ferðin mín næsta sumar.

Í þessari ferð verður gengið um eyðifirði og víkur austan Drangajökuls.
Farþegar koma á eigin vegum til Norðurfjarðar í Árneshreppi laugardaginn 28. júní og gista í húsi F.Í á Valgeirsstöðum. Farangur verður fluttur á milli gististaða. Gist í tjöldum næstu þrjár næturnar og síðan í húsi í Reykjarfirði. Sameiginlegur matur í Reykjarfirði sem ekki er innifalinn í verði ferðarinnar.
1. d. Gengið til Ingólfsfjarðar sunnudaginn 29. júní og staldrað við á Eyri þar sem skoðaðar verða minjar um síldarvinnslu á fyrri hluta síðustu aldar. Gengið um Brekkuskarð til Ófeigsfjarðar, þar sem kaffihlaðborð bíður ferðalanga. Litast um í Ófeigsfirði, kvöldganga að Húsárfossi.
2. d. Gengið um Eyvindarfjörð í Drangavík og tjaldað við Drangavíkurá.
3. d. Gengið um hin stórbrotnu Drangaskörð í Bjarnarfjörð.
4. d. Gengið í Skjaldarbjarnarvík. Ef veður leyfir verður farið á Geirólfsnúp til að njóta útsýnis áður en haldið er í Reykjarfjörð.
5.-6. d. Dvalið í Reykjarfirði, þar sem m.a. verður hægt að velja um göngur í Þaralátursfjörð, að Drangajökli og á Miðmundarhorn. Einnig verður á dagskrá sund, glens og gaman í bland við sögulegan fróðleik frá heimamönnum.
7. d. Siglt til Norðurfjarðar laugardaginn 5. júlí.

Ó boy ó boy.....!!!

Sunday, November 11, 2007

Tumi voffi




Hér sjáið þið Tuma. Tumi er eins og flest ykkar vita hundurinn hans Sigga bróðir. Tumi er mesta gæðablóð og alveg einstaklega skemmtilegur félagi. Tumi fór út að hlaupa í kvöld með afa sínum og varð fyrir því óláni að lenda fyrir bíl og fara undir hann. Tumi tognaði og varð allur götóttur en á einhvern ótrúlegan hátt slapp hann að öðru leyti. Aumingja Tumi minn. Honum leið svo illa að hann vældi eins og ungabarn. Vesalings dýrið og hvað manni getur þótt vænt um þessa málleysingja.

Saturday, November 10, 2007

Sættu þig bara við þetta.

Ekki fyrir löngu voru þessi orð sögð við mig. Sættu þig bara við að vera í láglaunastétt því það mun aldrei breytast. Það er hiti í minni kennarastétt skal ég segja ykkur og það skelfur í stoðunum. Mér hrís hugur að hugsa til þess hvernig ganga muni að manna skólana ef ekki verður gerð almennileg bragarbót í komandi samningum. Þrátt fyrir að nú sé árið 2007 og menntaðir einstaklingar fylli hverja stöðu þá eru samt ennþá alltof margir sem telja að laun kennara séu bara nógu há og láta út úr sér frasa eins og þessa...Sættu þig bara við það að vera í láglaunastétt, eða jafnvel ....ef þetta er svona ömurlegt hættu þá bara að kenna. Á sama tíma setja aðrir út á gæði þess náms sem íslenska skólakerfið veitir börnunum. Hvernig skyldi hljóðið verða í þessu sama fólki þegar allir menntuðu kennararnir eru hættir og farnir að starfa á Mcdonalds með hærri laun og betri vinnutíma en þeir hafa áður kynnst.

Pffff....sumir eru bara sauðir.

En jæja á þessum laugardegi sem kvefið hafði vinninginn. Ég er búin að þrjóskast við alla vikuna því ég vare búin að gera samning þess efnis að þetta skólaár myndi ég ekki verða lasin. En um leið og vinnustressið fór af herðunum á föstudagseftirmiðdegi hafði kvefið betur í baráttunni. Ég ligg því bara ógó kósý upp í sófa með kertaljós og kók í dós og nýt þess að eiga bara heimastund ein með sjálfri mér. Það hefur verið alveg hrikalega mikið að gera síðasta mánuðinn og sér ekki svo sem ekki alveg fyrir endann á því. Næsta helgi er barasta orðin uppbókuð með partýum og kaffiboðum. Gaman af því.

Stjörnuspá dagsins í dag er eftirfarandi: Undanfarið virðist bara annað hvort einkalífið eða vinnan geta virkað. En það þarf ekki að vera þannig. Gerðu bara minni kröfur til þín á báðum stöðum. Rokk og ról! Segir meira en þúsund orð?

Wednesday, November 07, 2007

Með fulla vasa af grjóti.

Fyrir nokkrum árum fór ég í leikhús og sá eftirminnilegt leikrit sem heitir Með fulla vasa af grjóti, þá sá ég í fyrsta sinn leikara sem búin er að vera í hálfgerðu uppáhaldi síðan en þá í hlutverki Glanna glæps. En ég ætlaði alls ekki að skrifa um þetta, það er að vera með fulla vasa af grjóti. Ég ætlaði að segja ykkur frá því að nú er ég með full eyru af vatni þ.e. sundlaugarvatni.

Hér áður fyrr þegar ég hljóp yfir mig á hverjum einasta degi plagaði mig alveg endalaus beinhimmnubólga. Nú er ég að upplifa gamla tíma því ég er að drepast í beinhimmnubólgu. Ástæðan að þessu sinni eru náttúrulega þessir ónýtu skór sem ég er að hlaupa í. Ætla ekki að spreða í nýja fyrr en í Boston. Ég ákvað því að slá til og skella mér í sund svona til að brenna aðeins seinnipartinn. Ekkert nema gott um það að segja. Grafarvogslaugin er flott laug og þarna um sexleytið var ekki margt um manninn.

Ég synti sex hundruð metra sem eru 24 ferðir, bringusund og skriðsund í bland. Ég fann hvernig vöðvabólgan æpti á mig, ertu ekki að grínast. Eg veit svo sem ekki hvort þetta sé einhver massabrennsla en....ég er með eyrun full af vatni og alveg hrikalegan hausverk.

Nú væri gott að fá eitt stykki axlarnudd :)

Góðar stundir.

Tuesday, November 06, 2007

Þegar álagið minnkar!

Fyrir nokkrum árum ákváðu einhverjir snillingar að skólaárið á Íslandi væri ekki nógu langt. Þeir ákváðu því að lengja það um tíu daga. Ekki nóg með það að þeir skyldu lengja skólaárið heldur ákváðu þeir líka að nokkuð sem heitir vetrarfrí skyldi vera valkostur fyrir skóla. Skólar hafa því þennan valkost að gefa bæði nemendum og kennurum frí svona rétt til að hlaða batteríin, eitt frí á haustönn og annað á vorönn. Af þessum ástæðum er ég búin að vera í fríi síðustu þrjá vinnudaga þ.e. fim, fös og mánudag.

Eftir þetta yndislega og kærkomna frí var því bara ljómandi að vita til þess að í dag þriðjudag átti ég að mæta endurnærð, nýklippt og lituð í vinnuna. Ég fór því að sofa snemma í gærkvöldi. Náttúrulega með allt planað eins og vera ber. Skólataskan, ræktartaskan, nestistaskan, sundtaskan og salatið sem ég á að koma með í vinnuna þriðjudögum.

En þó allt væri ready helltust samt í mig einhverjar bakteríur, ég vaknaði í nótt og hóstaði og hóstaði. Í morgun klukkan sex var svo ekkert um að villast að einhver drusluveikindi voru búin að hertaka mig. Ég fór því ekkert nema í sófann í dag. Engin ræktarferð, engin nestistími, engin sundferð, ekkert nema hor og hósti.

Hvernig skyldi þetta hafa gerst sérstaklega á þessum tíma sem mér hefur sjaldan fundist ég vera eins hraust. Ég fór svo að hugsa til baka og er komiin að þeirri niðurstöðu að það sé út af þessu fríi. Ég get varla hugsað til baka til einhvers frí í vinnunni án þess að einhver veikindi hafi fylgt í kjölfarið. Vetrarfrí, jólafrí, vetrarfrí, páskafrí, sumarfrí. Alltaf eftir nokkra daga í slökun þarf ég að sinna einum eða tveimur dögum í það að vera lasin.

Ég hef því ákveðið að taka mér ekki fleiri frídaga. Þeir eru bara til vandræða.

Sunday, November 04, 2007

Litla mús Guggu dóttir




Ég veit ég er ekki í alvöru frænka. En ég má alveg þykjast vera það :)

Topp tíu moment

Topp tíu moment vetrarfrísins í engri sérstakri röð.

10. Ég bara get ekki staðið í því lengur að týna upp notaða smokka eftir ókunnuga, þetta er það viðbjóðslegasta sem ég veit.
9. Mæja, viltu gjöra svo vel að skemma ekki bílinn minn með hausnum á þér?
8. Hæ er þetta Alla, bíddu er þetta Halla, hvað ertu að tala um? Er þetta Anna Guðrún, djók ég þekki þig núna!
7. Auðvitað kemstu, þú ert nú á Yaris!
6. Brjóst, brjóst, brjóst, brjóst, brjóst og aftur brjóst.
5. Já fínt, já sæll, já fínt, já fínt, já sæll!
4. Ertu að segja að þú ætlir ekki að kyssa mig, má ég þá fá mér hráan lauk?
3. You don´t like Polish people?
2. Fyrirgefðu en þú ert að pota í augað á mér.
1. Kannski á hann einhverja sæta einhleypa vini fyrir vinkonur þínar, ertu búin að tékka á því?

Takk fyrir og góðar stundir.

Friday, November 02, 2007

Já svei mér þá!

Stundum verður maður reiður og stundum verður maður bara foxillur. Núna er ég sem sagt foxill. Fox á ensku þýðir refur á íslensku. Þannig að ég er í refa-ham. Ég dró upp símann áðan og ætlaði að hringja og siga refnum á viðtakanda símanúmersins en hafði sem betur fer vit á því að leggja á eftir fyrstu hringingu. Ég held að maður græði ekki á því að rífast eins og refur. Á maður kannski bara að sleppa því að rífast við fólk sem hefur gengið svona yfir strikið. Hvað finnst ykkur? Eða á maður kannski bara að leggjast undir feld, róa sig niður og leita svo skýringa? Hvað finnst ykkur?

Burtséð frá því er ég foxill.....grrrrrr!!!!