Döpur er dráttlaus kona.

...besti páskamálsháttur ever!!!

Monday, February 26, 2007

Draumakonan

Ég fór í mína hefðbundnu gönguferð í svifrykinu í dag, þar sem ég gekk niður í Voginn sé að ég hvar önnur ung kona kemur gangandi í humátt á eftir mér. Ég reyndi að ganga hraðar svo hún væri ekki alveg svona on´í mér en það gekk ekki, hún var alltaf fetinu á undan mér. Þá ákvað ég að ganga aðeins hægar og athuga hvort hún myndi þá ekki bara fara fram úr mér. En það gerði hún heldur ekki. Ef ég fór það hægt að hún kæmist fram úr mér þá passaði hún að vera einungis fetinu á undan mér.

Fyrst fór ég að fá svona undarlegar hugdettur, var gellan að reyna við mig? Þorði hún kannski ekki að labba ein? fann hún öryggi við það að ég gengi svona nálægt henni? Ætti ég kannski að reyna að tala við hana? Eða er kannski bara best að eiga þessa stund með ókunnugri manneskju án þess að þurfa að segja neitt?

Ég tók þá ákvörðun að segja ekki neitt. Þetta var myndarleg kona. Hávaxin og grannvaxin og stóð bein í baki á móti sólinni. Ég stoppaði undir brúnni til að horfa á æðarfuglinn kafa eftir mat, þá gekk hún sjálf áfram. Henni var sennilega ekki vel við vatnið. Eftir nokkra stund hélt ég svo mína leið og mér til mikillar gleði beið hún eftir mér á næsta horni.

Við gengum svo saman heim, rétt áður en við komum að kirkjunni var hún farin að láta á sjá. Það var eins og hún væri að minnka og við næsta horn hvarf hún alveg. En ég veit að ég mun hitta hana aftur á morgun....við næsta horn.

Þessi manneskja er skugginn minn.

Sunday, February 25, 2007

Afmælisdagurinn

Jæja þá er hann runninn upp afmælisdagurinn ógurlegi!! Já nú get ég allt því ég er þrítug í dag :) Ég get nú samt ekki mikið því ég hef þurft að vera nálægt vini mínum herra Gustavberg í dag. Veit ekki hvort þetta tengist þrítugsaldrinum eða hvað, en ég er drepast úr þynnku. Oj.

Afrekaði það að segja leiðinlegasta manni sem ég hef þurft að umgangast að ég hefði ekki áhuga á að tala við hann þar sem hann væri svo leiðinlegur.....hver segir svona upphátt? Er sannfærð um að þetta hafi verið áfengið að tala því ég hef sjaldan verið eins dónaleg :(

Annars var gærdagurinn ljómandi skemmtilegur, fullt af fólki í heimsókn og allt gekk þetta upp er frá eru talin salötin sem gleymdust á Selfossi.....dofið afgreiðslufólk.

Þakka ykkur öllum fyrir kíkið og skemmtilegt spjall. Mest þakka ég svo Guggunni minni fyrir alla hjálpina...það er frábært að eiga svona frábæra vini :)

Sunday, February 18, 2007

Draumar!

Mig dreymdi svo skemmtilegan draum. Mig dreymdi að ég hefði unnið 8 miljónir í lottó. Þetta var skemmtilegur draumur. Ég notaði peningana til að borga upp hluta af skuldum. Svo keypti ég kort í líkamsrækt, fór og keypti ný húsgögn í stofuna og ég fór áhyggjulaus til útlanda. Það var eitthvað svo gaman í þessum draum. Svo vaknaði ég og fattaði að þetta var allt saman draumur, svo raunverulegur en samt ekki. Ég ákvað þegar ég var búin að ná áttum að best væri að fara að kaupa miða í lottó. Því kannski væri þetta bara ávísun á framtíðina.

En ég vann ekki í lottó. Mest vegna þess að ég gleymdi að kaupa miðann. Sorglegt! Hefði viljað prófa það í smástund að vera rík :)

Ef þeir sem búa í Reykjavík eru Reykvík-ingar
og þeir sem búa á Selfossi eru Selfyss-ingar
Hvað eru þeir sem búa á Hellu þá?

Thursday, February 15, 2007

Dominos

Enn og aftur er komin megavika og auglýsingar frá Dominos trufla mitt annars geggjaða sjónvarpsgláp. Pitsumeikararnir eru ekki að meika það eins mikið í auglýsingagerð. Eitt var þetta blessaða geimveruþema með öskrandi stráknum og hugrökku stelpunni. Hvaðan fengu þau svo þessa ömurlegu hugmynd með þessa dúkku! Já mig langar einmitt svo mikið í pitsu þegar ég veit að einhver illa lyktandi húmorslaus dúkka er að búa hana til.

Ég spyr því bara, hvar er Færeyingurinn? Hann var í alvöru fyndin :)

Tuesday, February 13, 2007

Áfram ég!

Setning dagsins er þessi:

Það er bara brandari. Laun kennara hækka um 2,25 prósent, verðbólgan er 8% og "Launanefnd sveitarfélaganna" býður 0,75% hækkun vegna verðlagsþróunar.
Djókurinn er í gangi!!!

Myndu einhverjir aðrir sætta sig við þetta? Svo við höldum áfram. Baugsréttarhöldin hafa tekið um það fimm mínútur af hverjum fréttatíma síðustu fimm árin...það að mörg hundruð kennarar skyldu skunda í þögul og friðsæl mótmæli í miðborginni í dag fékk um það bil 30 sekúndna umfjöllun í fréttatíma RÚV klukkan sjö í kvöld. Já, djókurinn er ennþá í gangi!!!

Góðar stundir og léttar lundir.

Sunday, February 11, 2007

Helgarfréttir

Ingveldur bauð mér í leikhús á föstudaginn að sjá leikritið Ófagra veröld í Borgarleikhúsinu. Mér finnst alltaf svo gaman að fara í leikhús, þarf að gera það oftar. Alla vega þá var þetta leikrit alveg sérstaklega skemmtilegt og áhugavert og skildi eftir fullt af hugsunum sem ég er að kryfja í rólegheitum. Gaman að þessu.

Við kíktum svo aðeins í miðbæinn og skoðuðum úrvalið á Ölstofunni. Við fórum svo í íbúðar-leiðangur í gær. Mig langar svo í skápinn sem er til í IKEA! Þarf að gróðursetja peningatré til að hafa efni á honum.

Ég sá mér svo ekki aðra leið færa í gærkvöldi en að fara til læknis eina ferðina enn. Fékk enn einn sýklalyfjaskammtinn vegna sýkingar í kinn og ennisholum. Ég sver það að í gær var ég með tannpínuverk í sirka 10 tönnum.

Ég óska því eftir heilsunni minni! Ef einhver hefur mætt henni á förnum vegi þá endilega reynið að leiðbeina henni í áttina til mín fyrir kvöldmat.

Og ég er búin með eina lengstu sögu síðari tíma. Hún small yfir á blaðsíðu númer 40 undir það síðasta. Vá hvað er gott að vera laus við hana úr hausnum, hún er búin að brjótast um í honum of margar vikur. Bull og vitleysa.

Janus með horið!!

Wednesday, February 07, 2007

Punktar!

- Á morgun ætla ég að hjálpa vinkonu minni að flytja í sína eigin íbúð. Mér finnst það svo frábært.

- Um mánaðarmót ætla ég að hjálpa frænku minni að flytja í sína eigin íbuð. Mér finnst það svo frábært.

- Í dag komst ég af því að ég er búin að vera í vitlausum launaflokk það sem af er þessu skólaári. Það þykja mér skemmtileg tíðindi og bankareikningunum mínum líka.

- Vegna leiðréttinga á launum sé ég fram á að komast til Glasgow með stelpunum í mars :) Það þykir mér sérstaklega frábært.

- Á morgun ætla ég á fund hjá ferðafélaginu til að starta þátttöku minni í ferð á Hvannadalshnjúk um hvítasunnuhelgina.

- Í dag er áttundi dagurinn sem ég er með hita. Ég held ég sé að verða geðveik af inniveru.....HJÁLP!

....og það besta af þessu öllu. Þegar börnin mín fóru í frímínútur klukkan tíu í morgun var orðið bjart úti. Það er best af öllu :)

Tuesday, February 06, 2007

Hvað er að gerast??

Þegar umfjöllun um eitt mál fer að minnka í fjölmiðlum tekur annað við. Um hvað er ég að tala? Byrgismálið, Barnaníðingar í Kompás (unnið með tálbeitu, tvisvar sinnum), gamli Heyrnleysingaskólinn, nauðganir á fötluðum einstaklingum á sambýli og svo eitt það allra ljótasta sem maður hefur heyrt....Breiðavíkurheimilið. Hvað er í gangi? Mikið ægilega virðist vera mikið til af fólki sem virðist njóta þess að níðast á öðrum.

Það vona ég að þessu fólki líði vel því það þarf einhvern tíma að svara fyrir gjörðir sínar, hvort sem það verður í þessu lífi eða næsta.

Friday, February 02, 2007

Hvenær veit maður er nóg er komið?

Hvenær veit maður að nóg er komið að tilgangslausu þvaðri og málþófi stjórnarandstöðunnar? Ég lá uppi í sófa í allan gærdag og flakkaði á milli sjónvarpsstöðvanna með tölvuna á lærunum og lék mér í leikjum á leikjanet.is.

Á þessum tímapunkti voru fréttir í sjónvarpinu og verið var að leyfa einhverjum þingmanni að gjamma um einhver mál. Kisa lá sofandi við hliðina á mér í sófanum, en þegar hún heyrir þessa rödd í sjónvarpinu sperrir hún eyrun og stekkur svo úr sófanum, gengur í átt að hillusamstæðunni, fer á bakvið hilluna með öllum dvd myndunum og stígur á rauða takkann á fjöltenginu og tekur þannig strauminn af sjónvarpinu!!! Svo kemur hún gangandi aftur með fyrirsætugöngulaginu sínu, stekkur aftur upp í sófann og heldur áfram að sofa!!!

Þetta finnst mér bera þess sterk merki að nóg sé komið af rugli og tími sé komin til að fara að stjórna landinu í stað þess að rífast um það eins og síðasta bitann af snakkinu!

Burtséð frá því þá er það næsta víst að kötturinn minn mun ekki kjósa Samfylkinguna, frekar en ég......Hallelúja!!!

Góða helgi.