Döpur er dráttlaus kona.

...besti páskamálsháttur ever!!!

Monday, February 27, 2006

Vor

Eigum við bara ekki að trúa því að það sé komið vor?
- fullt af fólki með sólgleraugu.
- löng röð hjá bílaþvottastöðinni.
- börnin úti að leika sér.
- hiti í kofunum.
- fyrsta fjallgangan með Ingu í kvöld....það er fallegt á Esjunni þó það sé bara vor.
- smokkar í garðinum.
- bjart á morgnana.
- febrúar að klárast.
- fuglasöngur.
- graðir kettir og karlar ef því er að skipta.

Jú jú, trúum því bara að það sé komið vor :)

Sunday, February 26, 2006

Þynnkudagurinn


Ég var ekkert þunn í dag.....ó nei!!!!!

Saturday, February 25, 2006

Árshátið og bensínstöð

Já það var pínu stress í gær. Rjúka úr vinnunni og gera sig sæta á ofurtíma og byrja að djammast. Það var bara hörkustuð á þessari ágætu kvennasamkomu. Hitti nokkra sem ég þekkti áður og aðra sem ég þekkti ekki neitt. Sat við hliðina á maraþon hlaupurum sem heimtuðu að ég kæmi á hlaupaæfingu með þeim....ég hef bara áhyggjur af því að þau pikki mig upp þegar að æfingu kemur. Á miðnætti rann svo upp afmælisdagurinn og áður en ég vissi var búið að skella mér upp á svið og þar söng ég eitt lag með hljómsveitinni, so now go, walk out the door. Mjög skemmtilegt að lenda óvart í þessu. Vona ég hafi ekki misboðið hljóðhimnum kennarana sem þarna voru staddir.....29 ára fólki eru víst flestir vegir færir.

Ég kom tiltölulega snemma heim með hausinn undir væng, tók kannski óþarflega vel á eftir langa vinnuviku. Í nótt var svo varla svefnfriður fyrir draumförum, alla nóttina var ég stödd á einhverri bensínstöð, veit ekki hvað ég var að gera þar, var bara þarna...og kom mér ekki heim. Kíkti í draumaráðningabók í Perlunni með Guggu áðan og fékk fína útskýringu á því hvers vegna manni dreymir bensínstöð, en sá fróðleikur lak strax út enda ekki úr mörgum sellum að moða eftir gærkvöldið :/ gúbb!

Þá er bara að taka sig saman í andlitinu því afmælisgestir mæta von bráðar :)

Thursday, February 23, 2006

Mér finnst....

...að það ætti að banna stúlkum undir 18 ára að fara í ljós.
...að banna ætti blörraðar myndir í íslensku sjónvarpi, bara sýna alla þessa "glæpamenn" sem verið að verja.
...að banna ætti reykingar.
...að banna ætti vip-raðir og fólk sem ætlar að komast áfram á snobbi.
...að vekja mætti upp gamla og góða siði eins og kurteisi.
...að það flýta ætti framkvæmdum við nýja KFC staðinn í Grafarholtinu.
...að ég hefði unnið í lottó!
...að allur bjór ætti að vera kældur í ríkinu, mmm opna einn kaldan á staðnum.
...að ríkisstjórnin eða einhver sem á nóga peninga myndi einn dag á ári bjóða öllum frítt út að borða.
...að allir ættu að kjósa.
...að engin myndi horfa á survivor og Bachelor, þá myndu það hætta að vera á dagskrá og ég myndi hafa eitthvað annað að horfa á en svartan skjá.
...að lengja ætti sólarhringinn um tvo til þrjá tíma á nóttunni svo allir myndu græða.
...að það ætti að vera opinber frídagur ef úti er rok og rigning, svona oj bara veður.
...að bláu rósirnar sem ég fékk á konudaginn ættu ekki að deyja.
...að byggð yrði brú til Danmerkur.
...að grafin yrðu göng í gegnum Hellisheiði.
...að Ísland yrði sett í fyrsta sæti en ekki misnotað í því nítugasta og níunda sæti.
...að fólk sem ánægju af því að gera lítið úr öðrum og þannig upphefja sjálfs síns aumingjagang ætti að vera hýtt með spýtu á opinberum stað t.d. í Kringlunni. Þá myndi ég koma og horfa.

Já....mér finnst svo margt.

Best að fagna síðasta deginum sem 28 ára sjálfstæð og flott kona!!!!!
.....á morgun verð ég 29 ára sjálfstæð og flott kona og mun fagna afmælinu með um 800 öðrum.

Já mér finnst svo margt.

Wednesday, February 22, 2006

Skemmtilegt

Það er svo gaman þegar maður byrjar í líkamsrækt eftir nokkra vikna hvíld. Maður áttar sig á því að maður er með vöðva á hinum undarlegustu stöðum sem hægt er að fá brjálaðar harðsperrur í....halló herra undir, undir læri sem lætur mig ganga eins og Stekkjastaur!! Samt er þetta svona gott vont.

Samtal milli Jönu og Janusar!!!

Jæja Janus, hvað gerðir þú í dag?
Nú ég...þakka þér fyrir að spyrja.
Auðvitað, ég er forvitin.
Ég pantaði mér gönguferð fyrir næsta sumar.
Vá en spennandi, hvert ætlar þú að ganga.
Já ég ætla að ganga Hornstrandirnar, en það er búin að vera draumur minn í mörg ár.
Geggjað....það verður ábyggilega mjög skemmtilegt.
Alveg pottþétt.

Góðar stundir!!!

Sunday, February 19, 2006

Ég vildi ég....

Ég vildi ég gæti séð eins vel og ugla en þá þyrfti ég víst að vera með augu jafnstór appelsínum.

Ég vildi ég væri rotta því þá gæti ég eignast 1500 börn á einu ári og samt verið til í meira.

Ég vildi ég gæti keypt úlfaldamjólk út í búð því hún verður ekki súr….annað en lítrarnir í ísskápnum mínum.

Ég vildi ég hefði sex fætur því þá væri ég eins og 80% allra íbúa á jörðinni.

Ég vildi ég væri letidýr því þá þyrfti ég bara að borða á tveggja vikna fresti, tímann á milli máltíða myndi ég nota til að letast við að melta fæðuna.

Ég vildi ég væri rækja því þá væri ég með hjartað í hausnum en ekki í buxunum.

Ég vildi ég væri órangútanapi því þá yrðu allir skotnir í mér ef ég ropaði hátt.

Ég vildi ég væri krókódíll í Michigan því þá mætti ekki hlekkja mig við brunahana….hjúkk!!

Ég vildi ég væri hörpudiskur því þá hefði ég 35 blá augu.

Ég vildi ég væri villigöltur því þá gæti ég átt heilt búr af mökum og það væri barátta um að fá að búa í því.

...og að lokum mig langar að fara niður hús eins og strákurinn með appelsínugulu kúlurnar á höndum og fótum í Pepsi max auglýsingunni.

Friday, February 17, 2006

Hahhaah

Af því að það er föstudagur er nauðsynlegt að hlægja duglega :)

http://www.kvikmynd.is/indexdetail.asp?id=1993

Tuesday, February 14, 2006

Við fórum á fyrsta deit.....

...og deitið leið og gekk ágætlega. Hvað er það sem ég fílaði ekki við þig?
Hér eru nokkrar hugmyndir af turn off!!

1. Slepptu símanum. Ef hann hringir einu sinni er í lagi að svara og segja ég er pínu upptekinn ég hringi í þig á morgun. Svo er gott að setja símann á silent og láta hann eiga sig það sem eftir er kvölds.

2. Ekki taka of stórt upp í þig. Ég á mjög bágt með að umgangast fólk sem skilur ekki að það eru alltaf tvær hliðar á öllum málum og það þurfa ekki allir að vera sammála þér alltaf. Stundum er bara allt í lagi að vera ósammála og algjör óþarfi að kryfja það neitt nánar. Ekki vera samt skoðanalaus og segja bara Já og amen við öllu sem ég segi.

3. Ekki tala með fullan munninn. Ekki kaupa þér mat með lauk í þegar þú ert á fyrsta deiti því ef deitið fer vel og það endar á kossi kemur þú til með að smakkast eins og laukur tíhí!

4. Allt tal um fyrrverandi kærustur eða kærasta er á bannlista. Oh my god. Hvern langar til að vita eitthvað um fyrrverandi. Ef þú getur ekki sýnt fyrrverandi þá virðingu að vera ekki að úthúða í eyru annarra á fyrsta deiti ert þú engan vegin tilbúin til að fara á deit og hana nú.

5. Klæddu þig snyrtilega og vertu í tillögulega heillegum fötum. Það er mjög mikið turn off að sjá skítugar tennur, skítugt hár eða skítugar hendur.

6. Sparaðu hárgelið og ekki úða lyktinni í massavís yfir þig.

7. Í guðanna bænum sýndu að þú hafir metnað fyrir einhverju. Ég skil ekki metnaðarlausa einstaklinga. Ég hef svo sem ekkert á móti þeim sem eru að vinna t.d. í Bónus, en ef þú vinnur í Bónus og finnst það bara frábært þá skortir þig að mínu áliti metnað. Eigum við ekki alltaf að vera að þróast í starfi?

8. Ekki tala um erfiðleika í fjölskyldu, með vinum, úr fyrri samböndum. Ef þú gubbar því út úr þér á fyrsta deiti þá úfff........legg ég ekki í það tíunda.

9. Ekki tala of hratt, ekki vera taugaveiklaður, ekki fikta í öllu. Það er mitt hlutverk. Ekki smjatta á tyggjói meðan þú ert að tala, kannski bara sleppa tyggjóinu alveg.

11. Ekki vera með ástarjátningar á fyrsta deiti, undir þetta fellur líka allt tal um barneignir eða brúðkaup. Þá sérð þú nú bara undir hælana á mér.

12. Horfðu í augun mín meðan þú talar og þá skal ég horfa í þín.

Þetta er mín skoðun svo ekki verða reið yfir þessari lesningu.
Hljómar þetta illa? Vantar eitthvað á listann?

Næsta færsla mun bera heitið....Við fórum á fyrsta deitið og ég fílaði þig í tætlur vegna þess....!

Monday, February 13, 2006

Meira svona klukkedí dót.

4 störf sem ég hef unnið um ævina:
1. Arnberg – bensíntittur og sjoppudama
2. Hótel Selfoss – þerna, skúra, kokka, þjóna og barast (skemmtileg vinna).
3. Frímúrarahúsin í Reykjavík, Hafnarfirði og Selfossi.
4. Grunnskólar – Selfoss, Reykholt, Keflavík, Reykjavík.
4 bíómyndir sem ég gæti horft á aftur og aftur:
1. Dirty dancing
2. Bridget Jones Diary
3. Threesome
4. Ghost
4 staðir sem ég hef búið á:
1. Hrísholt 23.
2. 2743 De Soto avenue, Tampa, Flórída.
3. Barónstígur 49.
4. Bjarkarbraut 20, Hafnargata 82 og Hverafold 21….mörg heimili á stuttri ævi.
4 sjónvarpsþættir sem mér líkar:
1. Friends
2. C.S.I.
3. O.C.
4. E.R. ( hvað er málið með skammstafanir?)
4 síður sem ég skoða daglega fyrir utan blogg:
1. Ismennt.is – því þar er pósturinn minn.
2. Barnaland.is - því þar eru börnin mín.
3. Ingunnarskoli.is – því þar er hinn pósturinn.
4. mbl.is – því þar er að finna fréttir af atburðum sem gerast um allan heim (hahaha)
4 staðir sem ég hef heimsótt í fríum:
1. Porto Rose í Slóveníu.
2. Norefjall í Noregi.
3. Búdapest í Ungverjalandi.
4. U.S.A. nokkrir staðir.
4 matarkyns sem ég held mest upp á – í engri sérstakri röð.
1. Kjúklingasalat eins og Hafdís frænka bjó til um daginn…..oh my god…slurrrbbbb!
2. Tómatpastað mitt – mmmmmmmmmmmmmm!!
3. Pylsur……pulsaðu þig upp!!
4. Jólasteikin hennar múttu. – orðrétt eftir Eygló!!
4 staðir sem ég vil heldur vera á núna:
1. Á Olympíuleikunum á Ítalíu.
2. Í hjálparstarfi í Afríku.
3. Í gönguferð í fjarlægum fjallgörðum.
4. Í Ameríku.


Í vinnslu er pistill sem ber nafnið...Við fórum á fyrsta deitið og????? Þá er nauðsynlegt að vera búin að lesa færsluna um Deit????

Sunday, February 12, 2006

Málfræði

Svona segir einn fjölmiðill frá
……..Barátta milli Silvíu NÓTTAR og Birgittu"…..!

Nefnifall: (Hér er) Silvía Nótt
Þolfall: (um) Silvíu Nótt
Þágufall: (frá) Silvíu Nótt
Eignarfall: (til) Silvíu Nóttar!!!

Hvernig finnst ykkur þetta hljóma? Er þetta nafn sem ekki er hægt að beygja eða ættum við bara að segja...Barátta milli Silvíu Nætur og Birgittu? ....og verður baráttan á milli þeirra?

Saturday, February 11, 2006

Deit

Þó að deit-menning sé ekki eins rík á Íslandi og í öðrum löndum er ýmislegt hægt að gera hér á landi á þess háttar kvöldum. Hver hefur ekki látið sig dreyma um hið fullkomna stefnumót, jafnvel hið fullkomna blinda stefnumót? Til leiðbeiningar fyrir ykkur fjölmarga sem langar til að bjóða mér á svona mót þá koma hér smá leiðbeiningar.

Sund
Kostir: Ég er góður sundmaður og myndi ekki koma illa út úr þeirri keppni. Er samt meira fyrir heita pottinn heldur en sundlaugina og er óvígður Íslandsmeistari í að hanga í heitum potti eða baðkari ef því er að skipta.
Gallar: Nú að vera í sundbol er að næsta stig fyrir ofan það að vera nakin. Veit ekki alveg hvort ég vil fara að sýna kroppinn eða sjá þinn á fyrsta stefnumóti. Þá er betra að geyma sundið.

Bíó/leikhús
Kostir: Ef þú ert leiðinlegur eða þér finnst ég vera leiðinleg er bíó hin fullkomna leið sem hægt er að fara. Þá getur þú setið í tvo tíma án þess að þurfa að segja eitt orð. Gamanmynd gefur til kynna hvort þú hefur húmor og dramamynd sýnir hvort þú leyfir tilfinningunum að sjást.
Gallar: Nú ef þig langar að spjalla þá eru einungis tíu mínútur í hlé. Ef myndin er leiðinleg verður deitið það líka.

Kaffihús
Kostir: Nú hefur þetta breyst mikið til batnaðar. Flest kaffihús, meira að segja Vegamót, eru orðin reyklaus mestan hluta virks kvölds. Loksins, loksins. Kaffihús er fínn staður til að spjalla og kynnast.
Gallar: Nú eftir klukkan tíu fer Janusi að líða afskaplega illa þar inni, fær hausverk og verður geðvondur og þá er ekki eins unaðslegt að sitja með honum. Hver á að borga. Janus drekkur ekki kaffi.

Að halda matarboð
Kostir: Þú færð að kenna á minni eðaleldamennsku. Já mér finnst gaman að elda.
Gallar: Hver vill bjóða einhverjum heim til sín á fyrsta deiti??? Og hvað ef maturinn er öðrum hvorum aðilanum ekki að skapi?

Hittast á djamminu
Kostir: Nú ef þú vaknar upp við að hafa gert stór mistök getur þú alltaf sagt….vá ég man ekkert eftir þessu ég var alveg á eyrunum. Þá fyrirgefst þér næstum allt. Á djamminu getur þú dregið upp mynd af sjálfri þér sem á svo enga stoð í þinni raunverulegu persónu.
Gallar: Sá sem var á djamminu getur sagt það sama við þig og af því hann var svo fullur getur þú ekkert gert nema svekkt þig yfir þessu líka.

Útivist
Kostir: Ferskt loft, náttúra, friður, ahhhh minn uppáhaldsdeit staður. Að eiga deit við Ísland, það getur engin staðist það.
Gallar: Líkamlegt form viðkomandi kemur í ljós, rautt andlit, sviti, mæði. Sumir vilja ekki sjá deitið sitt öðruvísi en nýmálað og ferskt.

Út að borða
Kostir: Hægt að spjalla, njóta matar, hlægja. Já bara flott.
Gallar: Borðsiðir, ef þú smjattar, eða sötrar fæ ég klígju. Hver á svo að borga?

Horfa á video
Kostir: Sama og í bíó, kemst upp með að þegja því myndin er að spilast. Ef svo spjallið færist yfir þig er bara hægt að setja á pásu og eða slökkva og njóta samskipta.
Gallar: Ef þú bíður mér að koma og horfa á Vídeo á fyrsta deiti mun ég ekki koma á fyrsta deit. Maður getur horft á nóg vídeo og sjónvarp þegar sambandið er farið að hjakka í sama farinu….og að bjóða einhverjum í vídeo heim til sín á fyrsta deiti er næstum eins og að bjóða kynlíf á fyrsta deiti!!!!

Keila
Kostir: Það er alltaf gaman í keilu. Það býst líka engin við að þú sért góður í keilu. Maður verður bara ánægður ef kúlan lendir á keilunum.
Gallar: Viðkomandi getur horft óáreittur á rassinn á þér. Þú gætir líka klúðrað einhverju t.d. misst kúluna aftur fyrir þig. Dottið á rassinn. Og ef þú ert tapsár skaltu ekki fara í keilu með mér….því ég vinn alltaf (múhahhaah)

Bíltúr
Kostir: segir til um hreinleika, ef bíllinn er hreinn eru líkur á að viðkomandi sé snyrtilegur. Ef bílinn er nýr segir það til um fjárhag (eða hæfileika til að skrifa nafnið sitt). Bíltúr getur verið afskaplega rómantískur ef aðstæður eru réttar.
Gallar: Ef það er fúlt veður og/eða mikil umferð er hundfúlt að hossast í einhverju blikkdós.

Svona hljómaði þessi upptalning. Til að draga saman þessar niðurstöður myndi ég helst vilja eyða mínu fyrsta stefnumóti með landinu þ.e. að fara í einhverja útivist. Síst af öllu myndi ég vilja vera boðin í mat eða horfa á vídeo….hver nennir að hanga heima við svona tækifæri.

Nú þú…hvað er það besta og hvað er það versta í þínum huga?? Og kommenta svo!!!

Þessi þykir fyndin!!!

Two tourists were driving through Wisconsin. As they were approaching Oconomowoc, they started arguing about the pronunciation of the town's name. They argued back and forth until they stopped for lunch.

As they stood at the counter, one tourist asked the blonde employee. "Before we order, could you please settle an argument for us? Would you please pronounce where we are... very slowly? The blonde girl leaned over the counter and said, Burrrrrr, gerrrrrr, Kiiiing."

Thursday, February 09, 2006

10 strjálbýlustu lönd heims er eftirtalin:

Land - Fjöldi íbúa á km2
Grænland - 0,03
Falklandseyjar - 0,25
Vestur-Sahara - 1,16
Mongólía - 1,66
Franska Gvæjana - 1,98
Namibía - 2,41
Ástralía - 2,56
Súrínam - 2,67
Ísland - 2,81
Máritanía - 2,83

Þar hafið þið það, Grænlendingar hafa mest pláss í kringum sig, kannski skiljanlega. Falklandseyjar og Vestur Sahara koma í kjölfarið...og svo land af landi þangað til kemur að landinu í 9 sæti. Er ekki bara fósturlandið komið þar, eina Evrópulandið á listanum. 2,81 íbúi á hvern ferkílómeter. Ekki vildi ég vera íbúinn sem fær ferkílómeterinn um Hvannadalshnjúk. Úfff vei þeim manni sem heldur að Ísland sé nafli alheimsins.

Hvar er svo þetta Súrínam og þessi Máritanía???

10 leiðir til líkamsræktar!

Þar sem buddan þjáist af vægri tegund anorexíu er ekki hægt að láta alla drauma um líkamsrækt rætast. Þetta stendur samt til bóta og mun von bráðar verða tekið á Vísa rað. Þangað til eru hér 10 góðar leiðir til líkamsræktar.

1. Ekki fara á bíl í vinnuna. Ef ég fer á hjóli þarf ég góðan hálftíma til að koma mér frá stað A til B. Ef það er snjór og ófært fyrir hjólandi vitleysinga þarf ég góðan klukkutíma til að ganga í vinnuna. Þar sem Janus er heimskunnur fyrir eindæma hressleika á morgnana mun það ekki veitast honum erfitt að vakna klukkan hálf sjö til að ganga í vinnuna. Ehehhe!!

2. Taktu til. Hverjum er ekki sama þó þú hafir gert það í gær og daginn þar áður og þar áður. Líkamsrækt er holl. Best er að kaupa bara tannbursta og skúra með honum, þá er staður A aftur orðin skítugur þegar þú kemst á stað B. Þar sem Janus er einnig heimskunnur fyrir tuskuæði á heimsmælikvarða verður þetta ekki mikil viðbót.

3. Hreyfðu þig í stólnum eða bílsætinu. Já svona bara tja tja tja, sama þótt aðrir nærstaddir haldi að þú sért að undirbúa þig að tefla við páfann þá lætur þú ekkert stoppa þig og hristir rassinn á stólnum. Hann verður ekki lengi að verða stinnur og stífur þ.e. rassinn.

4. Nýttu biðtíma. Í röðinni í Bónus, á rauðu ljósi, í bið á símalínu…..Gerðu það að reglu að í hverjum biðtíma skulir þú spenna rassinn og haltu honum spenntum þangað til þú kemst að. Alveg pottþétt að þú vekur athygli, sérstaklega ef þú reynir að ganga með rassinn spenntan.

5. Borðaðu bara harðan mat. Þá þarftu að hafa meira fyrir því að tyggja hann og brennir meira meðan á því stendur. Allan mat er hægt að gera harðann með því að setja hann í frysti áður en þú borðar hann og eða geyma hann á borðinu í nokkra daga áður en þú borðar hann. Og ef það klýgjar þig er alltaf hægt að borða grænmeti í öll mál.

6. Sjónvarpið. Feldu fjarstýringuna. Eða taktu úr henni batteríin. Þá þarf að standa upp úr sófanum til að skipta um stöð, hækka, lækka og svo framvegis. Góð hugmynd. Í hverju auglýsingahléi gerir þú 20 armbeygjur og 30 kviðæfingar. Hahaha þetta er brilliant hugmynd.

7. Hlæðu. Vissir þú að gott hláturskast jafnast á við nokkrar mínútur á hlaupabrettinu. Stilltu reminder á símanum á hvern heila tíma, þá skalt þú fara að hlægja og bara hlægja!! Hverjum er ekki sama þó þú lítir út fyrir að vera skrítinn, með spenntan rass í hláturskasti í röðinni í Bónus….þú stundar ekki kynlíf á meðan….eheheheheh!!

8. Farðu með eitt blað í einu í endurvinnslugáminn. Í staðinn fyrir að safna blöðunum í marga daga skaltu fara reglulega í gönguferð með eitt og eitt blað í einu. Það þýðir nokkra göngutúra á dag. Eða eins og í mínu tilfelli 30 skref nokkrum sinnum á dag.

9. Dansaðu. Ef þú smellir þér á djammið ferðu ekkert á neitt kaffibrúsabrölt. Þú finnur þér stað þar sem þú getur dansað og svo dansar þú rassinn úr buxunum….það gerðist einu sinni í bókstaflegri merkingu á Þorrablótinu í sveitinni. En það er allt önnur saga. Hvar er svo hægt að dansa….elta Papana því þar er hægt að dansa. Ef allt gengur eftir nærðu góðum eróbikktíma út úr svona dansiballi. Og ef allt gengur mjög vel leiðir það að næsta lið…..

10. Stundaðu kynlíf. Erfitt fyrir einhleypa….en leiðir af sér góða brennslu þegar færi gefst. Sjálfboðaliðar óskast ;)
Pffffffff……….hver þarf kort í líkamsrækt????

Wednesday, February 08, 2006

Buhu og grenj!!

Þessir dagar fá verðlaun fyrir að vera ömurlegir. Alveg magnað hvernig leiðindaatvik raða sér svona á sömu dagana.

Númer A: Glæsikerran mín til margra ára bilaði loksins. Kerruna er ég búin að eiga í nærri sex ár og hún hefur ekki bilað fyrr en nú, þá fyrir utan. Það er nú varla hægt að kvarta yfir því.

Næsta mál. Ég var að skera brauð í gær. Ekkert óvanalegt við það er það? Áður en ég vissi af skrapp fjandans hnífurinn af brauðinu og svúpp sneiddi utan af fingrinum. Ég gerði nú ekki mikið úr þessu. Vaskurinn var eins og í sláturtíð. Ég setti bara plástur ofan á plástur ofan á plástur þangað til blóðið hætti að renna. Smellti mér svo í bíó í gær og beit á jaxlinn yfir þessum aumgingjagang.

Í nótt blæddi mikið úr þessum blessaða putta og mikill sársauki. Ég fór svo í vinnuna í morgun og bað hjúkkuna að kíkja á þetta. Hún skammaðist aðeins og skipaði mér til læknis. Eftir tveggja tíma bið á bráðavaktinni var ég svo aftur skömmuð eins og krakki. Ég hefði sem sagt átt að fara í gærkvöldi og láta sauma í fingurinn. En þar sem ég beið svona lengi var ekkert hægt að gera nema skera flipann sem hefði verið hægt að sauma í burtu. Vá hvað þetta var vont. Á eftir var fingurinn með 90° horni þar sem ég tók sneiðina úr honum. Aulagangur. Læknirinn sagði þú verður ánægð með þetta ör á fingrinum. Ég held það verði bara í góðum stíl við örið á hinum vísifingrinum sem Haukur smellti þarna á í grunnskóla. Aulagangur.

Núna er ég svo komin með þessa blessuðu flensu. Ligg undir sæng með kveikt á fullt af kertum og skelf eins og hrísla. Með risaumbúðir á ljóta fingrinum mínum. Keyri um á Boru og vorkenni sjálfri mér í hauga.

Greinilegt að febrúar verður leiðinlegasti mánuður þessa árs....!

Monday, February 06, 2006

Úfffff.....ég bara varð að koma þessu frá mér!!!

Ég fór í Smáralind á sunnudaginn. Ég verslaði smá en hvatti mest aðra til að máta og máta og máta. Alla vega eftir nokkra stund þar, fann ég þörf hjá mér að heimsækja salernið. Kemur fyrir á bestu bæjum! Nú ég geng að klósettunum sem næst eru og valdi mér bás sem leit út fyrir að vera hreinastur. Við tekur þessi yndislega stund þið vitið…hér er ró og hér er friður!!! Þá gerist það sem allir óttast sem í þessari aðstöðu eru. Ég heyri að hurðinni er hrundið upp og hratt fótatak stappar eftir gólfinu. Básinn minn hristist til þegar hurðin á básnum við hliðina þrykktist í hann. Ég get ekki lýst því hvaða hugsanir flugu í gegnum hugann þegar ég heyrði að ÞAÐ sem var búið að læsa sig inni á básnum við hliðina á mér var að rífa niður um sig buxurnar. Fuck! Ég stóð upp og reyndi að flýta mér að ljúka minni fyrrum kyrrlátu stund. Ég vissi alveg við hverju mátti búast, ég meina engin kvenmaður flýtir sér svona á dolluna ef hún þarf að gera sama hlut og ég! En ekkert, ekkert, ekkert hefði getað búið mig undir það sem drundi á hljóðhimnunni. OJ. Þið sem hafið heyrt prumpdiskinn minn...þarna var framleiðandinn mættur, með stunum og öllu! Oj bara!

Framvegis mun ég gera þarfir mínar á dollunni heima. Ég dreif mig út áður en greyið við hliðina á mér kom fram, því þá hefði ég í hreinskilni kafnað úr hlátri. Þetta verður leyndarmálið okkur um aldur og ævi. Þegar ég yfirgaf þennan fyrrum friðsæla stað hljómaði þessi vísa í huga mér…Á kamrinum sit ég og kúka á fulla, að kafna úr fýlu því ég er með drullu. Á jesús ég kalla og alla guðs engla, því görnin á mér er að rifna í hengla.

…..góðar stundir.

Sunday, February 05, 2006

Glíma


Ég fór snemma á fætur í morgun og smellti mér á glímumót. Hef ekki áður farið á svona skemmtun og fyrir utan nokkrar tilraunir í grunnskóla til að stunda þessa þjóðaríþrótt okkar Íslendinga hef ég enga reynslu af þessari skemmtun. Alla vega ástæðan fyrir því að ég fór á þetta glímumót var hún Jóna frænka mín glímudrottning með meiru. Eins og þið sjáið á þessari mynd er Jóna kannski ekki sú hávaxnasta í greininni en máltækið....Margur er knár þótt hann sé smár....var vel sannað í þessari keppni.

Áfram Jóna þú ert flottasta glímudrottningin sem ég þekki.

Friday, February 03, 2006

Færsla 1

Á vídeoleigunni:
Kúni: af hverju eigið þið svona lítið af vídeomyndum?
Afgreiðslumaður: af því að kaupum bara inn dvd myndir.
Kúni: en það eiga ekki allir dvd spilara.
Afgreiðslumaður: það er bara úrelt að eiga vídeo, það er svo gamaldags.
Kúni: áttu enga nýja teiknimynd á vídeospólu?
Afgreiðslumaður: nei, þú verður bara að kaupa þér dvd-spilara!!!

Ekki að það skipti öllu máli en....afgreiðslumaðurinn var tvítugur með afróhár og kúninn (greyið) var svona sirka átta ára með hor í nös.

Frekar dónalegt!!!

Wednesday, February 01, 2006

Si, Si, Silvía Nótt!!!

Ó

Þessi frétt var á mbl.is:

Lögreglunni í Vík var fimmtudagsmorguninn sl. tilkynnt um hvalreka í Víkurfjöru. Lögreglumenn fóru á staðinn og höfðu í framhaldi samband við Hafrannsóknarstofnun sem óskaði eftir sýni og ljósmyndum svo þeir gætu greint tegund. Í ljós kom að um marsvín var að ræða sem reyndist vera 2,20 metrar að lengd. Lögreglan var síðan fengin til að taka húðsýni af hvalnum og senda rannsóknarmönnum Hafró. Hvalurinn var að lokum urðaður af starfsmönnum Mýrdalshrepps.

Hafró? Kannski gengju þessir gaurar hjá Hafró í Gaggó og áttu heima á Selfó???

Áfram íslenska!