Döpur er dráttlaus kona.

...besti páskamálsháttur ever!!!

Monday, July 30, 2007

Dagurinn sem týndist.

Ég hljóp út í hádeginu, rétt aðeins að kíkja með bókhaldið sem ég er búin að vera til endurskoðandans. Eftir að hafa setið þar í smástund fór ég aðeins í bókabúðina að kaupa blý. Svo fór ég aðeins með Guggu í hádegismat. Eftir það hringdi Sirrý frænka og ég eyddi deginum með henni í Smáralindu og kom heim klukkan níu. Þetta þýðir sem sagt að skreppið sem ég fór í morgun tók tíu tíma og ég var ekki einu sinni í sokkum. Gaman að þessu!!!

Nú hafa nákvæmlega 59.908 heimsótt síðuna mína sem þýðir að á morgun smellur teljarinn í 60.000 þúsund.....spennandi!!

Sunday, July 29, 2007

Ljóminn og bjórinn

Veistu hvað ljóminn er ógurlegt eitur
Ljóminn er verr' en ég hugsaði mér.
Af Ljómanum verður þú ljótur og feitur
og líklega dett' allar tennur úr þér.

Ljóminn á skilið allt last sem hann fær
Ljóminn hann skaðar frá hvirfl' oní tær.
Ef Ljómans þú neitir, illa þú breytir
af Ljómanum bráðlega verður þú ær.

Veistu hvað bjórinn er ljómandi góður
bjórinn er betri en ég hugsaði mér.
Hann hefur ljómandi fjörefna fóður,
full boðlegur drykkur á borðum hjá þér.

Bjórinn á skilið það lof sem hann fær,
bjórinn hann verkar frá hvirfli on'í tær.
Ef bjórinn þú kneifar og bjórinn þú teigar
mun bjórinn að eilífu verða þér kær.

Tíminn líður hratt

Tíminn líður hratt, tíminn líður trúðu mér, tíminn sem líður svo hratt að maður fær sunnudagsmoggann á laugardögum. Helgin þessi fær skemmtilegan stimpil, hún var alveg hrikalega skemmtileg. Djamm bæði föstudags og laugardagskvöld með stelpunum og menningarheimsókn á laugardeginum sjálfum með einni stelpunni. Ó-náttúra heitir sýningin í Listasafni Íslands, hvet ykkur til að tölta þangað ef þið hafið lausar þrjátíu mínútur.

En aftur að fyrirsögninni. Tíminn líður hratt, allt er breytingum háð. Miklar breytingar eru framundan hjá mér og fleirum. Á ég að skella kennaradraumnum mínum á hilluna? Draumnum sem búin er að tróna á toppnum í tuttugu ár? Hvaða skref er rétt? Hversu stórt á skrefið að vera? Hvernig endar þetta allt? Breytingar, breytingar. Verður nýi draumurinn betri en sá eldri? Þetta hlýtur að verða dásamlegt þegar þetta er liðið hjá, en vegurinn að lausninni er bara leiðinlegur, holóttur malarslóði.

Stundum langar mig bara til að vera ung og vitlaus. Vinnandi á kassa í Bónus, með hrúa af misfeðra krökkum sem stofnanir ala upp fyrir mig, detta í það á fimmtudögum, mæta þunn á föstudögum og liggja eins og klessa heima um helgar og horfa á nágranna. Skyldi fólk í þessari aðstöðu líka þurfa að taka ákvarðanir?

Hraðar sér hvern dag, hraðar sér hvert kvöld.....!!

Friday, July 27, 2007

Föstudagur til flösku!


Í tilefni dagsins set ég hér inn sjálfsmynd.

Er ekki spurning um að kíkja á lífið?

26. júlí 2007

Unnur Birna Sigurðardóttir fékk nafnið sitt í dag í Selfosskirkju. Í dag hefði Unnur Harðardóttir, amma barnsins orðið 50 ára en hún var fædd 26.júlí árið 1957. Eftir skírnina fór allur hópurinn inn í kirkjugarð með blóm á leiðið hjá ömmunni. Afskaplega fallegt og sérstakt að geta gefið fyrsta barnabarninu nafn ömmu sinnar á afmælisdegi hennar. Ég las upp smá kafla úr biblíunni í athöfninni sem presturinn lét mig hafa, það þótti mér merkilegt.

Með skírninni fela foreldar barn sitt góðum guði. Guðfeðgin öðru nafni skrínarvottar eru vottar þess að barnið hefur verið skírt til nafns föður, sonar og heilags anda eins og kristur lagði fyrir. Ég var skírnarvottur hjá Unni litlu í dag og fannst það mjög merkilegt að verða kosin sem eins konar andlegt foreldri barnsins, eða svo segir í bæklingum sem presturinn lét mig hafa.
Í þessum bæklingi eru ráð til skírnarvotta þar sem þeir bent er á hina ýmsu hluti sem hægt er að gera með barninu. T.d. það að muna eftir skírnardegi barnsins, biðja fyrir barninu í bænum mínum, fylgja barninu í sunnudagaskólann o.s.frv.

Þið sem mig þekkið hafið kannski orðið vör við það að það þarf ekki mikið að gerast í kringum mig svo tilfinningarnar fari á flug. Þegar fyrsti sálmurinn í kirkjunni var sunginn, þó auðvitað þetta væri gleðileg stund, læddist eitt lítið tár úr augnkróknum á mér. Hef aldrei getað stjórnað þessu :) Akkúart á þessu augnabliki lítur presturinn upp og sendir mér bros.

Eftir athöfnina fór ég aftur inn í kirkju til að ná í barnastólinn og þar mæti ég prestinum. Hann stoppar við hlið mér, setur hendina á öxlina á mér og segir: Þú ert falleg stúlka, svo hugsaði hann í smástund og sagði aftur: Ég finn það að trúin er sterk í þér, þú þarft að vera dugleg að sækja guðþjónustur.

Svo gekk hann í burtu. Þetta þótti mér sérstakt. Hann er klár þessi prestur.

Tuesday, July 24, 2007

Í stafrófsröð

Ég var að breyta. Ég var að setja ykkur í stafrófsröð. Nennti ekki að rembast við að hafa linkana í stafrófsröð. Þetta er flottara svona og engin getur verið ósáttur við sína stöðu í listanum. Ég lét líka hendur standa fram úr ermum og breytti klukkunni á blogginu, hún var í tómu tjóni en núna sýnir hún sannleikann þ.e. að sitji heima hjá mér á þriðjudagseftirmiðdegi og hafi ekkert betra við tímann að gera en að hanga í tölvunni ennþá á náttbuxunum....geri aðrir betur.

Ég er búin að sjá það að það að lenda á tossalistanum hjá mér hefur mikil áhrif á fólk því um leið og ég smellti Gumma niður á tossalistann tók hann sig til og smellti einni færslu á síðuna sína. Ég gefst ekki svona auðveldlega upp svo nú kemur næsta skamm...undurfögru frænkur mínar tossarnir Eygló og Gróa....sagan segir að önnur sé gift og hin sé komin með kærasta!!! Sel það ekki dýrara en ég keypti það, en þær eru nú samt báðar á tossalistanum og ég legg til að þær hysji upp um sig og segi frá :)

Svo skemmtilega vill til að nú styttist í gest númer 60.000, hver skyldi fá þann heiður. Ég hreinlega varð, gegn vilja mínum að rísa upp úr rúminu og hreyfa á mér hausinn og bakið, ég hreinlega get ekki lesið svona langar bækur án þess að hlaupa svolítið á milli kafla. Harry er þrælskemmtilegur, margt spennandi hefur gerst hingað til og án vafa mun þetta bara verða betra og betra.

Er farin í mat með Guggu og Jönu litlu.

Monday, July 23, 2007

Bryggjuhátíð

Jæja ég smellti mér á Drangnes á Bryggjuhátíð síðastliðna helgi. Þetta var mjög skemmtileg hátíð þar sem bæði veður og stór hópur af fólki brosti sínu blíðasta. Ég söng frá mér röddina og fékk harðsperrur í brosvöðvana. Ég smellti mér í sundlaugina en lét heita pottinn eiga sig þetta árið. Siggi bróðir dró á eftir sér studioíbúð norður þ.e. risa hjólhýsi, sem ég gisti í svo það væsti ekki um prinsessuna.

- Föstudagskvöldið 20.07 2007 klukkan 20:07 var haldið brúðkaup í einum garðinum á Drangsnesi. Voða fallegt og rómantískt.

- Á laugardaginn 21.07 gifti Gróa frænka sig í fjörunni á Suðurlandi. Þið getið lesið um það hér. Til hamingju frænka þetta hefur án vafa verið hrikalega rómantískt :)

- Leggsteinninn hjá nöfnu minni var komin á sinn stað í kirkjugarðinum á Drangsnesi, ofsalega flottur og augljóst að vel hefur verið vandað til verksins.

- Ég smakkaði meðal annars grillaðan lunda og sel, ufsabollur og ýsu í dilli...spes! Svo borðaði ég eins og óstudd nokkur hundruð grömm af harðfiski með smjöri, eða réttara sagt borðaði ég smá harðfisk með smjörinu mínu.

- Áðan setti ég umsóknina um skólavistina í póst svo nú er ekki aftur snúið og svo keypti ég mér síðustu bókina um Harry Potter....fer spennandi af stað.

Meira seinna.

Thursday, July 19, 2007

Hljóðin

skaf, skaf, skaf, skaf, drun, drun, drun, skaf, skaf, skaf, skaf, klipp, klipp, klipp, skaf, skaf, skaf, drun, drun, drun, drun, skaf, skaf, skaf, drun, drun, skaf,skaf, skaf, skaf, skaf, drun, drun, drun, skaf, skaf, skaf, skaf, klipp, klipp, klipp, skaf, skaf, skaf, drun, drun, drun, drun, skaf, skaf, skaf, drun, drun, skaf. Takk fyrir. Þetta heyrði ég þegar ég var í fótsnyrtingu. Ekki það að ég vilji halda því fram að ég sé með fallegar fætur eftir snyrtinguna, en þær eru falllegri.

slurp, slurp, slurp, slurp, slurp, slurp, slurp, slurp, slurp, slurp, slurp, slurp, slurp, slurp, slurp, slurp, slurp, slurp, slurp, slurp, slurp, slurp, slurp, slurp, slurp, slurp, slurp, slurp, slurp, slurp, slurp, slurp, slurp, slurp, slurp, slurp. Svona heyrðist í blettinum mínum í morgun þegar hann fékk loksins að drekka eftir nokkra vikna þurrk. Nú verður fróðlegt að sjá hvort hann lifir þetta af eða hvort hann drepst eins og ég var að vonast til. Hvort sem verður er þetta einn ljótasti blettur á 112 svæðinu.

Hvort skyldi vera ljótara? Bletturinn eða fæturnir á mér?

Wednesday, July 18, 2007

Einn hrikalega fyndin

Fékk þennan brandara sendan og fannst tilvalið að smella honum hér inn :)

Öskureiður maður vindur sér inn í Nóatúnsverslun og beint að kjötborðinu með nýsteikt lambalæri í hendinni og segir við unga afgreiðslumanninn, ÉG VAR AÐ STEIKJA ÞETTA LÆRI SEM ÉG KEYPTI HÉR Í DAG OG ÞAÐ VARÐ EKKI AÐ NEINU, ÉG ER MEÐ MATARBOÐ OG ÞETTA DUGAR EKKI : !

Afgreiðslumaðurinn ungi horfði skelkaður á þann reiða og sagði svo , Jáá, veistu hvað? ég keypti mér lopapeysu um daginn, svo varð hún skítug ,ég henti henni í þvottavél og síðan í þurrkara og hún bara hvarf !! Heldurðu nokkuð að þetta geti verið af sömu rollunni?

Múhahahaha!!

Tuesday, July 17, 2007

Bloggarar í fríi listinn

Eins og þið sjáið hér til hægri hef ég sérstakan dálk sem heitir bloggarar í fríi. Hér áður var þessi dálkur mjög óvirkur og fáir bloggarar sem lentu þarna megin. Því miður hefur þessi flokkur stækkað undanfarin misseri og hafa margir skemmtilegir bloggarar lagt niður bloggpennann. Það finnst mér sorglegt. En það er samt svo gaman þegar maður getur fært til á þessum lista, svo sé ég mig líka tilneydda til að bæta nokkrum á þennan frílista....Gummi Torfi hvað er með þetta Elko?

Svo er Hanna Fríða stórfrænka mín komin í stúkusæti, nú er að standa sig :)

Nú sit ég gólfinu og skrúfa saman skrifborðið sem ég keypti í gær, maður verður að hafa skrifborð þegar maður er orðin svona virtur háskólanemi í Langtíburtistan :)

Sunday, July 15, 2007

Hornstrandir

Jæja, þá er ég búin með það mikla þrekvirki að skrifa upp ferðasöguna mína eftir þessa dásamlegu daga á Hornströndum. Ég veit ekki hvað þið hafið mikinn áhuga á að lesa svona langloku sem náði yfir á 15 blaðsíður í Word, en ég get lofað ykkur því að þið munið alveg skynja stemminguna sem ég upplifði þarna. Eftir langan tíma þar sem ég reyndi að rifja upp lykilorð og notandanafnið á vara síðunni minni gafst ég upp og bjó bara til nýja síðu sem heitir Hornstrandir.

Verið nú dugleg að lesa.

Ég geri það næst þegar rignir

Þetta er alveg ferlegt þetta veður. Ég neyddist til að þrífa hjá mér í gær því ég gat ekki lengur notað frasann....ég geri þetta næst þegar rignir. Ég er ekki að segja að ég hafi ekki mundað tuskuna síðustu vikur sem hafa verið yndislega sólríkar. Ég veit ekki lengur hvað ég á að mér að gera, búin að nota sólardag í að ganga á fjöll, fara út að skokka, fara í langa gönguferð, hjóla, fara á línuskauta, leggjast í Nauthólsvík, sitja á kaffihúsum, sund....hvað getur maður meira gert í sólskininu? Þrífa!

Karl faðir minn og mútta komu til mín í gær og höfðu meðferðis langþráða borvél. Núna er sem sagt búið að ganga frá restinni af búslóðinni. Hillan er komin á vegginn fyrir ofan sjónvarpið, myndirnar á veggina, listarnir nelgdir við veggina, ljósið flotta komið á vegginn (vantar bara rafvirkja til að klára dæmið) ísskápshurðinni var snúið við og volla allt er tilbúið.

Ég fór svo með mömmu og pabba á rúntinn, byrjuðum á að fara í markaðinn í Laugardalshöllinni og ég keypti fjórar dvd og einn cd fyrir 3800 krónur, besti markaður sem ég hef farið á. Við fórum svo niður í miðbæ og fengum okkur ís og kók, gengum um miðbæinn eins og allt hitt fólkið. Borðuðum svo á stælnum og þar með var dagurinn búinn. Skemmtilegt. Það er svo fínt hjá mér.

Góðar stundir.

10 pirrandi lög

Hér er listi yfir þau tíu dægurlög sem pirra fólk mest unnið af einhverjum spekúlerendum í henni Ameríku. Hvað finnst ykkur þetta? Hvaða íslenska lag finnst ykkur að ætti heima á þessum lista?

1. Black Eyed Peas, “My Humps”
2. Los Del Rio, “Macarena”
3. Baha Men, “Who Let The Dogs Out”
4. Celine Dion, “My Heart Will Go On”
5. Nickelback, “Photograph”
6. Lou Bega, “Mambo No. 5?
7. James Blunt, “You’re Beautiful”
8. Spice Girls, “Wannabe”
9. Sisqo, “The Thong Song”
10. Cher, “Believe”



...og svo er hér versta tónlistarmyndband sögunnar....! Hrikalega fyndið!

Friday, July 13, 2007

Og annað....! frekar fyndið

Your Toes Should Be Red

You pretend to be an old fashioned girly girl, but you're secretly a naughty girl deep down.

Your ideal guy: Tall, strong, and handsome - with a devilish twinkle in his eye.

Stay away from: Nice, safe men. They won't really give you what you want!

Svona próf er alltaf svo skemmtileg....djók, djók!

You Are Fozzie Bear

"Wocka! Wocka!"
You're the life of the party, and you love making people crack up.
If only your routine didn't always bomb!
You may find more groans than laughs, but always keep the jokes coming.

Thursday, July 12, 2007

Talk in the city

Fjórar myndarlegar ungar dömur gengu eftir götunni þar sem allt gerist. Ein er rauðhærð, stórglæsileg myndarleg kona sem hver maður væri heppinn að klófesta. Næsta er bráðmyndarleg ljóshærð og bláeyg, einn maður var klókur og krækti í hana, ég efast um að hann viti hversu heppinn hann er. Sú þriðja er jafn glæsileg, dökkhærð og hýreyg með bros sem getur vakið fúlasta fýlupoka. Fýlupokar munu aldrei ná að krækja í hana, þeir verðskulda hana ekki. Og svo er það litla stelpan í hópnum sem greinilega hrífst af bleikum lit því þannig var hún eftir þennan dag.

Fjórar dömur röbbuðu saman um allt en þó ekki neitt.....það er dásamlegt að vera til og eiga góða vini til að deila lífinu með.

Monday, July 09, 2007

Sveitabrúðkaup

Hann sagði já og svo sagði hún já sem þýddi að þá voru þau orðin hjón. Herra og Frú Ólafsson! Ég óska Margréti og eiginmanninum hennar Fannari til hamingju með heitin. Þetta var svei mér skemmtilegasta brúðkaup sem ég hef farið í. Þvílíkt stuð með alvöru hljómsveit.

Hver ætlar að gifta sig næst?

Monday, July 02, 2007

Kristjana Bjarnadóttir

Sumir atburðir eru erfiðari en aðrir, en sögu af þessu langar mig til að segja ykkur.

Ég og mamma keyptum sumarblóm í Húsasmiðjunni á Borgarnesi á leið okkar norður á Hornstrandir. Blómin áttu að skreyta leiðið hjá tvíburasystur mömmu minnar, henni Kristjönu Bjarnadóttur sem ég er skírð eftir. Þegar við komum í kirkjugarðinn á Drangsnesi brá okkur í brún við það að sjá að leggsteinninn af leiðinu var horfin. Þessi leggsteinn er mjög veglegur og þungur en móðir mín keypti hann fyrir fermingarpeningana sína. Við vissum því að steinninn hafði ekki fokið burt svo við hófum leit okkar að honum inni á Drangsnesi.

Hún Kristjana fæddist 30. nóvember árið 1955 hún var barn foreldra sinna Bjarna og Bjarnfríðar. Hún var tvíburi á móti mömmu minni sem skírð var Hanna Birna, þær voru tvíeggja, börn númer sex og sjö. Tilvera hennar á þessari jörð var ekki löng aðeins nokkrir tímar og munu þeir hafa verið henni mjög kvalafullir. Ekki er hægt að vita með vissu hvers vegna líf hennar endaði svo snöggt. Helst er fólk á því að þetta hafi verið vegna blóðflokka misvægis og því hafi einhverskonar eitrun dregið hana til dauða. Amma dúlla kenndi sjálfri sér þó alltaf um dauða Kristjönu því einhvern tíma á meðgöngunni datt hún á bumbuna og samviskubitið nagaði hana alla tíð vegna þessa sama hvað reynt var að tala um fyrir henni. Það er ekki lítil byrði að bera.

Það var ekki siður á þessum tíma að kornabörn fengju sér gröf. Þau fengu yfirleitt að hvíla í gröf með einhverjum fullorðnum sem látist hafði á svipuðum tíma. Það var eins með Kristjönu litlu. Nokkrum dögum áður hafði látist eldri kona á bænum Sæbóli sem stendur rétt utan við Drangsnes. Allt var náttúrulega á kafi í snjó enda beið desember handan við hornið. Það varð úr að afi tók litlu dóttur sína, vafði hana í teppi og gekk með hana í fanginu að Sæbóli svo hún gæti fengið að hvíla í kistunni hjá konunni sem einnig bar nafnið Kristjana en var Einarsdóttir. Gangan þennan dimma dag tók um það bil þrjátíu mínútur og þið getið rétt ímyndað ykkur hversu þung þessi skref voru afa mínum. Þegar hann svo kemur að Sæbóli með dóttur sína í fanginu var honum sagt að búið væri að loka kistunni og ekki væri hægt að opna hana aftur. Því var ekkert annað að gera en að ganga aftur sömu leið til baka með barnið í fanginu. Svo var smíðuð lítil kista utan um stelpuna litlu og fékk hún að eiga sína eigin gröf í kirkjugarðinum og hvílir nú við hlið nöfnu sinnar Kristjönu. Bjarni afi mun víst seint ef einhvern tíma hafa jafnað sig á þessari lífsreynslu. En áður hafði amma fætt andvana dreng og hvílir hann einnig í kirkjugarðinum á Drangsnesi. Ég fæ nú bara tár í augun við að hugsa um þetta.

Mamma mín er því einstæður tvíburi. Hún sagði mér það eftir mömmu sinni að ef Kristjana hefði lifað hefðu þær sennilega verið mjög nánar því mamma gerði ráð fyrir henni í rúminu hjá sér meðan hún svaf fyrstu árin af ævi sinni. Mamma sagði mér einnig frá því hvað henni sárnaði oft í æsku þegar fólk tók ekki undir það að hún væri tvíburi. Auðvitað var Kristjana tvíburinn á móti mömmu, órjúfanlegur hluti af henni þó hún hafi ekki fetað vegin á þessari jörð með henni. En við vitum fyrir víst að hún fylgist með okkur og hefur oftar en einu sinni sést í fylgd með mér.

En svo ég klári nú söguna af leggsteinunum sem hvarf úr kirkjugarðinum. Gamall maður inn á Drangsnesi sem áður sinnti starfi kirkjugarðsvarðar tók steininn heim með sér í vetur og er búinn að vera að dunda við að pússa hann upp, mála steypta í kringum hann og steypa undirstöður undir steininn. Allt þetta gerði hann óbeðinn og harðneitaði að taka við borgun að neinu tagi fyrir vikið. En sumarblómin fóru vel á leiðinu og búið verður að setja steininn upp þegar við komum næst á Drangsnes.

Minningin um Kristjönu lifir líka, mér þykir vænt um nafnið mitt og því að ég skuli hafa fengið það í arf frá henni. Hér læt ég þessari lesningu lokið.

Stund milli stríða

Jæja Janus er komin til byggða, alla vega í bili. Áttaði mig á því áðan að ég hef nákvæmlega ekkert fyrir stafni næsta mánuðinn....Hvað á ég að gera í heilan mánuð? Nei hlakka bara til, á eftir að mála bæinn rauðan innan tíðar.

Dagarnir í Eyjunni voru í einu orði geggjaðir, alveg jafn skemmtilegir og í fyrra, jafnvel bara betri. Ferðin á Hornstrandirnar var líka í öðru orði geggjuð, miklu betri en í fyrra ef frá er talið að það var allt of heitt veður til að ganga í :) Er hægt að biðja um eitthvað dásamlegra.

Alla vega, ég er búin að skrifa og skrifa og mun innan tíðar fara að drita ferðasögum út á netið. Ég er ekki með neina nettengingu heima eins er svo þetta gengur allt saman mikið hægar :)

Hittumst í sólinni.