Döpur er dráttlaus kona.

...besti páskamálsháttur ever!!!

Sunday, September 30, 2007

Að segja réttu hlutina

Ég á eina vinkonu. Auðvitað á ég ekki bara eina vinkonu. En ég á eina vinkonu sem á svo auðvelt með að leysa úr svona hugarhnútum sem maður er búin að búa til í sínum huga og bara finna lausnir og segja svo bara réttu hlutina. Ég bauð einni vinkonu minni í mat í vikunni og fór að þylja upp fyrir hana allt það sem ég er búin að vera að rembast með að taka ákvörðun um síðustu vikur og mánuði.

Ég veit ekki nákvæmlega hvernig hún fór af því að leysa þetta, en allt í einu var bara búið að höggva á hnútinn. Núna er þetta ekkert vandamál lengur. Það er frábært að þurfa ekki að vera vandræðast með þetta lengur. Nú er ég búin að breyta stefnunni og stefni í rétta átt.

Ég er þess fullviss að þessi vinkona mín ætti að einbeita sér að því að ráðleggja fólki, alla vega svona vandræðagripum eins og mér. Ég vil enda þetta á hennar orðum, sem hún reyndar hafði eftir öðrum í þetta sinnið. Það eru aðeins 10% íbúa á jörðinni sem lifa við þann munað að hafa fjóra veggi á húsinu sínu og svo eru það aðeins 5% íbúa á jörðinni sem búa við þann munað að hafa fjóra veggi á húsinu sínu og rennandi vatn í því. Ég er sem sagt í þeim forríka forrétindahóp sem bý við þetta bæði.

Nú er tíminn til að hætta að væla og stefna hraðbyri í átt að framtíðinni.

Góðar stundir.

Friday, September 28, 2007

Ég er með kenningu.

Ég er með kenningu.

Ég hef þá trú að þriðjudagar, miðvikudagar og fimmtudagar séu styttri en hinir dagarnir. Það hlýtur að vera. Því ég man mánudaga og hviss, bamm, búmm það er komin föstudagur....!

Góðar stundir

Sunday, September 23, 2007

Ísland

Ísland er svo stórt og samt svo lítið. Á Íslandi þykir það stórfrétt að Aron sem nýlega var látin laus úr fangelsi erlendis skuli hafa sést við hliðina á öðrum strák á djamminu. Ég veit þið haldið að ég sé að grínast en það er því miður ekki svo. Hér sjáið þið mynd af kappanum . Gellurnar á barnalandi voru meira að segja að giska á að félaginn hans á myndinni væri of ungur.....!!!

HVAÐ ER AÐ GERAST Á ÞESSU KRUMMASKUÐSLANDI!!!!

Mynd af mér


Ég get ekki sagt að ég myndist vel og mjög sjaldan gerist það að ég sjái mynd af mér sem mér finnst ekki ófríð. Ég verð því svo kát þegar ég sé mynd af mér sem mér finnst vera flott. Þessa mynd tók Daði af mér í þrítugsafmælinu sínum daginn. Þetta finnst mér vera flott mynd.

Árshátíð

Ég fór á árshátíð í gærkvöldi á Hótel Íslandi eða Broadway eins og það heitir í daglegu tali. Ég fór með pabba mínum sem staðgengill mömmu sem er í hinni einu sönnu París þessa helgi. Þetta var fín skemmtun. Ég skal alveg viðurkenna að rusla-bransinn ber með sér mikið af sérstöku fólki. Fyrst skal telja gaurinn sem í byrjun var í afskaplega flottum smóking en var að svipstundu orðin ber að ofan, skólaus og sveittur á dansgólfinu, samt með konu upp á arminn. Stebbi frændi sagði hann reyndar vera eitthvað spes, en hitt er víst að hann skemmti sér manna best.

Það var heilt stórt borð af Pólverjum. Ekki að þeir séu neitt slæmir, samt fyndið að þeir skyldu sitja þarna saman í einum bunka. Það er nú ekki hægt að segja að pólskir karlmenn séu ljótustu karlmenn í heimi, hávaxnir með mjög karlmannlega andlitsdrætti. Verst að konurnar pólsku eru þannig líka, fer kvenmönnum ekki eins vel að vera svoleiðis. Ruslakarl eða ekki ruslakarl, Pólverjar eru nú ekki alveg fyrir mig, ég myndi liggja í kasti yfir að hlusta á þá tala :) Hljómar þetta illa?

Svo var það borðið með öllum þeim sem voru á lausu. Já þær sátu saman á borði og það sem meira er þá settu þær á sig kórónu til að vera viss um að allir vissu að þær væru á lausu. Mjög fyndið. Auðvitað sátu þær svo á næsta borði við alla Pólverjana. Gaman að þessu og greinilega skemmtilegur mórall á þessum vinnustað.

Ég dansaði gat á báða skálmar á sokkabuxunum og það kom meira að segja blaðra á annan fótinn. Ég dró meira að segja pabba með mér á dansgóflið. Góð minning þar í minningabankann.

Það skemmtilegastaa var svo að ég vann í happdrættinu. Gjafabréf frá Sævari Karl sem ég má ná í á mánudaginn. Spennandi að vita hvað það felur í sér. Kannski sokkapar? eða pípuhatt :) Hver veit?

Saturday, September 22, 2007

Smá neyðarlegt atvik á föstudagskvöldi.

Það eru nokkrar íbúðir búnar að vera til sölu í blokkinni minni. Tvær þeirra eru seldar en sú þriðja sem er dýrust og flottust er ekki að ganga út. Í gær þegar ég kom heim mætti ég konunni sem á hana núna með áhugasama kaupendur upp á arminn. Þegar ég kem inn í stigaganginn eru þau akkúrat á leiðinni niður til að skoða geymsluna. Ég tölti á eftir þeim niður stigann og heyri að konan segir, hér fyrir framan er svo sameiginlegt þvottaherbergi, þetta segir hún og lítur svo á mig og segir: en það notar það nú engin nema hún Kristjana. Að svo mæltu kveikir hún ljósið í þvottaherberginu. Þá verður svona líka hrikalega löng þögn og svo fara þau öll að hlægja og konan segir hlægjandi hérna fyrir innan er svo geymslan og þau ganga þangað.

Það var akkúrat á því augnabliki sem ég mundi eftir því að ég gleymdi að taka þvottinn af snúrunni um morguninn. Á snúrunni héngu því sex brjóstahaldarar og svona 10 nærbuxur af undirritaðri. "roðn" ég fór bara inn í íbúð og lokaði á eftir mér. Vona að þetta fólk muni ekki kaupa íbúðina uppi.............

Wednesday, September 19, 2007

Hvað er skvísan er gera núna!

Ég braut tönn á mánudaginn og fór til tannlæknis í dag til að bæta skaðann. Ég er svo einstaklega óheppinn að hafa nákvæmlega ekkert pláss í munninum og bilið á milli tannanna er það lítið að stundum þarf að nota krafta til að koma tannþræðinum á milli þeirra til að þrífa þær. Þær eru svona svipað þétt saman og fólkið í ópal auglýsingunni. Það var mjög fyndið að horfa á tannlækninn fórna höndum í dag og segja "ertu ekki að djóka" þegar hún var búin að rembast í nokkrar mínútur við að koma svona litlu ál stykki á milli tannanna í við hliðina. Sagði líka að ef ég hefði ekki komið og látið laga þetta gat þá hefði það horfið á nokkrum vikum, hinar tennurnar hefðu verið aukaplássinu fegnar og breytt úr sér. Systir mín 32 ára hefur aldrei þurft að láta bora í eina einustu tönn og ég sit uppi með eitthvað ónýtt drasl sem hefur ekki pláss til að vera hreint.....!

...og að öðru, þetta gengur ekki lengur. Ég er að verða eins og sautjánda júní blaðra og því er ekkert annað að gera en að spýta í lófana og henda sér í ræktina. Ég mun því byrja hjá einkaþjálfara á mánudaginn....nú verður tekið á því!!!

KOMA SVO

PS. var að færa Eddu úr skammarkróknum í hinn flokkinn og bætti svo litla unganum hennar Guggu í barnalandsflokkinn.....nóg að gera!

Tuesday, September 18, 2007

Að vera með hring

Á stuttum tíma hef ég heyrt tvær sögur af giftum hjónum sem kusu að ganga á bak orða sinna við hvort annað, svo maður tali ekki um manninn þarna uppi. Til hvers að heita því að vera maka sínum trúr ef fólk stekkur í burtu um leið og það stekkur í burtu þegar eitthvað annað býðst eða ekki. Skiptir það fólki virkilega engu máli þó það sé með hring á fingri?

Ég heyrði af hjónum sem búin voru að vera gift í mörg ár, áttu orðið þrjú börn, hús, bíl og allan pakkann. Hvað kemur svo upp. Jú, jú karlinn á bara aðra konu, annað hús, önnur börn, í öðru landi. Hvernig getur nokkur maður verið svona falskur?

Ég heyrði af öðrum hjónum sem búin voru að vera gift lengi. Þau voru líka með allan pakkann, börnin, bílinn, húsið, ást og hamingju. Eitt sinn þegar maðurinn kemur heim er konan horfin úr húsinu með allt sitt hafurtask, þar með talin börnin. Daginn eftir nær maðurinn loksins í hana, hún segist vilja skilnað því hún sé komin með annan mann og flutt til hans. Maðurinn spyr, nú er þetta nýtilkomið...konan segir, nei ég er búinn að halda við hann í níu ár? OJ - já konur eru ekkert betri.

Ég verð alltaf jafn hissa þegar fólk getur stokkið svona frá öllum sínum loforðum. Ef það er óhamingjusamt í sínu sambandi, af hverju skilur það þá ekki áður en það leyfir sér að leggjast svona lágt.

Ég skil líka ekki hvernig fólk getur flutt út frá einum maka sem þeir eru kannski búin að vera með árum saman og haldið að það geti bara hviss, bamm, búmm hent þeim tilfinningum sem því sambandi fylgdi og byrjað bara upp á nýtt með einhverjum öðrum, fyrr eða síðar nær svona afgreiðsla í rassinn á fólkinu. Ég er á því að það sé bara eitthvað mikið að í hausnum á þessu fólki. Hvernig getur fólk leikið sér svona af öðrum, öðrum sem þeir hafa verið heitbundnir.

Já, já ég held að ég sé bara sátt við það að hafa ekki sett upp hring án þess að meina það. Þegar það gerist mun ég standa hundrað prósent við það sem hann táknar, annars myndi ég ekki geta gengið með hann og hana nú!!!

Skamm, skamm!!!

Sunday, September 16, 2007

Jú jú ég er hér enn.

Þá í aðeins fölari litum en undanfarna mánuði. Ég skellti mér á Selfoss á föstudaginn, ætlaði reyndar alla leið upp í sveit þarna um kvöldið en dagaði uppi af þreytu á Selfossi. Ég var þó komin á fætur klukkan sjö morguninn eftir og lögð af sveitina upp úr hálf átta. Framundan var réttardagurinn, sá fyrsti í nokkur ár þar sem kindur voru með í gleðinni. Réttar-morgun-kaffið á Vatnsleysu rann ljúflega niður, stundum verður maður bara að njóta lífsins og borða marensköku og kakó með rjóma í morgunmat.

Svo var ekkert annað í stöðunni en að skella sér í regngallann og kíkja á þessar örfáu skjátur sem í réttunum voru og svo auðvitað heilsa öllu þessu góða fólki sem í Tungunum býr. Fyrst byrjaði að blása. Svo byrjaði að dropa. Svo byrjaði að rigna. Svo byrjaði að hellirigna og síðast en ekki síst þá byrjaði að slydda, stórum hvítum blautum flygsum. Hitastigið dansaði á núllinu og líkamshitinn féll ískyggilega mikið, sem var ekki það besta í stöðunni því kvefpest og hósti var búin að herja á mig síðan skólinn byrjaði.

Kjötsúpan í skemmunni var ágæt, en það var ekki nógur varmi í henni til að hita inn að beini. Mér hitnaði ekki fyrr en mörgum tímum seinna. Þá eftir að hafa keyrt aftur á Selfoss og legið uppi í rúmi með rafmagnshitapoka í botni í klukkutíma.

Síðan er ég búin að hósta upp brisinu og ég sver það að ég fann fyrir stóru tánna í hálsinum í einu hóstakastinu í gær.

Nokkrir dagar liðnir af skólaárinu og ég er komin með hor :(

Tuesday, September 11, 2007

Einn góður á þriðjudegi

Hjón nokkur fóru á fæðingardeild til að fæða barn sitt. Þegar þau komu þangað sagði læknirinn að hann hefði fundið upp tæki sem færði hluta af verkjum frá móður til föður. Hann spurði hvort þau væru tilbúin að prufa tækið. Þau voru bæði spennt fyrir því. Læknirinn byrjaði á 10% þar sem þar væri líklega meiri verkur en eiginmaðurinn hefði áður upplifað. Eftir því sem lengra leið á fæðinguna bar maðurinn sig vel og sagði lækninum að hækka í tækinu. Læknirinn hækkaði í 20% og síðan í 50%. Enn var eiginmaðurinn stálsleginn og bað lækninn að færa alla verkina yfir á sig.

Fæðingin gekk mjög vel og móðirin fann ekkert fyrir öllu saman. Eiginmaðurinn var stálsleginn.

Þegar þau komu heim lá bréfberinn dauður á tröppunum fyrir framan húsið.

Sunday, September 09, 2007

Ef þú giftist

Ég skal gefa þér kökusnúð með kardimommum og sykurhúð.....ég var að ferðinni með litlu frændur mínar um helgina og hlustaði eins og vera ber á útvarp Latabæ sem er að finna á 102.2 fyrir ykkur sem ekki vitið. Það er mest spilað af tónlist á þessari stöð og svo kemur inn svona einn og einn fróðleikur. ´

Ég söng náttúrulega hástöfum með litlu frændum mínum enda annálaður söngvari (eða hvað). Fyrsta lagið sem vakti mig til umhugsunar var Ef þú gifist. Þegar laginu var lokið hélt ég að búið væri að leysa þetta einhleypa-bull fyrir mér, það eina sem ég þyrfti að gera væri að kaupa sætabrauð, slökkva á ofnunum í íbúðinni, elska einhvern heitt, syngja ljúflingslög og fela svo unnustann svo poliítið myndi ekki finna hann. Einfalt mál. Ég tók stefnuna á næsta bakarí til að hrinda áætlun númer eitt í framkvæmd.

Þetta gekk vel. Þá byrjaði næsta lag. Hvað ert að gera.....ég er að baka, baka í form! ....og seinna ef ég eignast mann þá elda ég svona fyrir hann. Ég tók U-beygju á subaronum og stefndi beint niður í fjöru, drullukaka og drullugúllas var greinilega málið. Það myndi leysa málin fyrir mig.

Þetta gekk vel. Ég komst næstum niður í fjöru þegar enn eitt lagið fór að hljóma. Út við gluggan stendur stúlkan og hún starar veginn á og hún bíður og hún vonar að hún vininn fái að sjá....

Auðvitað sit ég því við gluggan og bíð og bíð og vona að vinurinn láti sjá sig :) ég kökusnúða með sykurhúð og hor í nös því ég slökkti á öllum ofnunum.

Djók, það er dásamlegt að vera Singull og frábær!!!

Tveir nýjir eða endurnýjaðir bloggarar, Fríða frænka og Eygló frænka....welcome!!

Wednesday, September 05, 2007

5. september

Í dag er dagurinn sem ég notaði til að þess að heimsækja fiskvinnslufyrirtækið HB granda með ormunum mínum nítján.

Í dag er dagurinn sem ég potaði í fiska eins og löngu, skötusel, þorsk, ýsu og fleiri undarlega fiska.

Í dag er dagurinn sem ég fór um borð í togara í Reykjavíkurhöfn, það hef ég aldrei gert áður.

Í dag er dagurinn sem ég fór í badminton í fyrsta sinn síðan á síðustu öld.

Í dag er dagurinn sem Halldór Daði litli yndislegi frændi minn datt á andlitið og braut þrjár tennur í munninum sínum.

Þetta var viðburðaríkur dagur.

Tuesday, September 04, 2007

Barn sem getur barn

Ég get ekki hætt að hugsa um níu ára gömlu stúlkuna sem er komin fimm mánuði á leið þarna úti í Nigaraqua. Hvernig getur svona hræðileg staða verið réttlætt með því að þetta þóknist ekki trúarbrögðunum. Telur fólk þarna virkilega að það sé drottni þóknanlegt að barn sem rétt er farið að hafa vit á lífinu sé farið að bera annað barn í heiminn. Hvoru lífinu á að bjarga og hvoru á að fórna því augljóst er að líkami níu ára gamals barn getur ekki þolað þessa meðgöngu né fæðingu.

Hvað myndi gerast á Íslandi ef upp kæmist að níu ára gamalt barn væri með barni. Níu ára gamalt barn er í fjórða bekk....! Aumingja barnið.

Monday, September 03, 2007

Smá gáta!!!

Ég fór á tvær bíómyndir í kvöld. Fyrst á teiknimyndina með rottunni á veitingahúsinu og svo á myndina Knock up með Guggu....sem nota bene á samkvæmt öllu að verða af-óléttuð á morgun :) Spennandi!!!

En ein svona gáta til að létta lund.

Spurt er um hlut!
Sá sem býr hann til selur hann?
Sá sem kaupir hann notar hann ekki?
Sá sem notar hann veit ekki af þvi?

Um hvað er spurt??

Sunday, September 02, 2007

Daði þrítugi og Gunna þrjátíu og tveggja

Ég fór í enn eitt þrítugsafmælið á laugardaginn, gaman að segja frá því að þetta var fyrsta afmælið á þessu ári þar sem afmælisbarnið var karlkyns. Þetta var eins og öll hin þrítugsafmælin þetta árið alveg feikilega skemmtilegt. Hvítvínið rann ljúflega niður eftir heilan dag í bókhaldi. Fólkið í afmælinu samanstóð af Boot Camp liðinu hans Daða, kvikmyndaliðinu hans Daða og svo mér og Söndru....!

Við enduðum svo auðvitað niður í bæ og þvældumst á milli staða. Síðast fórum við inn á Rex og hristum skankana á litla dansgólfinu þar meðal Pólverja sem hefðu gert Gosa sjálfan í gabbstuði öfundsjúkan. Ég sver það þetta var svo stórt nef að það hefði verið hægt að standa þar undir í rigningu án þess að blotna.

Þetta var hellings skemmtilegt kvöld. Ég kom heim rétt um klukkan sjö í morgun og því bara nývöknuð.

Í dag er svo 2.september og vil ég óska Gunnslu systir til hamingju með árin þrjátíu og tvö....dirty two!!!

Hugleiðing

Maður hefur horft á ungar konur keppa í að verða bestu fyrirsætur í henni Ameríku. Maður hefur séð misjafnlega tónvíst fólk keppa í því að verða besti söngvarinn í henni Ameríku. Maður hefur séð misjafnlega fimt fólk keppa í því að verða besti dansarinn í henni Ameríku. Maður hefur séð subbufólk keppa í því að eiga sem skítugust heimili svo fínar breskar frýr geti skúrað eftir það. Fólk hefur líka keppt í því að hanna, keppt í viðskiptum, keppt í uppfinningum, keppt í því að búa í frumskógum og éta orma. Einnþátturinn gengur út á það að klippa eða það þykist vælukjóinn sem þar er í aðalhlutverki vera að gera. Allir þessir þættir falla undir það sem heita raunveruleikaþættir og ég skal alveg viðurkenna að ég hef gaman af sumum þeirra.

En.....það kemur alltaf en....ég á ekki orð yfir þáttinn sem áðan var í sjónvarpinu. Hann virtist ganga út á það að foreldrar keppa í því að ofkeyra börnin sín í íþróttum. Hvað er eiginlega að gerast þarna í henni Ameríku þegar átta ára gamalt barn er farið að æfa marga klukkutíma á dag og hrista líkama sinn eins og fullorðin súludansari frá Rússlandi, keppa í klappstýru!!

Mér fannst þetta alveg skelfilegt sjónvarpsefni og finnst að einhver sáli þarna úti mætti sparka í óæðri endann á þessum foreldrum....hvað er fólk að spá?