Döpur er dráttlaus kona.

...besti páskamálsháttur ever!!!

Thursday, January 31, 2008

Saga

Ég gekk í átt að Laugum núna seinnipartinn, lagði bílnum náttúrulega óralangt í burtu. Þetta var ísköld ganga, hífandi rok og smá snjófjúk. Allt í einu sé ég hvar einhver svartur hlutur kemur fjúkandi á móti mér. Ég hugsa Æ Æ það hefur einhver misst vettling. Ég beygi mig niður og tek hann upp og hugsa mér að setja hann inn í anddyrið á Laugum þar sem eigandinn gæti vitjað hans, miskunnsami samherjinn að verki. Það var kalt og ég var ekki mikið að skoða það sem ég hélt á í höndinni heldur hljóp við fót inn í anddyri. Þegar þangað var komið kannaði ég betur farminn. Og já ég skal segja ykkur það, þarna í anddyrinu á World Class, þar sem miljón manns horfðu á hélt ég á einhvers annars manns - NÆRBUXUM!!!! oj

Sem betur fer var ég með vettlinga.

Monday, January 28, 2008

Ég hugsaði...

...mig langar til að henda mér á mjúkt ský og sjá hvað gerist, myndi ég detta í gegnum það eða fá mýkstu lendingu sem hægt er að hugsa sér?

...mig langar að fleygja mér í haug af sápukúlum, hvernig skyldi vera að lenda í þeim, myndu kúlurnar draga úr fallinu?

...mig langar líka að hoppa inn herbergi fullt af litlum mjúkum boltum, svona eins og er í Ikea, ég myndi svo liggja á bakinu og baða út öllum öngum, hendandi litlum boltum í allar áttir. En ég veit að mér yrði ekki hleypt í barnalandið í Ikea.

...mest langar mig samt að fleygja mér í mjúkan karlmannsfaðm, því ég veit að hann myndi ekki gefa eftir.

Góðar stundir.

Sunday, January 27, 2008

STuttur fyrirvari = Gott djamm

Það var seint á miðvikudagskvöld sem hugmyndin kom upp. Á fimmtudagsmorgun var hringt og viti menn, ég og Sandra fengum miða á Selfoss þorrablótið sem búið var að vera uppselt á í nokkrar vikur. Ég hef oft hugsað um að fara á þessa skemmtun sem KB sjálfur kom á fót en í gær varð að því.

Í stuttu máli þá skal kvöldinu lýst með þessu orði: Hrikalegaskemmtilegt. Margt markvert gerðist og ég hitti fullt af fólki sem ég hef ekki séð lengi. Svona var þetta nokkurn veginn.

- Þorramaturinn var skemmdur eins og þorramatur er alltaf. Harðfiskurinn var góður og smjörið mjúkt.

- Borðvínið var undir borði og smakkaðist sérstaklega vel. Breezer half sugar er nýja uppáhaldið mitt.

- 18 ára gömul vanlíðan var rædd út og niðurstaðan var sú að þetta var allt saman einn stór og langur misskilningur.

- Þetta sagði einn um mig: Þú ert alltaf svo yndisleg, falleg og skynsöm stúlka, úfff maður roðnar nú bara við svona athugasemdir.

- Ekki einn, ekki tveir, ekki þrír heldur fjórir þurftu að koma því á framfæri við mig að ég væri alveg fáránlega lík Björk. Ég fór að hlægja í öll skiptin og sagði, varstu að lesa bloggið mitt? Allt fólkið svaraði eins, ha! ertu með bloggsíðu? Ég tel því að ég verði að fara að sætta mig við það að vera tvífari Björk, skyldi ég ekki geta fengið einhverjar sporslur út á það?

- Hvannadalshnjúkur 16. apríl, ætti maður að þora?

Takk fyrir Selfoss, yfir og út!

Wednesday, January 23, 2008

Ekki ganga yfir þig!!!

Ég fór í Laugar áðan, kom náttúruelga á versta tíma þarna um fimm svo engin bílastæði voru í nálægð við innganginn. Samt vonar maður alltaf að það sé laust stæði einhvers staðar nálægt og keyrir þar af leiðandi alltaf í gegnum stæðið sem er næst. Þá sé ég mér til mikillar gleði að ung kona kemur gangandi að bíl sem er sennilega í besta stæðinu við húsið og setur hann í gang. Ég náttúrulega stoppa og set stefnuljós og hugsa mér gott til glóðarinnar að leggja þarna og þurfa bara að labba 30 skref til að vera komin inn. Ég hendi mér inn í stæðið og sé mér til mikillar skelfingar að þetta stæði var ætlað fyrir fatlaða. Ég setti auðvitað í bakkgír og bakkaði út úr því enda engin ástæða fyrir mig að leggja þarna með tvær heilar fætur og haus í lagi. Gellan sem lagt hafði þarna á undan mér var greinilega eitthvað fötluð í hausnum og taldi sig þess vegna hafa leyfi til að leggja þarna.

Ég lagði því óralangt í burtu og labbaði í slabbinu og snjókomunni heim að Laugum. Þegar ég labbaði fram hjá fatlaða stæðinu var einhver annar búin að leggja í það, annar Yaris sem átti alveg örugglega ekki rétt á því að leggja þarna heldur.

Það er náttúrulega alveg hrikalega fyndið að þetta ofurhrausta fólk sem þarna kemur þurfi að leggja í stæði sem ætluð eru fyrir fatlaða, eða uppi á gangstéttum eða hreinlega á götunni bara til að spara sér nokkur skref svona rétt áður en það fer í ræktina. Minnir mig á heilsuræktina sem ég sá einu sinni í Ameríku en þar voru rúllustigar upp að húsinu....! Hvað er það?

Ég hef því ákveðið að leggja framvegis sem lengst frá innganginum og fá extra hreyfingu út úr því að labba inn :)

Góðar stundir.

Thursday, January 17, 2008

Nýja árið

Finnst ykkur ekki geggjað þegar það er allt á kafi í snjó. Ég er að fara í bústað um helgina með stelpunum mínum og hlakka mikið til, það verður ábyggilega sjúklega gaman. Fór í ríkið áðan og keypti fyrir heilar 5000 krónur, held hreinlega að ég hafi aldrei keypt fyrir svo mikið. Nema kannski fyrir einstaka þjóðhátíð.

Haldið þið ekki að ég hafi hlaupið tíu kílómetra tvisvar sinnum í þessari viku. Í blíðskaparveðri síðasta laugardag og svo í brjáluðum snjó og ofankomu í gærkvöldi. Ég skal alveg viðurkenna að ég átti ekki mikið eftir á orkutanknum á seinni kílómetrunum í gær, sérstaklega eftir að hafa lyft um morguninn líka. Maður sér alveg fram á það að geta komist þennan 21 kílómeter sem stefnt er að í ágúst með þessu áframhaldi. Eða hvað?

Ég fékk glaðning í póstkassann minn í dag með þvílíku gylliboði, gott ef maður lætur sig ekki hafa það og gengur að þessu góða boði. Er maður spenntur, eða spenntur?

Sunday, January 13, 2008

Hvenær er ég búin?

Í skólanum á föstudaginn sagði ég við nemendur mína. Alltaf þegar þið klárið blaðsíðu megið þið koma hérna upp að töflu og teikna einn broskarl, í lok tímans skulum við svo telja saman broskarlana og sjá hvað þið gátuð reiknað margar blaðsíður. Um leið og ég sleppi síðasta orðinu, stendur einn nemandi minn upp og gengur að töflunni og teiknar á hana broskarl. Ég náttúrulega segi ertu búin með eina blaðsíðu. Hann horfir á mig lítill, bláeygur, með hor í nös og stórt bros og segir já ég var svo heppinn að það var bara eitt dæmi eftir svo ég var fljótur að klára eina blaðsíðu.

Ég skal alveg viðurkenna að þetta var ekki alveg það sem ég hafði í huga en það gerist ekki einlægara en þetta. Auðvitað var barnið að klára blaðsíðu þótt það hefði bara gert eitt dæmi á henni.

Ég átti alveg hrikalega góða helgi. Byrjaði á því að hlaupa tíu kílómetra á laugardagsmorgun og er alveg hrikalega stolt af því. Ég kíkti svo aðeins á útsölur við annan mann, heimsótti fólk, fór aðeins á rúntinn, vann helling í tölvunni, þvoði þvott, ryksugaði og svo framvegis. Allt saman alveg hrikalega uppbyggilegt.

Að lokum: það skiptir ekki máli hversu lengi þú dveldur á blaðsíðunni heldur það að þú náir að klára hana með bros á vör.

Thursday, January 10, 2008

Annáll 1. hluti.

Fyrsti hluti af annál ársins, svona eitthvað af því merkilega sem vert er að segja frá árinu 2007.

Fjölskyldumeðlimur ársins: ég verð eiginlega að segja frænkur mínar. Við sautján sem allar erum afkomendur ömmu dúllu og Bjarna afa ákváðum að hittast saman í fyrsta sinn í lok árs. Það var virkilega gaman að hitta allar þessar frábæru stelpur sem maður hefur ekki fengið nógu gott tækifæri til að kynnast fyrr en nú. Ég hlakka bara til og kýs því þessar sautján sem fjölskyldumeðlimi ársins, ég vona að þetta sé bara byrjunin á einhverju betra og stærra.

Barn ársins: Það fæddust fullt af börnum tengdum mér á þessu ári. Það mikilvægasta og fallegasta er án vafa litli ljósgeislinn hún Unnur Birna bróðurdóttur mín. Draumabarn í alla staði með fallegt bros og björt blá augu. Ég fékk að vera skírnarvottur hjá henni sem mér þótti mikill heiður og mun byrja að miðla visku minni til hennar um leið og hún fer að hafa vit til. Þangað til knúsast ég bara í henni. Svo átti Gugga besta vinkonu mín líka lítinn unga, sem gefið var nafnið Dagný Guðmunda, það barn fær að eiga vinstri gáttina í hjarta mínu. Önnur börn sem fæddust árið 2007 heita Mattías, Helga, Særún, Stormur, Tryggvi, Róbert og svo fæddist ein frænka í Garðinum í árslok.

Fullt af börnum eru svo á leiðinni svo næsta ár verður líka feikilega gjöfult. Til dæmis er Gunna systir ófrísk, Ingveldur vinkona mína, Hanna Fríða frænka mín, Inga Dóra frænka mín, Unndís Ósk frænka mín og á vissan hátt Sigrún frænka mín. Allt saman mjög spennandi og vil ég benda þessu fólki að nöfnin Jana og Janus er feikifalleg 

Vinur ársins: það er erfitt að ákveða að einn vinur sé betri en annar. Allir vinir mínir eru mér mikilvægir og hafa reynst mér vel á mismunandi tímum á þessu ári. Ég verð þó að nefna Sex and the city gengið, Carrie, Samantha, Charlotte og sjálfa mig Miröndu. Þið eruð mér sem fyrr afskaplega mikilvægar kæru vinkonur og hef ég notið allra samvista minna við ykkur á árinu sem er liðið.

Áhyggjur ársins: falla til handa bróðir mínum sem tók upp á því að missa sjónina seinnipart sumars. Í hönd fór langur biðtími í alls kyns rannsóknum sem leiddu að lokum til niðurstöðu. Þótt það hafi verið léttir að fá skýringu á þessu þá fylgdi því líka ákveðin sorg. Ekkert við því að gera…that´s life!

Brúðkaup ársins: Þetta ár var nokkuð ríkt af brúðkaupum. Það eftirminnilegasta var náttúrulega haldið þann sjöunda dag, sjöunda mánaðar á árinu. Þá giftu sig í Torfastaðakirkju Margrét Unnur æskuvinkona mín og Fannar KR-ingur með meiru. Veislan var svo haldin með pompi og prakt í Aratungu. Skemmtilegt brúðkaup sem gleymist seint. Til hamingju með það Mr. og Mrs. Ólafsson

Útför ársins: Blessunarlega þurfti ég bara að fara í eina jarðarför í ár sem er jafnframt einni meira en í fyrra. Siggi frændi bróðir hans afa Egils dó á árinu. Útförin var falleg, með fallegum söng og skemmtilegum og eftirminnilegum orðum prestsins. Blessuð sé minning Sigga frænda, ég gleymi þér aldrei.

Kvöld ársins: Úr mörgu er að velja og helmingnum er ég sennilega búin að gleyma. Skemmtilegasta djammkvöldið var ábyggilega fyrra djammið út í Glasgow, vá hvað við skemmtum okkur vel. Afmælið hennar Kristínar Birnu og djammið í kjölfarið á því er líka minnisstætt, alger snilld. Mér koma líka í huga ótal ferðir í pottinn á Selfossi með bjór í hönd og spjalli um hitt og þetta. Vinnudjammið í lok árs var líka skemmtilegt. Æ það eru öll kvöld frábær í góðra vina hópi.

Utanlandsferð ársins: hvort sem þið trúið því eða ekki þá fór ég í tvær utanlandsferðir á þessu ári. Fór fyrst til Glasgow í mars og svo til Boston í byrjun desember. Ferðirnar tvær voru mjög ólíkar fyrir tveggja hluta sakir, önnur ferðin var yfirlýst skemmti/djamm/verslunarferð, meðan hin snérist um verslun/kaffi og veitingahús. Báðar ferðirnar voru mjög skemmtilegar og skilja báðar eftir góðar minningar í minningabankanum. Ég vil sérstaklega minnast á vinkonu mína Ingveldi sem var með mér í báðum þessum ferðum. Ef Ingveldur væri karl myndum við eiga alveg hrikalega vel saman.

Ferðalag ársins: Hornstrandir. Eitt orð stutt og laggott. Algjör paradís sem skartaði sínu fegursta í glaðasólskini í tíu daga. Ég fæ gæsahúð við það eitt að sitja hér og hugsa um þennan tíma á Horni. Ég hlakka mikið til að fara aftur næsta sumar.

Skyndibiti ársins: tvímælalaust djúpsteikta samlokan með flórsykrinum sem Ingveldur pantaði á kokteilastaðnum í Boston…..hahaha! Þið getið ekki einu sinni ímyndað ykkar bragðið af henni. Hver borðar svona mat?

Kjánalegasti atburður ársins: án vafa kertafleytingin út af þessu hundsspotti þarna fyrir norðan. Vá hugsið ykkur aumingjans fólkið sem þurfti að sjá sjálft sig í fréttaannálnum núna um áramótin skælandi yfir einhverjum ófríðum hundi sem var ekki einu sinni dauður. Ég myndi andast úr skömm. I love you – ið hennar Yoko fer líka ofarlega á listann, það var meira svona kjánahrollur og skipta um stöð heldur en skömm.

Íþróttamaður ársins: ég ætla ekki að þykjast hafa áhuga á fótbolta eða einhverjum öðrum sjónvarpsíþróttum til að geta dæmt um íþróttamann ársins. Miklu betra að hugsa bara um þann íþróttamann sem ég þekki persónulega og hefur sinnt sinni íþrótt vel. Þar er efst á lista Helena nokkur Jónsdóttir sem keppti í þrekmeistaranum og náði frábærum árangri. Hún fór svo til Dubai að keppa í the best of the best og náði enn betri árangri. Árangri sem íslenskum fjölmiðlum þótti ekki ástæða til að minnast á, næstum til skammar. En við klöppum öll fyrir Helenu, hún lengi æfi.

Sunday, January 06, 2008

Af hverju finnst fólki ég vera lík Björk?





Nei ég held bara ekki!!!

Wednesday, January 02, 2008

Tíminn flýgur

Ég fékk eina mjög skemmtilega jólagjöf frá góðum vini. Svona lítið dagatal sem smá vinaskilaboðum fyrir hvern dag ársins. Í dag sagði dagatalið "the better part of one´s life consists of one´s friendships" Held ég skilji þetta vel. Samt ákvað ég að sleppa bíóferðinni sem ég planaði með góðvini mínum í gær sökum peningaleysis. Ég ákvað svo að afþakka heimboðið hjá einni frænku í kvöld sökum leti. Þetta er ekki alveg í takt við það sem dagatalið bauð í dag, eða hvað?

Ég fór í ræktina í dag og átti þar með einum persónulegu samskiptin við aðra manneskju. Þetta er samt svolítið magnað. Maður gengur um með ipod-inn í eyrunum, talar ekki við neinn en er samt staddur í miklu fjölmenni. Er maður þá nokkuð í samskiptum við aðra, heldur bara í sínum eigin heimi með gamaldagsrokkurum og svitaskellum.

Nýjustu fréttir af snúrunni eru þessar, ég er búin að hengja og taka af snúrunni þrisvar sinnum, dótið frá nágrananum hangir enn á snúrunni, orðið verulega illa lyktandi vegna tóbaksstækjunnar frá dómaranum á kantinum, meira að segja minn vel ilmandi þvottur getur ekki bjargað honum.

Svo er nú það. Hinn þriðji dagur janúar mánaðar er framundan sem þýðir að á morgun þarf ég að fara að vinna og vakna klukkan sex í ræktina.

That´s life!!!

Klemma

Klemma áramótanna.
Fyrir utan íbúðina mína er þvottaherbergi sem nýtast á allri blokkinni. Hingað til hefur það þó verið þannig að engin hefur nýtt þetta herbergi nema ég. Enda sú eina í blokkinni sem ekki hefur þurrkara (á reyndar þurrkara en get ekki notað hann). En undanfarnar vikur hefur annarra manna þvottur farið að birtast á snúrunni, þá svona stór þvottur - sængurföt og handklæði. Alla vega þessi sem setur á snúrurnar tekur allar snúrurnar. Notar ekki klemmur heldur leggur sængurfötin yfir snúrurnar svo ekkert annað rúmast á þeim. Það er svo sem ekkert við því að segja enda hef ég engan einkarétt á snúrunum en þessi stórþvottamaður lætur þvottinn svo vera á snúrunum dögum saman.

Ég kom fram með þvottabalann minn áðan og ákvað eftir smá umhugsun að ýta þvottinum til á snúrunum, þvottinum sem búin er að hanga þar síðan 29.desember...grrrr!!! Finnst ykkur þetta frekt?

Vona að þvottafólkið verði ekki brjálað. Er að vinna í að skrifa áramótaannálinn.