Döpur er dráttlaus kona.

...besti páskamálsháttur ever!!!

Thursday, August 31, 2006

Skokktúrinn

Ég fór að hlaupa hinn venjulega skokkhring áðan. Ég hleyp niður í Voginn og byrja hringinn. Nokkra stund hleyp ég á malbikinu, svo breytist malbikið í malarstíg. Ég skokka aðeins áfram og þá sé ég að það stendur bíll á frekar asnalegum stað, á miðjum stígnum sem ég er að hlaupa eftir. Ég hugsa svo sem ekkert mikið um það, heldur líð bara áfram á mínum undurléttu fótum...hehe!! Þegar ég er alveg að koma að bílnum sé að ég einhverja hreyfingu inn í bílnum og algerlega án þess að geta brugðið hönd fyrir auga þá blasir við mér loðinn rass. OJ. Ég varð að hægja á mér og troðast með fram bílnum sem lagt var eins og áður sagði á miðjum göngustígnum. Við skulum segja til að þið lesendur skiljið nákvæmlega hvað við blasti, tvö andlit, tveir rassar, eitt typpi, ein budda og tvo mjög svo rauð andlit. Þarna höfðu þau hreiðrað um sig í litlum bíl, búin að leggja sætin fram og fengu sér einn stuttan í aftursætinu, héldu sennilega að þarna væri enginn á ferðinni.

Ég skellti upp úr og hljóp áfram. Eftir svona fimmtíu skref mæti ég tveimur eldri konum í kvöldgöngu. Múhahaha og vá hvað mig langaði að læðast á eftir þeim og heyra hvað þeim fannst um kynlífið í skóginum.

Wednesday, August 30, 2006

Að vera nörd...!

Hafið þið hugsað út í það að ef það á að sýna algjört nörd í sjónvarpi er það nörd í meirihluta tilvika með rautt krullað hár, freknur og gleraugu. Verandi hluti af einni "rauðustu" fjölskyldu norðan Alpafjalla hefur mér oft sárnað þessi samlíking. Ef maður er með rautt hár, er maður þá nörd?

Í dag hljóma auglýsingar um knattspyrnuliðið KF nörd á öllum útvarpsstöðum. Þar segja liðsmenn KF nörd frá því hvers vegna þeir séu nördar. Þegar mér leiðist þá horfi ég bara á góða júróvisíon keppni (því þær fást náttúrulega á vídeoleigunni) eða skelli mér í diskógalla. Annar segir jaa ég ræð sudoku. Sá þriðji segir ég fer nú bara í tölvuna. Jæja þá hafið þið það, það að hafa gaman af júróvisíon gerir þig ekki bara gay heldur líka nörd, það að ráða sudoku gerir þig ekki kláran (nota bene ég get ekki ráðið Sudoku) og það að vera í tölvunni gerir þig nörd? Fuck ég er alveg úti! Ég vona að það sé engin rauðhærður í KF nörd. Og svo ég bara spyrji...eru fótboltamenn einhvern tíma nördar?

Um daginn las ég eftirfarandi auglýsingu í fréttablaðinu: Óskum eftir leikurum á aldrinum 11-13 ára til að leika stór hlutverk í nýrri íslenskri kvikmynd. Við leitum að duglegum strák, má hafa sérstakt útlit, jafnvel vera nördalegur...í framhaldi stendur svo Allir rauðhærðir koma þó til greina.

Hvaða foreldri myndi segja við strákinn sinn, komdu litli rauðhærði nördinn minn þú getur leikið í kvikmynd því þú ert með sérstakt útlit.

Alla vega finnst mér gaman að júróvisíon (þó ekki gay) ég ræð krossgátur í stað sudoku og það líður varla einn dagur án þess að ég kveiki á tölvunni. Niðurstaðan er því....Ég er NÖRD og er STOLT af því!

Tuesday, August 29, 2006

Aumingja Barbí

Og fleira skemmtilegt. Það var haldin veisla í dvergabyggð um daginn til að bjóða nýjasta íbúa byggðarinnar velkomin. Sá nýjasti ber nafnið Plútó og hefur hingað til verið skilgreindur sem stjarna þ.e. stjarna á himninum. En nú hafa einhverjir Stjörnungar ákveðið það að Plútó sé ekki stjarna heldur dvergur??? Ekki það sé eins líkt og rautt epli og gult epli. Heyrst hefur að Mjallhvít sé einstaklega ánægð með nýja íbúa dvergabyggðar enda hún orðin löngu leið á hinum stuðdvergunum.

Aumingja Barbí, ekki nóg með að hún hafi þurft að losa sig við gamla ljóta Ken heldur náðust nú myndir af henni í annarlegu ástandi, nú eða annarlegum stellingum!!! Hehehe einhver listamaður opnaði svo sýningu um daginn þar sem skömm Barbí varð öllum kunn, Barbí er því komin á hillu með París Hilton og fleirum sem náðst hafa við reikning á rúmfræði. Aumingja gamla Barbí!!

Það sem gefur lífiinu smá lit

....mér finnst alveg sérstaklega skemmtilegt að lesa skrýtnar fréttir, maður getur hlegið endalaust af vitleysisganginum í fullorðnu fólki. Finnst ykkur til dæmis ekki sérkennilegt að fleiri í þessum heimi þjáist af offitu heldur en hungri. Hvernig stendur á því að fullkomið samfélag eins og það sem við búum í getur ekki leiðrétt þetta. Ég til dæmis gæti alveg sleppt því að borða góðan helming af því sem ég borða ef ég myndi vita að það færi með þyrlu og upp í svangan munn í Afríku, nú eða bara í henni Reykjavík.

En jæja ástæða þessara skrifa er frétt sem er að finna á mbl en þar segir frá póstmanni sem rekinn var úr starfi í London fyrir að berjast gegn fjölpósti. Kannski skiljanlegt að karlgreyið vilji reyna að létta töskuna sína sem er ábyggilega mjög þung þegar mörg kíló af fjölpósti er komin í hana. Póstkarlinn stóð sem sagt í útgáfu þar sem kenndi fólki hvernig það gæti losnað við fjölpóstinn þ.e. leiðbeiningar til að losna við ruslið. Fyrir þetta var hann rekinn, enda kannski svolitlir hagsmunaárekstrar þarna á ferðinni. Hefði sennilega ekkert verið sagt við því ef kennari hefði rekið þennan áróður!!!

Ég labbaði með fulla körfu af blöðum í endurvinnslugáminn um helgina. Mig langar í svona leiðbeiningar :)

Monday, August 28, 2006

Esjukerling

Ég ákvað í góða veðrinu í gær að heimsækja frú Esju í dag. Var búin að ætla að skreppa á hana alla helgina en úr varð að mánudagurinn væri bestur. Ég fór því með fjallagallann í vinnuna og klukkan sex skellti ég mér í hann og af stað. Eitthvað hafði þó veðrið breyst síðan ég fór inn í skólann klukkan átta um morguninn. En þar sem markið hafði verið sett á Esjuna var ekkert verið að láta það á sig fá.

Ég byrjaði því gönguna í þunnri peysu, stuttum buxum og buffinu góða. Til að byrja með var þetta allt í góðu. Tréin veittu gott skjól fyrir vindinum og ég hlustaði bara á rómantísku tónlistina í spilaranum. Eftir nokkra göngu var ég hætt að heyra í spilaranum og gott ef mér var ekki orðið kalt amk. inn fyrir þunnu peysuna. En áfram skyldi upp, urð og grjót upp í mót, ég skal ekki láta þetta stoppa mig. Þegar vindurinn öskraði í verstu kviðunum og ég beygði mig eins og banani til að standa á móti honum fann ég hvernig stress dagsins fauk í burtu. Vindurinn öskraði enn hærra og ég öskraði bara á móti. Ég hékk bókstaflega á skiltinu sem spurði mig hvort ég vildi fara löngu eða stuttu leiðina. Þá ákvað ég að Kári hefði betur að þessu sinni og snéri við heim, enda varla stætt.

Ég var ein á Esjunni í dag, enginn bíll á stæðinu, engin sem leggur í þessa ferð í svona veðri eða vindum. Ég fór svo í mat hjá systir og þegar ég kom þaðan út var logn - vindurinn búin - frekar svekkjandi finnst ykkur ekki!

En héðan í frá mun Esjan alltaf verða heimsótt klukkan 18 á mánudögum, allir áhugasamir velkomnir með :)

Sunday, August 27, 2006

Eymundson

Ég lenti í skemmtilegu atviki í dag. Ég fór í Smáralind í leit að nýjum inniskóm. Ekki var réttu tegundina að finna í þessari lind Smára. Ég fór því bara í uppáhaldsbúðina, Eymundson og fletti í gegnum bækurnar þar. Finnst alltaf gaman að sjá yfir "skiptibókamarkaðinn" í bókabúðum á þessum tíma. Þarna sá ég Sýklafræðibókina sem ég las í kvöldskóla, Orð af orði eða orðaforði íslenskubókina og hver man ekki eftir "min ven thomas". Það liggur við að manni langi bara aftur í fjölbraut og læra það sem maður gerði ekki á þessum árum. Ég fór til dæmis aldrei í eðlisfræði...ætti ég kannski að skella mér í eðl 103?

En aftur að skemmtilega atvikinu. Þarna er ég renna augnum yfir bókabúnkan þegar ég sé tvo mjög ráðvillta foreldra standa við rekka fullan af alls kyns stílabókum og ritföngum. Það þarf reyndar að fylgja sögunni að foreldrarnir töluðu ekki íslensku og lásu hana pottþétt ekki heldur. Þarna stóðu þau með dóttur sinni sem greinilega var að byrja í skóla og horfðu á innkaupalistann fyrir skólann. Ég veit alveg að ég er oft afskiptasöm en mér fannst þetta bara eitthvað svo sorglegt á að horfa. Ég fór því og bauð fram aðstoð. Fyrst skilaði ég þeim bókum sem í körfuna voru komnar því þær voru ekki að réttum litum. Úr varð að ég gekk um Eymundson með þrjá myndarlega Asíubúa á eftir mér og valdi skóladót fyrir snótina litlu. Mér fannst ég bara gera nokkuð góð kaup og foreldrarnir brostu út að eyrum.

Góðverk dagsins var því búið og þess vegna fylgdi ég gömlu konunni ekki yfir götuna, hún stendur ennþá þarna á gangstéttinni og kemst ekki yfir....hehehe Eitt sinn skáti....aldrei skáti!!!

Friday, August 25, 2006

Vídeoleigan

Ég ætla ekki að fara á djammið um helgina. Þetta er mjög meðvituð ákvörðun eftir ævintýri síðustu helgar. Ég sver það að sjaldan hefur munnurinn sagt eins ljóta setningu upphátt. Svo nú skal horfið frá áfengi í bili og leitað af ljósinu í fjöllunum....eða eitthvað þannig.

Með þetta að markmiði fór ég á vídeoleiguna áðan. Valdi vel eina nýja og eina gamla mynd og fór svo í biðröð við kassann. Þegar ég var komin fremst í röðina, segir unglingsstúlka með stóra eyrnalokka og tyggjó..hver er kennitalan þín? Ég þyl hana upp ekki of hátt enda engin ástæða til að auglýsa kennitöluna sína í búð fullri af fólki. Gellan sem hefur engan áhuga á mér pikkar inn töluna annars hugar og segir svo þegar hún er búin að því...Baldur! Nei segi ég þú hefur gert eitthvað vitlaust. Gellan segir þá kennitöluna mína frekar hátt, segir hana rétt og lítur svo á mig og segir það kemur bara Baldur.

Já sagði ég, en þú hlýtur að hafa gert eitthvað vitlaust því ég heiti ekki Baldur. Við hliðina á mér flissar gaur og segir svo "ertu viss"? svo hlógum við. Gellan með tyggjóið segir ég byrja bara aftur. Hver er aftur kennitalan þín? Aftur þyl ég upp kennitöluna, gellan pikkar og segir aftur...Baldur? Nú flissa allir í biðröðinni, ég horfi í kringum mig og svo á afgreiðlsudömuna og segi svo...Ég veit ekki hvernig ég á að svara þér. Ég sver það ég fór verulega að hugsa hvort ég þjáðist af minnisleysi eða eitthvað. Einnig flögraði það að mér að einhver Baldur hefði stolið kennitölunni minni og væri búinn fylla nafnið mitt af ógreiddum klámmyndum. Gellan horfði á mig með hendur á mjöðm og ég vissi ekki hvort ég ætti bara að viðurkenna að ég væri í raun klæðskiptingur sem héti Baldur.

En sem betur fer kom strákur sem vinnur þarna og reddaði málunum. Engin skaði skeður nema að Janus varð Bleikur Baldur í vídeoleigu fullri af fólki.

Later....

Wednesday, August 23, 2006

Takk fyrir að reykja!!

Undarleg auglýsing...frumsýnd 25 ágúst. Hver skyldi skrifa svona titil? Nokkrar hugmyndir!
- auglýsingin gæti komið frá tóbaksframleiðendum eða tóbakssölumönnum, augljóslega græða þeir á því að fólk reyki.
- auglýsingin gæti komið frá heilbrigðisyfirvöldum, jú fleiri reykingarmenn þýða fleiri spítalaheimsóknir, krabbaveiki eins og litli frændi segir.
- auglýsingin gæti komið frá kirkjugörðum sem vantar niðursetninga.
- auglýsingin gæti komið frá fólki í sjálfsmorðhugleiðingum, þá stillir það sér hjá reykingarmanninum og gleypir viðbjóðin hjá honum.
- auglýsingin gæti komið frá þeim fáu sem ennþá finnst ógeðslega töff að reykja.
- auglýsingin gæti komið frá þeim sem á marga óvini sem reykja....maður gæti óskað þeim þennan ósóma.

Satt að segja mjög óviðeigandi frasi og færsla ef því er að skipta.

......Takk fyrir að reykja..Hver segir svona???

Tuesday, August 22, 2006

Tilveran er svo skrýtin

...eða öllu frekar þetta blogg er svo skrýtið.
Nýjasta færslan er á hinni síðunni....
www.janus.bloggar.is

Monday, August 21, 2006

Sumarið búið!!

Samkvæmt dagatalinu er sumarið ekki alveg búið. Fyrsti vetrardagur ekki fyrr en eftir nokkrar vikur. Allt er ennþá grænt. Fuglarnir syngja ennþá og sólin brosir breiðara en oft áður. Samt er eins og sumarið sé búið. Á morgun mæta börnin mín í skólann. Sum í fyrsta sinn. Önnur eru að snúa aftur. Ég er komin í risastóra stofu með bláum sófa og stórum opnanlegum gluggum. Ég þarf því ekki að mæta í hlýrabol í vinnuna þennan veturinn.

Ég er að vinna í fleiri færslum, kassinn með hugmyndum af skrifum er orðin ansi fullur og kannski sem betur fer að veturinn sé komin því nú hef ég aðeins meiri tíma heima.

Skrifa meira seinna!!!

Friday, August 18, 2006

Helgin framundan!!

Það væri ekki slæmt að geta skipt sér upp í fleiri manneskjur um helgina. Manneskjuna sem langar í útilegu með frænkunum, manneskjuna sem langar að hlaupa í Reykjavíkurmaraþon, manneskjuna sem langar í fjallgöngu fyrir norðan, manneskjuna sem langar að labba um miðbænin með öl í hönd og skoða menningarviðburðina, manneskjuna sem þyrfti að vera í vinnunni, manneskjuna sem þyrfti að ná að sofa fyrstu nóttina síðan í júlí og svo framvegis.

Þetta verður ekki auðveld helgi skal ég segja ykkur!!!

Tuesday, August 15, 2006

Lambalæri!!

Maður var stöðvaður á leiðinni inn á tónleika með Morrisey því hann var með lambalæri með sér. Söngvarinn er víst algjör andstæðingur kjötvöru og hefur þessi gaur heldur betur ætlað að bögga hann með lambalærinu. Finnst þetta frekar fyndið. Ég hefði frekar borið með mér sviðakjamma og sogið úr honum augun fyrir framan söngvarann. Haha það hefði verið saga til næsta bæjar og mun áhrifaríkara en Lambalæri!!

Me me!

Saturday, August 12, 2006

Gay pride

Ég komst af því í dag að ég hef falið mig of lengi á bak við fordóma annarra. Ég hef aldrei þorað að viðurkenna þetta fyrir neinum. En eftir daginn í dag þar sem andlit fólksins ljómuðu í gleði og hamingju sama hvaða tegund það var eða er þá get ég ekki haldið aftur af þessu lengur. Þetta nagar mig að innan og eyðileggur hverja gleðistund.

Ég segi þetta því núna og vona að þið virðið mig fyrir það.......Ég er hommi!!!!

Friday, August 11, 2006

11. ágúst!

Í dag á litli bróðir minn afmæli, verður hvorki meira né minna en 24 ára. Ég man alveg þegar daginn sem Siggi fæddist, seinasti séns fyrir pabba að sjá barnið sitt fæðast sem mamma skaut út eins og fótboltum meðan hann lagði bílnum. Sigrún pabbasystir kom að passa okkur Gunnu og ég fékk öskurkast um morgunin þegar mamma var ekki í rúminu heldur Sigrún. Siggi hefur aldrei farið troðnar slóðir og gat náttúrulega ekki komið alveg hefðbundið í heiminn og reyndi af öllu megni að hanga í naflastrengnum til að sleppa ekki mömmu sinni. Sleppti henni reyndar ekki næstu fjögur ár, en það er önnur saga.

En allt hafðist þetta og þessi undurfallegi rauð-krullhærði drengur með stóru bláu augun sín hefur verið gleðigjafi síðan.

Til hamingju með daginn Elsku Siggi minn!!!

Thursday, August 10, 2006

skýring???

Jæja, náði að koma annarri færslunni inn á blogger og síðan ekki söguna meir! Ef einhver kann skýringar á þessari óþægð í herra Blogger þá endilega deila því með mér!!!

Ykkar bíður því önnur færsla á Janus bloggar.

Að safna í leiki!!

...ég man eftir þegar allir krakkarnir í Holtahverfinu komu saman í Stekkholtinu fyrir framan garðinn hjá Selmu frekju og fóru í leiki. Það sem við hræddumst mest var að boltinn myndi fara inn í garðinn hjá Selmu og hún kæmi brjáluð í hurðina þegar einhver reyndi að ná í hann. Oftast var farið í brennó, frá þessum staur að þessum staur. Minnstu krakkarnir sem skildu ekki leikinn fengu að vera súkkulaði og voru þá aldrei úr. Held það hafi aldrei verið neitt mál hver vann í hvert skipti, við byrjuðum bara strax upp á nýtt. Stundum fórum við í Punktur og króna, það var líka gaman og úfff hvað maður gat hlaupið endalaust. Stundum var líka farið heim til Hafsteins því þar var hægt að fara í yfir, yfir bílskúrinn. Þetta voru gömlu góðu dagarnir þegar sjónvarpið og tölvuleikirnir heilluðu ekki. Ég skora því á ykkur lesendur að koma með mér í brennó í Stekkholtinu, Selma er löngu flutt og þetta yrði frábært skemmtiatriði!!!

Hver nennir í brennó?

Wednesday, August 09, 2006

Bláu augun þín!

Bláu augun þín söng hann og leit djúpt í augu mín, blika djúp og skær, sagði hann og færði sig nær. Bláu augun þín söng ég og leit djúpt í augu hans, blika djúp og skær, sagði ég og færði mig nær!! Með svitadropa á nefinu segir hann: þú ert ekki með blá augu! Nei segi ég, ég er með græn augu! Með svitadropa á nefinu segi ég: þú ert ekki með blá augu! Nei segir hann, ég er með grá augu! Kúl segjum við bæði: þá erum við bara að syngja fyrir einhvern annan sagði hann.

Svo hvarf hann á braut, enda líklegri til árangurs í sumo-glímu en framtíðar uppþvotti.

fýlublogger

Aftur er blogger að stríða mér!!!
Hér er nýja færslan mín: www.janus.bloggar.is

Saturday, August 05, 2006

Litla dúllan!!



Ég bara varð að sýna ykkur þessar myndir af mér og þessum yndislega dreng sem heitir Halldór Örn Jóhannsson - sonur Gurrý og Jóhanns í Keflavík. Myndi alveg vilja fá eitt svona eins eintak í hendurnar eftir helgi.....góðar stundir!