Döpur er dráttlaus kona.

...besti páskamálsháttur ever!!!

Wednesday, June 22, 2005

Númer 20.000 nálgast!

Það var fimmtudaginn 13 janúar 2005 sem teljarinn small í 10.000. Núna svona fimm mánuðum síðar er hann alveg að smella í 20.000. Ég á ennþá gjöfina sem ég var búin að kaupa fyrir þann sem var númer 10.000 - bæti henni við gjöfina fyrir þann sem verður númer 20.000. Verið nú samviskusöm og kvittið fyrir ykkur þegar það nálgast 20.000!!!!!!

Annars er ég að fljúga til Ameríku seinnipartinn á morgun þ.e. klukkan 16:40. Verð í Baltimore næstu nótt og flýg svo á áfangastað í Chattanooga. Spennandi. Meðferðis er kíló af harðfisk, 3 kíló af lakkrís og slatti af ópal og tópas. Eins gott að liðið raði þessu í sig. Að auki og ómissandi þrír dúnkar af sólarvörn því hitinn og sólin brennir í um 30° þessa dagana. Úffff.

Heimkoma er svo föstudaginn 22 júlí - sem sagt fjórar vikur + einn dagur. Spurning um að skella sér beint í útilegu?

Veit ekkert hvort ég finn tíma og/eða tölvu til þess að skrifa eitthvað hér inn á meðan ég er úti. Þið sjáið bara til og fylgist með.

Thank you very much and goodbye....Janus

ps. Ekki gleyma 20.000!

Sunday, June 19, 2005

Fyrsta útilegan!!

Síðasta sumar fór ég næstum í útilegu hverja helgi enda fátt betra en að sofa í tjaldi. Það var því ekki seinna vænna að smella sér í útilegu um helgina - eina útilegan í júní og jafnvel júlí, nema ég spretti beint í útilegu þegar ég kem heim að utan. Verslunarmannahelgin er nú eiginlega meira í júlí heldur en ágúst. Anyways....útilega!

Eftir góðan sólarkoss á þjóðhátíðardaginn brunuðum við upp í Reykholt, borg í sveit. Þar fórum við á leynitjaldsvæði og fíluðum okkur eins og í útlöndum - há tré, tuttugu og eitthvað stiga hiti, blankalogn og gleði í bunkum. Þar sem við vorum þarna á 17. júní hitti ég líka fullt af fólki úr sveitinni, bæði á röltinu um daginn, orðið nokkuð framlátt á Klettinum (kráin) um kvöldið, svo ég tali nú ekki um eftirlegukindurnar sem blöktu um svæðið morgunin eftir. Krumpuð bæði að innan og utan. Keypti geisladisk sem gömlu nemendur mína voru að syngja og spila inn á, frábært að hlusta á hann, þó falskir tónar læðist með :)

Í gærdag var svo bara legið, sleikt sólina, spilað, drukkið bjór og etið. Í gærkvöldi kom svo Guggan mín og Siggi og eyddum við kvöldinu saman. Fórum á sveitakránna, drukkum bjór og spiluðum :) Í morgun vaknaði maður síðan við vondan draum og áttaði sig á því að máske hefði verið betra að hæla niður tjaldið þ.e. himininn, tjaldið sem himininn hvíldi á, orðið gegnblautt og því ekki annað að gera en að pakka saman, þurrka hundinn og smella sér á Selfossið. Bara svekkt því fátt er eins gott og að sofa í tjaldi í rigningu þ.e. þegar tjaldið heldur.

Þannig er nú það. Íbúðin mín er á Hverafold 21 í Grafarvoginum, 56 fermetrar, tvö herbergi á jarðhæð svo kisa fær að vera memm. Aftur að flytja í bæinn og aftur að setjast að við kirkju, áður var það Hallgrímskirkja í 100 metra fjarlægð en núna er það Grafarvogskirkja. Haleúja Janus er heilagur. Það er ennþá ódýrara að kaupa (þó dýrt sé) heldur en að leigja. Ég væri alveg til að í að sjá aftur þessa tæplega einu og hálfu miljón sem ég borgaði í leigu í Keflavík - bara blóðpeningar. Þetta verður bara gaman :) Fæ íbúðina reyndar ekki afhenda fyrr en 1. september enda ekki þörf á því fyrr en þá.

Óska afa mínum til hamingju með afmælið: hvar sem þú ert - þá flögguðu allir fyrir þér á 17 júní eins og alltaf hefur verið gert.

Júbíjæ!

Wednesday, June 15, 2005

Da da da!!

Þá koma stóru fréttirnar!!!

Í dag keypti Janus sér íbúð....!

JEI!!!!

Tuesday, June 14, 2005

Ingólfsfjall!

Fór á Ingólfsfjall í gær með börnin mín fjögur. Var búin að plana að fara með þau á Esjuna en hafði einhvern vegin slæma tilfinningu fyrir þeirri ferð! Það hafa ábyggilega verið einhver skrímsli í Esjunni í gær :) úúúú! Kjáninn ég læt slæmar draumfarir hafa áhrif á mig og þorði ekki í Esjuna og fór því með börnin upp á Ingólfsfjall í staðinn. Það var náttúrulega bara geðveikt veður og fjallið og umhverfið skartaði sínu fegursta. Á toppi sá maður vítt, Eyjafjöllin, Vestmannaeyjar, til Stokkseyrarbakka, Þorlákshafnar, Hveragerði og Hellisheiðina. Að ógleymdum hinum eina sanna Selfossbæ. Uppi á toppi tók ég fullt af myndum af börnunum í mörgum tegundum af bolum sem búið er að styrkja okkur um, með íslenska fánann og með Tuma voffa sem náttúrulega fékk að fara með. Alveg magnað hvað 11 ára gömul börn eru hraust, þau hreinlega hlupu upp fjallið, og ég í býsna góðu formi var eins og gömul frú á eftir þeim og var ekki að fíla það!!!!

Við fórum svo heim til mömmu og grilluðum hamborgara og slökuðum á, keyptum ís á Arnbergi og brunuðum aftur í bæinn. Það voru því býsna undin og rykug börn sem skiluðu sér heim um tíuleytið í gærkvöldi. Núna eru aðeins 9 dagar í brottför og ég á eftir að gera svo mikið. Mig vantar gsm-síma sem virkar í Bandaríkjunum, get lánað ykkur nýja gsm-símann minn í staðinn....! Hvers vegna eru Ameríkanar alltaf öðruvísi aðrir?

Þá er líka komið að því. Síðasti vinnudagurinn í Heiðarskóla. Smá blendnar tilfinningar. Sem sagt komin í frí til 8 ágúst. Vertu velkomið sumar.

Janus sommer aðdáandi.

Sunday, June 12, 2005

Nýjustu fréttir!

Nú eru einungis tveir dagar eftir í Heiðarskóla. Núna er stofan mín tóm, tómir veggir, tómar skúffar, tóm sæti og pínulítið tómarúm í hjartanu. Börnin farin út í vorið, búin að kveðja kennarann sinn og kennarinn búin að kveðja þau.......vá hvað það var erfitt. Náði nú samt að kveðja alla með bros á vör og loka á eftir þeim síðasta áður en stíflan brast. Æ, þetta er bara sorglegt...... En eftir nokkrar vikur koma ný börn á nýjum stað. Ég fékk aftur fullt af gjöfum og kossum, alltaf hálf kjánalegt að taka við svona hrósi, sérstaklega þar sem búið var að gefa mér sérsmíðaða silfurskartgripi :)

Hvað meira skal segja?

Ég fór í vissuferð í vinnunni í gær og svo heppilega vildi til að farið var á heimaslóðir mínar, sem sagt austur fyrir fjall. Veðrið var náttúrulega frábært eins og það er alltaf hér (remba, remba). Byrjuðum í Þrastarskógi. Janus hélt hann væri guide og ruddi út úr sér alls konar fróðleik um svæðið. Bara gaman. Í skóginum var borðað og hlegið og viðurkennt. Svo var brunað á Stokkseyri í Kajak ferð. Fyndið að troða sér í pollagalla, stígvél og björgunarvesti og fara svo út á vatnið og stinga árinni niður í drulluna þ.e. vatnið var ekki nema hnédjúpt. Maður stýrði sér bara í drullunni. Eftir kajakinn var eldsnögg sturta og svo matur. Ég elska skemmtinefndina mína fyrir að hafa ákveðið að fara að borða á Hafinu bláa í stað þess að fara á Við fjöruborðið á Stokkseyri....hjúkk! Anyways flottur matur, nema geðveik magapína (ábyggilega út af nálægð við Stokkseyri), meiri bjór og meiri brandarar. Fór samt snemma heim þó eftir rúmlega 12 tíma sukkerí. Gaman að svona dögum.

Í dag fór ég svo í sveitina mína, í sund með fjögur frændsystkini og stór og rauður sólarkoss yfir og allt um kring, aðra helgina í röð. Ég er bara freknótt. Halldór Daði litli engilinn minn varð þriggja ára í dag og það varð náttúrlega að fara í sveitina til að halda upp á það. Gunna systir er farin að taka á móti nýjum kandídötum í þennan heim og stendur sig með prýði. Tók til að mynda á móti barninu hennar Rósu vinkona sinnar í vikunni. Það hlýtur að vera magnað.

Hvað meira?

Nú eru einungis 12 dagar þangað til ég fer út. Vona að það verði gaman, hræðilegt að eyða sumrinu í eitthvað sem verður kannski ekki gaman...nei, nei það verður gaman. Ennþá vofa yfir gleðifréttir, gleðifréttir, gleðifréttir. Ekki samt alveg tímabært. Læt ykkur vita. Fæ hjásvæfu í nótt, einn þriggja ára prins, sem kallar mig Nana, hinn prinsinn kallar mig elsku Jana. Er að hugsa um að fara og láta breyta nafninu mínu í Elsku Jana Pálsdóttir :) myndi hjá kenna 1.EJP á næsta ári....ekki slæmt.

Nú skal ekki bullað meira.....
Later.
Janus

Friday, June 03, 2005

Sólheimar!

Fór í leikhús í gærkvöldi í boði Guggu landsbankagellu. Fórum að sjá afmælissýningu hjá Sólheimaleikhúsinu en Sólheimar eru akkúrat 75 ára á þessu ári. Langt síðan ég hef skemmt mér svona vel í leikhúsi, þó fyrir utan hellisbúann í annað sinn á afmæli hennar Gurrýar árið nítján hundruð og eitthvað. Leikritið var sem sagt um Þumallínu og var sýnt á stóra sviðinu í Borgarleikhúsinu. Hvet alla til að skella sér á Sólheima í Grímsnesi til að sjá næstu sýningu á morgun klukkan 15:00.

Annað markvert var að á meðan sýningunni stóð gat ég horft beint í skallann á Ólafi forseta....sá er ekki með flösu. Á morgun þegar ég fer í myndatöku með honum get ég því blikkað hann og þakkað honum fyrir síðast.....sums staðar nær fólkið aldrei að sjá forsetann meðan Janus er bara í föstu fylgdarliði. Þannig er nú það. Er að fara í hörku grillveislu í kvöld og á morgun er ég að fara í útilegu í Heiðarskóla!!! Fæ að sofa á dýnu í svefnpoka í kennslustofu á minns eigins vinnustað. Ég ætti kannski bara að flytja lögheimilið hingað og giftast vinnunni minni :)

...og svo mikið spennandi fréttir sem ekki er alveg tímabært að útvarpa, en það kemur....verið spennt!

Wednesday, June 01, 2005

Það er öðruvísi að búa í Njarðvík!

Já það er annar bragur á Njarðvík og Keflavík. Ekki að ég ætli að setja mig í eitthvað dómarasæti um hvað sé betra eða verra. Á Hafnargötunni var til dæmis ekki fuglasöngur heldur garg í múkka eða frekjutónn í Starra. Í Njarðvík er alvöru fuglasöngur - þrastasöngur. Í Njarðvík fljúgja þoturnar beint, beint yfir húsunum svo maður getur horft upp og öfundað fólkið sem er að koma heim, eða að koma til Íslands í fyrsta skipti. Ekki leiðinlegt að koma hingað þegar umhverfið brosir svona.

Janus klaufi pakkaði niður bæði hjólinu sínu og línuskautunum, nú getur hann því ekkert gert nema ganga og hlaupa - þarf til dæmis að keyra í vinnuna!! Alveg ferlegt. Já búslóðin er farin austur, komst fyrir í einum stórum flutningabíl og bíður nú spennt næsta áfangastaðar vafin í plast og pappa. Gunna systir kvaddi búslóðina með feitu misstigi og ökklinn lítur út eins og á fýlamanninum. Ég held hreinlega að stundum sé bara betra að brjóta en að teygja.

Ég er að fara í kveðjupartý á eftir, með öllum ormunum mínum og foreldrum þeirra. Hef ekki áður farið í svona bless-partý. Nú á ég bara eftir að pakka niður stofunni minni og þá er allt tilbúið fyrir sumarið og ferðina út.....! Núna eru ekki nema 22 dagar til brottfarar! Gaman af því.

Well og well - ætla að fara snemma heim í dag í góða sturtu og shiningu fyrir kvöldið í kvöld.

Góðar stundir.