Döpur er dráttlaus kona.

...besti páskamálsháttur ever!!!

Saturday, May 28, 2005

Að vera á rauðum bíl....!

Það er hættulegt að vera á rauðum bíl í Keflavík þessa dagana. Reyndar var ljóti karlinn sem reyndi að lokka barnið upp í bílinn til sín á rauðum pallbíl en í litlum hugum gerjast sögurnar og því eru allir sem eru á rauðum bíl hættulegir. Líka þeir sem eru með hatt eða sólgleraugu eða skegg eða að þeir sem kaupa nammi. Í morgun voru ljótu mennirnar orðnir átta og búnir að eitra nammið í sjoppunni, það er sko bara óhætt að kaupa nammi sem er í bréfi. Ég finn til með aumingja fjölskylduföðurnum í Njarðvík sem á rauðan pallbíl, sagan segir að einhverjir krakkar hafi meira að segja hent eggjum í húsið hans...! Sem sagt ef þið sjáið rauðan pallbíl á bílasölu þá er það pottþétt bíll frá Keflavík. Það var því ekki að ástæðulausu að lögreglan fór í heimsókn í skólana í morgun, boðskapurinn sem reynt var að koma til skila "það á ekki að dæma fólk fyrirfram". Hefði kannski verið betra að hugsa fyrst um afleiðingarnar....en gott að vera vitur eftir á.

Brothætta barnið mitt er komið aftur í skólann, afskaplega brothætt og kennarinn alveg á nippinu yfir þessu öllu saman, hræðilegt að vera með svona brot sem ekki er hægt að gifsa...þá er bókstaflega brothætt. Ég fór og keypti stóran bangsa handa honum, fann og finn svo ofsalega til með honum og hljóðin enduróma enn í huganum. Er líka farin að fá smá upplýsingar um börnin sem ég fæ á næsta ári í nýja skólanum, þar verða nokkur ögrandi verkefni, samt ný verkefni.

Svo er komið að því, á morgun flyt ég frá Keflavík. Búslóðin fer á nokkra staði en þó mest í geymslu í flutningamiðstöðinni á Selfossi og svo í skúrinn hjá pabba. Ég á svo mikið dót, holið í íbúðinni er gersamlega fullt af kössum, það er samt fullt af dóti eftir. Fór í gegnum geymsluna áðan og henti fullt af dóti sem ég hef ekki snert síðan ég flutti hingað. Ég skil ekki hvaðan þetta dót kemur.

Ég hringdi svo í eiganda íbúðarinnar áðan til að minna hann á að ég væri að flytja á morgun. Hann nýkomin frá Flórída fyrir leigupeningana mína og sagðist hundfúll yfir því að ég væri að flytja. Er ekkert búin að hugsa um að fá nýja leigendur. Sagði mér að hann hefði fengið mjög gott kauptilboð í íbúðina í október en sagðist: (orðrétt) " vera með svo frábæran leiganda og honum dytti ekki í hug að raska ró hennar". Ekki leiðinleg meðmæli það. Það hefur margt gerst á Hafnargötunni á þessum tveimur árum. Mörg hafa partýin verið haldin, fullt af fólki gist, fullt af hlátri, fullt af gleði, fullt af kulda, eitt hjarta kramið, fullt af gráti, sem sagt fullt af atvikum - bæði skemmtilegum og leiðinlegum. Ef þið ætlið að flytja til Keflavíkur mæli ég með þessari kósý íbúð.

Svo vantar mig eitthvað dót merkt á íslensku (t.d. penni merktur einhverju fyrirtæki) þetta geta t.d. verið pennar, vatnsbrúsar, lyklakippur, nælur, bæklingar, bolir, eða eitthvað sem ég get tekið með mér út. Ef þið lumið á einhverjum samböndum þar sem þið komist í svona hluti þá endilega misnotið þau og bjóðið mér í heimsókn. Hver vill ekki styrkja svona friðarboðskap?

Að auki....ef þú ert karlmaður! Bumbulaus og nokkuð eðlilegur í vextinum þá vantar mömmu minni "módel" til að sauma á smóking - módelið borgar efnið og volla...það á klæðskerasaumaðan smóking! Kröfur: módelið verður að vera símtal í burtu þegar þarf að máta. Tímabilið eru fyrstu tvær vikurnar í júní. Tekið er við umsóknum þangað til flottasta módelið gefur sig fram.

Yfir Strandarheiðina,
burt um nótt ég sveima.
Ein Keflavíkurleiðina,
nú á ég hvergi heima.

Tuesday, May 24, 2005

Gullmolar!

Það eru ekki allir sem fá að vinna með 23 gullmola á daginn. Í dag var ég í vinnunni minni með alla gullmolana mína. Venjulegar frímínútur....og þá brotnaði einn gullmolinn, brotnaði meira að segja mjög illa. Ég segi því og skrifa...þessum hljóðum mun ég aldrei gleyma. Skildu hljóð geta skorið? Skildu allir hlutir geta verið slysagildrur? Minns var bara dofinn eftir þennan slysadag.

Mamman mín var að útskrifast í dag. Hún er núna útskrifaður klæðskeri úr Iðnskólanum í Reykjavík :) Hún á reyndar eftir að taka sveinsprófið sem er einhvern tíma í júní, þá segir menntamálaráðherra líka að hún sé klæðskeri. Já, já, það er óhætt að segja að maður sé bara montinn af skvísunni. Ef ykkur vantar klæðskerasaumuð föt þá leitið þið til hennar mömmu minnar, hún er eldklár og þar að auki mamma mín :)

Fór á flugvöllinn í gær, borgaði mínar 100 krónur fyrir stæðið og beið eftir Gunnu systir. Verð nú samt að byrja á því að hrósa nýja móttökusalnum, nú er þetta bara eins og alvöru flugvöllur í útlöndum....og nota bene það er búið að minnka fríhöfnina niðri um nærri helming - sem sagt betra að versla allt uppi á leiðinni út því það er lítið til á leiðinni heim. Á flugvellinum var mjög skemmtilegt. Mér finnst svo gaman að fylgjast með fólkinu sem er að koma. Þarna var samankomin stór hópur af Asíubúum sem fararstjóri veiddi til sín....heyrði mjög fyndið samtal sem ég bara verð að deila með ykkur.

Fararstjóri: The bus isn´t here yet. It will be here in couple of minutes.
Asíubúar: Okay.
Fararstjóri: If you need to use a bathroom it´s over there (bendir).
Asíubúar: Okay
Fararstjóri: You can also go outside and get some fresh air.
Asíubúar: líta á hver annan og senda hver öðrum undarleg augntillit, einn Asíubúi snýr sér síðan að fararstjóranum með hryllingssvip og segir:

ARE YOU KIDDING, IT´S 5° OUTSIDE!!!

Þetta var Ísland í gær...og í dag.

Sunday, May 22, 2005

Að ári verðum við...

..í Grikklandi. Ég meina Gugga hefur sambönd þar eins og í Noregi. Á reyndar eftir að koma í ljós hvað verður en allir voru þvílíkt spenntir fyrir þessu í gærkvöldi reyndar undir áhrifum gleðivökva. Gaman að þessu. Grikkland var svo sem ekkert betri eða verri sigurvegari en hver annar. Við hituðum upp heima hjá Ingu sem alltaf heldur bestu partýin, byrjuðum að dansa og hoppa og drekka, fórum í drykkjuleiki og Siggi varð að drekka 19 sopa í einu.....tíhí og vei fyrir Janusi.

Það fór ekkert á milli mála á Nasa að Noregur átti uppáhaldslag Íslendinga, fólkið bara flippaði í öll ÞRJÚ skiptin sem Palli spilaði það. Vá! hvað var gaman. Vá! hvað var geðveikt gaman. Vá! Vá! Vá! Þakið ætlaði af kofanum þegar gömlu Eurovisíon fararnir troðu upp - Minn hinsti dans, Eitt lag enn, Heaven, Nei eða já, Nína (nína, nína, nína) og svo sjálfur Gleðibankinn. Alveg magnað að heyra alla á staðnum kalla aftur, aftur, aftur þegar Nína kláraðist og meira, meira, meira þegar Gleðibankinn kláraðist. Algjörlega frábært! Við brenndum skónum allverulega á gólfinu, eða eiginlega á teppinu því dansgólfið var fullt, skipti svo sem engu máli því það var meira að segja dansað á dollunni. Einhvern tíma seint fór Janus heim, fórum í leigubílaröð dauðans, einn og hálfur tími að bíða eftir bíl. Hiti undir frostmarki og damm hvað ég hefði viljað vera í buxum. Var lengi að ná upp yl í skankana undir tveimur dúnsængum og bleikum náttkjól. Gat ekki annað en hlegið í bælinu bæði út af frábæru kvöldi og fíflagangi í barnalegum manneskjum, sumir ætla að vera fimmtán að eilífu.

Í dag var svo CISV dagurinn og ræs klukkan tíu! Janus áfram í pilsi, soldið glær og hlaupandi í hverjum leiknum á fætur öðrum. Varð meira að segja sigurvegari í leik sem gekk út á það að láta aðra henda niður ruslatunnu. Ekki spyrja. Maður varð rennsveittur og móður eftir þau átök :) Svo fórum við á fararstjórafund og ansi fór þá að þynnast þrettándinn. Hefði betur sleppt áreynslunni á undan. Úff! Var meira að segja með svona þynnkuskjálfta og aukaframleiðslu á munnvatni (sem er aðeins undanfari að einu!!!) Það bjargaðist að lokum með panódíl og gulrótum. Það styttist verulega í ferðina. Við fljúgum 23.júní til Baltimore, daginn eftir til Charlotte og þaðan til Chattanooga, verðum komin þangað korter yfir hádegi 24. júní (á Jónsmessunni sjálfri) - af því að ég gleymi því pottþétt þegar ég kem út: til hamingju með afmælið þann dag Gugga og Frímann! Búkolla á ensku verður aðalatriði íslenska hópsins, auk keðjusöngsins Sá ég spóa, útskýringu á nafnakerfi okkar Íslendinga, og síðast en ekki síst Eldur (rauður), vatn (blár), ís (hvítur) sem saman búa til leik um íslenska fánann. Svo á að gefa fólkinu eitthvað íslenskt að borða t.d. harðfisk, flatkökur, hangikjöt, lakkrís, þrist, bláan ópal, lýsi, hákarl.....? Fleiri hugmyndir? Heimkoma er svo klukkan hálf sjö 22 júlí - þá búin að ferðast í tæpa 19 tíma, það verður challance með fjögur 11 ára börn.

Frétti það áðan að þessi aumingja maður sem tók þá ákvörðun að drepa annan mann þarna í Kópavogi um daginn, bjó í risinu í húsinu mínu. Flutti reyndar fyrir tveimur mánuðum síðan. Þetta hlýtur að vera mjög þung byrði að bera, en náttúrulega algjörlega sjálfskapað. Kynni mín af þessum manni voru góð, brosmildur, myndarlegur og duglegur strákur. Eftir standa tvær ungar mæður í miklum vandræðum. Kona mannsins sem dó, ólétt með ungt barn og kona mannsins sem tók lífið. Nú er hún líka "ein", með níu ára barn og annað nýfætt og þar að auki tengdamömmu sína á heimilinu. Það hefði verið óskandi að maðurinn hefði stoppað við og hugsað um það sem eftir stendur. Hvernig getur fólk tekið svona ákvarðanir.

En......alltaf að enda á góðum nótum. Eiríkur Hauksson sagði í gær: í gegnum árin hafðið þið tekið mikið út úr Gleðibankanum, í kvöld ætlum við að tæma hann. Miðað við gleðina sem ríkti í gær er alveg ábyggilegt að Bónus feðgar eða einhverjir álíka high on life verða að leggja eitthvað til málanna.

Takk fyrir kvöldið Gugga, Inga, Siggi, Alla, Edda og hinir rúmlega 2000 sem voru á Nasa. Við tökum á því í Aþenu að ári!!!

Friday, May 20, 2005

Euro-trip!

Já, svona fór með Selmu. Ég hugsaði nú samt þegar hún var búin að hún myndi ekki komast áfram en...Leyfði náttúrulega ekki þeirri hugsun að staldra lengi í huganum og lét þjóðarstoltið ráða ferðinni, eins og Kani í boxer sem saumaðar voru upp úr fánanum. Við erum náttúrulega best og engin kýs okkur því við erum svo lítil og einmanna lengst út í sjó. Fólkið í Austur-Evrópu veit ekki einu sinni hvar Ísland er....! Af hverju gerum við alltaf sömu mistökin ár eftir ár og teljum okkur trú um að við munum vinna? Finnst reyndar bara fyndið að fólk sé hætt við að halda Euro partý út af því að Selma komst ekki áfram. Hreinn heimsendir! Hefði viljað sjá gull-gelluna frá Hvíta Rússlandi sem ætlaði að slást inn í aðalkeppnina eftir úrslitin í gær. Það hljóta að vera mistök að hún komst ekki áfram.....múhahahahaha - greyið.

Horfði á Kastljósið áðan þar sem gleðibanka-tríóið var og fannst brilliant hvað Eiríkur rauði lagði til. Íslendingar eiga að vera íslenskir. Það er náttúrulega staðreynd að þau lög sem eru að vinna Euro eru á einhvern hátt spes - skera sig úr. Ruslana náttúrulega sló í gegn með þessum trommum, eldum og látum í fyrra (soldið hallærislegt að það eru allir með trommur í ár). Þar á undan var tyrkneska gellan sem var í mjög litlum fötum með svona "gyðju" tónlist. Olsen bræður, fóru að hlægja í miðju lagi. Sandra Kim var ennþá með bleyju. Dana International - do I have to say more! Ég meina lagið með gömlu konunni í ruggustólnum komst áfram í ár og gæjarnir með táknmálið...! Allt spes! Ég þori næstum að veðja um það að Norðmennirnir vinna keppnina í ár....sem er geðveikt kúl því þá ætlum við Gugga og fleiri að fara á Eurovision. Því segir maður bara heija Norge!

Alla vega næsta ár. Þá ættum við að senda einhvern þjóðlagasöngvara í lopapeysu og lopasokkum, með víkingahjálma og spjót, syngjandi rímur í fimmundarsöngi. Í pakkanum til blaðamanna yrðu ekki settir smokkar (hvað var það) heldur harðfiskur og sláturkeppur sem búin er að liggja í sólinni í Osló í nokkra daga fyrir keppni. Svo getum við náttúrulega sent hina eina sönnu stjörnu sem hlýtur að vinna..."svaraðu kallinu" Herbert spesbert. Pæling, hann getur alla vega ekki farið í hallærislegri náttföt en Selma.

Það flaug klósettpappír um loftið áðan. Það myndast einhvern vegin svo vind-hringiða í garðinum hérna við íbúðina mína. Oft hafa plastpokar stundað listflug í garðinum en nú var það klósettpappír, hefur sennilega dottið af snúrunni hjá nískum þjóðverja, pappírinn dansaði hérna í loftinu með ótrúlegum sveiflum. Kisa reyndi að veiða pappírinn og úr þessu varð hin mesta skemmtun. Man eftir svona atriði í bíómynd, þá með einhverju öðru en klósettpappír og ketti.

Ég fer í sveitaferð á morgun með litla frænda, skoðum kusur. Ég á miða á Nasa á morgun, fæ heila íbúð fyrir mig til undirbúnings og svefns. Það verður gaman á morgun þrátt fyrir að allir hafi svindlað á aumingja litla Íslandi.

Heija Norge!

Wednesday, May 18, 2005

Html - kennslustund!

Búin að sitja hér sveitt og klóra mér reglulega í hausnum og reyna að fatta hvernig þetta html-dæmi virkar. Ég gefst ekki upp, ég mun innan skamms verða fulllærð í þessu. Búin að fá góða hjálp frá Soffíu. Hún er ekki alveg laus úr kennsluhamnum. Mig langar samt að sýna ykkur þessa mynd af mér og hún virkar einhvern veginn ekki. Hafnarfjall

ps. eftir nokkrar tilraunir við að reyna að skilja eitthvað sem ég skil ekki alveg set ég bara svona tengil á myndina. Myndin er af toppi Hafnarfjalls um daginn. Það var alveg snarvitlaust veður og óhætt að segja að gestabókin hafi bjargað því að maður fyki ekki í burtu.

Cool!

Keflavíkurflugvöllur.

Það kostar orðið 100 kr. að ná í fólk á flugvöllinn, það þarf að borga fyrir að leggja í nokkrar mínútur. Ég þarf sem sagt að hækka flugvalla/geymslu/skutl gjaldið. Núna tek ég hundrað krónur og súkkulaði fyrir greiðann.

Ég vaknaði klukkan fimm og fór út á flugvöll með Gunnu systir. Keyrði heim og settist fyrir utan og hlustaði á þögnina. Ekki einu sinni gargandi fugl eða brjáluð breiðþota, heldur þung, drungaleg, rafmögnuð þögn. Ég fór inn með bullandi gæsahúð og athugaði tvisvar hvort hurðin væri ekki örugglega læst. Lagðist svo og las.... og lét mig dreyma um:

Laugardaginn 21.maí....
Hið árlega Eurovision party Páls Óskars verður laugardaginn 21.maí á Nasa. Icy-hópurinn mun koma fram í fyrsta skipti í 19.ár En þau Helga,Pálmi og Eiríkur voru okkar fyrstu Eurovision farar.Með Gleðibankann.Einnig verða Stebbi og Eyfi á staðnum með "Nínu" Sigga og Grétar.Sigga og Systa.Páll Óskar tekur líka lagið.Búast má við pökkuðu húsi en í fyrra komust færri inn en vildu.
Forsala er á Nasa föstudaginn 20.maí frá kl.13-17
Miðaverð kr.1500
Húsið opnar kl.23

Hver nennir að kaupamiða fyrir minns?

Monday, May 16, 2005

Hvítasunnudagurinn!

Vá hvað mér leið asnalega í gær, var að lesa færsluna sem ég skrifaði og já! Það var allt einhvern vegin svo yfirþyrmandi. Niðurstaðan ég fæ alltaf svona smá "sviðsskrekk" þegar ég er að fara að flytja á nýjan stað. Komst yfir þetta í nótt og mun ganga í hamingjusamt hjónaband við Reykjavík innan nokkra vikna. Þetta leysist einhvern vegin, á góðum tíma. Góðir hlutir elta gott fólk.

Það var bara geðveikt veður þegar ég vaknaði í morgun (eða þarna um hádegið), náttúrulega ekki logn en miðað við Keflavík var ekki hægt að biðja um það betra. Ég ákvað því að fara út að hjóla og endaði í Garðinum. Kílómetra fjöldi eitthvað á reiki en samt ca. 10 km. þar lendi ég náttúrulega í veislu, eggjasalat og allt. Ég hjólaði svo heim aðra 10 km., fór í sturtu og keyrði aftur inn í Garð í kvöldmat. Fór svo í heitapottinn og gerði sjálfa mig að sveskju. Gaman að þessu. Góður dagur með þessu frábæra fólki sem ég á þarna í Garðinum. Þarf að vera duglegri að fara til þeirra.

Núna er ég búin að pakka öllu brothættu niður í kassa, fyrir utan allt það brothætta í eldhúsinu. Í fyrramálið ætla ég að mæta eldsnemma í Bónus og hirða bunka af kössum svo ég geti haldið áfram. Nota þennan annan dag hvítasunnu í það. Frétti að skemmtilegu fjalli í dag, fjalli sem heitir Þorbjörn, Þorbjörn horfir yfir Grindavík, mjög auðveld uppganga, en útsýnið víst alveg geðveikt. Það er meira að segja vegur upp. Ef sólsetrið á morgun verður eins geðveikt og í kvöld ætla ég að fara þangað annað kvöld til að taka myndir og láta mig dreyma. Ég elska svona rafmögnuð ólýsanleg sólsetur. Hefði ekkert á móti því að veggfóðra með myndum af þeim.

Ég var ekki búin að segja ykkur frá nýju myndavélinni minni. Reyndar er það sama myndavélin Canon vélin mín, en ég komst af því að ég get stillt hana þannig að hún tekur Svart/hvítar myndir og/eða brúnar myndir (sem líta út fyrir að vera gamlar). Með þessa nýju möguleika er næstum því eins og ég eigi nýja myndavél. Það koma alveg geðveikar myndir úr henni.

Svona var það 2005 - áfram Ísland.

Sunday, May 15, 2005

Dettur ekkert í hug...!

Stundum fer þessi fyrirsagnadálkur svo í taugarnar á mér, núna fékk ég enga flugu um það hver fyrirsögnin gæti verið.

Þá er maður búin að ráðast í þetta að alvöru. Pakka, pakka, pakka. Ég er að flytja í þriðja sinn á fjórum árum. Þetta skipti er þó alveg sérstakt því ég er ekki að flytja neitt. Bara að flytja út. Veit ekki hvenær ég flyt inn aftur. Veit ekki hvar ég flyt inn. Finnst þetta frekar óþægilegt. Finnst líka óþægilegt að vera hálfpartinn að flytja inn til mömmu og pabba, þó það sé samt eiginlega bara búslóðin sem flytur því ég verð úti í allt sumar. Mér finnst ég vera of gömul til að níðast á mömmu og pabba. Þetta fer alveg með skipulagsgenið í mér. Ég verð að vita hvar ég á heima. Ekki oft sem maður óskar þess að vinir manns flytji erlendis en núna vona ég að vinur minn flyti erlendis svo ég og Sigga getum passað húsið hans. Hljómar þetta nokkuð illa?

Ég er búin að pakka slatta í kassa, er samt alveg stopp núna því það var enga kassa að fá í Keflavík í dag, greinilega margir að flytja. Er búin að flokka þetta í fjóra hluta. Dót sem fer í skúrinn hjá pabba, dót sem fer í "geymslu" hjá Öllu, dót sem fer í Góða hirðirinn og dót sem ég ætla að nota þangað til ég flyt aftur inn, fer sem sagt í bílinn! Er búin að skera massívt niður bækur, blöð, geisladiska og föt. Alla fær svo birgðirnar af dvd og vídeospólum - þarf ekki að leigja myndbönd í sumar. En nú er minns stopp vantar meiri kassa og svo vantar mig límband til að líma saman kassana svo það detti ekki úr þeim aftur. Spennandi finnst ykkur ekki?

Ég var að setja vídeospólur í kassa í gær og komst að því að ég á Söngvakeppni Framhaldsskólanna árið 1993, 1997-2005 á vídeospólum. Að auki á ég fjórar Eurovisíon keppnir á spólu....er ég þá ekki viðurkennt NÖRD?

Ég og Gugga fórum á Soho í gær, varð aftur fyrir vonbrigðum með matinn, annað sinn í röð. Annaðhvort er maturinn að versna eða þá að ég er ekki að velja rétt, fer að efast um þennan uppáhaldsstað minn. Við horfðum síðan á stigagjöfina úr jórúvisíon þegar Tyrkland vann, vorum geðveikt spenntar þó keppnin hafi verið fyrir 3 árum. Vorum allan tímann að reyna að rifja upp hvar við höfðum horft á þessa keppni. Svona vinnur hugurinn því allt í einu í miðjum Hvalfirðinum áðan (meira en sólarhring síðar) mundi ég hvar við vorum og var þá ekki að hugsa um það. Sem sagt árið 2003 vorum við að fagna útskriftinni með Möggu frænku á Selfossi og horfðum um leið á Júró, þetta voru algerlega nauðsynlegar upplýsingar.

Heyrði í dag að maður getur farið að Essó og keypt sér grill og ef Selma vinnur fær maður það endurgreitt. Kannski ég ætti bara að gera það. Við Siggi unnum nú reyndar eitthvað grill í happdrætti í haust. Ég næ kannski bara frekar í það. Spara þannig Essó pening, þeir fara nú á hausinn ef þeir þurfa að leggja út fyrir öllum þessum grillum....! Þeir græða nefnilega svo lítið. Eða ekki. Langar ekkert í grill. Langar frekar að vita hvar ég á heima! Er bara svona ginkeypt, hleyp af stað og framkvæmi eða kaupi hluti því aðrir segja mér það. Hef enga sjálfstæða skoðun. Þarf að pissa en get ekki farið að pissa því engin sagði mér að fara, eða koma. Hvað er í gangi með þessa færslu.....?

Bull, bull, bull.

Wednesday, May 11, 2005

Eurovision drykkjuleikurinn
(Þennan má bara leika einu sinni á ári í eurovision-partýum)

Drekka á 2 sopa ef:

  • kynnarnir reyna að vera fyndnir
  • kvenkyns kynnirinn skiptir um kjól
  • kynnarnir eyða tíma í samtal sem enginn getur fylgst með
  • einhver keppendanna er líkur einhverjum sem þú þekkir
  • einhver keppendanna líkist einhverjum frægum
  • minnst er á að Noregur sé ekki enn búinn fá stig
  • Kýpur gefur Grikklandi 12 stig
  • Noregur gefur Svíþjóð stig

Drekka á 4 sopa ef:

  • söngvari lyftir handleggjunum upp fyrir haus á meðan hann syngur
  • söngvari er mjög feitur.
  • flytjendur eru í hallærislegum fötum eða með hallærislega hárgreiðslu
    söngvari frá Austur-Evrópu er með aflitað hár
  • sést í geirvörtur í gegnum fötin
  • flytjandinn frá Möltu er ekki loðinn á bringunni
  • önnur lönd en enskumælandi flytja á ensku
  • flytjandi daðrar í myndavélina
  • flytjandi er ekki frá landinu sem hann syngur fyrir
  • Frakkland gefur Bretlandi ekki stig
  • lagið sem fær 8 stig eða hærra er lélegt
  • Bretland lendir í öðru sæti
  • flytjendur eru að tala í síma á meðan stigagjöfin er
Klára á glasið ef:
  • Þýskaland gefur Austurríki 1 stig
  • Ísland vinnur
  • Noregur gefur Svíþjóð ekki stig
  • Írland vinnur
  • ekki er minnst á frið, kærleika eða ást í þýska laginu

Þetta er alveg eðal skemmtun!!!

Monday, May 09, 2005

Sigling og Sálin.

Ég fór í siglinguna, ekki oft sem maður fær svona tækifæri upp í hendurnar. Bauð bara matargestunum Guggu og Ingu með, minni Guggu hér með á loforðið sitt....! Við áttum alveg geeeeðveikan dag, eða öllu frekar ég átti alveg geeeeðveikan dag og held að hinir hafi átt það líka. Við fórum frá Stykkishólmi á bátnum Baldri. Við sigldum eftir Breiðafirðinum og reyndum að telja allar eyjarnar og skerin sem fyrir augu bar. Við Flatey tókum við svo krappa hægra beygju og lögðum bátnum við eyjuna Hvallátur sem Gaui frændi á, ásamt fleirum. Þar var stoppað í smástund, eitt stykki grafa, dráttarvél og fleiri landbúnaðartæki skilin eftir og önnur tekin með í staðinn. Síðan var siglt til baka. Veðrið var náttúrulega geðveikt, báturinn hreyfðist varla á sléttum sjónum, sólin glampaði og umhverfið var bara geðveikt. Þetta var bara eins og í Karabíska hafinu ef frá er talið flíspeysan, húfan og vettlingarnir.

Úti í eyju er búið að byggja rosalega flott hús þar sem hvorki fleiri né færri en 23 geta sofið og það er fyrir utan gólfplássið. Fyrir utan íbúðarhúsið er á eyjunni vélageymsla og hlaða og svo náttúrlega nokkur hundruð fiðruð kvikindi sem heita gæsir. Á sumrin er slatti af fólki að vinna þarna, að týna dún (segir maður ekki týna?) og eitthvað er tekið af eggjum líka.

Í kringum eyjuna Hvallátur eru svo fullt af minni paradísareyjum sem auðveldlega væri hægt að gleyma sér á. Hef fullan hug á því að fara einhvern tíma þangað aftur með Gauja, jafnvel bara ein, tvö ef ég er ástfanginn. Með góða myndavél, blað og penna, og einhvern vökva sem örvar ímyndunaraflið.

Svo var siglt til baka, lagst í sólbað með það litla sem ekki var hulið fötum, smakkað á bjór, hlegið og dottað. Þegar í land var komið var brunað í bæinn, skipt um föt og kíkt á Sálarball á Nasa. Þar var náttúrulega algjör stappa, eins og túnfiskdós, en dagurinn var búin að vera þannig að ekkert gat farið í taugarnar á manni. Ekki einu sinni það að fá olnboga í eyrað. Sem sagt frábær dagur.

Í gær var ég svo á Selfossi, afmæliskaka hjá pabba, þvoði og bónaði bílinn minn sem er á sumum stöðum farin að ganga í bleika klúbbinn. Svo kvöldmatur og heim enda kisa greyið búin að vera ein heima frá laugardagsmorgni. Í dag var ég svo (s)kjúklingur heima og sá ekki annan möguleika í stöðunni en að leggja sjálfum mér ekki í meira en metersfjarlægð frá dollunni. Alveg búin að fá nóg af þessari vitleysu og er farin að hlakka alveg óheyrilega mikið til að þessu skólaári ljúki svo ég þurfi ekki að veltast meir í þessu öllu. Bull og þvæla.

Allt að gerast skal ég segja ykkur. Ég flutti matarboðið til fimmtudagsjúróvisíonskvöld (þetta er langt orð). Þú sem lest þetta ert velkomin til að heiðra mig (okkur) með nærveru þinni. Ennþá sæti laus.

Thursday, May 05, 2005

Uppstigudagur.

Uppstigningardagur liðin er og samkvæmt veðurmanninum hér til hliðar er orðið svartamyrkur úti og tunglið komið upp. Hann veit greinilega ekki hvernig Ísland virkar á vorin nú eða sumrin. Skyldi hann sýna myrkur þegar það er bjart allan sólarhringinn. Gleymdi alveg að gá hvort hann sagði vera bjart úti yfir dimmustu vetrarmánuðina. Klukkan á blogginu er 3:57 pm - undarlegt - klukkan er 23:34.

Var vakin eldsnemma alveg tíu mínútur fyrir hádegi. Dagurinn fór í tusku. Gaman þegar þessi ættgengi sjúkdómur "tuskudeus" (þýðing: tuskuæði) nær yfirhöndinni á mér. Ég þreif eldhúsið mitt hátt og lágt. Núna get ég bara sett dótið í kassa og flutt út því það er ekkert óhreint í skápunum, dró meira að segja fram eldavélina og tuskaði þar. Fann kartöflur inni í pottaskáp sem hefðu passað vel í kartöflugarðinn...en það er allt önnur saga. Fyrir utan eldhúsið var hin venjulega föstudagshreingerning framkvæmd, bara degi of snemma. Ég tók líka köttinn og þvoði hann....oh my god.... Ég þori að veðja að meðal hárgreiðslustofa safnar ekki svona miklu hári eins og kisa mín hefur misst síðustu daga. Ég held hreinlega að ég sé að byrja að kafna. En fröken Sigríður var skrúbbuð í dag með uppþvottaburstanum góða og sturtuhausunum. Ég held að hún hafi bara kunnað ágætlega við þetta í þetta sinn því hún sat bara sallaróleg í baðinu og leyfði mér að þjösnast á sér. Vona bara að þetta hafi réttu áhrifin. Ég endaði svo á því að þvo gluggana að utan, þeir voru náttúrulega hvítir eins og allt sem hírist utan dyra í Keflavík, frussandi sjór um allt. Nú sé ég út alla vega út, alveg þangað til vindurinn tekur næsta geðveikiskast.

Það er einhver jesúsamkoma í kirkjunni í kvöld, ég hækka bara í græjunum svo ég þurfi ekki að heyra þessi áköll. Fyndið að eyða kvöldinu í að veifa, hverjum skyldu þeir vera að veifa svona mikið? Kannski þeir séu bara að biðja um leyfi til að fara á klósettið en engin nennir að hlusta? Góð hugmynd? Ég er búin að ákveða það að þegar ég gefst upp á því að vera kennari ætla ég að gerast "handritahöfundur" og semja handrit fyrir kvikmyndir nú eða sápuóperur. Hef alveg efni í allar þær persónur sem góð kvikmynd þarfnast. Ég skal ná markmiðinu mínu um að verða fyrsti ríki kennarinn á Íslandi, jafnvel þó ég verði að hætta að kenna til að ná því.

Með sumrinu breytist allt. Ég flyt og fer út. Gugga flytur á Selfoss, svíkur lit og fer að vinna í öðrum banka, Inga flytur ekkert en verður flottasti blaðamaður landsins, Alla flytur heldur ekki, enda nýflutt, og fer að vinna hjá enskabolta fyrirtækinu, Halla flytur ekki en verður á fleygiferð með túrista í bandi, fröken Sigríður köttur flytur en fer fyrst í sumarleyfi á Selfossi. Gæti bara orðið hið þokkalegasta sumar.

Ég var alveg ótrúlega sniðug og bankaði upp á hjá vinkonu minni rétt fyrir sjö og datt náttúrulega inn í svaka grillveislu fyrir vikið. Ég náttúrulega vissi ekki hvað klukkan var en.....gaman að bjóða sér svona óvænt í mat. Passið ykkur bara, ég fer að mæta á fleiri staði þegar ég verð svöng.

Nú er um tvennt að velja, siglingu eða mat? Hvort mynduð þið veðja á?

Wednesday, May 04, 2005

Auglýsingar!

Í kvöld var náttúrulega sjónvarpskvöld. Síðasti þátturinn af hinni heittelskuðu Bráðavakt eða ER. Skal þó alveg viðurkenna að innihaldið í þáttunum er farið að þynnast all verulega. Ég var tilbúin með eldhúsrúllu ef ég þyrfti að grenja eins mikið og yfir síðasta þætti af ER, en ekki var þörf á einu afrifi þessa vikuna og þetta var lokaþátturinn. Áður en þátturinn byrjaði voru auglýsingar í sjónvarpinu. Tvær síðustu slógu alveg í gegn.

Í annarri þeirra voru tvær konur í barnaafmæli og allt í kringum þær voru krakkar í sykurvímu, enda borðið hlaðið af nammi. Önnur konan segir eitthvað um að það sé hræðilegt hvernig sykurinn fari með börnin. Þá segir hin og leggur um leið skál fulla af sleikjó á borðið. Þess vegna ætla ég að gefa þeim Chupa chups, sleikjó. Hann bragðast eins og rjómaís en er alveg sykurlaus.....! Bara heimskulegt, hefði verið nær að koma með sykurlausa sleikjóinn áður en börnin röðuðu í sig sykri í massavís. Nema að þessi undraverði sleikjó virki eins og dömubindin í auglýsingunum sem soga til sín allan óþverra svo maður veit ekki að Rósa er í heimsókn. Þegar börnin sjúga þennan undrasleikjó lekur allur sykurinn út um eyrun á þeim og þau sofna á innan við tveimur mínútum. RIGHT!

Hin auglýsingin hljómaði svona..."leynist gjafabréf frá VEET í Lu kexpakkanum þínum"!!
Ég bara verð að segja ojjjj. Það fer náttúrulega svo vel saman kex og háreyðingarvörur. Ætti maður kannski að borða hárin með kexinu!!!!

Svo er nú það. En á ný hefur það sannast að Ísland er of lítið. Maður getur ekki spjallað við einn án þess að hann frétti að maður hefur gert sig að kjána fyrir framan vin hans. Þetta var setning sem flestir þurfa að lesa tvisvar, eins og þessi sem var í kennslubókinni í skólanum í dag: hann kallaði á hann og bað hann um að kalla á hann pabba sinn í mat! Hver býr til svona námsefni?

Hallelúja ég svaf í þrjá tíma í dag :)

Tuesday, May 03, 2005

Minning.

Það var árið 1994. Ég var að byrja í Fjölbrautaskóla Suðurlands. Í skólanum gilti sú regla að innanhús varð að vera í inniskóm, þ.e. ekki mátti fara á götuskónum inn í skólann. Inniskór! Ég náttúrulega fór í búðina að kaupa mér inniskó og eignaðist þá klossa. Svarta, mjúka leðurklossa. Á Fjölbrautaskólaárunum voru þeir mikið notaðir, alla daga í skólanum og alla daga í vinnunni á hótelinu. Það er óhætt að segja að þeir hafi verið trampaðir niður á þeim árum. Árið 1998 þegar ég byrjaði í Kennó og flutti í bæinn fluttu klossarnir með mér. Þá var reyndar aðeins farið að sjá á þeim. Táin orðin hvít og undarlega bunga upp úr leðrinu þar sem stóra táin sperrtist. Þeir voru samt notaðir í svona skreppitúra innan borgarinnar, þægilegt að renna sér í þá á leiðinni út í búð, alltaf fóru þeir með í vinnuna hjá frímúrunum og alltaf þegar þurfti að skúra gólfið. Eftir kennó lá leiðin upp í Reykholt. Þar lá náttúrulega beinast við að taka klossana með í vinnuna. Þar voru þeir geymdir í skáp á skólaganginum og á hverjum morgni var fúnum fótum troðið í þá. Og áfram var troðið á þeim.

Eftir ár í kennslu sá ég til nemanda á ganginum sem voru að "leika mig". Leikritið snérist um göngulagið mitt á klossunum. Eftir það notaði ég ekki klossana í skólanum enda óþarfi að láta skóna horfa á þetta grín. Ég gekk víst eins og gömul vaggandi gæs á gömlu góðu klossunum. Ekki skónum að kenna að þeir væru orðnir svona skældir. Ég fékk mér því nýja inniskó og klossarnir fengu að hvíla sig heima á Bjarkarbrautinni. Klossarnir fluttu svo hingað til Keflavíkur með mér og hafi aðeins verið notaðir hér, þegar fara á út með ruslið eða stökkva út í búð.

Í dag labbaði ég út á bókasafn og ákvað að ganga bara á klossunum. Ég gekk af stað og fann strax að eitthvað var ekki eins og það átti að vera. Ég gekk samt áfram, kunni ekki við að stoppa á miðri götu til að kíkja undir skóna, þó grunaði mig ýmislegt. Það fór svo að lokum að ég steig í poll og þá fór þetta ekki á milli mála. Sólinn á klossunum mínum var sprungin, það eina sem heldur hægra klossanum saman núna er innleggið í botninum.

Það var því með trega og eftirsjá að þessir tíu ára gömlu táfýluklossar, sem hafa ábyggilega gengið til Kína á hálfa leið til baka, fuku í ruslið. Bestu skór sem ég hef átt.

Blessuð sé minning þeirra.

Sunday, May 01, 2005

Ó hve létt...!

er þitt skóhljóð og hve lengi ég beið þín. Dagurinn sem lagið er samið til. Sáuð þið myndbandið úr skólanum í Ameríku þar sem verið var að handtaka fimm ára gamalt barn fyrir ólæti í skólanum. Með handjárnum og alles......sjúkt!

Afrek helgarinnar eru nokkur. Fór á Hafnarfjall ásamt Höllum á föstudaginn. Annað hvort er Janus í formi eða fjallið er miklu auðveldara en það lítur út fyrir að vera. Hafnarfjall er á margan hátt líkt Esjunni, tiltölulega létt ganga þangað til efst þar sem þarf að klöngrast svolítið. Uppi á toppi er flott útsýni - náttúrulega. Ég sá pottinn sem vindurinn er búin til í og oh my god fékk heldur betur að kenna á honum líka. Það var bara brjálað rok. Fékk eitthvað drasl í augað á leiðinni upp og náði því ekki úr auganu fyrr en niður var komið. Ég var því eineygð á leiðinni niður. En alla vega, flott fjall sem mig er lengi búið að langa upp á. Hefði viljað betra veður en samt gaman. Einn og hálfur tími upp og klukkutími niður. Svo fór ég með Höllu á Hvanneyri þar sem verið var að grilla eitthvað hrút-grey í heilu lagi. Hrútinn Hreðjar. Hann smakkaðist ágætlega með ullinni og öllu. Fyndið að koma inn í svona samfélag. Ég þurfti meira að segja að rekja ættir mínar til að fá borð undir diskinn. Skreið undir sæng í miðju partýi hjá Höllu í öllum fötum og vaknaði þannig morguninn eftir. Halla greyið varð að sofa á dýnu á gólfinu með svefnpoka því ég lá eins og klessa í rúminu hennar, með sængina hennar og alla koddana. Ef ég væri hún myndi ég aldrei bjóða mér aftur í heimsókn.

Laugardagurinn og sunnudagurinn fór svo í litlu frændur mína. Fór á róló, á rúntinn, í helli, í sund, elda, svæfa, sofa. Ég svaf á milli þeirra í nótt, las, söng, skeindi, breiddi og huggaði í alla nótt. Í bland við það að ráðast á graða fressketti í stofunni. Svaf svona um það hálfa klukkustund í nótt og er bara sybbinn og geðvond.

Er smeyk við morgundaginn. Má ekki bara fresta honum?

Haldið þið að klár nemandi í níunda bekk að vori sé á sama stað námslega og slakur nemandi í tíunda bekk að vori? Þeir halda það í Menntaskólanum á Akureyri?