Döpur er dráttlaus kona.

...besti páskamálsháttur ever!!!

Thursday, May 05, 2005

Uppstigudagur.

Uppstigningardagur liðin er og samkvæmt veðurmanninum hér til hliðar er orðið svartamyrkur úti og tunglið komið upp. Hann veit greinilega ekki hvernig Ísland virkar á vorin nú eða sumrin. Skyldi hann sýna myrkur þegar það er bjart allan sólarhringinn. Gleymdi alveg að gá hvort hann sagði vera bjart úti yfir dimmustu vetrarmánuðina. Klukkan á blogginu er 3:57 pm - undarlegt - klukkan er 23:34.

Var vakin eldsnemma alveg tíu mínútur fyrir hádegi. Dagurinn fór í tusku. Gaman þegar þessi ættgengi sjúkdómur "tuskudeus" (þýðing: tuskuæði) nær yfirhöndinni á mér. Ég þreif eldhúsið mitt hátt og lágt. Núna get ég bara sett dótið í kassa og flutt út því það er ekkert óhreint í skápunum, dró meira að segja fram eldavélina og tuskaði þar. Fann kartöflur inni í pottaskáp sem hefðu passað vel í kartöflugarðinn...en það er allt önnur saga. Fyrir utan eldhúsið var hin venjulega föstudagshreingerning framkvæmd, bara degi of snemma. Ég tók líka köttinn og þvoði hann....oh my god.... Ég þori að veðja að meðal hárgreiðslustofa safnar ekki svona miklu hári eins og kisa mín hefur misst síðustu daga. Ég held hreinlega að ég sé að byrja að kafna. En fröken Sigríður var skrúbbuð í dag með uppþvottaburstanum góða og sturtuhausunum. Ég held að hún hafi bara kunnað ágætlega við þetta í þetta sinn því hún sat bara sallaróleg í baðinu og leyfði mér að þjösnast á sér. Vona bara að þetta hafi réttu áhrifin. Ég endaði svo á því að þvo gluggana að utan, þeir voru náttúrulega hvítir eins og allt sem hírist utan dyra í Keflavík, frussandi sjór um allt. Nú sé ég út alla vega út, alveg þangað til vindurinn tekur næsta geðveikiskast.

Það er einhver jesúsamkoma í kirkjunni í kvöld, ég hækka bara í græjunum svo ég þurfi ekki að heyra þessi áköll. Fyndið að eyða kvöldinu í að veifa, hverjum skyldu þeir vera að veifa svona mikið? Kannski þeir séu bara að biðja um leyfi til að fara á klósettið en engin nennir að hlusta? Góð hugmynd? Ég er búin að ákveða það að þegar ég gefst upp á því að vera kennari ætla ég að gerast "handritahöfundur" og semja handrit fyrir kvikmyndir nú eða sápuóperur. Hef alveg efni í allar þær persónur sem góð kvikmynd þarfnast. Ég skal ná markmiðinu mínu um að verða fyrsti ríki kennarinn á Íslandi, jafnvel þó ég verði að hætta að kenna til að ná því.

Með sumrinu breytist allt. Ég flyt og fer út. Gugga flytur á Selfoss, svíkur lit og fer að vinna í öðrum banka, Inga flytur ekkert en verður flottasti blaðamaður landsins, Alla flytur heldur ekki, enda nýflutt, og fer að vinna hjá enskabolta fyrirtækinu, Halla flytur ekki en verður á fleygiferð með túrista í bandi, fröken Sigríður köttur flytur en fer fyrst í sumarleyfi á Selfossi. Gæti bara orðið hið þokkalegasta sumar.

Ég var alveg ótrúlega sniðug og bankaði upp á hjá vinkonu minni rétt fyrir sjö og datt náttúrulega inn í svaka grillveislu fyrir vikið. Ég náttúrulega vissi ekki hvað klukkan var en.....gaman að bjóða sér svona óvænt í mat. Passið ykkur bara, ég fer að mæta á fleiri staði þegar ég verð svöng.

Nú er um tvennt að velja, siglingu eða mat? Hvort mynduð þið veðja á?

1 comments:

  • At 9:42 AM, Blogger Gugga said…

    Já já...........það er bara allt á fullu hjá minni. Já og eitt. Eru til pillur handa mér heima hjá þér ef ég skildi lenda í Keflavík á laugardaginn.

     

Post a Comment

<< Home