Döpur er dráttlaus kona.

...besti páskamálsháttur ever!!!

Tuesday, May 03, 2005

Minning.

Það var árið 1994. Ég var að byrja í Fjölbrautaskóla Suðurlands. Í skólanum gilti sú regla að innanhús varð að vera í inniskóm, þ.e. ekki mátti fara á götuskónum inn í skólann. Inniskór! Ég náttúrulega fór í búðina að kaupa mér inniskó og eignaðist þá klossa. Svarta, mjúka leðurklossa. Á Fjölbrautaskólaárunum voru þeir mikið notaðir, alla daga í skólanum og alla daga í vinnunni á hótelinu. Það er óhætt að segja að þeir hafi verið trampaðir niður á þeim árum. Árið 1998 þegar ég byrjaði í Kennó og flutti í bæinn fluttu klossarnir með mér. Þá var reyndar aðeins farið að sjá á þeim. Táin orðin hvít og undarlega bunga upp úr leðrinu þar sem stóra táin sperrtist. Þeir voru samt notaðir í svona skreppitúra innan borgarinnar, þægilegt að renna sér í þá á leiðinni út í búð, alltaf fóru þeir með í vinnuna hjá frímúrunum og alltaf þegar þurfti að skúra gólfið. Eftir kennó lá leiðin upp í Reykholt. Þar lá náttúrulega beinast við að taka klossana með í vinnuna. Þar voru þeir geymdir í skáp á skólaganginum og á hverjum morgni var fúnum fótum troðið í þá. Og áfram var troðið á þeim.

Eftir ár í kennslu sá ég til nemanda á ganginum sem voru að "leika mig". Leikritið snérist um göngulagið mitt á klossunum. Eftir það notaði ég ekki klossana í skólanum enda óþarfi að láta skóna horfa á þetta grín. Ég gekk víst eins og gömul vaggandi gæs á gömlu góðu klossunum. Ekki skónum að kenna að þeir væru orðnir svona skældir. Ég fékk mér því nýja inniskó og klossarnir fengu að hvíla sig heima á Bjarkarbrautinni. Klossarnir fluttu svo hingað til Keflavíkur með mér og hafi aðeins verið notaðir hér, þegar fara á út með ruslið eða stökkva út í búð.

Í dag labbaði ég út á bókasafn og ákvað að ganga bara á klossunum. Ég gekk af stað og fann strax að eitthvað var ekki eins og það átti að vera. Ég gekk samt áfram, kunni ekki við að stoppa á miðri götu til að kíkja undir skóna, þó grunaði mig ýmislegt. Það fór svo að lokum að ég steig í poll og þá fór þetta ekki á milli mála. Sólinn á klossunum mínum var sprungin, það eina sem heldur hægra klossanum saman núna er innleggið í botninum.

Það var því með trega og eftirsjá að þessir tíu ára gömlu táfýluklossar, sem hafa ábyggilega gengið til Kína á hálfa leið til baka, fuku í ruslið. Bestu skór sem ég hef átt.

Blessuð sé minning þeirra.

0 comments:

Post a Comment

<< Home