Döpur er dráttlaus kona.

...besti páskamálsháttur ever!!!

Sunday, March 30, 2008

Gula graftarkýlið.

Ég var að bæta nýrri búð á uppáhaldslistann minn. Búðin Bryggjan eða Pier er alveg ótrúlega spennandi búð með ótrúlega miklu magni af t.d. kertum sem hægt er að þukla á og þefa. Ég endaði svo á að kaupa mér þrjú kerti, eitt blátt, eitt bleikt og eitt kerti sem er hvítt og grænt. Þetta hvíta og græna tók ég upp úr skúffunni í veikindatörninni í síðustu viku og setti í gluggann hjá mér. Það er alveg hrikalega góð lykt af kertinu. Einhver svona ávaxta, nammilykt sem ég fann rétt keiminn af í gegnum allt horið.

En sem betur fer er eitthvað farið að létta til í nefinu því þegar ég kom heim í morgun eftir nætur pössunnina angaði íbúðin af þessum eðalilmi og það var ekki einu sinni kveikt á kertinu. Mmmmm nammi nammi.

Ég fór svo að versla áðan. Rúntaði svolítið, bara svona til að halda upp á það hvað bensínið er ódýrt og kom heim rétt rúmlega fjögur. Ennþá var þessi ilmur, mér finnst svo frábært þegar ilmurinn af kisu er ekki í meirihluta í húsinu mínu.

Alla vega finnst mér þetta alveg rétti tíminn til að kveikja á kertinu. Þar fékk ég skýringu á því hvers vegna lyktin af kertinu var svona megn. Gula graftarkýlið þarna á himninum var búin að vinna af því í allan dag að bræða kertið mitt fallega yfir alla gluggakistuna, eins og grænt hor liðaðist það um sólbekkinn. Ekki að lyktin hafi verið neitt verri fyrir vikið, bara óþarfa sóun á góðu kerti. Nú hallar það ískyggilega mikið út á hægri hliðina, soldið töff!

Sendi bestu kveðjur úr vel lyktandi íbúðinni við Hverafold!

Friday, March 28, 2008

Enn einn dagurinn í eymd og volæði.

Ég treysti mér ekki vinnuna í morgun frekar en í gær. Nú er ég farin að fá mjög svo undarlegan verk í tennurnar í bland við stinginn í eyranu. Er það ekki ávísun á eitthvað vesen í holunum í hausnum? Úfff vona það besta og bryð íbúfen eins og smarties. Ég er segja ykkur það ég hef ekki farið í ræktina síðan á miðvikudegi fyrir páska...skelfilegt.

Ég eyddi deginum undir sæng með frú Sigríði á tánum og kláraði bók sem búin er að vera alltof lengi á náttborðinu. Flugdrekahlauparinn hét hún. Æðisleg sem lýsir ömurlegum aðstæðum fólks í Afganistan. Hvaða rugl er þetta í þessu liði þarna niðurfrá? Hvers konar skepnuskapur fer þarna fram í skjóli trúarinnar? Úffff...best að segja kannski sem minnst, kannski kann einhver þeirra íslensku. Ég ráðlegg ykkur þó að lesa þessa sögu ef þið hafið ekki gert það nú þegar.

Ég vil svo senda honum karli föður mínum hamingjuóskir. Hann var heiðraður svo mikið í gær að maður svífur á pínu montskýi í dag. Hann átti þetta svo hrikalega mikið skilið. Pabbi minn er yndislegur maður sem gerir allt fyrir alla, ég reyni eftir fremsta megni að líkjast honum. Til hamingju elsku pabbi minn :)

Góðar stundir.

Thursday, March 27, 2008

Að hlaupa maraþon!

Það hefur alltaf verið draumur minn að hlaupa maraþonhlaup, 42 kílómetrar eru þó þokkaleg vegalengd, en allt er hægt ef viljinn er fyrir hendi. Stefnan er því sett á maraþon sumarið 2009. Maraþon hlaup er hlaupið að heiðra minningu dátans Feidippídesar sem hljóp frá stríðssvæðumv við Maraþon í Grikklandi til Aþenu til að segja fréttirnar af sigri Grikkja yfir Persum. Þetta var nú ekki fyrir löngu síðan, þarna um árið 490 fyrir krist. Ég get næstum staðfest það að kappinn hafi ekki hlaupið á Adidas skóm þessa vegalengd, né heldur hafi hann fengið vatn í hendurnar á vissu millibili.

Í upphafi var maraþonhlaupið fjörtíu kílómetrar og þannig var það hlaupið nokkra Olympíuleika. Því var svo breytt þegar leikarnir voru haldnir í London svo hlaupið næði frá Windsor-kastala til White City leikvangsins, þá var vegalengdin orðin 26 mílur sem eru 41.8 kílómetrar og svo 385 jördum í viðbót þannig að hlauparnir myndu skríða yfir marklínuna beint fyrir framan stúkuna hjá hefðarfólkinu. Þeir hafa verið frekir Bretarnir. Síðan þá hefur þessi vegalengd verið hlaupin 26,2 mílur eða 42.195 metrar. Merkilegt finnst ykkur ekki.

Smá skandall í sögunni varð þegar það uppgötvaðist að hlaupaleiðin í virtasta maraþon hlaupi í Boston var búin að vera 161 metrar of stutt...hahaha þvílíkur skandall.

Það er kannski ekki eins ég stefni á að setja heimsmet, en heimsmet í kvennaflokki á Catherine Ndereba frá Kenya á tímanum 2:18:47. Meira svona að geta sagt sjáðu Reykjavík, þarna hinum megin er Selfoss, þangað hljóp ég....! Gott markmið.

Frábær!




Ég tók þetta próf áðan og finnst niðurstaðan svo frábær að ég ákvað að setja hana hérna inn :) (come on ég er lasin og mér leiðist )

Frábær!
Þú ert einstaklega vel heppnað eintak mannsbarn! Þú metur fólk af verðleikum og kemur svo sannarlega til dyranna eins og þú ert klædd! Þú ert skemmtileg og gaman að umgangast þig, tala við þig og vera vinur þinn eða maki! Þú ert klár og ert að gera góða hluti í lífinu!!

Monika

Chelsea Clinton, dóttir Hillary Clinton, sem berst fyrir því að verða forsetaframbjóðandi bandarískra demókrata, neitaði að svara spurningu frá nemanda í háskólanum í Butler, Indiana í Bandaríkjunum, er tengdist Monicu Lewinsky.

Spáið í því, pabbinn gat ekki stjórnað sínum litla manni og fyrir vikið þarf stelpugreyið að svara spurningum um þessa ósjálfsstjórn hjá karli föður sínum. Hvernig ætti hún að svara spurningum um þetta? Var hún ekki bara rétt tíu ára þegar þetta gengur yfir? Ég samdi fyrir hana þetta svar og vona að hún geti notað sér það.

Sko þegar pabbi var að vinna sem forseti var hann einu sinni að labba á skrifstofunni sinni og þá liggur allt í einu einhver stelpa á gólfinu. Pabbi hélt náttúrulega að hún væri lasin og fór að reyna að hjálpa henni. Hún var í svona skyrtu sem var svo hátt upp í hálsinn að pabbi ákvað að hneppa aðeins frá svo hún ætti auðveldara með að anda. Svo mundi hann allt í einu eftir svona munn við munn aðferð sem hjálpar fólki sem á erfitt með að anda. Svo hann gerði það og þá leið stelpunni allt í einu mikið betur. Hún var svo glöð yfir að pabbi hefði hjálpað henni að hún var bara að kyssa hann fyrir, allar stelpur gera það þegar einhver hefur bjargað lífi þeirra. Pabbi gerði ekkert vitlaust, ekki hefði hann átt að banna stelpunni að þakka fyrir sig?

Góðar stundir.

Wednesday, March 26, 2008

Í enn einni ástarsorginni

Ég skal segja ykkur það að enn ein ástarsorgin hefur knúið dyra. Satt að segja er ég orðin langþreytt á þessu endalausa áreiti og veit ekki hversu oft ég ræð við svona átök í viðbót.

Þetta er náttúrulega mér að kenna. Ég vissi þegar ég leit til hans að hann væri utan seilingar. Svo myndarlegur, svo stæðilegur og það versta af öllu, svo lofaður. Ég lét samt tilleiðast og leyfði honum að umvefja mig með hljóðlátu murri. Þið getið rétt ímyndað hversu yndislegt það var. Algerlega ný reynsla, hann hreinlega sópaði mér af fótunum svo ég sveif ástfanginn á bleiku skýi.

En þetta var stutt gaman. Ég skilaði honum aftur. Hann krafðist of mikils af mér. Átti ég að fara að breyta mínu lífi til að geta þóknast honum og hans stóru kröfum. Maður á ekki að gera sér dælt við aðra lofaða....!

Ég kom út í morgun, með hor í nös. Ég settist inn í gamla fallega rauða bílinn minn. Kannski var ég undir niðri ekkert tilbúin til að skila þeim gamla og kaupa nýjan. Jafnvel þó sá nýji sé mun stæðilegri.

Góðar stundir.

Tuesday, March 25, 2008

Ég gerði óformlega könnun

...og komst af því að fólkið í kringum mig þekkir bæði forseta Íslands og Hómer Simpson. Alveg stórmerkileg uppgötvun finnst ykkur ekki. Fleiri Bretar þekkja Harry Potter frekar en Tony Blair, merkilegt alveg hreint. Ætli ástæðan sé ekki sú að Tony gamli er horfin af sjónarsviðinu.

Ég fór í vinnuna í dag og reyndi að gera eitthvað gagn þar. Ég er að segja ykkur það að ég er gjörsamlega að kafna úr hor. Ég fann ekki lyktina af fiskinum sem ég eldaði í kvöld, ég fann heldur ekki bragðið af honum og ég sá hann varla heldur, hann hefði getað gelt á disknum líka því það eru engar líkur að ég hefði heyrt það heldur. Það er hreinlega öll skynjun að kafna í hori. Talandi um að fá tvöfaldan í kók.

Hnerrar dagsins nálgast eitt hundrað, snýtur dagsins nálgast eitt hundrað. Aumingjavæl dagsins nálgast fimmtíu og gott ef hitinn er ekki komin vel yfir 38. Andskotans djöfull....ég verð að vera orðin hress á föstudaginn því þá ætla ég að detta feitt í það.

Góðar....atsjú.....stundir!

Monday, March 24, 2008

Kakkalakkafaraldurshætta

...þessi fyrirsögn hefur nákvæmlega ekkert með innihald þessarar færslu að gera, mér fannst þetta bara svo fyndin fyrirsögn. Ég sver það páskarnir búnir og ég sit hér í eymd og aumingjaskap með hor niður á höku og suð í eyrunum. Það ætti hreinlega að sleppa öllum fríum í skólanum fyrir mig því ég verð alltaf lasin í fríum, alveg ömurlegt.

Svo er bara vinnudagur á morgun. 25 mars á morgun svo það er innan við mánuður þangað til ég fer til Svíþjóðar og Dannmerkur. Sex vikur í Hvannadalshnjúk. Svo eru rétt rúmlega tveir mánuðir þangað til ég kemst í eyjuna mína. Rétt rúmlega þrír mánuðir í Hornstrandir. Já sumarið er bara handan við hornið, alveg sama hvað Soffía veðurfræðingur segir það er vor í lofti.

Trúin flytur fjöll er málshátturinn minn þetta árið. Heppilegur málsháttur á þessum tíma og segir mér að rétt ákvörðun hafi verið tekin, þetta passar of vel til að geta verið tilviljun. Ekkert nema gott um það að segja.

Í dag á ég fermingarafmæli, en ég fermdist akkúrat á þessum degi 24. mars árið 1990 (er það ekki örugglega). Í dag á líka hún Aðalheiður vinkona mín afmæli. Góður dagur. Góður dagur.

Góðar stundir.

Monday, March 17, 2008

Nokkrir punktar!

Ég er í páskafríi. Fínt að fá svona tíma til að hlaða batteríin.

Byrjaði þennan mánudagsmorgun eins og alla aðra með því að fara í ræktina klukkan sex. Ívar ekki komin í páskafrí þó allir aðrir hafi sofið á sínu græna eyra í morgun. Geggjað að koma svo heim klukkan rúmlega átta og fara bara aftur að sofa. Ég vaknaði svo ofurhress einhverjum tímum seinna og fór í sundskýluleiðangur með litlu frændum mínum sem eru að fara til Kanarí í fyrramálið.

Þegar þurrkarinn flutti í Bólstaðarhlíðina varð skyndilega pláss í geymslunni hjá mér. I have been given the gift of space! Ég tók til í geymslunni seinnipartinn í dag og svei mér þá ef ekki er hægt að skipta um skoðun þar inni núna. Fór nokkrar ferðir í ruslið og eina nokkuð þunga göngu í blaðagáminn á kantinum. Blöð sem báru fréttir frá árinu 2007....en við tölum nú ekkert frekar um það.

Ég heimsótti svo Ingveldi og nýjasta vinkonu-afleggjarann. Afskaplega fallegan og svipmikinn Andrason. Alveg yndislegt að geta knúsast með svona glænýtt barn.

Ég fór svo í sund og horfði á alla fallegu kroppana þar. Líka þennan ofurmyndarlega sem ég sá í speglinum...hehehe!!! Fór svo að borða á Vegamótum og ég skal segja ykkur það að þegar ég kom þaðan frá var ég búin að fá sekt á bílinn, fyrir að hafa lagt ólöglega. Ekki vissi ég að svona verðir væru að skrifa út sektir klukkan hálf tíu að kvöldi til. En rétt skal vera rétt og þegar ég kíkti í kringum mig var víst eitthvað skilti þarna upp á einum ljósastaurnum sem sagði bannað að leggja. En allir hinir löggðu þarna líka og hvergi var sekt nema á mér. Stöðumælavörðurinn stendur stóð sig vel í kvöld. Ég mun borga sektina þegar dagar.

Ætla að skreppa í Reykjanesbæ í fyrramálið og máta aðeins svona þrekmeistaraþraut, maður veit ekki nema prófa.

Góðar stundir.

Sunday, March 16, 2008

Kennara dæmdar bætur.

Það er hiti í bloggheimum vegna þess dóms sem féll fyrir helgi, þar sem forráðamönnum barns er gert að borga kennara tíu miljónir í skaðabætur fyrir skaða sem barnið olli kennaranum í kennslustofunni. Ég er að segja ykkur að á einni bloggsíðu var búið að setja fram þá hugmynd að foreldrar ættu að halda börnunum heima til að mótmæla dómnum, mótmæla því að barn þurfi að svara fyrir það að hafa valdið kennara örorku. Á mannamáli barnið mitt kemur ekki í skólann fyrr en það er á hreinu að það megi ganga í skrokk á kennaranum án þess að þurfa að taka ábyrgð á því.

Ég er mikið búin að velta þessu fyrir mér og finnst alveg með ólíkindum hvaða orð fólk getur notað um kennarann. Fólk er alveg brjálað út í kennarann fyrir að hafa vogað sér að leggja fram kæru. Á einni bloggsíðu segir: þessi kennari ætti aldrei að fá að umgangast börn framar! Á annarri segir; foreldrarnir ættu nú bara að kæra kennarann fyrir að hafa ekki haldið aga í bekknum!

Satt að segja er ég pínu skelkuð. Til að byrja með komst ég af því að ég er ekki tryggð í vinnunni minni. Ef ég myndi detta á ganginum í skólanum og meiða mig væri ég tryggð fyrir því en ef eitthvað barn í æðiskasti myndi valda mér skaða væri ég ótryggð. Hvernig í ósköpunum má það vera? Hvaða skilaboð sendir þetta nemendum og foreldrum? Hvernig endar þetta eiginlega, ætla foreldrar að fría sig allri ábyrgð á uppeldi barna sinna?

Eitt er víst að ég ætla að hringja í mitt tryggingafélag eftir helgi og forvitnast um það hversu mikið það kostar mig að tryggja mig fyrir nemendum mínum því aldrei myndi ég sætta mig við skaða jafnvel þótt barn eigi í hlut.

Mynduð þið sætta ykkur við það?

Tuesday, March 11, 2008

Ekki æfa yfir þig!

ÉG fór á æfingu í gærmorgun, reyndi á brjóst og bakvöðva. Seinnipartinn ákvað ég að fara út að skokka í blíðunni sem var þá. Skokkaði heila tíu kílómetra á góðum hraða án þess að stoppa. Bara nokkuð sátt miðað við aldur og fyrri störf.

Ég fór svo aftur á æfingu í morgun. Fór reyndar bara í brennslu, svona tuttugu, tuttugu, tuttugu. Seinnipartinn var ennþá svo gott veður að ég ákvað að fara aftur út að skokka. Reyndar ekki nema einhverja svona sex til sjö kílómetra, það er nú bara einu sinni þriðjudagur.

En ástæðan fyrir því að ég er að skrifa þetta er sú að í blíðunni núna seinnipartinn hljóp ég í gegnum Bryggjuhverfið. Þetta undarlega hverfi sem lítur út fyrir að hafa verið byggt úr lego-kubbum. Litirnir á húsunum eru flestir þannig að þeir myndu sóma sér vel í nærbuxnaskúffu, allt eitthvað svona lilla litað. En það sem mér finnst svo magnað við þetta eitt dýrasta hverfi í Reykjavík er hversu ljótt umhverfið þarna er. Kannski ef þú býrð í kubbahúsinu sem er beint fyrir framan smábátahöfnina gæti þetta sloppið en allt hitt er bara ljótt. Gámahöfnin þarna hjá Samskip er að mínu áliti ljótt útsýni, svo ég tali nú ekki um malarverksmiðjuna og vörubílana sem henni fylgja, æðislegt að hafa tuttugu metra háan sandskafl fyrir utan gluggann hjá sér sérstaklega þegar það er rok :)

Í hverfinu er engin skóli. Í hverfinu er engin búð. Í hverfinu er önnur af tveimur aðkomuleiðum þannig að fólk á litlum bílum eiga á hættu að skemma bílana. Það er fínt að hlaupa þarna í gegn, en jesús minn hvað ég myndi ekki vilja búa þarna...og hana nú!!

Ætla að fara að æfa klukkan sex í fyrramálið og hver veit nema Laugaskokk verði massað seinnipartinn :)

Góðar stundir.

Sunday, March 09, 2008

Fjarstýringin

Hún hreinlega tókst á loft þegar ég stökk með látum upp úr sófanum í vikunni. Stýringin lendir á gólfinu og takkarnir þeytast um öll gólf. Eitthvað var tökkunum farið að fækka því þetta var ekki í fyrsta sinn sem svona flugferð á sér stað. Eftir að hafa skriðið um gólf og ýtt til húsgögnum varð niðurstaðan sú að fjarstýringuna vantar nú 13 takka. Það verður sífellt erfiðara að púsla þeim á stýringu með þeim hætti að ekkert af mikilvægu tökkunum séu ónothæfir. Ég ákvað því eftir að hafa fundið nokkuð góða uppröðun á tökkunum að líma fjarstýringuna saman. Fyrst með fljótandi UHU lími og vafði svo nokkra hringi utan um það með límbandi. Eftir þetta var ég nokkuð sátt. Ég settist í sófann og tók bókina mína upp af borðinu og sá mér til mikillar mæðu að undir henni voru sex takkar.

Hvernig á ég að koma þeim inn í stýringuna?

Tuesday, March 04, 2008

Hárblásarar

Ég heyrði því fleygt að í sundlaugum Reykjavíkur kæmi einhleypir saman í leit að öðrum einhleypum snillingum. Af þeirri ástæðu og einnig þeirri að ég var að reyna að mýkja upp á mér bakið skellti ég mér í Laugardalslaugina í gærkvöldi. Ég get svo sem ekki sagt að ég hafi séð mikið af þessum sætu einhleypu sem áttu að vera í lauginni, þó náttúrlega fyrir utan sjálfa mig. Mjög fáir töluðu líka íslensku og flestir voru í hallærislegum sundskýlum....það er eitthvað með þessar gamaldags speedo sem ekki gengur upp.

En jæja eftir góðan klukkutíma í heita vatninu fór í klefann, byrjaði á að fara á salernið. Þegar ég kem út af básnum blasa við mér fjórir stórir speglar og fyrir framan þá meðal annars tveir hárblásarar. Á speglinum fyrir ofan þá var búið að setja upp smá auglýsingu. Það sem á henni stóð olli mér miklum vangaveltum. Þar stóð þessi orðsending:

"Athugið: hárþurrkurnar eru einungis ætlaðar til að þurrka hár"

Mér er spurn? Fyrst starfsfólkið sá ástæðu til þess að setja upp þessa auglýsingu er greinilegt að hárþurrkurnar hafa verið misnotaðar við eitthvað annað oftar en einu sinni, ég er bara svo ótrúlega óhugmyndsnauð að mér hafa ekki dottið neinar aðrar brúkunaraðferðir í hug. Dettur ykkur eitthvað í hug? Ekki þurfa konur nú til að dags að nota hárþurrkur til að þurrka undirvagninn? Ég skil þetta bara ekki.

Saturday, March 01, 2008

Litlir molar

Ég veit ég veit að ég hef ekki verið að standa mig. Ég hef bara haft svo mikið að gera...ég veit líka að það er léleg afsökun fyrir ykkur tryggu lesendur sem kíkið hér inn daglega og ekkert gerist.

Molarnir eru nokkrir. Kannski það helsta að ég er búin að eldast um eitt ár síðan ég skrifaði hér síðast. Skvísan orðin 31 árs og bókstaflega aldrei verið hressari. Ekki var þó mikið gert á þessum merkisdegi.

Ég fór á Nasa til að fagna nýja júróvisíon laginu, það var ekki leiðinlegt, frekar svona sveitt þegar líða tók á og frekar svona mikið sárir fætur daginn eftir.

Foreldradagur í vikunni var það sem helst orsakaði þetta bloggleysi, þeir dagar taka alltaf verulega mikið á. En auðvitað ekkert til að hafa áhyggjur af þegar svona vel gengur.

Merkilegast er þó sú staðreynd að 25.febrúar er hlaupársdagur, vissuð þið það? Vísindamenn voru nefnilega að reikna það út að til að útreikningar gangi upp verði dagurinn sem bætist við að vera 25. febrúar, þá óhjákvæmilega verði 29 dagar í febrúar. en þessi 29 sé ekki hinn raunverulegi hlaupársdagur heldur aðeins afleiðing af þessum breytingum. Ég gleðst við þessar fréttir og get því sagt án þess að ljúga að í ár sé ég rétt rúmlega fimm ára gömul....þarna kom skýringin :)

Góðar stundir!!!