Döpur er dráttlaus kona.

...besti páskamálsháttur ever!!!

Tuesday, February 19, 2008

Frú Sigríður

Frú Sigríður sem nota bene er KÖTTUR situr sjaldan auðum höndum. Myndi líklega vera á ritalíni ef manneskja væri. Ýmis afrek hefur hún unnið, hefur satt að segja unnið nokkur þeirra síðustu daga.

Það fyrsta: Frú Sigríður ákvað að máta handtöskuna mína sem hékk ásamt nokkrum öðrum töskum á litlum sætum plastsnaga í fatahenginu. Snaginn var greinilega ekki gerður fyrir fjórar töskur og kött svo hann hrundi niður og töskurnar með köttinn innanborðs lentu í einni hrúgu á gólfinu. Hafa skal í huga að þessar æfingar framkvæmdi frú Sigríður um klukkan þrjú um nótt svo heimasætan vaknaði með andfælum.

Það næsta: Frú Sigríður brenndi sig á hægra framfæti þegar hún steig á heita hellu á eldavélinni. Auðvitað gerði hún það þegar hún ætlaði að lauma blautu trýninu í salatið sem ég var búin að útbúa mér í kvöldmat. Kannski mátulegt á hana.

Það þriðja: Frú Sigríður var að príla inni í þvottahúsi. Ég var frammi að hengja upp. Þegar ég lauk því henti ég þvottakörfunni á gólfið inni í þvottahúsi, slökkti ljósið og lokaði svo hurðinni. Ekki meðvituð um að frú Sigríður væri þar inni. Eftir smá stund heyrist þvílíkur skarkali og læti og svo dettur greinilega eitthvað í gólfið. Ég fer og opna hurðina og út kemurinn kötturinn skíthræddur. Ég kveiki ljósið og sé mér til mikillar hrellingar að þvottaefnispakkinn minn liggur á gólfinu og það er þvottaefni út um allt. Æðislegt.

Fleiri afrek súperkattarins frú Sigríðar munu verða skrásett síðar.

Góðar stundir.

Sunday, February 17, 2008

Helgin heima

Ég tók frábæra ákvörðun á föstudaginn. Ákvörðunin hljóðaði svona. Þessa helgi ætla ég að vera heima og gera nákvæmlega ekki neitt.

Hér fáið þið að heyra um þessa frábæru helgi mína. Á laugardaginn svaf ég út, ætlaði að vakna klukkan hálf tíu og fara í Laugaskokk en ákvað þegar klukkan hringdi að ég gæti allt eins farið að skokka seinna um daginn. Ég vann svo alveg ótrúlega vel frá 11 til 3, ég veit ég er í vetrarfríi en svona er bara þetta kennarastarf. Ég fór svo í ræktina og fór tækin fjögur 20+20+20+20=80 mínútur, ágætis líkamsrækt. Eftir sturtu rauk ég beint heim og bjó til alveg sjúklega góða pitsu með fetaosti og alles. Svo tók við frábær kvöldstund með hinum ýmsu konum og körlum sem hafa það að atvinnu að stunda "leikingar" aka leikarar.

Fór að sofa eftir dúk og disk, svaf eins og miðaldra steinhella fram eftir morgni, þreif hjá mér og gekk frá þvottinum sem ég nennti ekki að ganga frá í gær...en því segi ég náttúrulega engum frá.

Árangur vetrarfríssins og helgarinnar er þessi, ný aukahefti og kannanir fyrir Einingu 4. Fullt af stærðfræðiefni fyrir áhugastærðfræðisvæðið í skólanum. Allar fimm dvd myndirnar sem ég fékk lánaðar hjá Sigrúnu frænku. Daður á facebook, og spjall á msn.

Alveg fullkomin helgi finnst ykkur ekki :)

Saturday, February 16, 2008

Bloggleiði/leti/

...og einhver fleiri orð sem afsaka það að ég nenni ekki að blogga. Það er ekki eins og ég hafi frá nógu að segja. Ég er í vetrarfríi sem reyndar núna er orðið að helgarfríi.

Það er að fjölga um einn í bekknum mínum svo talsverður hluti af vetrarfríinu góða fór í skipuleggja það. Þá er ég aftur orðin með tuttugu orma.

Ég þarf að ganga frá öllum þvottinum sem ég er búin að þvo síðustu daga. Ég setti hann á rúmið mitt áðan þannig að ég get ekki farið að sofa í kvöld nema vera búin að ganga frá honum.

Ég þarf líka að koma mér úr náttfötunum og í ræktina. Ég er með hor í nös og er búin að telja mér trú að þegar slíkt hendir mann sé best að liggja bara undir teppi með dvd og tölvuna á hnjánum. Allt saman hinn mesti misskilningur.

...eftir lestur þessarar færslu munið þið einnig þjást af bloggleti eða leiða.

Monday, February 11, 2008

69.797

Þannig stendur teljarinn, hver skyldi verða númer 70.000!

Bjór og kvöldstund í boði fyrir þann heppna!

Saturday, February 09, 2008

Árshátíð



Raggi gamli Bjarna fór á kostum í gærkvöldi í storminum í Gullhömrum. Árshátíðin var bara nokkuð skemmtileg. Selfoss er...var lag kvöldsins. Allt of háir hælar voru ein mistök kvöldsins. Jarðaber og rófur með súkkulaði voru brandari kvöldsins. Apótekið voru önnur mistök kvöldsins. Aðeins allt of mikið áfengi voru þó þegar upp var risið í morgun stærstu mistök kvöldsins.

Í dag er ég búin að borða eina pitsu, drekka líter af kók, borða hálfan poka af nammi, einn snakkpoka...já er búin að vera alveg hrikalega óþekk.

Raggi Bjarna var samt góður í félagsskap okkar Kollu. Góðar stundir.

Thursday, February 07, 2008

Ný klipping og pungatal



Fór í klippingu í dag er bara nokkuð sátt við kollinn, kemur í ljós hvort ég verð ennþá sátt á morgun. Fínt að fara svona í klippingu korter fyrir árshátíð, þá verður maður eitthvað svo ægilega fínn eitthvað.

En yfir á punginn! Þar sem ég hafði verið sleginn í fótinn í stað tunnurnar í gærdag ákvað ég að skella mér í sund seinnipartinn, aðeins að hvíla fæturna frá Laugum þennan seinnipartinn. Eftir að hafa synt einhverjar margar ferðir fór ég svo í pottinn. Eftir smá stund þar koma þrír miðaldra menn í pottinn. Einn sem leit út fyrir að vera að minnsta kosti fimmtugur en hagaði sér eins og unglingur. Einn með yfirvaraskegg eins og þýskur klámmyndaleikari og einn svona nokkuð eðlilegur maður á sextugsaldri. Ég var að nudda á mér bakið með stútunum þarna í pottinum og þóttist ekki vera að hlusta en auðvitað hlustaði með fullri athygli. Þeir slógu um sig þarna sérstaklega hrukkótti unglingurinn. Mér skildist fljótlega á tali þeirra að þeir væru allir bílasalar og oj hvað þeir töluðu illa um kellingar sem vissu ekkert í sinn haus. Hrukkótti unglingurinn sagði: ég skal nú bara segja það að síðan ég skilaði gömlu kellingunni (..og já það er viljandi að ég skrifa kellingar svona svo það er óþarfi að leiðrétta það...bara til vonar og vara) hefur sko ekki verið eldað neitt ógeðis saltkjöt á mínu heimili. Það sama er að segja um þennan ógeðslega myglaða ógeðis þorramat, hann kemur sko ekki nálægt mér, enda er sú nýja ekki fyrir neina punga nema punginn á mér!!!!

Hahaha hvaða ógeðismaður segir svona setningar í almenningssundlaug með fullt af börnum í kringum sig. Það varð líka þögn í pottinum eftir að hann tjáði sig með þetta. Fyndið! Rétt seinna fór hrukkótti unglingurinn upp úr pottinum, átti sennilega erfitt uppdráttar eftir þennan sannleika. Ég sver það gaurinn var ekki komin nema tíu metra frá pottinum þegar félagar hans fóru að baktala hann...spurning hvort það er ljótara þetta með punginn eða þetta með baktalið!!!

Já það er skemmtilegt að fara í sund!

Wednesday, February 06, 2008

Hómer fór í skólann!

Öskudagur eða öskurdagur eins og ég kýs að kalla hann, hvað skyldu vera margir svoleiðis dagar á hverju ári? Ég fór í skólann í Hómer búning, mér finnst þetta alltaf skemmtilegir dagar og þessi var engin undantekning. Við vorum reyndar einn af fáum skólum í höfuðborginni sem gáfu nemendum okkar ekki frí í dag. Við fórum með allt liðið í rútu í bíó í Smáranum þar sem allir fengu popp og kók. Mér fannst það alveg ótrúlegt að sjá hvernig Smáralindin fylltist af nammisjúkum eftirlitslausum börnum upp úr klukkan tíu sérstaklega þar sem búðirnar í Smáralindinni opna ekki fyrr en klukkan ellefu. Það var bara eins og börnunum hafi verið droppað þarna um leið og foreldrarnir fóru í vinnuna. Hvergi var öskupoka að sjá enda búið að gera þennan alíslenska öskudag að eftirhermu Halloween í henni Ameríku....synd! Hvað er spennandi við að safna sveittu nammi í stóran plastpoka?

Helstu afrek dagsins voru þau að vera lamin í fótinn með lurkinum stóra sem hitti ekki á tunnuna (eða kassann). Úfff þá var nú gott að vera með Hómer grímu svo engin gæti séð hvað ég meiddi mig mikið.

...ekki meira að sinni. Næsta færsla mun fjalla um ferð mína í Grafarvogslaugina fyrr í kvöld og pungatalið sem ég heyrði þar :) Verið spennt, verið mjög spennt!

Monday, February 04, 2008

Bolludagur

Hvernig stendur á því að mitt í allri þessari umræðu um fordóma og sjúkdóma fái dagur eins og bolludagur að standa óbreyttur. Ef það að ræða um andlegt ástand borgarstjóra er tabú (athugið þó að ég er sammála því að þar hafi verið skotið vel yfir markið), það sama er að segja um reykingarmennina sem við hin virðumst vera að leggja í einelti með því að skipa þeim út að reykja. Hvers vegna má þá leggja svona einn hóp í samfélaginu í einelti án þess að allt verði vitlaust.

Að halda upp á bolludag er ljótt, að öll þjóðin haldi upp á það að bollur séu til. Það næsta sem maður veit er það við fögnum hengilmænudeginum. Áður en við vitum af munu feministar setja út á messurnar tvær Jónsmessu og Þorláksmessu, svo við tölum nú ekki um Þorran.

Alla vega óska ég öllum bollum innilega til hamingju með daginn!!!!