Döpur er dráttlaus kona.

...besti páskamálsháttur ever!!!

Saturday, December 29, 2007

Það er þetta með jólin!

Maður bíður spenntur eftir þeim í margar vikur, lætur sig dreyma um samverustundir með fjölskyldunni, matinn sem maður þarf ekki að elda sjálfur, pakkana sem maður fær að rífa upp, sofa út stundirnar, púslið. Svo kemur loksins að þessu öllu og jafnfljótt og það kemur er það búið. Allt í einu er komin 29. desember og framundan er nýja árið. Árið 2008. Árið mitt.

Jólin voru skemmtileg og full af óvæntum atburðum svo ekki sé meira sagt. Ég var hrikalega dugleg að fara út að skokka yfir jólin, alveg þangað til hitastigið fór niður fyrir -5. Þá dröslaði ég þrekhjólinu hans pabba fram fyrir sjónvarpið og horfði hjólandi á Friends. Gaman að þessu og hver segir að maður verði að hafa World Class til að hreyfa sig.

Jólagjafirnar komu skemmtilega á óvart. Útvarpið sem ég bað fjölskylduna um reyndist vera göngutjald og tek ég ofan fyrir þeim að hafa tekist að finna göngutjald einhvers staðar til sölu í Desember. Ég fékk svo einn svona pakka sem var í stíl við þennan "svarta stóra" sem ég fékk í fyrra. Ég bil þakka bróðir mínum fyrir hans skemmtilega og bráðundarlega húmor.

2000 bita brjálaða pússlið okkar Önnu tók alveg ótrúlega langan tíma og er ef satt skal segja ekki tilbúið enn. Síðustu fimm hundruð bitarnir bíða eftir mér í Hrísholtinu.

Móðir mín hefur varla veril til nema í vofu-líki þessi jólin. Hún var svo lögð inn á sjúkrahús í gær og kom heim aftur í dag alveg eins og nýslegin túkall eða svo gott sem. Ég tek ofan fyrir henni og vona að ég sé ekki svona þrjósk líka.

Ég fékk svo óvænt boð í kvöld og er að fara á tónleika á morgun í háskólabíó með fjórum sætum strákum og einni stelpu....úúúú!!! Spennandi?

Later!

Saturday, December 15, 2007

Pollý-Jana

Gleði, gleði, gleði!!!!

Ég renndi yfir blogglistann minn sem því miður styttist með hverjum deginum. Ein af færslunum sem vakti sérstaka athygli mína og var það jákvæðis hjalið hennar Soffíu. Alveg snilldarfærsla eins og þær eru reyndar alltaf hjá henni. Þá fór ég að hugsa og ákvað að fara í smá Pollí-Jönu leik með þeim atburðum sem ég hef lent í síðustu daga.

Jólapúkinn: ömurlegt að fara í ræktina í nýju skónum sínum og einhver gerist svo djarfur að stela þeim.
Pollý-Jana: Vertu ánægð að skónum sem kostuðu 40 dollara var stolið en ekki nýju Asics skónum sem kostuðu 95 dollara.

Jólapúkinn: Ömurlegt vatnsveður sem skemmdi parketið á gólfinu, og jú jú að ég skuli ekki vera tryggð akkúrat fyrir þessu óhappi.
Pollý-Jana: skítt með parketið, það getur varla orðið ljótara hvort sem er, vertu ánægð að nýji skenkurinn sem stóð í miðjum pollinum skyldi sleppa við það að skemmast.

Jólapúkinn: Hvað er með bensínlokið á bílnum? Hvers vegna í ósköpunum get ég ekki opnað það lengur inni í bílnum eins og ég hef alltaf getað gert. Er bíllinn minn að verða einhver drusla?
Pollý-Jana: Vertu nú bara ánægð með að vera yfirhöfuð á bíl, það er fullt af fólki sem ekki hefur efni á því að eiga bíl, hefðir þú til dæmis viljað vera upp á Strætó komin síðustu daga, fljúgandi um á sprungu strætóskýli.

Jólapúkinn: Ég trúi því ekki að enn ein jólin séu að ganga í garð og að ég skuli enn vera einhleyp. Mikið svaðalega hlýtur þú að vera ómöguleg!!!
Pollý-Jana: Pfff…hvaða rugl er þetta í þér þú veist það vel að alltaf er autt ból betra en illa skipað ból. Þú ert fullkomin eins og þú ert.

Og til að gera þetta ennþá væmnara þá hljómar stjörnuspá dagsins svona: Það sem eitt sinn virtist vandamál (eða kannski ömurleg lífsreynsla) verður þolanlegt, jafnvel fyndið. Þú hefur greinilega komist yfir hindrunina. Skál fyrir þér!

Thursday, December 13, 2007

Fimmtudagurinn 13.

Oft heyrir maður fólk tala um óhappadaga eða nota frasann þetta er bara ekki minn dagur. Ég ætla að byrja þennan pistil á því að segja að þetta var ekki minn dagur, hann var algert klúður. Þrátt fyrir að í dag hafi verið tekin skóflustunga að Sæmundarskóla þá mun ég ekki minnast dagsins fyrir það. Er þetta nóg drama í upphafi færslu??

Þegar ég kom fram í morgun eftir þetta viðbjóðslega veður mætti mér risastór pollur á parketinu. Óþéttur gluggi og parketið stórskemmt. Frábært að byrja daginn svona. Ég þurrkaði því gólfið og stillti ofninn á heitasta hitann og fór í ræktina. Ég náði góðum klukkutíma fyrir hálfátta. Fór svo í sturtu og það allt og fer svo fram og kemst af því mér til mikillar gleði að nýju skórnir sem ég hafði keypt í Boston voru horfnir úr skóhillunni. Ég meina hver stelur annarra manna notuðum skóm? Er ekki allt í lagi með fólk?

Vinnudagurinn gekk svo svona la, la en við ræðum það ekki hér. Svo endaði kvöldið á því að næstum kviknaði í íbúðinni hjá Gunnu systir. Hvað var það?

Á morgun væri því réttast ef ég myndi bara hrúga mér undir sæng og halda þar til.

ps. Hugmynd af jólagjöf.....NÝJIR SKÓR!!!!!

Sunday, December 09, 2007

Þessi árstími

Hef ég ekki sagt ykkur áður hvað ég er hrifin af þessum árstíma. Sérstaklega þegar úti er frost svo það brakar í snjónum, stjörnurnar tindra og kertaljósin loga og svo bíða blessuðu jólin handan við hornið. Ég labbaði í Bónus í dag í kuldanum, það tók reyndar mun lengri tíma en ég hélt því eftir rúma tvo tíma kom ég aftur heim, endurnærð á líkama og sál. Reyndar með rauðan nebba og kalda fingur en úberhress.

Ég fékk svo tvo myndarlega herramenn í kvöldmat, eldaði uppáhaldið þeirra og varð þvílíkt vinsæl fyrir vikið. Alveg ótrúlegt hvað grjónagrautur á upp á pallborðið hjá yngri kynslóðinni í dag. Þarna voru etinn nokkur kíló af grjónum.

Kertið sem ég kveikti á klukkan fimm hefur lækkað um nokkra sentimetra. Það minnkar það sem af er tekið hvort sem það eru grjón eða kertavax. Á leið minni í Bónus í dag var ég að hlusta á nýja bláa Ipodinn minn og mér til mikillar gleði hafði þessi sálmur laumast þar inn á.

Drottinn er minn hirðir,
mig mun ekkert bresta.
Á grænum grundum lætur hann mig hvílast,
leiðir mig að vötnum,
þar sem ég má næðis njóta.
Hann hressir sál mína,
leiðir mig um réttan veg
fyrir sakir nafns síns.
Jafnvel þótt ég fari um dimman dal,
óttast ég ekkert illt því þú ert hjá mér.

Sproti þinn og stafur huggar mig.
Þú býrð mér borð
frammi fyrir fjendum mínum,
þú smyrð höfuð mitt með olíu,
bikar minn er barmafullur.
Já, gæfa og náð fylgja mér
alla ævidaga mína,
og í húsi drottins bý ég langa ævi.
Drottinn er minn hirðir,
mig mun ekkert bresta.

Já ég segi það satt, bikar minn er barmafullur :)

Saturday, December 08, 2007

Update

Jæja!
Þá er ég farin og komin aftur frá Boston. Það var hrikalega skemmtilegt, félagsskapurinn góður, það var hægt versla duglega og endurnýja fataskápinn sem var allur að verða of stór. Allar jólagjafir tilbúnar og meira að segja sængurgjafir fyrir ófædd börn líka. Gaman af því. Djúpsteikti maturinn í Ameríku klikkar ekki, haugurinn af ófríðum fötum í Ameríku klikkar ekki heldur. Óvenjulítið var að myndarlegum karlmönnum á svæðinu, þeir einu tveir sem ég sá voru báðir svartir (ekki að þeir séu neitt verri). Mér finnst að það ætti frekar að flytja inn sæta svertinga í stað Pólverja....aðeins að auka litavalið sko.

Svo er maður að rembast við að detta aftur í rútínu. Það var einhver óskiljanlegur máttur sem dró mig fram úr bælinu klukkan sex í morgun. Samt sit ég hér enn um miðnætti að berjast við að halda augunum opnum.

Stór dagur á morgun þar sem Gugga og Siggi ætla að gefa litlu prinsessunni sinni nafn. Ég hlakka bara til að heyra og sjá. Svo er Gunna systir að bjóða mér á tónleika með kónginum Björgvini seinnipartinn. Já allt saman alveg hrikalega spennandi.

Góðar stundir.