Döpur er dráttlaus kona.

...besti páskamálsháttur ever!!!

Sunday, December 09, 2007

Þessi árstími

Hef ég ekki sagt ykkur áður hvað ég er hrifin af þessum árstíma. Sérstaklega þegar úti er frost svo það brakar í snjónum, stjörnurnar tindra og kertaljósin loga og svo bíða blessuðu jólin handan við hornið. Ég labbaði í Bónus í dag í kuldanum, það tók reyndar mun lengri tíma en ég hélt því eftir rúma tvo tíma kom ég aftur heim, endurnærð á líkama og sál. Reyndar með rauðan nebba og kalda fingur en úberhress.

Ég fékk svo tvo myndarlega herramenn í kvöldmat, eldaði uppáhaldið þeirra og varð þvílíkt vinsæl fyrir vikið. Alveg ótrúlegt hvað grjónagrautur á upp á pallborðið hjá yngri kynslóðinni í dag. Þarna voru etinn nokkur kíló af grjónum.

Kertið sem ég kveikti á klukkan fimm hefur lækkað um nokkra sentimetra. Það minnkar það sem af er tekið hvort sem það eru grjón eða kertavax. Á leið minni í Bónus í dag var ég að hlusta á nýja bláa Ipodinn minn og mér til mikillar gleði hafði þessi sálmur laumast þar inn á.

Drottinn er minn hirðir,
mig mun ekkert bresta.
Á grænum grundum lætur hann mig hvílast,
leiðir mig að vötnum,
þar sem ég má næðis njóta.
Hann hressir sál mína,
leiðir mig um réttan veg
fyrir sakir nafns síns.
Jafnvel þótt ég fari um dimman dal,
óttast ég ekkert illt því þú ert hjá mér.

Sproti þinn og stafur huggar mig.
Þú býrð mér borð
frammi fyrir fjendum mínum,
þú smyrð höfuð mitt með olíu,
bikar minn er barmafullur.
Já, gæfa og náð fylgja mér
alla ævidaga mína,
og í húsi drottins bý ég langa ævi.
Drottinn er minn hirðir,
mig mun ekkert bresta.

Já ég segi það satt, bikar minn er barmafullur :)

1 comments:

Post a Comment

<< Home