Döpur er dráttlaus kona.

...besti páskamálsháttur ever!!!

Saturday, November 17, 2007

Launamálin

Hér er bréf sem allir grunnskólakennarar í Reykjavik fengu sent í gær. Mér þætti gott að þið mynduð gefa ykkur tíma til að lesa það, sérstaklega þið sem finnst laun grunnskólakennara vera ásættanleg.

Grunnskólakennarar flýja...VIÐVÖRUN

Hæstvirtur borgarstjóri Dagur B. Eggertsson

Ég undirrituð er grunnskólakennari og starfa sem umsjónarkennari 25 barna í stórborginni Reykjavík.
Starfið mitt er skemmtilegt, gefandi, fjölbreytt og nauðsynlegur hlekkur í því samfélagi sem við lifum í. Menntun er grundvöllur nútíma samfélags. Samfélagið kallar á vel menntaða og hæfa einstaklinga til að sinna fjölbreyttum störfum. Grunnskólinn er hornsteinn og grunnur í þessari keðju sem við þekkjum svo vel.
Ég og aðrir grunnskólakennarar leggjum okkur fram við að mennta komandi kynslóðir.
Við erum dugleg, drífandi, ómissandi og einstök....það finnst okkur og eflaust fleirum.

En stóri vandinn er sá að grunnskólakennarar eru fjárhagslega ósjálfbjarga í samfélaginu. Fjárhagslega eru kennarar háðir öðrum. Grunnlaun grunnskólakennara eru engan veginn í takt við það sem gengur og gerist annars staðar á vinnumarkaðnum og við getum alls ekki sætt okkur við það.

Við erum þátttakendur í því lífi sem stjórnvöld, bankar og auðmenn stjórna á þessu ágæta landi og við erum alltaf neðsti og efnaminnsti hlekkurinn í lífskeðju háskólamenntaðs fólks.
Við berum okkur saman við aðrar stéttir og þá sérstaklega þær sem við teljum sambærilegar. Alltaf komumst við að sömu niðurstöðunni, við stöndum VERST. Miklu ver en ágætir kollegar okkar, leikskólakennarar.
Stöðug niðurlæging og niðurbrot á eigin ágæti sem fagmenn og einstaklingar er yfirþyrmandi. Grunnskólakennarar eru svekktir, leiðir, sorgmæddir og allt þar á milli og einróma sammála um að við getum ekki látið bjóða okkur þetta lengur.

Kjarasamningur grunnskólakennara er ekki laus fyrr en á vordögum 2008. Grunnskólakennarar geta ekki beðið og vonað að komandi samningur gefi þeim tækifæri til að öðlast langþráða sátt og stolt með launakjör sín.

Grunnskólakennarar sem einstaklingar geta ekki fórnað sér endalaust fyrir málstaðinn; ,,góð menntun er nauðsyn fyrir samfélagið.”
Grunnþarfir einstaklinga eru m.a. sjálfstæði og sjálfsbjargarviðleitni. Við höfum þessar þarfir og þurfum að leita leiða til að svala þeim.
Það þýðir að ef ekkert verður gert til að bæta launakjör grunnskólakennara áður en þessu skólaári lýkur og ÁÐUR en samningar eru lausir, verða margir og sérstaklega þeir ungu í stéttinni, að segja upp sínu ágæta starfi. Neyðarástand mun blasa við í grunnskólum, samfélagið allt mun finna fyrir neyðinni.

Reykjavíkurborg og önnur sveitarfélög eru vinnuveitendur grunnskólakennara.
Viðvörun þessi er því send til þín sem æðsti maður stærsta sveitarfélagsins. Ég vænti þess að þú komir þessum skilaboðunum áleiðis til yfirmanna hinna sveitarfélaganna.

Oft er þörf en nú er nauðsyn, það þarf að bregðast við óánægju grunnskólakennara með launakjör sín.
Með von um góð viðbrögð og skjótar úrbætur!

Virðingarfyllst
Herdís Kristinsdóttir,
grunnskólakennari í Reykjavík, 30 ára, með 218.000 kr. í grunnlaun, 25 nemendur í umsjón

2 comments:

  • At 12:13 PM, Anonymous Anonymous said…

    Hefur þú prufað að bera saman launin við það sem hjúkkur fá? Þá meina ég grunnlaunin. Það væri fróðlegt, þær eru með 4 ára háskólanám og margar hverjar vinna þessa vinnu ekki vegna launanna heldur vegna áhugans og fórnfýsi, sem heldur stéttinni allri niðri launalega séð.
    Kv. Bríet.

     
  • At 1:00 PM, Anonymous Anonymous said…

    Mín kæra Bríet!
    Mjög margir grunnskólakennarar eru búnir að mæta við sig hinu umtalaða fjórða ári eins og til dæmis ég. Þetta fjórða ár færði mér einn launaflokk sem eru ca. 5000 krónur og þó ég myndi bæta við mig ári fimm, sex o.s.frv. myndi það ekki hækka launin mín. Ég skil ekki hvort það á að breyta einhverju hver laun hjúkrunarfræðinga eru, kennaralaunin eru samt of lág! Ef námið er það eitt sem skiptir máli í þessari launaumræðu ætti ég allt eins að geta borið mig saman við viðskiptafræðing eins og hjúkrunarfræðing.

    Hitt veit ég líka að systir mín hjúkrunarfræðingur var með hærri laun en ég þegar hún starfaði sem slíkur. En eru hjúkrunarfræðingar ekki líka að fara í launabaráttu vegna sinna kjara. Á þá að segja við þá, ekkert væl þið eruð með hærri laun en kennarar? Í nútíma samfélagi ganga svona hártoganir ekki.

    Kjarabarátta kennara snýst bara því miður ekki við hvaða laun aðrir hafa og ef við þyrftum að bera okkur saman við einhverja stétt myndum við bera okkur saman við leikskólakennara sem eru einhverja hluta vegna með mun hærri laun en við....og hana nú!

    Ég get líka bara borið launaseðilinn minn saman við þinn. Erum við ekki með sama nám á bakinu, þá ætti svipuð tala að standa á seðlunum okkar :)

     

Post a Comment

<< Home