Döpur er dráttlaus kona.

...besti páskamálsháttur ever!!!

Wednesday, November 30, 2005

Mamma afmælisbarn!

Mamma og pabbi á leiðinni á ball!

Í dag 30. nóvember árið 2005 á mamma mín fimmtíu ára afmæli. Mamma mín heitir Hanna Birna Bjarnadóttir. Hún er dóttir Bjarna Guðmundssonar og Bjarnfríðar Einarsdóttur. Mamma er fædd og uppalin á Drangsnesi á Ströndum. Við fermingaraldur flutti hún svo með sinni fjölskyldu í Garðinn á Reykjanesinu. Mamma mín á átta systkini. Sjö þeirra eru á lífi í dag, þau heita Helga, Gréta, Einar, Ívar og tvíburasysturnar Öddu og Imbu. Mamma á svo einn bróðir sem fæddist andvana og hún á líka tvíburasystur á himnum en hún var skírð Kristjana, hún lést sama dag og hún kom í þennan heim.

Mamma fluttist svo á Selfoss þegar hún var fimmtán ára og bjó þá hjá Grétu systur sinni, hún kláraði grunnskólann og á Selfossi. Fljótlega eftir grunnskólann kynntist mamma svo pabba mínum sem heitir Páll Guðni og er Egilsson. Saman byggðu þau húsið í Hrísholtinu sem ég ólst upp í. Við systkinin erum þrjú Gunna sem er fædd 1975, ég sem er fædd 1977 og Siggi Svanur sem er fæddur árið 1982.

Þegar ég var að alast upp vann mamma sem dagmamma og því var húsið alltaf fullt af börnum. Við systkinin vorum því svo heppinn að hafa mömmu alltaf heima þegar skólinn var búinn. Þegar við fórum að eldast fór mamma að vinna, hún vann í eldhúsinu á sjúkrahúsinu á Selfossi, hún var að skúra hjá Siggu tannlækni. Svo dreif mamma sig í skóla og kláraði stúdentsprófið árið 1996. Eftir það fór mamma að kenna í Sólvallaskóla á Selfossi, það var ekki uppáhaldsstarfið hennar. Eftir þetta ákvað mamma að fara aftur í skóla og þann skóla kláraði hún nú í vor og getur núna titlað sig klæðskera. Nú horfir maður á verkefnastaflann hjá henni og oh my god hvað hún hefur of mikið að gera.

Mamma mín er eins og allir sem þekkja hana vita afskaplega góð kona. Fjölskyldan þ.e. maður, börn og nú barnabörn eru alltaf í fyrsta sæti hjá henni. Stundum þannig að manni finnst nóg um því oft gleymir hún sér í því að hugsa um okkur hin.

Við syngjum því júbbí jei, afmælisbarninu til heilla….Til hamingju með daginn elsku mamma mín, þú ert fullkomin móðir og frábær manneskja.

Tuesday, November 29, 2005

Nýjar fréttir.

Ég vaknaði í nótt með þvílíkan verk í augunum. Gat ekki opnað þau vegna þess að eitthvað jukk límdi þau saman. Þvoði augun vel í morgun og þá kom í ljós algjör vibbi. Augun voru eldrauð og fullt af bjakki í þeim. Þetta gerðist allt á einni nóttu, ég fór svo í vinnuna. Enda orðin hundleið á veikindum og veikindadögum þetta skólaárið.

Ég gafst svo upp um hádegið og fór til læknis. Er með sýkingu í augunum og tognuð í öxlinni. Held að lækninum hafi nú fundið þetta hálffyndið :) Fékk einhverja dropa og er ennþá að jafna mig eftir að hafa sett þá í augun því sviðinn af þeim var ólýsanlegur.

En nóg um það. Sigrún og Ágúst eru búin að fá nýjustu frænku mína í hendurnar í langt í burtu landinu Kína.....sat og skoðaði myndir áðan og brynnti músum. Frábært þegar hægt er að leiða saman svona gott fólk við gott barn sem saman láta alla sína drauma rætast :) Ég hlakka til að skoða prinsessuna þegar að því kemur :)

Fékk bækurnar sem ég pantaði á Amazon í gær. Ein snilldar bók um tarot - ég gat varla lagt hana frá mér í gær því þar var að finna svo margar nýjar leiðir við notkun tarotspilanna. Bara spennandi skal ég segja ykkur og mun nýtast vel við stundir einhleypu vinkvennanna. Ég get svarið það í gær spurði ég einnar spurningar og dró spil og fékk nána lýsingu á The fool - spilið hefði allt eins getað heitið Sigurður fool! Alveg magnað.

Á eftir að skrifa eitt leikrit - er búin að hafa það af að skrifa 8 leikrit á þremur dögum en er alveg orðin hugmyndalaus þegar kemur að síðasta leikritinu en það á að vera nútíma útgáfa á ævintýrinu um Stígvélaða köttinn og Greifann af Karabas.....! Úffff...alveg döööö. Verð samt að klúðra þessu saman fyrir morgundaginn.

Svona er það 29 nóvember 2005!!!

Monday, November 28, 2005

Nýr linkur

Setti inn nýjan hlekk....ætla að reyna að setja inn einn í viku svo þið getið skoðað það sama og mér finnst gaman að skoða á vefnum....!

Gaman?

Nú er það síðan mannanafn.com sem þið getið flakkað um á. Þaðan er hægt að fara inn á Hagstofuna og þar er hægt að finna alls kyns skemmtilegheit eins og t.d. hvað heita margir nafninu mínu...

Á Íslandi eru t.d.
1374 kvenmenn sem heita Guðbjörg að fyrra nafni.
205 kvenmenn bera nafnið Ingveldur að fyrra nafni.
603 kvenmenn bera nafnið Aðalheiður að fyrra nafni.
535 kvenmenn bera nafnið Halla að fyrra nafni.
730 kvenmenn bera nafnið Edda að fyrra nafni.
3035 kvenmenn bera nafnið Margrét að fyrra nafni.
3674 kvenmenn bera nafnið Kristín að fyrra nafni.
945 kvenmenn bera nafnið Jóna að fyrra nafni.
470 kvenmenn bera nafnið Guðríður að fyrra nafni.
663 kvenmenn bera nafnið Kristjana að fyrra nafni.

Þar hafið þið það hún undurfallega Ingveldur heitir sjaldgæfasta nafninu í hópnum og Kristín slær alla aðra út með nafninu sínu....skemmtilegur vefur finnst ykkur ekki? Heppilegt að engin af þeim 5191 Guðrúnum á Íslandi skuli vera hluti af mínum vinahóp!!! Ekki það að Gunna systir sé ekki vinur minn - systur eru bara öðruvísi vinir :)

Merkasti áfangi dagsins var sá að geta klætt sig hjálparlaust í bol!!! JEI

Sunday, November 27, 2005

Nöfnin...!

Það eru 663 Kristjönur á Íslandi og svo eru 123 sem bera nafnið Kristjana sem 2. eiginnafn. Algengasta kvenmannsnafnið er náttúrulega Guðrún og svo Anna, Sigríður og Kristín. Rétt upp hönd sem þekkja ekki einhverja sem ber eitthvað af þessum nöfnum.

Algengasta karlmannsnafnið á Íslandi er náttúrulega Jón, svo kemur Sigurður, Guðmundur og Gunnar. Rétt upp hönd sem ekki þekkja einhvern með þessum nöfnum?

Svo kemur að því merkilegasta. Ég hef tekið eftir því í kennslunni að nöfnum sérstaklega karlmannsnöfnum sem byrja á bókstafnum A hefur fjölgað gríðarlega á stuttum tíma. Samt benti ekkert til þess að þessi nöfn kæmu fram sem algeng í Þjóðskrá, en ég var ekki að leita á réttum stað. Sko! Algengasta tvínefni á Íslandi í dag er nafnið Jón Þór og þar á eftir er Gunnar Þór. En svo skoðar maður áfram - algengustu nöfn gefin drengjum 0-4 ára. Þar kemur þetta fram, og það meira að segja mjög greinilega. Þar er algengasta tvínefnið Andri Snær, svo Sindri Snær, svo Aron Ingi, Andri Þór, Arnar Freyr, Mikael Máni, Alexander Máni, Aron Freyr og Andri Freyr. Af níu algengustu tvínefnunum byrja aðeins tvö þeirra á öðrum staf en A!!! Merkilegt finnst ykkur ekki?

Hjá konunum er þetta svona, Anna María, Anna Margrét, Anna Kristín, Linda Björk, Anna Sigríður - þar er sem sagt inn að heita Anna!! Þar hafið þið það!

Og svo smá fróðleikur í lokin - Á Íslandi er leyfilegt að skíra stúlkur Alída, Alvilda, Askja og Arís. Á Íslandi er líka leyfilegt að skíra drengi Arent, Aríel, Alfons og Adríel. Rétt upp hönd sem þekkja einhvern sem ber eitthvað af þessum átta nöfnum!!!

Áfram mannanafnanefnd!

Saturday, November 26, 2005

...og það er aftur komin helgi!

Það er alveg með ólíkindum hvað tíminn er fljótur að líða. Á morgun er hvorki meira né minna en fyrsti í aðventu....fyrsti í aðventu.

Í fyrrakvöld lá ég í sófanum og horfði á Harry Potter númer 1 og 2 með vini sem ekki var búinn að sjá né heyra neitt af herra Harry. Ég átti ekki mynd númer 3 enda varð ég fyrir miklum vonbrigðum með hana þegar ég fór á hana í bíó. Ég var því með óræðar kröfur þegar ég fór í bíó í gærkvöldi með Guggunni að sjá fjórðu myndina um galdrastrákinn Harry. En mér til mikillar ánægju er mynd númer 4 alveg geggjuð. Ég náttúrulega át upp bæði neglur og fingur af spenningi - þarna náðu þeir alveg að vinna upp vonbrigðin af þriðju myndinni. Alveg ótrúlega fyndið að sjá leikarana eldast, Ron hefur vald á alveg mögnuðum svipbrigðum og hann er allt í einu mættur bara með vöðva í stað spóaleggja :)

Það er eitthvað að öxlinni á mér, ég hlýt að hafa tognað eða eitthvað því um líkt því ég get varla lyft upp vinstri hendinni. Það krafðist til að mynda mikilla hæfileika að koma sér úr haldaranum í gærkvöldi því það var vonlaust að koma hendinni fyrir aftan bak!!! Endaði á að klæða mig úr honum eins og buxum....alveg magnað.

....og svo mann haldi áfram, komst ekki að í nýja matreiðsluþættinum á Skjá einum, kötturinn minn rembist við að verða hárlaus því ef ég ryksuga ekki að minnsta kosti einu sinni á dag breiðist svart teppi yfir parketið í íbúðinni. Hanna Lísa var að eignast strák. Sigrún frænka er í Kína að ná í Margréti sína og mig dreymir endalaust flóð. Ég hrökkt til að mynda upp í morgun því það draup svo mikið vatn niður úr loftinu beint á hausinn á mér þar sem ég lá í rúminu. Samkvæmt amerískri draumaráðningum þýðir það að dreyma vatn þetta: Cleansing. Life. Emotions. Ask yourself about your current feelings!!! http://www.petrix.com/dreams/b.htm Hmmmm....hvað gæti það þýtt?

Svo er nú það, framundan er þrítugsafmæli hjá Söndru Dögg. Þar á að taka á móti 30. aldursárinu með partýi aldarinnar.

Later!!!

Tuesday, November 22, 2005

Íbúðin mín...!

Íbúðin mín er fullkomin á allan hátt nema að í hana vantar bráðnauðsynlegt tæki sem ég sakna svo ógeðslega mikið. Það er baðkar! Ekki það að ég hefði sennilega aldrei náð að gera það baðkar hreint eftir fyrri leigendur en...vá hvað mig vantar baðkar.

Húðin á mér er þeim einstaka hæfileika gædd að þorna eins og pappaspjald þegar fer að kólna úti, og ég tala nú ekki um þegar Janus fer í líkamsrækt oft í viku líka. Ég held stundum að ég sé að breytast í hreistraða stjörnumerkið mitt....fiskinn.

Alla vega fór ég í Hagkaup og keypti svona Johnsson baby oil eins og sést í auglýsingunni. Ég fór í sturtu, setti handklæðið svo á gólfið og stóð á því án þess að þurrka mig alveg. Síðan spurði ég þessari olíu á mig og stóð innan skamms eins og olíuborin kjúklingur inni á baðherbergi. Þar stóð ég og beið eftir að ég þornaði. Eftir nokkrar mínútur þegar ég var búin að nota tannþráð, greiða á mér hárið, raða í skápinn var ég ennþá glansandi í olíu......! Ég ákvað þá bara að skella mér í bol og brók og fara eitthvað að stússast. Ég byrjaði náttúrulega á því að fljúga næstum á höfuðið á leiðinni inn í svefnherbergi. Þar klæddi ég mig í inniskó svo það myndi ekki gerast aftur o.s.frv. Tveim tímum síðar eftir hafa setið fyrir framan imbann, vafinn í teppi því ég vildi ekki klína út rándýra sófann gafst ég upp og fór og nuddaði af mér með þurru handklæði.

Niðurstaðan - gott ef húðin er ekki aðeins rakari eftir aðfarirnar, en oh my god ekki fyrir mig að standa í svona messi. Þetta virkar alla vega ekki eins flott og fínt og í auglýsingunni!!!!

Sunday, November 20, 2005

Athugasemdir...

Það er alveg magnað að þurfa að setja hvern varnaglan á eftir öðrum til að geta komið í veg fyrir að fá athugasemdir sem maður hefur áhuga á. Ég skipti um bloggsíðu svo ég gæti fengið mér síðu sem ekki væri hægt að commenta á nema undir nafni því þar voru sumir sem ekki gátu komið hreint fram og skrifað manneskjuleg komment undir sínu nafni.

Þá fékk ég mér nýtt blogg þar sem ekki er hægt að kommenta nema að vísa á síðuna sína um leið, það að vera blogger notandi.

En hvað gerist svo...........jú ég fæ einhver awesome comment frá einhverjum John Smith í langt í burtu landi....og því ætla ég að setja enn einn varnaglan!

1. Til að geta kommentað verður þú að vera blogger notandi.
2. Til að geta kommentað verður þú líka að slá inn word-verification.

Mjög einfalt og segir sig sjálft....! Já þú verður að vinna fyrir því að kommenta hjá mér!

Takk Alla.

Þvottaplanið

Ég losaði mig við síðustu DNA sýni af fyrri eigendum í dag. Ég náði loksins, loksins, loksins klósettsetunni af dollunni. Ég get svarið það, ég hafði varla geð á þessu ljóta klósetti. Alla vega náði ég setunni af og þvoði hana með gamla uppþvottaburstanum og henti honum svo, inn í smáu rifurnar notaði ég svo gamlan tannbursta og henti honum svo líka.....! Nema það sé gestatannburstinn??? og þetta var sagan um ógeðslegu klósettsetuna. Nú er bara spurning hvenær nýja, sæta, flotta bláa klósettsetan mín ákveður að fljúga heim frá Ameríkunni.

Alla vega. Ég fór með glæsikerruna mína á þvottaplan í dag. Þegar ég lagði af stað var fínasta verður úti svo ég smellti mér bara í jogging peysu yfir stuttermabol. Á þvottaplaninu eru tveir bílar í röð og því er ég bíll númer þrjú í röðinni. Þegar röðin kemur að mér er aðeins farið að dropa úr loftinu, samt engin rigning bara smá dropar. Ég fer því út á peysunni og byrja að svampa skítugasta bíl í heimi. Þegar ég er búin með aðra hliðina á bílnum er hægt að dropa, þá er farið að rigna - og það engin smá rigning......en hvað er verra en skítugur bíll? bíll sem er bara skítugur öðru megin. Ég ákvað því að láta rigninu ekki halda aftur af mér og ræðst óhrædd á hina hliðina. Þegar ég var búin að svampa hana og byrja að skola er hætt að rigna, já það er hætt að rigna!!! Það er farið að snjóa, snjóa! En ég verð náttúrulega að skola sápuna og þegar því er lokið er hætt að snjóa óóójá. Ég stekk nú inn í bíl því ég stend á joggingpeysu úti í brjáluðu hagléli, það lamdi minns bara í framan.

Alveg merkilegt þegar maður fær svona sýnishorn af veðrabrigðum Íslands á innan við tíu mínútum. Og Janus greyið á peysunni, orðin gegnblaut og ískalt...!

Svona var Ísland í dag!

Tuesday, November 15, 2005

Þvottapokinn

Gamall en alltaf góður!!

Ég átti pantaðan tíma hjá kvensjúkdómalækninum mínum seinna í vikunni. Snemma morguns, var hringt í mig heim og mér sagt að búið væri að flýta tímanum mínum og ég ætti að mæta samdægurs kl. 9:30

Ég var ný búin að koma öllum heimilismeðlimum af mér í skóla og vinnu og klukkan þegar orðin 8:45 Það tæki mig 35 mínótur að aka til læknisins svo ég hafði engan tíma aflögu. Eins og flestar konur, þá vil ég nú þrífa prívatið alveg sérstaklega vel fyrir svona skoðanir, en í þetta skiptið var ekki tími til þess. Svo ég dreif mig inná baðherbergi, henti af mér náttfötonum og snarlega strauk yfir prívatið með þvottapoka sem ég greip hjá vaskinum og bleytti undir krananum, jæja ég væri allavega boðleg í skoðunina svona. Ég henti þvottapokanum ofaní óhreynatauskörfuna, skellti mér í föt, snaraði mér útí bíl og hélt af stað. Ég var í biðstofunni aðeins í fáeinar mínótur þegar ég var kölluð inn. Og einsog þetta fer fram, sem ég reikna með að þú kannist við, þá henti ég mér uppá skoðunarbekkinn, horfði eitthvað útí bláinn og ímyndaði mér að ég væri einhverstaðar í París... eða langt langt í burtu. Ég var svolítið hissa þegar læknirinn sagði "ja hérna það er aldeilis við höfum lagt okkur fram um að vera flottar og fínar í dag,, :o)
Ég svaraði þessu engu.

Eftir skoðunina var mér létt og ég fór heim að sinna þessu vanalega, þrífa, versla og elda....Þegar 6 ára dóttir mín kom heim eftir skóla og var að leika sér, kallaði hún útaf baðherberginu, mamma hvar er þvottapokinn minn?,,

Ég sagði henni að ná sér í hreinann í skúffuna. Hún svaraði "nei ég vil fá þennan sem var á vaskinum, ég nebblega geymdi allt glimmerið mitt í honum."!!!!!!!!!!!!!

Sunday, November 13, 2005

...og svo skemmtilegt!

1. Hvenær vaknar þú á morgnana: Vegna bumbunámskeiðs vakna ég suma morgna klukkan 6 en annars klukkan korter yfir 7.
2. Ef þú gætir snætta hádegisverð með einhverjum frægum, hver væri það? Ekki spurning...Guð! hefði nokkrar tillögur til að ræða við hann/hana/það?
3. Gull eða silfur?
Oftast silfur - týni samt öllu!
4. Hver var síðasta myndin sem þú sást í bíó? Ég fór að sjá In her shoes og hafði mjög gaman af, þó fyrir utan geggjaðar gelgjur sem allir í bíóinu hefðu viljað stúta!
5. Uppáhaldssjónvarpsþátturinn? Hmmm þarf sennilega ekki að segja það, en okei það er Friends - mér finnst þeir bara skemmtilegir. (n.b. núna er 50% afsláttur af öllum Friends þáttum á amazon.com).
6. Hvað borðar þú í morgunmat? Ég borða ekki morgunmat (usss Gróa).
7. Hvað langar þig að gera þegar þú ert orðin stór? Mig langar að gefa út bækur með námsefni fyrir yngstu nemendurnar.
8. Geturðu snert nefið á þér með tungunni? Neibb ekki einu sinni nálægt því.
9. Hvað veitir þér innblástur? Náttúran, sólsetrið, sólarupprás, vinir, fjölskylda, vinnan og annað fallegt.
10. Hvað er miðnafnið þitt? Heiti ekki miðnafni - langaði samt alltaf að heita Sigrún .
11. Strönd, borg eða sveitasæla? Sveitin er mesta sælan.
12. Sumar eða vetur? Vetur, ekki spurning.
13. Uppáhalds ís? Allur bleikur ís :)
14. Smjör, salt eða sykur á popp? Salt, en oh my god hvað er gott að setja smjör!
15. Uppáhaldsliturinn þinn? Auðvitað blár!
16. Hvað er best á samloku? Hmmm mér finnst skinkusalat alltaf best og líka kjúklingasamlokur.
17. Hvert fórstu síðast í frí? Hmmm ég held það hafi nú verið í sumar í Chattanooga, ef frí skyldi kalla.
18. Hvaða persónueiginleika fyrirlíturðu? Hroka, snobb og undirförult fólk.
19. Ef þú ynnir stóra pottinn í lottóinu, hversu lengi myndir þú bíða áður en þú segðir fólki frá því? Þagað til ég fengi aurana, eftir það myndi ég segja öllum sem skipta mig máli.
20. Sódavatn eða venjulegt vatn? Frekar venjulegt.
21. Hvernig er baðherbergið þitt á litinn? Hvítt og blátt :)
22. Hvað eru margir lyklar á lyklakippunni þinni? Alltof margir, búin að skipta kippunum i þrennt. Held ég sé með alla vega fimm lykla af mismunandi hurðum í skólanum.
23. Hvar ætlar þú að eyða ellinni? Í stuði á elliheimili, ætla að skoða heiminn og spila bingó!
24. Getur þú jögglað? Það efast ég um, veit ekki einu sinni hvað það er!!!
25. Uppáhaldsdagur vikunnar? Er alltaf hrifin af miðvikudögum og svo er alltaf gaman á föstudögum.
26. Hvítvín eða rauðvín? Hvítvín, þrátt fyrir mikinn slappleika af drykkju þess.
27. Hvernig eyddir þú síðasta afmælisdegi? Man það hreinlega ekki, held ég hafi haldið upp á afmæli þar sem fáir mættu.
28. Ertu með líffæragjafarkort? Neibb, en þarf að fara á stúfana og leita að einu slíku.
29. Hvort myndir þú vilja eignast strák eða stelpu? Fyrst stelpu og síðan strák og svo aftur stelpu - nema ég eignist tvíburana sem allir vilja spá mér!
30. Ertu feministi? Hmmm....nei ég held ekki, á maður að vera það?
31. Flottasti líkamhlutinn á hinu kyninu? Augun, augun, augun og svo hendur og svo rassinn....æi þetta þarf allt að spila saman.
32. Elskar þú einhvern? Ég elska fjölskyldu og vini mína, stóra ástin er nú samt ófundin.

GAMAN, GAMAN.....!

Sjúkdómur!

Það herjar stórhættulegur sjúkdómur á marga bloggara landsins - sjúkdómurinn hefur ekki fengið fræðiheiti en tillögur eru uppi um nafnið nenniekkiaðbloggaímargasyndróm - stórhættulegur dómur sem hefur lagt margan bloggarann af velli. En...þar sem ég smitaðist seint læt ég ekki bugast og mun halda áfram að blogga óhindrað og áhyggjulaust.

Vinnan gengur vel, leikfimin gengur vel, vinir ganga vel, nýjir vinir ganga vel, lífið gengur vel og íbúðin, já íbúðin var að fá enn eina andlitslyfinguna. Gafst upp á að bíða eftir allt of uppteknu skólafólki og píndi bara annan vin í að koma og skipta um ljós fyrir mig. Brúnu hræðilega ófríðu ljósin eru farin í Sorpu, meira að segja karlinn við nytjagáminn bendi mér snyrtilega á að best væri að henda svona ógeði. Eldhúsborðið fór í gömlum Bens í gám og gæti birst í eldhúsi einhvers Góða hirðis aðdáenda á næstu dögum. Núna er komin þessa líka massíva Halogen lýsing í íbúðina - ótrúlegt hvað lýsing hefur mikið að segja.

Eldhúsinnréttingin bíður betri tíma, alla vega til jóla- jólagjöfin í ár verður því nýsprautuð innrétting :) Þá held ég að bændur fari nú að verða sáttir. Svo ef þú finnur þörf hjá þér til þess að gefa mér jólagjöf þá er það vel þegið :)

Svona gengur þetta.....ég dýrka þennan árstíma, myrkrið, skammdegið, kertaljós í massavís - er að verða búin að brenna 100 sprittkertum það sem af er þessum mánuði :)

...........ég læt ekki undan, ég mun blogga meðan dagurinn endist.

Thursday, November 10, 2005

Tröllaþema!


Stjórnmálaþurs

Þú ert vanaföst, tilfinningarík félagsvera.
Í margmenni á stjórnmálaþursinn oftar en ekki orðið. Ef einhver hyggst grípa fram í fyrir honum talar hann bara hærra - og það virkar. Hann hefur sterkar skoðanir á flestu, hvort sem um er að ræða fjárlagahalla ríkisins eða það hvort SS eða Goða pylsur eru betri, og gerir hvað hann getur til að þröngva þeim upp á aðra. Stjórnmálaþursinn þarf að passa sig þegar hann er í nærveru þeirra sem eru ósammála honum því blóðþrýstingurinn á það til að rjúka upp.

Stjórnmálaþursinn vantar ekki nýja skó fyrr en það er komið gat á þá gömlu... sem skósmiðurinn segist ekki geta gert við. Stjórnmálaþursinn veit hvar Guðsteinn er með verslun.

Hvaða tröll ert þú?

Sunday, November 06, 2005

Líkamsræktin, fríið, helgin og fleira.

Hún Gugga sem hefur ótrúlega gott nef fyrir útsölum sendi mig um daginn á útsölu í Kópavoginum. Þar voru á fáránlegu verði vörur frá framleiðendum ZO-ON. Ég keypti mér geggjaðar göngubuxur á frábæru verði aðeins 2990 - maðurinn á kassanum bætti svo um betur og seldi mér þær óvart á 1000 krónur. Ég vígði buxurnar svo áðan og svei mér þá ef ég er ekki bara hæstánægð með þær. Veðrið í dag var náttúrulega glæpsamlegt og það liggur við að þeir sem sitja inni ættu að fá sekt fyrir. Notaði tækifærið og þvoði bílinn minn, óþolandi þessar skítugu götur í höfuðborginni.

Líkamsræktin komin á fullt. Námskeiðið hefur allt sem venjuleg líkamsrækt hefur upp á að bjóða. Þar er konan sem mætir fyrst og stillir sér upp fremst í salnum, upp við spegilinn og þaðan hreyfir hana ekkert. Þar er gellan í merkjunum, sem er bæði í of þröngu og of stuttu. Svo er þar gellan sem er í hörkuformi, alltaf grönn og samt með complexa og finnur svölun á námskeiði þar sem hún er flottust. Svo er þar unga gellan sem var skráð á námskeiðið og nennir eiginlega ekki að vera þarna. Svo er konan sem fussar, finnst þetta bara leiðinlegt. Svo er það konan sem gerir meira en hún getur, tekur of þung lóð og stangir og þykist svo þurfa að reima skónna eða girða sig þegar hún getur ekki meira - en ekki skal hún taka minni þyngdir. Svo eru það gellurnar sem eru fyrir sjálfa sig og eru ákveðnar í að standa sig vel þ.e. sem sagt ég og Gugga og Guðbjörg (auðvitað verð ég að láta okkur líta best út). Sorglegt samt að á þessu námskeiði sem ber yfirskriftina aðhald er engin kona sem virkilega þyrfti að fara í AÐHALD, þetta eru allt konur sem eru bara að koma sér í form.

Þá vetrarfríið búið og helgarfríið líka. Ég notaði tækifærið og gekk frá öllum lausum endum, setti vetrardekk undir bílinn, skipti um olíu á kerrunni, litaði sjálfa mig og þekki mig varla í spegli á eftir. Brunaði til Keflavíkur og heimsótti englana mína í Heiðarskóla. Það var ekkert smá gaman og fyllti alveg á knúskvótann næstu mánuði :) ég heimsótti bankakonuna mína, fékk mér salat og kjaftasögur á Duus og svo framvegis. Við kíktum svo aðeins út á föstudagskvöldið í borginni. Þetta var bara fínt kvöld, með góðu spjalli og smá hvítvíni. Svaf alveg sérstaklega vel um nóttina, var alveg uppgefin eftir þetta erfiða frí!

Litli frændi hélt svo upp á afmælið sitt á laugardaginn, honum fannst frænka sín reyndar eitthvað drusluleg og pakkaði henni bara í öll teppin í íbúðinni og söng fyrir hana vögguvísur. Ég passaði svo til að verða þrjú í nótt og já ekkert meira um það að segja.

Er að plana pastarétt kvöldins í huganum. Mmmmmm finn alveg tómatbragðið í munninum :)

leiter geiter.....Janus

Thursday, November 03, 2005

Vetur!

Á veturna á....gættu þess að taka vinnuna ekki með þér heim því þá er þér ómögulegt að slaka á. Sprittkerti duga og kosta ekki mikið. Ef íbúðin er hlý, þá er bara hægt að lækka niður í ofnunum og ágætt er að skilja eftir smá rifu á einum glugganum til að vindurinn hafi hærra. Ef þú átt enga bók er kjörið að fara á bókasafnið. Plötuspilari er ekki endilega nauðsynlegur, geislaspilari á að geta sinnt sama hlutverki. Það er líka ágætt að laga sér te, kaffi eða heitt súkkulaði til þess að undirstrika kulda vetrarins og þannig hlýjuna innra með sér. Kærasta eða kærasti getur síðan gert kraftaverk þegar kemur að lokaniðurstöðu og heildaráhrifum aðgerðarinnar!

Mmmmm....mér finnst skammdegið og kuldinn og frostið svo rómantískt!

Júlía!

Júlía vinkona mín sendi mér póst um daginn og tjáði mér það að hún myndi bráðlega koma í heimsókn. Ástæðan er þessi:

Hún rak augun í grein um daginn þar sem verið var að tala um að Íslendingar væru heiðarlegustu íbúar jarðarinnar. Það var talað við nokkra sem búnir voru að búa á okkar yndislega landi og allir dásömuðu þeir þetta sker hér úti á ballarhafi.

Nokkrum dögum seinna rak hún augun í aðra grein þar sem stóð að Íslendingar væru í öðru sæti yfir hamingjusömustu þjóðir heims. Rétt á eftir Dönum. Aftur var talað við nokkra sem búnir voru að búa í þessum tveimur löndum þ.e. Íslandi og Danmörku og aftur var skerið okkar dásamað - allt svo geggjað hér.

Í fyrrakvöld fór Júlía svo í bíó í heimaborginni sinni. Nú! á einum tímapunkti í bíómyndinni segir einhver: what do you want me to do, go to Reykjavík? og einhver annar svarar: Reykjavík? where the fuck is that? og þá gat Júlía ekki setið á sér, hún var búin að fá of margar vísbendingar á of fáum dögum svo hún stóð upp í bíóinu og sagði hátt yfir salinn.....IT´S IN ICELAND, I HAVE A FRIEND OVER THERE!

Allt er þegar þrennt er! Svo Júlía fór heim og byrjaði að safna fyrir Íslandsferðinni og vonar að sparigrísinn verði orðin fullur næsta sumar svo hún geti komið. Júlía býr samt í Ríó í Braselíu og því þarf sparigrísinn sennilega að vera af stærri gerðinni!!!! Áfram Ísland!

Þetta kallar maður að vera reiður!


Svona á sem sagt að gera þegar maður er reiður! Já konur geta verið töffarar þegar þær reiðast. Spurning samt hvort henni leið betur eftir að hafa rústað einhverri bíldruslu? Alveg öruggt mál að gaurinn sá ekki eftir sinni ákvörðun þegar hann kom út og sá skrjóðinn!

Tuesday, November 01, 2005

Fréttir/fréttablaðið!

Já og jæja!
Þá er það skollið á, vetrarfríið. Ein uppfinningin úr þessum meingölluðu kennarasamningum. Ónýttir dagar sem lengja skólaárið. Foreldrar senda börnin sín út í sveit eða á einhvern heimavinnandi vini sína, nú eða kennara sem eru vetrarfríi. Það sem ég ætla að gera í þessu fríi er að lappa upp á ökutækið, setja hann í vetrarskóna, batterí í þjófavörnina – alveg nauðsynlegt þegar læsingin er frosin. Svo ætla ég að lappa upp á minn sjálfan – lita, klippa og lappa!

Í fréttum er þetta helst að blaðamaður í Fréttablaðinu skrifaði pistil um kvennadaginn í liðinni viku. Fór í söguna og sagði reynslusögu af því þegar hann kom á kvennaverkfallsdaginn fyrir 30 árum. Greinilega verið atburður sem hafði áhrif á hann og greinilegt að hann hafði mikinn áhuga á því að skrifa þessa grein. Eitthvað hefur hann nú samt verið annars hugar eða bara komið upp um eigið áhugaleysi því fyrirsögnin á greininni var ekki kvennaverkfall heldur kennaraverkfall. Voru þetta kannski bara vonsviknir kennarar sem örkuðu niður Skólavörðustíginn? Hahahaha þetta kallar maður að skjóta sig í punginn!!!

Annað og ekki síðra (nú sannast það að ég glugga stundum í Fréttablaðið sem fyllir póstkassann minn) að á kvennafrídaginn stóð Gísli Marteinn niður í bæ og gaf konum heitt kakó! Sá hefur heldur betur verið frosnar- bros- harðsperrur því við getum alveg verið sammála um það var ekki Mæjorka (hljóðritað) veður á kvennadaginn. Gísli Marteinn hélt fund hérna í Grafarvogi síðasta mánudag – ég fann fundarboðið þegar ég tæmdi úr póstkassanum. Svo svekkt yfir því að hafa misst af fundinum hjá honum….! Not sorry þó þú sért með sætar krullur….ég þoli ekki stjórnmál.

Missti endanlega allt álit á subbuþættinum Allt í drasli. Fannst ykkur ekki svolítið óviðeigandi að smella þessu heimili fyrir framan alþjóð. Kerlingargreyið gat ekki staðið nema við tvær hækjur og samt átti hún að moppa eða ryksuga á hverjum degi!!! Svo sá hún bara eftir öllu dótinu sínu :( Ferlega sorglegt að segja það en þessi kona minnti mig á margan hátt á Ömmu Dúllu. Amma dúlla vildi alveg halda hreinu í kringum sig en hún hafði bara ekki líkamlega burði til að þess að standa við það. Ég segi því bara skamm, skamm að setja vanmátt annarra í sjónvarpið…..svona var þetta bara á þessum tíma sagði Heiðar snyrtir! Don´t think so my friend.

……og svo kann mann ekki segja meir!