Döpur er dráttlaus kona.

...besti páskamálsháttur ever!!!

Wednesday, October 31, 2007

Litli hluturinn

Fyrir þremur árum þegar ég hætti í Heiðarskóla í Keflavík var mér gefin gjöf sem mér þótti afskaplega vænt um. Þá slógu allir nemendur mínir sem voru 23 saman í skartgrip handa mér. Krakkarnir vissu náttúrulega öll að uppáhaldsliturinn minn var blár og lagt var að ráðin með hvernig hægt væri að komast að því hvort ég væri meira fyrir gull eða silfur.

Ég fékk svo afskaplega fallega sérsmíðaða silfurskartgripi með bláum steinum. Alveg eins og ég hefði sjálf farið út í búð og valið. Ég hef ekki ekki mikið notað þessa fallegu hluti. Ég fór svo á árshátíð ekki fyrir alls löngu og setti þá þessa skartgripi á mig. Silfurhálsmenið með bláa steininum, silfurhringnum með hinum bláa steininum og silfureyrnalokkunum. Þetta er bara flott sett sem sést vel að hefur kostað þessar fimmtíu þúsund krónur sem borgað var fyrir það.

Þegar ég kom heim af árshátíðinni tók ég af mér skartgripina og lagði þá frá mér á sófaborðið. Um morguninn var hringurinn horfin. Ég leitaði um allt, færði til sófa, og lyfti upp mottum. Tók meira að segja pokann úr ryksugunni og gramsaði í honum þó ég vissi að þar hefði hringurinn minn ekki lent. Eini möguleikinn sem eftir var var sá að fröken Sigríður hefði étið hringinn. Þó mér þyki vænt um hringinn finnst mér vænna um kisu svo það krukka í magann á henni var ekki í boði.

Áðan var ég að leita að myndavélinni minni sem nota bene er líka týnd haldið þið þá ekki að hringurinn hafi dottið í hendurnar á mér. Ég sver það að hann datt úr loftinu. Hvernig getur það gerst?

Ég er því bara slök og veit að myndavélin mun detta svona í lófana á mér eftir einhverja daga eða vikur.

En ég fann fína hringinn minn og er með hann á fingrinum í kveld til að fagna.

Tuesday, October 30, 2007

Update

Hrikalega krúttaraleg auglýsingin af gömlu konunni sem er að stelast til að taka mynd af draumaprinsinum sínum honum Baldvini. Krúttlegt.

Helgin síðasta var hrikalega skemmtileg og það eitt að hugsa til hennar kallar fram bros. Ég fór í mjög skemmtilegt partý með einni vinkonu minni og uppgötvaði hversu skemmtilegt það getur verið að vera hluti af svona karlavinnustað eins og hún er að vinna á. Ætti maður kannski bara að slá þessu upp í kæruleysi og skipta um vinnu? Nei ég segi nú bara svona.

Vetrarfríið er framundan og það er alveg að verða búið að negla þá daga niður. Það verður full vinna að vera í svona fríi. Bara skemmtilegt að vera til þegar svona mikið er um að vera.


Og ég skal segja ykkur það að nú eru einungis 31 dagur þangað til ég fer til Boston!!!

Sunday, October 28, 2007

28.október 2007




Í dag á Árni Þór litli frændi minn sjö ára afmæli. Það eru sem sagt sjö ár síðan árið 2000 var. Árið 2000 var ég ennþá í kennó. Sjö ár er ekki langur tími en svo mikið hefur gerst á þessum sjö árum. Daginn sem Árni Þór kom í heiminn var ég að vinna í erfidrykkju í hótelinu á Selfossi og grenjaði eins og barbí dúkka þegar ég fékk fréttirnar. Ekki meir um það.

Til hamingju með afmælið elsku strákurinn minn.

Friday, October 26, 2007

Ákafinn í ræktinni

Eins og sumir vita er ég búin að setja það inn í prógrammið mitt að dröslast á fætur klukkan sex á morgnana til að sprikla af mér aukafarangurinn. Það var eins og morgun og alla hina morgnana, klukkan hringdi klukkan 5:50, ég snozzaði í tíu mínútur en hrökk svo upp með andfælum og sá að klukkan var orðin 6:05, ég næstum orðin of sein rýk á fætur, klæði mig i fötin, stekk með töskurnar út í bíl og bruna sem leið liggur að World Class í Spönginni.

Þetta var ekkert frábrugðið öðrum morgun, fáir ef einhver á ferli, hvergi ljós nema á Yoko súlunni, rigning eins og alltaf. Þegar ég kem að ræktinni sé ég mér til mikillar furðu að allt er slökkt og engir bílar á bílastæðinu. Þetta er mjög óvenjulegt því venjulega er allt fullt þarna á þessum tíma. Ég hafði ekki farið í ræktina í gærmorgun og var því alveg viss um að einhverja hluta vegna væri lokað þarna þennna morguninn. Ég ákvað því að keyra að hurðinni og athuga hvort það væri ekki miði á hurðinni. Enginn var miðinn og það fannst skrýtið. Ég fer því aðeins að hugsa og hafði greinilega ekki gert það fyrr en á þessum tímapunkti.

Ég lít á klukkuna í bílnum og fæ svo mesta hláturskast í heimi því þarna á planinu fyrir utan World class, tilbúin í gallanum sé ég mér mikillar undrunar að klukkan er 4:15. Það var sem sagt bara mið nótt. Vekjaraklukkan hafði ekkert hringt, nema í ímyndun í hausnum á mér. Hún hringdi klukkan 5:50 eins og hún átti að gera.

Ég fór því bara aftur heim og svaf í einn og hálfan tíma í viðbót og mætti svo eldhress klukkan sex. Það ætti ekki að leyfa mér að keyra á morgnana því ég er svo utan við mig....!!

Góðar stundir.

Wednesday, October 24, 2007

Bloggarar í fríi

Ég er farin að upplifa mig eins og einhvern hræsnara er búin að hræða fólk með bloggarar í fríi listanum mínum og get svo ekki komið frá mér einni almennilegri færslu sjálf. Ég fer bráðum að lenda á frí listanum mínum sjálf. Ég hef þá trú kílóið sem ég missti í síðustu viku hafi verið kílóið sem innihélt sköpunargáfu mína því ég er alveg tóm þessa dagana.

Góðar stundir.

Sunday, October 21, 2007

Naglasnyrting

Ég lenti í óskemmtilegri reynslu í gærmorgun. Líkamsklukkan er náttúrulega búin að stilla sig á klukkan sex og því vaknaði ég nokkrum vegin til lífsins klukkan sex í gærmorgun. Fór fram á bergið, burstaði tennurnar, hleypti kisu út og lagðist svo aftur upp í rúm. Enda fyrir neðan allar hellur að ætla að gera eitthvað annað en sofa klukkan sex á laugardögum. Úti var líka hellirigning og leiðindi. Ég er rétt að ná að festa svefn þegar hljóðin berast að utan. Það fór ekkert á milli mála að þarna voru tveir kettir að slást. Ég náttúrulega rauk út í glugga og öskraði á ljóta fressinn sem var að meiða kisu mína. Fressinum dauðbrá og hljóp í burtu og frú Sigríður notaði tækifærið og skaust inn til mín. Ég lagðist svo aftur í rúmið og kisa lagðist titrandi hjá mér.

Við sváfum svo áfram til rúmlega níu. Þegar ég vakna sé ég að rúmið mitt er allt blóðugt. Ég náttúrulega nývöknuð fer vel yfir alla króka og kima á sjálfri mér í leit að saumsprettu. Eftir nokkra leit komst ég af þeirri niðurstöðu að það hafi ekki verið ég sem blæddi í rúmið. Ég fór því að leita að kisu. Ég var lengi að leita að henni og fann hana að lokum í þvottakörfunni inni í þvottahúsi. Þar sat hún greyið með fótinn rauðan. Ég tók hana upp og kíkti á fótinn og sá þá að ein klóin hékk á bláþræði og það fossblæddi.

Ég setti kisu niður og fór að leita að naglaskærum. Hún elti mig á þremur fótum, draghölt. Ég náði svo í handklæði og lagði það á rúmið mitt. Kisa lagðist á handklæðið og rétti mér fótinn. Hún vissi nákvæmlega hvað geri þyrfti, klóna þurfti að fjarlægja. Ég klippti klónna burtu og get rétt ímyndað mér að þetta hefur ekki verið þægilegt fyrir frú Sigríði, en hún beit á jaxlinn, vældi aðeins en stóð sig vel. Við ákváðum að setja ekki plástur á sárið heldur sömdum um að halda okkur bara inni næstu daga til að leyfa þessu að jafna sig. Hún er ennþá aðeins hölt í dag en við teljum að þetta sé allt að batna.

Það er kraftur í frú Sigríði og ég spyr mig nú hvort fressaógeðið hafi flúið vegna öskranna í mér eða vegna stórhættulegu bardagalistar frú Sigríðar ofurkisu.

Góðar stundir.

Monday, October 15, 2007

Þvottur

Ég er að drukkna í þvotti. Þetta er ótvíræður ókostur þess að fara í ræktina á hverjum morgni. Ég þarf að þvo að annan hvern dag og er ekki að nenna því. En jæja það eru víst kostir og gallar við alla hluti. Ég fór svo út að skokka áðan rétt þegar sólin litaði himininn í bleikum tónum. Það var samt eiginlega of kalt til að vera skokkandi en maður lætur sig hafa þegar sólin er loksins á himninum í stað þessarar endalausu rigningar.

Ég er búin að bóka mér ferð til Boston!!! Jei. Mun fljúga út á afmælisdegi mömmu þ.e. 30. nóvember og koma aftur á klakann á miðvikudagsmorgun. Jú, jú ég skal alveg viðurkenna það að ég er HRIKALEGA spennt.

Núna sit í sófanum með kókdós dagsins.

Sunday, October 14, 2007

Mér finnst haustið skemmtilegt

Mér finnst þessi tími alveg geggjaður. Núna er kveikt á fjórum kertum í kringum mig og á lambanum með minnstu birtunni. Meira að segja tölvan er með haustbirtu. Ég átti dásamlegan dag, eða öllu frekar dásamlega helgi. Byrjaði á myndakvöldi með Hornstrandarförunum á föstudagskvöldið. Brunaði svo upp í sumarbústað til Söndru og Mæju um kvöldið. Kom aftur frekar búin á því á laugardagskvöldið. Fór snemma að sofa og hitti svo stelpurnar sem kenndar eru við Sex and City á Vegamótum í hádeginu. Fórum svo á smá rúnt um miðbæinn, kíktum á safn, kíktum í Skífuna, kíktum í bókabúðina í desert. Alveg hrikalega afslappaður dagur. Núna er ég mætt með tölvuna á hnén og ætla að vinna svolítið í kvöld.

Ræktin klukkan sex í fyrramálið og því nálgast háttatíminn óðfluga.

Sunday, October 07, 2007

Helgin búin

Það er svo gaman þegar helgarnar eru svona hrikalega mikið planaðar. Ég er að segja ykkur það, ég hafði frítíma á milli klukkan átta og tíu á laugardaginn og síðan ekki meir.

Helgin byrjaði reyndar á starfsmannapartýi sem var skemmtilegt en frá því varð helgin bara skemmtilegri. Ég byrjaði á ræktinni á laugardagsmorgunin, tók tuttugu mínútur á þremur tækjum og keyrði mig gersamlega út á því síðasta. Sem sagt mínúta 57-60 voru endanlega til að ganga fram af orkubirðunum. Ég var svo mætt á fótboltaleik rúmlega eitt. Hafði aldrei farið á slíka skemmtun og þetta var langt frá því að vera leiðinlegt. Reyndar tapaði liðið sem ég hélt með en það var bara aukaatriði. Það var reyndar alveg hrikalega kalt á vellinum og það hefði verið næsta nauðsynlegt að hafa haft einhvern góðan til að hlýja sér eftir leikinn.....en það er líka allt önnur saga.

Ég fór svo út með Söndru, Soffíu og tveimur öðrum. Við vorum alveg hrikalega hressar. Ég spilaði lagið um njálginn fyrir gesti og vakti það mikla lukku, ekki skal þó segja hvort það hafi vakið áhuga :) Við eyddum svo meirihluta seinnihluta kvöldsins inni á Rex sem ég mun framvegis þekkja undir nafninu stelpa í flegnum bol og útlenskir karlmenn. Mun framvegis leita heppilegri skemmtistaða.

Nú fer af stað vika númer þrjú í heilsuræktar - einkaþjálfuninni. Ég fór út áðan nota bene með smá þynnkuverk og ákvað að hlaupa hringinn minn hérna í Grafarvoginum. Þegar ég var búin með hringinn og aftur komin að kirkjunni fann ég að ég átti ennþá slatta eftir að orku og ákvað því að hlaupa áfram og áður en ég vissi eða fann fyrir var ég búin að hlaupa annan hring. Sem sagt ég hljóp tæpa níu kílómetra í kvöld....JÚBBÍ JEI!!!

...og fyrir þá sem vita...I think I go to Boston :)

Thursday, October 04, 2007

Þannig fór um fjallaferð þá

Klukkan er 22:15. Nesti morgundagsins er tilbúið í nestistöskunni inni í ísskáp. Við hurðina standa þrjár töskur. Í einni eru föt fyrir morgundaginn sem ég fer í eftir að ég er búin í ræktinni. Í annarri eru fjallgönguföt fyrir seinnipartinn þegar ég ætla að fara með vinnufélagana upp á Grímannsfell (ég veit ég var búin að heita því að fara ekki þangað upp aftur, en hvað gerir maður ekki fyrir gott fólk). Í þriðju töskunni er tölvan og bækurnar sem ég þarf fyrir vinnuna. Á hurðarhúninum hanga svo gönguskórnir sjálfir, annars myndi ég pottþétt gleyma þeim.

Klukkan er 22:30. Ég leggst upp í rúm. Maður verður að fara að snemma að sofa ef maður á að vakna með góðu móti klukkan sex. Ég er dauðþreytt eftir daginn. Fór á fætur klukkan sex, var í vinnunni til rúmlega fjögur. Passaði fyrir Gunnu systir til átta. Vann í bókhaldinu til klukkan níu. Horfði á ANTM og fór svo að sofa. Samt ligg ég hér og get ekki sofnað.

Klukkan er 23:00. Af hverju sofna ég ekki. Ég tel í huganum klukkutíma sem ég get sofið. Það eru aðeins sjö tímar þangað til ég þarf að vakna. Af hverju sofna ég þá ekki. Er það út af harðsperrunni (já í eintölu) í öðrum tvíhöfðanum. Varla heldur hann fyrir mér vöku. Mér líður reyndar eitthvað skringilega í maganum. Hvað skyldi það vera.

Klukkan 23:30. Jú jú magapína var það. Ég er búin að heimsækja annað af gluggalausu herbergjunum í íbúðinni minni tvisvar á síðasta hálftíma. Andskotinn. Núna eru aðeins sex og hálfur tími þangað til ég þarf að vakna.

Klukkan er 03:00. Af hverju sofna ég ekki. Hversu lengi á þessi uppgangur að vara? Núna eru bara þrír tímar til stefnu.

Klukkan er 04:30. Gleymdu því þú sefur ekki í nótt.

Klukkan er 06:00. Gleymdu því að fara í ræktina. Þú varst að sofna. Andskotans djöfull.

Ég veit það er ljótt að blóta. En dagurinn sem var planaður svo sjúklega vel með öllum töskunum við hurðina er ónýtur.

Monday, October 01, 2007

Í smáralind

Ég fór í verslunarferð í gær. Fór í Smáralind. Mér finnst það ekki skemmtilegt. Ég tölti náttúrulega rakleitt í uppáhaldsbúðina mína, Dóróthea klikkar aldrei :) Ég keypti líka svona geggjað flotta kóngabláa peysu. Ég er bara ánægð með hana. Ég fór svo í hina uppáhaldsbúðina mína í Smáralind en það er engin önnur verslun en Hagkaup, nánar tiltekið matarhlutinn í Hagkaup. Mér finnst geggjað að ganga þar eftir göngunum, finnst eins og ég sé komin hálfa leið til hennar Ameríku.

En það gerðist nefnilega dálítið áhugavert í þessum innkaupaleiðangri. Ég gekk og potaði og snerti á flestu sem fyrir varð, stundum er meira að segja hægt að þefa líka. Allt í einu veiti ég athygli myndarlegum manni sem virðist fara svona í humátt á eftir mér. Aftur og aftur mættust augu okkar og svei mér þá ef ég var ekki viss um að gaurinn væri að daðra. Ég keyrði fram og til baka alla gangana og á eftir mér kom hann. Ég fór inn í mjólkurkælinn og skildi körfuna eftir við innganginn. Hann gerði það líka og fór að skoða sömu hlutina og ég þar inni, meira að segja á sama tíma. Ég tók þarna nokkrar jógúrtdósir og smellti mér út úr kælinum og fór inn ganginn með búsáhöldunum og að basla við að skoða þar svona stóran plastdall fyrir allt salatið sem ég ætla að fara að borða í vinnunni og hvað haldið þið....eftir augnablik kemur gaurinn á eftir mér inn þennan gang og ég sé það á öllu hans látbragði að hann ætlar að koma að tala við. Ég set mig því í stellingar og.....(nú haldið þið að ég hafi lent í einhverju ævintýri þarna í búsáhaldadeildinni) en nokkrum sekúndum áður en gaurinn byrjar að tala við mig heyrist frá enda gangsins.....

....þarna ertu ég er búin að leita að þér um alla búð. Gaurinn frýs með körfuna verður kjánalegur á svipinn, snýr við og gengur burt með konunni sinni.

Fólk er fífl!