Döpur er dráttlaus kona.

...besti páskamálsháttur ever!!!

Thursday, October 04, 2007

Þannig fór um fjallaferð þá

Klukkan er 22:15. Nesti morgundagsins er tilbúið í nestistöskunni inni í ísskáp. Við hurðina standa þrjár töskur. Í einni eru föt fyrir morgundaginn sem ég fer í eftir að ég er búin í ræktinni. Í annarri eru fjallgönguföt fyrir seinnipartinn þegar ég ætla að fara með vinnufélagana upp á Grímannsfell (ég veit ég var búin að heita því að fara ekki þangað upp aftur, en hvað gerir maður ekki fyrir gott fólk). Í þriðju töskunni er tölvan og bækurnar sem ég þarf fyrir vinnuna. Á hurðarhúninum hanga svo gönguskórnir sjálfir, annars myndi ég pottþétt gleyma þeim.

Klukkan er 22:30. Ég leggst upp í rúm. Maður verður að fara að snemma að sofa ef maður á að vakna með góðu móti klukkan sex. Ég er dauðþreytt eftir daginn. Fór á fætur klukkan sex, var í vinnunni til rúmlega fjögur. Passaði fyrir Gunnu systir til átta. Vann í bókhaldinu til klukkan níu. Horfði á ANTM og fór svo að sofa. Samt ligg ég hér og get ekki sofnað.

Klukkan er 23:00. Af hverju sofna ég ekki. Ég tel í huganum klukkutíma sem ég get sofið. Það eru aðeins sjö tímar þangað til ég þarf að vakna. Af hverju sofna ég þá ekki. Er það út af harðsperrunni (já í eintölu) í öðrum tvíhöfðanum. Varla heldur hann fyrir mér vöku. Mér líður reyndar eitthvað skringilega í maganum. Hvað skyldi það vera.

Klukkan 23:30. Jú jú magapína var það. Ég er búin að heimsækja annað af gluggalausu herbergjunum í íbúðinni minni tvisvar á síðasta hálftíma. Andskotinn. Núna eru aðeins sex og hálfur tími þangað til ég þarf að vakna.

Klukkan er 03:00. Af hverju sofna ég ekki. Hversu lengi á þessi uppgangur að vara? Núna eru bara þrír tímar til stefnu.

Klukkan er 04:30. Gleymdu því þú sefur ekki í nótt.

Klukkan er 06:00. Gleymdu því að fara í ræktina. Þú varst að sofna. Andskotans djöfull.

Ég veit það er ljótt að blóta. En dagurinn sem var planaður svo sjúklega vel með öllum töskunum við hurðina er ónýtur.

2 comments:

  • At 3:32 PM, Anonymous Anonymous said…

    Kannast við svona nætur og það er ekki ljótt að blóta í svona ástandi.
    Bestu kveðjur og frænkuknús
    Fríða

     
  • At 7:37 PM, Blogger Gugga said…

    Æji greyið mitt....ég vorkenni þér alveg ógurlega....alveg satt.

     

Post a Comment

<< Home