Döpur er dráttlaus kona.

...besti páskamálsháttur ever!!!

Sunday, October 21, 2007

Naglasnyrting

Ég lenti í óskemmtilegri reynslu í gærmorgun. Líkamsklukkan er náttúrulega búin að stilla sig á klukkan sex og því vaknaði ég nokkrum vegin til lífsins klukkan sex í gærmorgun. Fór fram á bergið, burstaði tennurnar, hleypti kisu út og lagðist svo aftur upp í rúm. Enda fyrir neðan allar hellur að ætla að gera eitthvað annað en sofa klukkan sex á laugardögum. Úti var líka hellirigning og leiðindi. Ég er rétt að ná að festa svefn þegar hljóðin berast að utan. Það fór ekkert á milli mála að þarna voru tveir kettir að slást. Ég náttúrulega rauk út í glugga og öskraði á ljóta fressinn sem var að meiða kisu mína. Fressinum dauðbrá og hljóp í burtu og frú Sigríður notaði tækifærið og skaust inn til mín. Ég lagðist svo aftur í rúmið og kisa lagðist titrandi hjá mér.

Við sváfum svo áfram til rúmlega níu. Þegar ég vakna sé ég að rúmið mitt er allt blóðugt. Ég náttúrulega nývöknuð fer vel yfir alla króka og kima á sjálfri mér í leit að saumsprettu. Eftir nokkra leit komst ég af þeirri niðurstöðu að það hafi ekki verið ég sem blæddi í rúmið. Ég fór því að leita að kisu. Ég var lengi að leita að henni og fann hana að lokum í þvottakörfunni inni í þvottahúsi. Þar sat hún greyið með fótinn rauðan. Ég tók hana upp og kíkti á fótinn og sá þá að ein klóin hékk á bláþræði og það fossblæddi.

Ég setti kisu niður og fór að leita að naglaskærum. Hún elti mig á þremur fótum, draghölt. Ég náði svo í handklæði og lagði það á rúmið mitt. Kisa lagðist á handklæðið og rétti mér fótinn. Hún vissi nákvæmlega hvað geri þyrfti, klóna þurfti að fjarlægja. Ég klippti klónna burtu og get rétt ímyndað mér að þetta hefur ekki verið þægilegt fyrir frú Sigríði, en hún beit á jaxlinn, vældi aðeins en stóð sig vel. Við ákváðum að setja ekki plástur á sárið heldur sömdum um að halda okkur bara inni næstu daga til að leyfa þessu að jafna sig. Hún er ennþá aðeins hölt í dag en við teljum að þetta sé allt að batna.

Það er kraftur í frú Sigríði og ég spyr mig nú hvort fressaógeðið hafi flúið vegna öskranna í mér eða vegna stórhættulegu bardagalistar frú Sigríðar ofurkisu.

Góðar stundir.

1 comments:

  • At 6:34 PM, Anonymous Anonymous said…

    Hurru, ég er að bíða eftir útfærslunni með afsláttinn mikla!!
    hehe
    Kv. Helena

     

Post a Comment

<< Home