Döpur er dráttlaus kona.

...besti páskamálsháttur ever!!!

Monday, July 02, 2007

Kristjana Bjarnadóttir

Sumir atburðir eru erfiðari en aðrir, en sögu af þessu langar mig til að segja ykkur.

Ég og mamma keyptum sumarblóm í Húsasmiðjunni á Borgarnesi á leið okkar norður á Hornstrandir. Blómin áttu að skreyta leiðið hjá tvíburasystur mömmu minnar, henni Kristjönu Bjarnadóttur sem ég er skírð eftir. Þegar við komum í kirkjugarðinn á Drangsnesi brá okkur í brún við það að sjá að leggsteinninn af leiðinu var horfin. Þessi leggsteinn er mjög veglegur og þungur en móðir mín keypti hann fyrir fermingarpeningana sína. Við vissum því að steinninn hafði ekki fokið burt svo við hófum leit okkar að honum inni á Drangsnesi.

Hún Kristjana fæddist 30. nóvember árið 1955 hún var barn foreldra sinna Bjarna og Bjarnfríðar. Hún var tvíburi á móti mömmu minni sem skírð var Hanna Birna, þær voru tvíeggja, börn númer sex og sjö. Tilvera hennar á þessari jörð var ekki löng aðeins nokkrir tímar og munu þeir hafa verið henni mjög kvalafullir. Ekki er hægt að vita með vissu hvers vegna líf hennar endaði svo snöggt. Helst er fólk á því að þetta hafi verið vegna blóðflokka misvægis og því hafi einhverskonar eitrun dregið hana til dauða. Amma dúlla kenndi sjálfri sér þó alltaf um dauða Kristjönu því einhvern tíma á meðgöngunni datt hún á bumbuna og samviskubitið nagaði hana alla tíð vegna þessa sama hvað reynt var að tala um fyrir henni. Það er ekki lítil byrði að bera.

Það var ekki siður á þessum tíma að kornabörn fengju sér gröf. Þau fengu yfirleitt að hvíla í gröf með einhverjum fullorðnum sem látist hafði á svipuðum tíma. Það var eins með Kristjönu litlu. Nokkrum dögum áður hafði látist eldri kona á bænum Sæbóli sem stendur rétt utan við Drangsnes. Allt var náttúrulega á kafi í snjó enda beið desember handan við hornið. Það varð úr að afi tók litlu dóttur sína, vafði hana í teppi og gekk með hana í fanginu að Sæbóli svo hún gæti fengið að hvíla í kistunni hjá konunni sem einnig bar nafnið Kristjana en var Einarsdóttir. Gangan þennan dimma dag tók um það bil þrjátíu mínútur og þið getið rétt ímyndað ykkur hversu þung þessi skref voru afa mínum. Þegar hann svo kemur að Sæbóli með dóttur sína í fanginu var honum sagt að búið væri að loka kistunni og ekki væri hægt að opna hana aftur. Því var ekkert annað að gera en að ganga aftur sömu leið til baka með barnið í fanginu. Svo var smíðuð lítil kista utan um stelpuna litlu og fékk hún að eiga sína eigin gröf í kirkjugarðinum og hvílir nú við hlið nöfnu sinnar Kristjönu. Bjarni afi mun víst seint ef einhvern tíma hafa jafnað sig á þessari lífsreynslu. En áður hafði amma fætt andvana dreng og hvílir hann einnig í kirkjugarðinum á Drangsnesi. Ég fæ nú bara tár í augun við að hugsa um þetta.

Mamma mín er því einstæður tvíburi. Hún sagði mér það eftir mömmu sinni að ef Kristjana hefði lifað hefðu þær sennilega verið mjög nánar því mamma gerði ráð fyrir henni í rúminu hjá sér meðan hún svaf fyrstu árin af ævi sinni. Mamma sagði mér einnig frá því hvað henni sárnaði oft í æsku þegar fólk tók ekki undir það að hún væri tvíburi. Auðvitað var Kristjana tvíburinn á móti mömmu, órjúfanlegur hluti af henni þó hún hafi ekki fetað vegin á þessari jörð með henni. En við vitum fyrir víst að hún fylgist með okkur og hefur oftar en einu sinni sést í fylgd með mér.

En svo ég klári nú söguna af leggsteinunum sem hvarf úr kirkjugarðinum. Gamall maður inn á Drangsnesi sem áður sinnti starfi kirkjugarðsvarðar tók steininn heim með sér í vetur og er búinn að vera að dunda við að pússa hann upp, mála steypta í kringum hann og steypa undirstöður undir steininn. Allt þetta gerði hann óbeðinn og harðneitaði að taka við borgun að neinu tagi fyrir vikið. En sumarblómin fóru vel á leiðinu og búið verður að setja steininn upp þegar við komum næst á Drangsnes.

Minningin um Kristjönu lifir líka, mér þykir vænt um nafnið mitt og því að ég skuli hafa fengið það í arf frá henni. Hér læt ég þessari lesningu lokið.

1 comments:

  • At 12:02 AM, Anonymous Anonymous said…

    Vá, falleg frásögn. Ég fæ líka tár í augun við að lesa þetta. Margt sem ég vissi ekki. Takk fyrir þetta
    Anna frænka

     

Post a Comment

<< Home