Döpur er dráttlaus kona.

...besti páskamálsháttur ever!!!

Tuesday, January 31, 2006

New York

Borgin mín er þáttur á Skjá einum sem mér finnst mjög skemmtilegur. Því miður var síðasti þátturinn á dagskrá í kvöld svo nú verð ég bara að láta mig dreyma um fjarlæga staði og borgir á nýjan hátt. Þættirnir voru náttúrulega misjafnir eins og þeir voru margir. Þátturinn um St. Pétursborg var þvílík menningarsúpa , þátturinn um London var bara um djamm og kaffihús og svo kom þessi skemmtilegi menningar og skemmtiþáttur um New york.

Kannski var hann bara svona skemmtilegur því ég hef sjálf komið til New York, hef samt líka komið til London svo það getur varla verið skýringin.

Ég hef tvisvar sinnum komið til New York, viku fyrir jól árið 1997 og um páskana árið 1998. Fyrri ferðin var með fjölskyldunni sem ég bjó hjá á þeim tíma og mestan tíma var ég í einhverju úthverfi og sá ekki mikið af New York. Fyrir utan að hafa séð Christmas carol í Madison Square garden. Gaman! En ekkert spes.

Í seinna skiptið fór ég með tékkneskri vinkonu minni. Þeir dagar í New York voru alveg sérstaklega skemmtilegir ef frá er talið mesta menningarsjokk ever en ég nenni ekki að skrifa um það. Við fórum um allt, vorum á hóteli á 88 street og þar af leiðandi í gönguferð við alla skemmtilegu staðina. Við skoðuðum Wall street hverfið og nautið með stóra punginn. Við lögðum ekki í biðröðina til að sigla út í Frelsisstyttuna. Við stóðum á turnum sem nú eru horfnir. Við fórum upp í Empire state bygginguna. Soho, Litla Ítalía, Chinatown og Central park og meira segja villtumst við í lestinni í myrkrinu og enduðum einhvers staðar þar sem tveimur ungum stúlkum með ferðatöskur var ekki óhætt að vera á þeim tíma nætur….!

Eitt er víst að ef ég hefði siglt út að Frelsisstyttuna hefði ég ekki haft tíma til að skoða tvíburaturnana eins og ég gerði. Ekkert er eilíft og sú hugsun flaug ekki um hugann að þessi ólýsanlegi risastóri steinsteypuklumpur yrði ekki til staðar að eilífu.

Markmiðið er því að komast til New York aftur og skoða frelsisstyttuna áður en eitthvað langt í burtu ríki hefnir sín á henni. Öllu frekar væri gáfulegra að smella sér til Köben og skoða hafmeyjuna áður en reiðir trúarmenn senda hana enn einu sinni í viðgerð. Úffff…aumingja Danir.

Bingó

Á miðvikudaginn þ.e. 1. febrúar klukkan 19:30 er komið af því:
..........................þá er BINGÓKVÖLD í Vinabæ!!!!

Þá er gott að smella sér í bingógallann og hrista duglega upp í bingóvöðvanum slappa og taka vinabæinn með trompi....!

Hver er með?

Sunday, January 29, 2006

Sýklar

Spurning? Hvar finnur þú flesta miðla?

Jæja það er annar dagur í aðeins þynnra lagi, ekki eins slæmt og í gær en er samt. Við sátum tvær á Ölstofunni fram eftir nóttu og hittum allt frá læknum til sveppabónda, hvað skyldi svo falla þarna á milli.

Aníveis. Sýklar? Ég var að horfa á varpið í dag og fékk aðeins of margar gæsahúðir. Fyrst var handboltaleikur á milli Pólverja og Slóvena. Þar meiðist einn Pólverjinn og “læknirinn” í pólska liðinu kemur hlaupandi inn á völlinn með handklæði í hendinni og skúrar þennan rauðleita vökva framan úr sóknarmanninum pólska. Svo þurrkar hann af gólfinu og skokkar út með þetta fallega handklæði. Rétt seinna er tekið leikhlé og handklæðið góða kemur aftur í mynd, þar sem annar Pólverja notar það til að skúra sig í framan. Þeir eru ekki sýklahræddir þessir Pólverjar. Gúí!!

Næst á dagskrá er sundmót. Auðvitað veit maður þegar maður stingur sér í laugina að maður er að sulla í annarra manna skít. Best að hugsa ekkert of mikið um það, það hefur engan drepið að fara í sýklasund, alla vega ekki ennþá. Alla vega glæsilegur karlkyns sigurvegari í einhverju sundi, hann kemur í nærmynd. Þá safnar hann góðri slummu í munninn og hrækir henni svo beint í laugina sem hann sjálfur er að synda í. Sem sagt í lauginni flýtur nú góð hor-slumma út úr sundmanni frá sundfélaginu Ægir. Gúí!

…og svarið við spurningunni…auðvitað í fjölmiðla-fræði!!!!

Saturday, January 28, 2006

Laugardagssteinn!!!

Það er kalt í Evrópu, 35 stiga frost í Póllandi, 25 stiga frost í Rúmeníu, á Íslandi er 8 stiga hiti. Á Íslandi í dag er blautt. Svona undir teppi, jafnvel undir sæng veður. Sérstaklega þegar Janus ER AÐ DREPAST ÚR ÞYNNKU!!! F…(og svo restin af ljótu orði) synd að sóa þessum ógeðslega blauta, niðurdrepandi laugardegi með hausverk undir teppi…!!! Eða ekki, kannski þetta sé hinn fullkomni dagur til að eyða í þynnku. Betra en að eyða sólbjörtum sumardegi í það.

Gaman að stöð 2 muni hjálpa mér í gegnum þennan dag með því að hafa dagskránna sína óruglaða, er það kannski þynnkan sem orsakar það að ruglaða dagskráin er órugluð í mínum huga ;(

Fyndið hvað Snorri í íslenska Idolinu er líkur Marty í rock star, alveg jafn sætur og já sætur….grrr!

Klósettið mitt hefur eftir gærkvöldið fengið nýtt nafn. Það er svona sjávarþema á því. Það er náttúrulega blátt og nú þegar klósettsetan er komin á sinn stað er meistaraverkið fullkomnað. Ég þyrfti að fá svona under the sea tónlist í partýum til að fólk fái Karabíska fílingin beint í æð.

Úffff samkvæmt leiðréttingaforritinu mínu þá er allt of mikið að slettum í þessari færslu, en pffffffff mér er alveg sama í þetta sinn – buhu hvað þetta er vesalingaleg færsla.

Klukkan orðin hálffimm og jú jú tími á að skúra sig til og gera sig tilbúna fyrir kveldið í kveld, ekki þýðir að drekkja sér í sjálfsvorkunn.

Wednesday, January 25, 2006

Staksteinar

Stepping stones – þ.e. steinar sem maður stígur á til að þess að komast frá einum árbakka yfir á annan, er ekki réttast að þýða það Staksteinar?

Hérna er talvan! Einn unginn minn sagði þetta í dag og ég með hjartað í buxunum yfir því að íslenskan væri að deyja út leiðrétti hana….þú átt að segja tölva! Af hverju spurði barnið? Nú af því annars myndir þú fara út í búð og biðja um talvaleiki. Jááááá sagði barnið, auðvitað og svo hlógu þau, auðvitað sögðu börnin í kring…við förum sko aldrei í talvaleika, við spilum sko tölvuleiki!!! Þau eru skýr þessir ungar skal ég segja ykkur. Ég trúi því ekki að þau passi ekki upp á tungumálið sitt eins og við hin.

Vissuð þið að það er hægt að fá innilokunarkennd á stóru opnu svæði. Fólk fyllist innilokunarkennd í stórmörkuðum eða bara þar sem margt fólk er. Amma mín var með mikla innilokunarkennd. Hún fékk innilokunarkennd af því að sitja föst við girðingu. Hún var að vinna úti á túni og ætlaði að skríða undir girðingu en festi sig við hana og sat þar föst í einhvern tíma. Eftir það var amma með mikla innilokunarkennd. Ég er líka með innilokunarkennd og ég man alveg hvenær það byrjaði.

Ég var að leika heima hjá vinkonu minni. Við vorum frægar fyrir undarlega og heimatilbúna leiki og þennan dag vorum við að leika okkur í fangelsisleik. Við vorum sennilega svona um tíu ára aldurinn. Ég var fanginn og vinkonan var fangavörðurinn. Leikvöllurinn voru allir lausir púðar í húsinu, öll teppi og annað í þeim dúr. Ég man svo sem ekki nákvæmlega út á hvað leikurinn gekk það eina sem ég man ég var ekki neinn draumafangi og var því stungið í einangrun. Og þá kemur að rúsínunni í pylsuendanum. Ég var látin leggjast á gólfið á mottuna og svo var mér rúllað upp í þessa löngu mottu. Mottan var stór svo hvorki haus né hali stóð út fyrir og tilfinning var sennilega eins og hjá kjúklingi í sellófón. Ég gat ekki hreyft mig og trúið mér það var ótrúlega dimmt og loftlaust í þessari upprúlluðu mottu. Það er ekki margt sem ég frá þessum árum fyrir 1990 en þessi minning er steypt í hausnum á mér.

Svona var það…..einn staksteinn sem skýrir það hvers vegna Janus litli getur ekki breytt upp fyrir haus og þarf að beita sig hörðu til að ganga með húfu…..!

Hitabyssa er ekki hárþurrka

Viðvörun um að neytendur ættu ekki að nota hitabyssu sem hárþurrku hefur verið valin hjákátlegasta viðvörun liðins árs á vörumiðum. Hitabyssan gefur frá sér allt að 540 stiga hita á Celsius.

Er þetta í níunda sinn sem bandarísk samtök veita verðlaun fyrir hjákátlegustu viðvaranir ársins til að henda gaman að þeirri tilhneigingu Bandaríkjamanna að höfða skaðabótamál og áhrifum hennar á vörumerkingar.

Verðlaun voru einnig veitt fyrir næstkynlegustu viðvörunina, en hún fylgdi eldhúshníf: "Reynið aldrei að grípa fallandi hníf."

Þriðju verðlaunin voru veitt fyrir hanastélsmunnþurrku með korti af siglingaleið umhverfis eyju við strönd Suður-Kaliforníu: "Notist ekki við stjórn skipa eða báta."

Heiðursverðlaun voru veitt fyrir viðvörun á flösku af þurrkuðu gaupuþvagi sem notað er til að fæla skordýr frá garðplöntum: "Ekki ætlað til neyslu."

BINGÓ

Ég er búin að vera að kenna börnunum mínum að spila bingó undanfarið og er með einhvern svona bingóskjálfta...!

Hver vill koma að spila bingó með mér í kvöld?

Tuesday, January 24, 2006

Sagan segir að......

…íslenskan verði dauð eftir 100 ár. Ég veit það ekki, ég bara trúi því ekki að við og börnin okkar taki upp á því um að miðja þessa öld að smyrja svo mikilli útlensku á málið okkar að í lok þessarar aldar verði ekkert eftir af okkar ástkæra ylhýra tungumáli….úfff ég vona að þetta sé rétt skrifað. Það væri svolítið hallærislegt að skrifa svona texta með stafsetningarvillum.

…hvað skal segja. Ég keypti mér rúðuþurrkur í dag og svei mér þá ef heimurinn er ekki bara aðeins skýrari fyrir vikið.

…það var geggjað í bústaðnum um helgina og það er hægt að segja um kennara og sambandið þeirra að þeir eiga mjög fína og flotta bústaði. Það var náttúrulega ekta vetrarríki þarna upp frá. Að smella sér í pottinn í frostinu búin að drekka of mikið af áfengi, leggjast svo og hrjóta og eyða næsta degi í þynnku og leti með hinum gellunum sem gerðu nákvæmlega það sama.

…næsta helgi býður með fleiri gleðsköpum, það er nú bara full vinn að standa í þessu. Það er án vafa og ekki hægt að komast undan þessu lengur…já Janus þú verður að skúra fyrir helgina.

…úllen, dúllen, doff, kikki, lani, koff, koffi, lani, bikki, bani, úllen, dúllen doff….!

Sunday, January 22, 2006

scary!!!!!!!!!!5

You Are Not Scary

Everyone loves you. Isn't that sweet?


Þetta er nú hálffúlt....ég sem hélt ég myndi verða eitthvað hættulegt eins og ljón eða snákur.....en nei!! Þú ert lúði :(

Thursday, January 19, 2006

Hahahahahahhaha!!!

Tvær konur eru að bíða á biðstofunni við Gullna hliðið og eru að berasaman sögurnar af því hvernig þær dóu.Sú fyrri segir: "Ég fraus til bana.""En hræðilegt," segir hin, "að frjósa til bana. Það hlýtur að hafa veriðkvalarfullt?""Ekkert svo," segir sú fyrri, "þegar maður er hættur að skjálfa af kuldaverður maður bara syfjaður og finnur fyrir hlýju. Loks dettur maður baraút.

Hvað með þig? Hvað gerðist?"
"Ég fékk hjartaáfall. Mig var búið að gruna manninn minnlengi umframhjáhald og ákvað að koma snemma heim úr vinnunni einn daginn. En þegarég kom heim, sat hann bara inni í stofu og horfði á sjónvarpið."

"Nú?" spyr sú fyrri. "En hvað gerðist?"

"Ég var alveg viss um að það væri önnur kona í húsinu, svo ég hljóp umallt að leita. Upp á háaloft, niður í kjallara, inni í alla skápa og undiröll rúm. Ég hélt þessu áfram þar til ég var búin að kemba allt húsið.Þegar því var lokið var ég svo örmagna að ég hné niður, fékk hjartaáfallog dó."

"Hmm," segir sú fyrri, "leitt að þú skyldir ekki kíkja í frystikistuna. Þá værum við báðar á lífi."

Tuesday, January 17, 2006

..og svo önnur fjölskyldu færsla!!!

Það má ekki gera upp á milli ömmu og afa...byrja á því að leiðrétta mig...í ár hefði amma Guðrún orðið 82 ára en ekki 72 eins og ég hélt!!

Hér kemur þetta:
Ég heyrði nýverið sögu af ömmu Guðrúnu sem ég ætla að láta fljóta hérna með. Amma mín var ekki há í loftinu, en máltækið margur er knár þótt hann sé smár á einstaklega vel við hana. Þetta gerist þegar amma og afi bjuggu á Heiðarveginum í eldgömlu og litlu húsi. Þegar amma ætlaði að fara að smella öllu stóðinu í rúmið voru góð ráð dýr. Amma tók þá bara hvern og einn orm háttaði hann og lét hann setjast í gluggakistuna. Þegar allir 6 (þarna voru bara sex) voru sestir í gluggann byrjaði amma aftur á byrjun, fyrst að þvo öllum, svo bursta, svo greiða, svo náttföt, svo sokkar, svo koss og svo hver og einn í sitt rúm. Alveg eins og á færibandi í frystihúsi.

Og meira af ömmu! Þegar það frysti á veturna bólgnaði og hjaðnaði á víxl í frostinu. Í mestu frostunum bólgnaði hurðarnar það mikið að ekki var hægt að loka þeim. Amma hörkukvendi kippti sér ekki upp við það heldur náði sér í hefil og heflaði ofan af hurðunum svo hægt væri að loka. Svo þegar voraði á ný munaði oft nokkrum sentimetrum á því að hurðirnar féllu að stöfum.

Það er ekki nema von að maður sé svona mikil hetja....eheheheh!!!

Sunday, January 15, 2006

15. janúar 2006

Í dag er 15. janúar 2006. Í dag hefði Egill afi minn orðið 85 ára gamall. Ég skrifaði ekki fyrir löngu um mömmu fjölskyldu svo það er alveg við hæfi að halda smá tölu um pabba fjölskyldu.

Pabbi minn Páll er sonur heiðurshjónanna Egils Guðjónssonar og Guðrúnar Pálsdóttur. Eins og áður sagði hefði afi Egill orðið 85 ára í dag en hann dó árið 1994. Amma Guðrún dó árið 1983 þá aðeins 58 ára gömul. Amma hefði orðið 72 ára gömul nú í mars. Saman áttu amma og afi hvorki fleiri né færri en níu börn sem skríð voru: Svanborg, Páll, Guðjón, Stefán, Pálmi, Gunnar, Guðríður, Sigrún og Sigríður. Átta þessara níu systkina búa hér á Suðurlandinu, aðeins Sigrún býr annars staðar en hún flúði alla leið til Svíþjóðar. Þessi níu börn eiga 23 börn og 5 barnabörn.

Afi vann alla tíð á vörubílnum sínum. Hann var einn af fyrstu vörubílstjórunum sem keyrði möl úr Ingólfsfjalli í húsgrunna og vegi á Selfossi og víða. Afi keyrði líka rauðamöl í tonnavís og enn í dag ef ég sé rauðamöl hugsa ég um afa. Afi var mikill náttúruunnandi og var sérstaklega fróður um gróður og umhirðu hans. Landið hans í Þrastaskógi ber enn hans yfirbragð og jú jú ég man alveg hvaða tré ég fór síðast með, með afa og gróðursetti. Ein af mínum síðustu minningum um afa er einmitt úr skóginum, þegar öll fjölskyldan kom saman í skóginum og gróðursetti og þökulagði. Þá var afi orðin mjög veikur.

Afi átti alltaf ísblóm í frystinum. Það var náttúrulega rándýrt að kaupa öll þessi ísblóm handa þessum haug af barnabörnum sem komu oft við. Afi keypti því bara allt sem þurfti í svona ísblóm og bjó þau svo bara til sjálfur. Bræddi súkkulaði í botninn, jarðaberjasultu, ís….! Hann var nýtinn sá gamli.

Afi ferðaðist mikið á seinni árum. Hann heimsótti lönd eins og Ísrael, Chile, Nepal og Sri lanka. Um þessar ferðir skrifaði hann greinar sem birtust ófáar í Morgunblaðinu. Hann handskrifaði ferðasögur sínar og t.d. í dag á þorrablóti fjölskyldunnar voru þessar sögur lesnar upp. Þannig höldum við minningu þessa mæta manns á lofti.

Afi Egill var mjög trúaður og því er vel við hæfi að enda þennan pistil á orðunum:

Dag í senn, eitt andartak í einu,
eilíf náð þín, faðir, gefur mér.
Mun ég þurfa þá að kvíða neinu,
þegar Guð minn fyrir öllu sér?
Hann sem miðlar mér af gæsku sinni
minna daga skammt af sæld og þraut,
sér til þess, að færa leið ég finni
fyrir skrefið hvert á lífs míns braut.

Hann, sem er mér allar stundir nærri,
á við hverjum vanda svar og ráð,
máttur hans er allri hugsun hærri,
heilög elska, viska, föðurnáð.
Morgundagsins þörf ég þekki eigi,
það er nóg, að Drottinn segir mér:
Náðin mín skal nægja hverjum degi,
nú í dag ég styð og hjálpa þér.

Guð, ég fæ af fyrirheitum þínum
frið og styrk, sem ekkert buga má.
Auk mér trú og haltu huga mínum
helgum lífsins vegi þínum á,
svo að ég af hjartaþeli hreinu,
hvað sem mætir, geti átt með þér
daginn hvern, eitt andartak í einu,
uns til þín í ljóssins heim ég fer.

Friday, January 13, 2006

Föstudaginn 13

...þetta á að vera hinn eini sanni óhappadagur ;( Föstudagurinn þrettándi verður einu sinni til þrisvar sinnum á ári. Á þessum degi eru margir svo óttaslegnir að þeir mæta ekki til vinnu - það hefði kannski átt að hafa þennan snjóuga dag bara heilagan frídag. Ég er búin að sitja heima í dag með ferlega flensu og leiðindi, þessi heimaseta hefur náttúrulega ekkert að gera með það að í dag er föstudagurinn 13.

Hræðsla við töluna 13 er kölluð triskaidekafobia. Ýmsar skýringar hafa verið settar fram um uppruna þessarar fælni og hjátrúin sem tengist henni birtist í ýmsum myndum. Til að mynda hafa mörg hótel enga hæð sem kölluð er 13. hæðin, happdrætti forðast að gefa út miða númer 13, sumum finnst borðhald með 13 manneskjum óhugsandi og fjöldamorðingjar sem hafa 13 stafi í nafninu sínu eru tíndir til hjátrúnni til staðfestingar. Þegar þrettánda dag mánaðarins ber upp á föstudag á dagurinn að vera slíkur óheilladagur að sumt fólk forðast jafnvel að mæta til vinnu.

Sú skýring sem heyrist líklega oftast á neikvæðri ímynd tölunnar 13 er að við síðustu kvöldmáltíð Krists hafi verið samtals þrettán menn. Óorðið sem föstudagurinn þrettándi hefur á sér má svo meðal annars rekja til þess að krossfesting Krists á að hafa farið fram á föstudegi.

En hjátrú! Eruð þið hjátrúafull?

Er hjátrú að trúa því að maður verði að svara fyrir gjörðir sínar í þessu lífi í því næsta? Ef svo er þá er ég hjátrúafull og mun því fara með svarta köttinn minn í strýpur á næstu dögum :) fara inn um gluggann á íbúðinni minni svo ég þurfi ekki að labba undir stiga, setja kross í öll horn og sofa á Biblíunni :)

Léttar lundir og góðar stundir.

Segir allt sem segja þarf!!!!!



SEGIR ALLT SEM SEGJA ÞARF!!!!





Thursday, January 12, 2006

Fréttir

Það skemmtilegasta í Fréttablaðinu, kona sem hélt hún væri að verða heyrnarlaus en var svo þegar allt kom til alls bara með könguló í eyranu.

Innflytjendum hefur fjölgað um þriðjung á árinu. Flestir nýjir Íslendingar eru frá Póllandi, samt finnst manni vera mest af fólki af Asískum uppruna. Hvað um það Íslendingar eru eins og aðrir jarðarbúar farnir að blandast hinu alþjóðlega samfélagi. Það líður að því að við verðum öll hluti af hinum alþjóðalega mannlega shake….!

Ef við erum í tjaldi erum við þá í lokuðu rými. Er hægt að afmarka rými með tjaldi? Það er spurning sem herra Goldfinger verður að vona að allir svari neitandi. Annars verða menn sem langar að fylgjast með dansandi konum að keyra til Keflavík city og finna sér lokað rými á Casino!!! Það er skemmtilegur staður!!!!!!!!!!!!!!!!

Á Indlandi eru meyfóstrum eytt í milljónatali. Svo erum við á Íslandinu að velta vöngum yfir því að 9 af hverjum 10 fóstrum með down syndrom sé eytt. Mín skoðum sem náttúrulega enginn ykkar þarf að vera sammála – engin lög geta stoppað þessar fóstureyðingar, eina leiðin er að kenna fólkinu að allir einstaklingar séu jafnir, sama hvers kyns eða “tegundar” þeir eru!! Og hvernig stendur á því að fólkið á Indlandi sér ekki að ef það stöðvar komu kvenmanna í þennan heim þá endar með því að Indland fyllist af piparkörlum.

Vissuð þið að álfabikarinn kom fyrst á markað árið 1940. Í kjölfarið kom svo á markað hin undraverðu dömubindi og konur þess tíma gripu þau fegins hendi. Álfabikar tvímælalaust besta uppfinning ársins 1940.

Jú, jú það er rétt stundum rennir Janus augunum yfir síður Fréttablaðsins…stundum já stundum borgar sig að hafa tekið niður engan ruslpóst skiltið.

Mikil er tæknin....!

Þrír múrarar sitja saman í gufubaði. Allt í einu heyrist lágtbíp-hljóð. Tommi ýtir á ennið á sér og hljóðið hættir. Hinir horfa á hann í undrun."Þetta er símboðinn minn", segir Tommi. "Hann er græddur undir skinnið á enninu á mér. Bað um að ég yrði látinn vita þegar búið væri að opnatilboð í flísalögn í Laugardagslauginni".

Nokkrum mínútum seinni heyrist lágvær hringing. Jói stingur vísifingri vinstri handar í eyrað á sér og talar nokkur orð í stórutá hægri fótar. Hinir horfa með mikilli undrun. Eftir samtalið segir Jói: "Þetta er gemsinn minn. Lét græða hann í puttann og tána. Konan var að láta mig vita að hún er að fara í klippingu og strípur."

Gumma, sem fannst hann vera hálf gamaldags og ótæknivæddur, prumpar, stendur upp og fer fram í nokkrar mínútur, kemur aftur inn og hangir þá klósettpappír út á milli rasskinnanna á honum. Hinir horfa á hann og eru eitt spurningarmerki, svo Gummi segir: "Ég var að fá fax ..."!

Wednesday, January 11, 2006

Gettu betur!

Mér þykir það undarlegt hversu margar konur nú orðið geta eignast börn með geislabaug. Það hlýtur að vera erfitt að koma svoleiðis unga út!! Ég bara spyr?

Af hverju eru mandarínur bara góðar á jólunum? Ég bara spyr?

Hversu flott er nýsprautaða bláa innréttingin mín? Ég bara spyr?

Who are you, ú hú ú hú! Who are you? Þetta er stefið sem spilað er á undan hverjum CSI þætti, heil sería í tækinu. Hversu góðir eu þessir þættir?

Hvenær skildi sá dagur renna upp sem þegar tiltekið dagblað þarf að fara hugsa áður en það talar. Rétt eða ekki rétt, satt eða ósatt, sannleikur eða lygi....er þetta ekki einum of langt gengið?

Hvað sem öllu öðru líður sit ég hér og get ekki annað. Það eru einungis 9 dagar í sumarbústaðaferðina langþráðu. Jei!

Sunday, January 08, 2006

Ég er í rauðum regnfrakka og rígheld mér í staurinn.

Rigning, regn, rigning, skýfall, rigning, dropar, rigning, úði, rigning, raki, rigning, bleyta, rigning. Einhver sagði hvernig væri ástandið á landinu ef allt þetta sem búið að er koma úr loftinu væri snjór.....hvað um það. Er ekki nóg komið. Ég þoli ekki rigningu. Það er svo drungalegt þegar rignir. Mitt í þessari blautu vitleysu birtist þessi frétt á mbl:

Búið er að slökkva sinueldana sem loguðu í við bæina Samkomugerði og Torfur í Eyjafjarðarsveit. Menn urðu varir við eldana um klukkan fjögur í nótt en að sögn lögreglunnar á Akureyri var búið að slökkva eldana um klukkan átta í morgun. Um tíma var óttast að eldarnir næðu að læsa klónum í nærliggjandi hús en betur fór en á horfðist að sögn lögreglu.

Er þetta eitthvað djók?

Ég fór í Hagkaup áðan í leit að Bingó. Fann ekkert bingó. Endaði á að kaupa 4 sveppi og 6 kirsuber (ásamt fleiri hlutum). Sveppirnir kostuðu 31 krónu, berin kostuðu 90 krónur.....aumingja sveppirnir þeir þurfa ábyggilega á sálfræðiaðstoð að halda. Það er greinilega betra að vera ber heldur en sveppur.

Svona var það....! Núna líður mér pínulítið eins og beri sem smitast hefur af einhverjum sveppasýkingu, svona bersvepp eða sveppber!! Hvað myndi það kosta í Hagkaup?

ÉG ÞOLI EKKI RIGNINGU!!!!

Thursday, January 05, 2006

Fleiri, fleiri leikir!!!!

Aðeins 300 gestir til stefnu....who will be lucky 30.000!!!

1. Hver ert þú?
2. Erum við vinir?
3. Hvenær hittumst við fyrst og hvernig?
4. Ertu hrifinn af mér?
5. Langar þig að kyssa mig?
6. Láttu mig hafa gælunafn og útskýrðu afhverju þú valdir það.
7. Lýstu mér í einu orði.
8. Hvernig leist þér á mig þegar þú sást mig fyrst?
9. Lýst þér ennþá þannig á mig?
10. Hvað minnir þig á mig?
11. Ef þú gætir gefið mér eitthvað hvað myndi það vera?
12. Hversu vel þekkiru mig?
13. Hvenær sástu mig síðast?
14. Hefur þig einhvern tíman langað til að segja mér eitthvað en ekki getað það?
15. Ætlaru að setja þetta á bloggið þitt svo ég geti skrifað um þig?

Orðabókaþýðingar!!!

The raisin at the end of the hot-dog = Rúsínan í pylsuendanum.

I measure one-pulled with it = Ég mæli eindregið með því.

Now there won't do any mitten-takes = Nú duga engin vettlingatök.

I come completely from mountains = Ég kem alveg af fjöllum.

Thank you for the warm words into my garden = Þakka þér fyrir hlý orð í minn garð.

Everything goes on the back-legs = Það gengur allt á afturfótunum.

He's comepletely out driving = Hann er alveg úti að aka.

It lies in the eyes upstairs = Það liggur í augum uppi.

She gave me under the leg = Hún gaf mér undir fótinn.

He stood on the duck = Hann stóð á öndinni.

I teach in breast of him = Ég kenni í brjósti um hann.

On with the butter!!! = Áfram með smjörið!

Wednesday, January 04, 2006

Your spunk is funky!!!

Sex and the city rúllar öll kvöld á Skjá Einum, ég er svo heppinn að hafa ekki séð nema lítinn hluta þessara þátta (hef ábyggilega verið að horfa á Friends þegar þeir voru sýndir). Ég kafnaði næstum úr hlátri yfir þessum þætti.....your spunk is funky!!! Úffff ég ætla nú ekkert að fara að deila minni persónulegu reynslu enda alls ekki staður né stund fyrir það....en á næsta stelpukvöldi mun þetta verða rætt í þula :)

Þá er maður dottinn í rútínu aftur...og ekki von á fríi fyrr en í byrjun apríl...svo verður komið vor áður en maður veit af.

Áramótaheit: ég ætla að setja sama heit og venjulega!
  • Lesa meira - amk. ein bók á mánuði.
  • Hreyfa sig meira
  • Svo ég noti nú bara tækifærið og steli línu frá Fríðu frænku.....svona á þetta að vera...LÍFIÐ ER BARA OF STUTT TIL AÐ EYÐILEGGJA ÞAÐ MEÐ MERKILEGHEITUM, SNOBBI OG LEIÐINDUM.
  • Gera hitt og gera þetta!

Svona segir spámaðurinn að árið mitt verði: Fiskurinn...Fullur af töfrum og hrekkjum - Móttækilegur - Auðsæranlegur

Ráðvilltur birtist fiskurinn í byrjun ársins. Hér er minnst á breytilegt sálarástand sem þú leitast við að stjórna á uppbyggilegan hátt. Þegar líður að byrjun mars mánaðar nærðu að komast yfir eðlislæga löngun þína sem er að fórna sér stöðugt fyrir aðra. Þú gerir þér að sama skapi ljósa þá ánægju sem fólgin er í óeigingjörnu starfi en þó án þess að ganga á eigin hlut.

Þér er líkt við Dóróþeu í Galdrakarlinum frá Oz: Full/ur af hrekkjum og töfrum. Veröld þín er nefnilega full af tilfinningalegum stormsveipum. En þú munt hafa fulla stjórn þegar sumarið hefst og verður sérstaklega móttækileg/ur og nærð að virkja dulræna krafta þína. Þú ert einstaklega góð/ur í samskiptum án orða allt árið framundan (dulrænn og öflugur kostur í fari þínu sem þú mættir nýta alfarið til hjálpar öðrum) en þar af leiðandi ræðir þú allt of sjaldan tilfinningar þínar sem skipta ekki síður máli. En þar sem þú ert að slíta þig árið 2006 frá óheilnæmum hlutum í fortíð þinni, þarft þú að leggja áherslu á að tjá þig með orðum í meira mæli. Þú getur komist hjá erfiðleikatímum (febrúar) á tilfinningasviðinu með því að leyfa ástvinum að deila með þér í meira mæli og ræða málin.

Stundum þarf maður að taka á honum stóra sínum ef maður er með opið hjarta eins og þú. Þá er mikilvægt að leyfa sér ekki að fá samviskubit þó öðrum líði illa yfir eigin vandræðum. Þú getur ekki bjargað heiminum.

Hættu að leyfa aðstæðum að draga úr þér máttinn, bæði í einkalífi og starfi. Þú mættir efla sjálfið frá og með deginum í dag með því að leggja þig fram við að verjast með því að draga þig svolítið útúr hringiðunni, taka hæfilega þátt í lífi annarra, auðsýna þörfum annarra samúð og hluttekningu en án þess að gleyma þínum eigin þörfum.

Ef einhver af stjörnunum skilur heildina þá ert það þú. Þú veist að það er oftar en ekki erfitt að læra í jarðneskum skóla og að allt hefur tilgang. Á hverri stundu getur hjartað lokist upp og nú, árið framundan, er komið að þér að hlusta á hjarta þitt og gerast áhrifavaldur í lífi þínu.

...og svo átti ég víst eftir að óska ykkur Gleðilegs árs og til hamingju með það nýja, megi það færa ykkur eitthvað nýtt og ótrúlega spennandi :)

Monday, January 02, 2006

Kvikmyndir ársins!!!!

Hitch, Sideways, Bridget Jones the edge of reason, Notebook, Mr. And Mrs. Smith, 13 going on 30, The Incredibles, Be cool, The pacifier, Alfie.

Á lista yfir vinsælustu myndir ársins 2005 eru 58 myndir og ég er bara búin að sjá tíu þeirra, þær sem taldar eru upp hér að ofan. Fjórar þeirra sá ég á í bíó, tvær þeirra í flugvél (mjög athyglisvert því ég fór bara einu sinni erlendis á árinu), eina sá ég í gær…og hinar þrjár við eitthvað annað tilefni. Já ég er ekki mikið inni í bíómyndunum. Þegar ég lít yfir þennan lista langar mig líka ekki til sjá nema örlítin hluta þessara mynda. Þær sem efstar eru á lista ef ske kynni að ég færi á vídeoleigu á næstunni myndi ég vilja sjá Hotel Rwanda, Closer og Finding Neverland.

Ég er búin að rífa opnuna úr blaðinu og ætla að bæta mig og auka prósentuna úr 5,8 í að minnsta kosti 15.

Annáll ársins 2005.

Já það hefur ekki runnið sérstaklega ljúft niður þetta ár sem nú er liðið. Fyrri hluti ársins var frekar erfiður, sumarið var gott og seinniparturinn var frábær. Þið vitið sennilegast öll hvers vegna og því kannski ekki ástæða til að tíunda það frekar. Eftir situr reiði, þó mest reiði gagnvart sjálfri fyrir að hafa leyft einum manni að fara svona illa með mig. Fljótlega eftir áramótin var ákvörðun tekin um að flytja sig um set, skipta um vinnu og finna nýtt húsnæði. Í byrjun maí ákvað ég svo að kaupa mér íbúð eftir að hafa verið á leigumarkaðnum í nærri 4 ár. Ég keypti íbúð við Hverafold í Reykjavík og er bara svoooooooo sátt með það. 1. júní flutti búslóðin svo frá Keflavík í skúrinn á Selfossi. Ég bjó hjá góðu fólki í Keflavík þangað til skóla lauk. Á jónsmessu, 24. júní, lagði ég af stað til Bandaríkjanna með fjögur börn í sumarbúðir í Tenneessee. Var þar úti í fjórar vikur og had the time of my life. Já og heimurinn er lítill eftir allt. Í byrjun ágúst byrjaði ég svo í nýrri vinnu. Fékk 20 nýja orma undir vænginn og allt hefur auðvitað gengið vel með það. Seinni hluti ársins hefur svo bara liðið með sínum ævintýrum. Fleiri stórar ákvarðanir eru framundan og alveg ljóst að árið 2006 verður líka ár breytinga þó ekki eins stórra. Svona var þetta nokkurn vegin:

Fjölskyldu meðlimur ársins: Litlu frændur mínir tveir sem hafa óbilandi trú á því að Jana frænka sé best í heimi. Best væri ef hægt væri að deila mér í tvennt því tvær hendur og tveir fætur eru hreinlega ekki nóg þegar báðir eru annars vegar.
Dýrasti tími ársins: Úfff fyrsta júlí þá fór ég frá því að eiga fullt af peningum í það að skulda eins og hver annar Íslendingur sem ekki lifir á foreldrum sínum. Já það er ekki um að villast, Janus er orðin fullorðin.
Áhyggjur ársins: Ekki skal neinn undra næsta komment – ekki miðað við útgjöld – auðvitað eru áhyggjurnar peningar, peningar, peningar. Ég þoli ekki svona áhyggjur og tek því fegins hendi ef einhver á of mikið af pappír og vill deila þeim með mér….bara verið þið velkomin.
Vinur ársins: Lítill félagsskapur sem kallar Sveinsínur, samanstendur af nokkrum eðal kvenmönnum sem mér þykir afskaplega vænt um. Sveinsína er ung, sexy, sjálfstæð og fullkomin….henni eru allir vegir færir.
Fyrsti vinnudagur ársins: Pínulítið sjokk, eiginlega mikið sjokk. Alltaf erfitt að byrja á nýjum vinnustað sérstaklega þegar vinnustaðurinn er í rykföllnum og illa lyktandi kofa. Það hefur sem betur fer margt breyst frá fyrsta vinnudeginum og það er hægt að búa til skóla úr kofum.
Skyndibiti ársins: Pylsa með öllu. Eftir að hafa dvalið í djúpsteiktasta kjöthluta hluta Ameríku var ólýsanlega gott að fá bara plain íslenska pylsu með öllu.
Félag ársins: CISV stuðlaði að mörgum skemmtilegum tímum.
Karlmaður ársins: Heimsmethafinn Gunnar Egilsson, stórkarl og frændi minn.
Kvenmaður ársins: Thelma á þann heiður skilið, hún fær fjöður í hattinn fyrir eindæma hugrekki og ótrúlega sterkan huga.
Par ársins: Hmmm…þar sem ég lifi nú ekki í neinu parasamfélagi. Því er par ársins Gugga góðvinkona mín og Sigginn hennar.
Barn ársins: Án vafa og umhugsunar er það hin eina sanna prinsessa frá Kína, Margrét Lin. Margrét kom í fjölskylduna í lok ársins og er án vafa sólargeisli þessa árs, eins og frænka hennar Ásta var árinu áður.
Kvöld ársins: Júróvisíon kvöldið hið síðara var eðalskemmtun svo ég taki ekki stórt til orða. Palli er og verður minn uppáhalds júróvisíon diskótek haldari….alveg ólýsanlega skemmtilegt.
Íþróttamaður ársins: Haltur og blindur sem gengu hringinn í kringum landið og unnu með því stærra afrek heldur en allir þessir tuðrusparkarar út í heimi sem fá borgað fyrir að draga andann.
Miljarðamæringur ársins: Bill Gates númer 1 en númer 488 var engin annar en herra Baugur, áfram Ísland við erum einungis 487 sætum frá því að vera ríkust í heimi.
Útför ársins: Það er víst gangur lífsins að einhverjir þurfa að kveðja þetta jarðneska líf. Ég var svo ótrúlega heppin þetta árið að þurfa ekki að sækja neina jarðarför. En sú útför sem lifir helst í huga þetta árið er útför Jóhannesar Páls páfa, blessuð sé minning hans.
Brúðkaup ársins: Hmmmm….hvort skyldi velja brúðkaup Karl Bretaprins og Kamillu eða survivor parsins sem ég man alls ekki hvað heitir….svona er ég mikið inni í slúðrinu.
Ekkifrétt ársins: Allar fréttirnar í Séð og heyrt og Hér og nú og DV.
Sýning ársins: Ungfrú heimur 2005 – þó mér finnist sá sigur kannski ekki vera kvenréttindasigur - þá var það sigur.
Hjálp ársins: Stærsta hjálp ársins kom í formi miðaldra konu í Vesturbænum sem kallar sig spámiðil.
Fól ársins: Si, Si, Sigurður asni.
Fréttaviðtal ársins: Hef mjög gaman af því að horfa á Kastljós þegar eitthvað áhugavert er þar, þ.e. ekki stjórnmál, ekki trúarmál, ekki dómsmál, ekki stjórnmál, stjórnmál…sem þýðir að það er gaman að horfa á Kastljós einu sinni í viku.
Flottasti hlutur ársins: Auðvitað geggjuðu sófarnir mínir svo ég tali nú ekki um bláa jólatréð, og barstólarnir, og borðið, og lampinn minn og íbúðin mín….!
Innlent sjónvarp ársins: Guð minn góður, mannlegt eðli á hinu lægsta stigi eins og sagði í Skaupinu – piparsveinninn, ástarfleyið, allt í drasli, fólk með Sirrý….eru þetta allt hlutir sem við viljum stilla upp í sjónvarpinu á litla Íslandi? Samt horfum við á þetta, reyndar hef ég ekki getað pínt augun til að horfa á neitt af þessu nema allt í drasli. Annað skapar bara ólýsanlegan kjánahroll…..viltu þessa rós eða ekki?????
Jólasveinn ársins: Nú auðvitað Egils jólasveininn, grrrrrr ég setti skóinn út í glugga og allt og óskaði þess að sveinki myndi koma og heimsækja mig…en allt kom fyrir ekki…en samt tvímælalaust jólasveinn ársins!!!
Ken ársins: Spegill, spegill herm þú mér hver í heimi fegurstur er!!! Ég hitti draumaprinsinn minn í sumar. Sá á eftir að bræða hjörtu í tonnatali. Pjakkurinn sá er reyndar bara ellefu ára gamall, heitir Daníel og er frá Braselíu…..ég vildi geta pantað einn svoleiðis í fullorðinsstærð. Þetta hljómar nú svolítið perralega…..en pfffffffff þið vitið hvað ég meina.
Kjánalegasti atburður ársins: Ég veit ekki hvort ég eigi að þora að segja frá þessu, hmm ég tek út nöfn til að koma í veg fyrir að upplýsingar berist á röngu staðina. Jæja, jæja nýtt sófasett sem passaði engan vegin og alls ekki við sófaborðið sem til var. Því var nurlað saman og farið í tiltekna húsgagnaverslun og keypt nýtt borð. Síðan ákvað snillingurinn Janus að fara að negla saman annað húsgagn og einhverra hluta vegna gerði hún það á borðinu! Nú megið þið geta í eyðurnar og þið eruð velkomin til að skoða fína borðið mitt…..!
Kvenréttindasigur ársins: Að mati formanns Kvenréttindafélags Íslands er sigur íslenskrar stúlku í alþjóðlegri fegurðarsamkeppni mikill áfangi fyrir kvenréttindi - ég spyr nú bara hvernig? Mér finnst sigurinn vera sá að nú séu karlar eins og konur að lenda í því að missa vinnuna þegar þeir taka sér fæðingarorlof. Nú er þetta farið að bitna á körlunum og þá verður pottþétt eitthvað gert.
Launahækkun ársins: Með meiri reynslu, meiri vinnu, fleiri börnum, ættu að vera meiri peningar! Neibb, þetta árið tölum við því ekki um launahækkun, nei þetta árið tölum við um launalækkun.
Lummugangur ársins: Pakistan, það vildu allir hjálpa neworleansunum með teppi en hvað gerðist með fólkið í Pakistan….var buddan bara orðin tóm þegar að því kom eða var spottinn í vefinn allur búinn?
Lögbrot ársins: Nú auðvitað svindlið mikla hjá undirritaðri, það er ljótt að svindla og það stendur ábyggilega í lögunum að það megi ekki svindla.
Heimasíða ársins: Nú auðvitað síðan mín sem þú ert að skoða núna, hvers konar spurning er þetta eiginlega?
Óheppni ársins: Að hafa ekki unnið allar miljónirnar í Lottóinu, árið 2006 mun ég leggja hart að mér við að spila í Lottóinu….ég vinn víst ekki ef ég spila ekki með!!
Óvæntustu úrslit ársins: Að Selma skildi ekki komast áfram úr undankeppninni, að Tony Blair skildi vera endurkjörin, að Ingibjörg Sólrún sé orðin hausinn í XS….
Leiðindi ársins: Bara þetta sama, sérkennilegur kunningi og annar sérkennilegur ættingi, úff svo ég tali nú ekki leiðindin sem eru í uppsiglingu í Keflavík….úffff þar verður sprengja sem bítur vissa aðila í rassinn….! Takk fyrir og málið er rétt að vakna.
Sannfæring ársins: Ég er, ég er, ég er, ég er…..fullkomin eins og ég er :D
Sigurvissa ársins: Við erum Íslendingar við vinnum allt þó við verðum síðust þá vinnum við samt…..þó það þýði að við höfum unnið keppnina í að verða síðust þriðja árið í röð.
Sjónvarpsmaður ársins: Úfff mér dettur ekkert í hug, ég horfi bara ekki mikið á innlenda dagskrágerð…..ætli ég verði ekki bara að segja Hemmi Gunn, mér finnst þátturinn hans skemmtilegur í þessi fáu skipti sem ég sá stöð 2 óruglaða. Ég bíð spennt eftir boðskorti….Birgitta hvað??
Flopphús ársins: Tónlistarhús sem á að byggja úti í sjó…sem kostar meira en annað hátæknisjúkrahús sem orkuveitukarlinn á eftir borga of mikið fyrir.
Timburmenn ársins: Oh my god, kvöldið eftir Sálarballið á Players – oj bara. Hef sjaldan á ævinni gubbað eins mikið. Ég og Gustavsberg tengdust sterkum vinaböndum þann daginn.
Mannfjöldi ársins: Kvennadagurinn í klessunni í miðbænum.
Heppni ársins: Jórunn sem fékk 4 tonna trukk á hausinn….maður bara spyr: Hver var eiginlega að passa upp á þessa dömu og hvar getur maður sótt um þessa vernd?
Menntunnarslys ársins: Það undarlega og óútskýranlega slys að ófaglærðir starfsmenn á leikskólum hafi hærri laun en þeir sem búnir eru að læra til þessa starfa, hvar lærði eiginlega hagfræðingurinn sem reiknar þetta út? Er hann kannski bara ófaglærður líka?
Orð ársins: Oh men!

Svona var það.....Gleðilegt ár og þakka ykkur fyrir það gamla......ekki gleyma að kvitta fyrir ykkur....ég veit að það eru fleiri en tveir sem skoða þessa síðu...!