Döpur er dráttlaus kona.

...besti páskamálsháttur ever!!!

Sunday, January 15, 2006

15. janúar 2006

Í dag er 15. janúar 2006. Í dag hefði Egill afi minn orðið 85 ára gamall. Ég skrifaði ekki fyrir löngu um mömmu fjölskyldu svo það er alveg við hæfi að halda smá tölu um pabba fjölskyldu.

Pabbi minn Páll er sonur heiðurshjónanna Egils Guðjónssonar og Guðrúnar Pálsdóttur. Eins og áður sagði hefði afi Egill orðið 85 ára í dag en hann dó árið 1994. Amma Guðrún dó árið 1983 þá aðeins 58 ára gömul. Amma hefði orðið 72 ára gömul nú í mars. Saman áttu amma og afi hvorki fleiri né færri en níu börn sem skríð voru: Svanborg, Páll, Guðjón, Stefán, Pálmi, Gunnar, Guðríður, Sigrún og Sigríður. Átta þessara níu systkina búa hér á Suðurlandinu, aðeins Sigrún býr annars staðar en hún flúði alla leið til Svíþjóðar. Þessi níu börn eiga 23 börn og 5 barnabörn.

Afi vann alla tíð á vörubílnum sínum. Hann var einn af fyrstu vörubílstjórunum sem keyrði möl úr Ingólfsfjalli í húsgrunna og vegi á Selfossi og víða. Afi keyrði líka rauðamöl í tonnavís og enn í dag ef ég sé rauðamöl hugsa ég um afa. Afi var mikill náttúruunnandi og var sérstaklega fróður um gróður og umhirðu hans. Landið hans í Þrastaskógi ber enn hans yfirbragð og jú jú ég man alveg hvaða tré ég fór síðast með, með afa og gróðursetti. Ein af mínum síðustu minningum um afa er einmitt úr skóginum, þegar öll fjölskyldan kom saman í skóginum og gróðursetti og þökulagði. Þá var afi orðin mjög veikur.

Afi átti alltaf ísblóm í frystinum. Það var náttúrulega rándýrt að kaupa öll þessi ísblóm handa þessum haug af barnabörnum sem komu oft við. Afi keypti því bara allt sem þurfti í svona ísblóm og bjó þau svo bara til sjálfur. Bræddi súkkulaði í botninn, jarðaberjasultu, ís….! Hann var nýtinn sá gamli.

Afi ferðaðist mikið á seinni árum. Hann heimsótti lönd eins og Ísrael, Chile, Nepal og Sri lanka. Um þessar ferðir skrifaði hann greinar sem birtust ófáar í Morgunblaðinu. Hann handskrifaði ferðasögur sínar og t.d. í dag á þorrablóti fjölskyldunnar voru þessar sögur lesnar upp. Þannig höldum við minningu þessa mæta manns á lofti.

Afi Egill var mjög trúaður og því er vel við hæfi að enda þennan pistil á orðunum:

Dag í senn, eitt andartak í einu,
eilíf náð þín, faðir, gefur mér.
Mun ég þurfa þá að kvíða neinu,
þegar Guð minn fyrir öllu sér?
Hann sem miðlar mér af gæsku sinni
minna daga skammt af sæld og þraut,
sér til þess, að færa leið ég finni
fyrir skrefið hvert á lífs míns braut.

Hann, sem er mér allar stundir nærri,
á við hverjum vanda svar og ráð,
máttur hans er allri hugsun hærri,
heilög elska, viska, föðurnáð.
Morgundagsins þörf ég þekki eigi,
það er nóg, að Drottinn segir mér:
Náðin mín skal nægja hverjum degi,
nú í dag ég styð og hjálpa þér.

Guð, ég fæ af fyrirheitum þínum
frið og styrk, sem ekkert buga má.
Auk mér trú og haltu huga mínum
helgum lífsins vegi þínum á,
svo að ég af hjartaþeli hreinu,
hvað sem mætir, geti átt með þér
daginn hvern, eitt andartak í einu,
uns til þín í ljóssins heim ég fer.

3 comments:

  • At 12:04 AM, Anonymous Anonymous said…

    Go girl... þú ert algjör snillingur og loksins loksins fæ ég að vera með;-) En hvað segiru með þorrablótið?? Fylgir þér maki??

     
  • At 4:37 PM, Anonymous Anonymous said…

    Þetta var skemmtilegt. Gamaldags ættarsaga. Myndarlegt af þér.

     
  • At 11:38 PM, Blogger Tilvera okkar.... said…

    pffff...karl smarl!!! Til hvers??? Takk Gummi :)

     

Post a Comment

<< Home