Döpur er dráttlaus kona.

...besti páskamálsháttur ever!!!

Sunday, May 18, 2008

Hvannadalshnúkur 17. maí 2008



Hvannadalshnúkur er hæsti tindur Íslands, hann er að finna í Öræfajökli sem er svo í Vatnajökli. Eitthvað hefur hæð tindsins verið á reiki og vísan sem maður kunni úr barnaskóla gengur ekki alveg upp lengur, þ.e. Hvannadalshnúkur 2119. Núna segja allar mælingar að Hnúkurinn sé 2110 metra hár. Ég á samt sannanir á mynd að hnúkurinn sé ennþá 2119 metrar :) svo ætla að halda mig við þá tölu.

Maður reif sig lappir klukkan hálf fjögur eftir lítinn svefn því eini hrúturinn í kofanum hraut eins og dráttarvél. Ég var því frekar illa upplögð þarna í morgunsárið. Það leit ekki vel út með veðrið þarna um morguninn því þokan náði niður í miðjar hlíðar á fyrsta hluta leiðarinnar þó úti væri logn og nokkur hiti. Eftir að búið var að borða morgunmat og klæða sig í viðeigandi fatnað var keyrt að eyðibýlinu að Sandfelli þar sem gangan hófst. Fyrsti hluti leiðarinnar var upp Sandfellið sjálft sem teygir sig einhverja 600 metra upp í loftið. Þarna var farið eftir greinilegum stíg í gróinni hlíð. Þokan var enn nokkur og útsýnið niður minnkaði eftir því sem ofar dró. Í 400 metra hæð fyllti maður á vatnsbrúsana sína. Ekki hélt ég nú að ég þyrfti á öllu þessum vökva að halda en ákvað nú samt að hlýða fararstjóranum Smára sem virtist alveg vera með á hreinu hvernig best væri að haga vatnsburði á þessari leið. Ég var því með einn og hálfan líter af vatni þegar uppgangan hófst, þrjár kókómjólk, og tvær litlar dósir með orkudrykk, samtals rúmlega tvo og hálfan líter.

Áfram gengum við upp og áður en maður vissi af var maður komin að snjólínu í 1000 metrum, sem sagt komin upp eina Esju með Úlfarsfell sem húfu. Ennþá vorum við hálf týnd í þokunni, sem var eins og þéttur úði sem gerði mann hálf rakan. Í þessari hæð borðuðum við nesti og notuðum náttúrusalernin og fórum í beltin og svo í línu því ekki er gáfulegt að ganga yfir svæði eins og þetta án þess að vera tryggður í línu. Framundan var svo lengsta beina brekkan á þessari leið, þarna var gengið upp með nokkuð jöfnum halla og hraða í 1800 metra hæð. Ég get verið alveg hreinskilin þegar ég segi að á þessum kafla var ég alveg að bugast. Mér var svo hrikalega heitt því hitinn var farin að stíga upp fyrir 10 gráður og ég var í ullarnærfötum undir flísdótinu, svo var óvenjulangt á milli stoppa þarna svo maður var orðin alveg orkulaus.

Í 1400 metra hæð varð ég svo vitni að algeru kraftaverki ef hægt er að kalla það kraftaverk. Eins og ég sagði var þokan búin að vera að stríða okkur á uppleiðinni og skyggnið var ekki nema svona 50 metrar. Í 1400 metrum fórum við samt að telja okkur trú um að það væri að létta til því sólin var aðeins farin að ylja okkur. Við vorum því stopp og vorum að góna í kringum okkur. Þá eins og hendi væri veifað hvarf þokan á svona einni mínútu, það var hreinlega eins og hún hefði verið ryksuguð burt. Því sá maður all skyndilega í hina hópana sem lengra voru komnir og Hnjúkinn sjálfan sem brosti sínu blíðasta þarna framundan. Það er ólýsanlegt að hafa fengið að verða vitni að þessu. Þokan hvarf ekki, en nú var hún í sirka 1380 metrum og þannig hélt hún sig allan daginn. Maður gekk því þennan seinni hluta ferðarinnar í sólskini, blankalogni og dúndrandi hita…og ég ennþá í ullarbuxunum.

Það var því eins og sleppa úr einangrun þegar farastjórinn gaf mér leyfi eftir að hafa kannað punktinn sem ég stóð á gaumgæfilega að losa mig úr línunni og fara úr þessum fjandans ullarbuxum, ég var svo fúl út í þær að mér hefði verið skapi næst að troða þeim niður í næstu sprungu. Eftir þetta var gangan mun léttari. Nú var ég stödd í 1800 metrum og því ekki framundan nema ca. 310 metra hækkun. Fyrst þurfti þó að fara yfir sléttuna, þó ekki sléttuna sem húsið stóð við, heldur sléttan snjóbala sem tók alveg ótrúlega langan tíma að fara yfir. Eftir tæpan klukkutíma vorum við komin að síðastu hindruninni, hnjúknum sjálfum. Nú vorum við stödd í sirka 1850 metra hæð ef ég man rétt. Fararstjórinn ákvað að við myndum sleppa broddunum, tek ofan af fyrir þeirri ákvörðun hans. Framundan voru nú 250 metrar upp nokkuð bratta hlíð sem nokkrar sprungur rifu í sundur. Þarna fyrir neðan skildum við pokana okkar eftir og óðum að stað. Ég ákvað að ganga þarna upp í úlpu og húfu því það er alltaf kalt á toppnum er það ekki? Ferðin upp þessa metra gekk frekar hægt því það voru fleiri hópar að fara upp á sama tíma og ekki komst nema einn hópur í einu upp þá leið sem í boði er þarna. Það var hrikalega heitt, fljótlega var ég búin að stinga húfunni í vasann á úlpunni og binda svo úlpuna um mittið. Þarna fór líka verulega að sjóða á andlitinu á mér þrátt fyrir að ég hefði borið reglulega á mig allan daginn. En það var ekkert við því að gera á þessum stað annað en að fara upp og snúa rassinum í sólina. Þetta hafðist. Þarna uppi á Hvannadalshnjúk var ólýsanlegt að standa. Sólin baðaði umhverfið ævintýrabjarma svo mér fannst ég vera stödd í paradís. Þarna uppi á hæsta hjalla Íslands var blankalogn, svo mikið logn að á kveikjara sem kveikt var á stóð loginn beint upp. Það er sjaldan sem maður upplifir svona logn í henni Reykjavík hvað þá meir uppi á þessum tind, gerist örugglega sjaldan ef einhvern tíma. Við dokuðum nokkuð lengi á toppnum, tókum myndir og gónuðum í allar áttir. Það var einhvern vegin ekki manns helsta hugsun að maður ætti núna eftir að koma sér niður þessu rúmu 2100 metra sem maður var búin að príla upp. Átta klukkutíma tók það okkur að fara þessa leið.

Niðurgangurinn var mun leiðinlegri en uppgangurinn. Ég fæ alltaf þennan leiðindasting í annað hnéð þegar ég geng niður, finn reyndar mun minna fyrir honum ef ég get hlaupið niður og þarf ekki að stoppa og spenna hnéð í hverju skrefi. En það var aldeilis ekki hægt núna. Nú var sólin og hitinn búin að bræða snjóbrautina sem við komum upp svo snjórinn var eins og púður, maður sökk og rann í hverju skrefi svo maður stjórnaði ekki alveg hreyfingunum, mjög óskemmtileg ganga sérstaklega þegar maður er svona stuttfættur. Það var líka farið mjög hratt yfir og því var ekkert annað að gera en að spýta í lófana og reyna að fylgja línunni sinni. Það var líka alveg hrikalega gott að komast svona hratt niður þessa leiðindabrekku, á engum tíma vorum við komin af snjónum og á moldarstíginn aftur.

Í 1400 metrum tók þokan aftur við og þar á sama stað kláraði ég síðustu dropana af vökva sem ég var með. 1000 metrar í lækinn og ég var gjörsamlega að skrælna. Það var alveg hrikalega erfitt að horfa á hina sem ekki höfðu drukkið eins mikið og ég eða verið með meira, svolgra í sig vatninu. Shit hvað ég var þyrst. Snjórinn bjargaði versta þorstanum og sopinn frá Sigrúnu frænku var ótrúlega góður. Ég var löngu farin að heyra í vatninu renna áður en við komum að læknum, þar var líka þambað ærlega, næstum líter í einum teig. Þetta skrifast á hitann, ég gerði ekki ráð fyrir þessum gríðarlegu hitasveiflum. Við frænkurnar vorum komnar niður á bílastæði klukkan rétt rúmlega hálf sjö, rétt rúmlega þrettán tímum eftir að við lögðum af stað upp. Fæturnir titruðu ögn og hnéið var aumt, bakpokinn eða beltið hafði náð að gera eitthvert bjánalegt nuddsár á mitt bak og ein tánögl á hægri færi er aðeins bláleidd. Fyrir utan það var ég alveg stálslegin. Nema auðvitað að andlitið á mér var og er brunarúst. Held ég hafi sjaldan brunnið eins illa í framan, get ekki ímyndað mér hvernig ég væri í dag ef ég hefði ekki borið á mig vörn í hverju stoppi. Alveg fáránlegt og hundfúlt að vera svona viðkvæm fyrir gula fíflinu.

Eftir sundferð, grillmat, bjór og íbúfen var lagst í koju og meðvitundin hvarf næstum um leið og hausinn snerti koddann. Þetta var dásamlegur dagur, með skemmtilegu fólki, frábærum fararstjóra sem lét hópinn ráða hraða og för, en ekki sitt egó. Hefði ekkert á móti því að ferðast meira með hann við stjórnvölinn.

Mest og magnaðast er þó að vera búin að fara þessa leið og hafa lent á þessu geggjaða veðri. Smávægilegir hlutir eins og sólbruni spilla ekki gleðinni yfir þessu öllu. Nú er ég alveg með skjálfta fyrir fleiri fjöllum. Get ekki beðið eftir göngum í eyjunni, príli á Hornströndum og vonandi fleiri fjöllum með einhverju fólki sem ég get troðið mér með.

Nú eru manni flest fjöll á Íslandi fær, eða hvað?

3 comments:

  • At 10:13 AM, Anonymous Anonymous said…

    Svo ótrúlega dugleg, en saknaði þín samt á laugardaginn... :)
    Gurrý

     
  • At 6:16 PM, Blogger Tilvera okkar.... said…

    hahaha...veistu ég saknaði ykkar pínu líka :)

    Ég kem bara næst!!

     
  • At 8:05 PM, Anonymous Anonymous said…

    Þú ert algjör hetja Jana mín :)

    Gaman að lesa lýsinguna, fæ algjört "flashback"!!!

    Soffía

     

Post a Comment

<< Home