Döpur er dráttlaus kona.

...besti páskamálsháttur ever!!!

Wednesday, September 21, 2005

Vetur!

...það er víst ekki annað að gera en að sætta sig við það. Ímyndið ykkur mig á mínu fjallahjóli klukkan rúmlega hálfátta á leiðinni upp brekkuna til að komast í vinnuna. Upp á foc...(ljótt orð) Grafarholtið. Eftir nokkuð marga daga á hjóli í vinnuna ákvað ég í morgun að það væri ekki save að hjóla, alla vega ekki meðan veðrið er svona. Sem betur fer því ég spólaði á bílnum í stóru brekkunni. Merkilegur andskoti að eiginlega sleppa sumrinu og smella svo vetrinum á óvenju snemma.

Já önnur ástæða fyrir þessu vetrartali mínu, ég var að koma yfir heiðina þar sem ég lenti bara í snjóbyl, slabbi, hjólförum og allir á sumardekkjum - uppáhaldið allra!

Ég átti frábæra stund í Selfosskirkju í kvöld. Barði sóknarprestinn augun í fyrsta sinn og kirkjuna bara augun. Held ég sé ekki búin að fara í kirkjuna síðan amma dúlla var jörðuð.....ussssss! Í kvöld var svona popp-messa í kirkjunni. Negrasálmar, klapp, dans og söngur, mér leið bara eins og ég væri í Ameríku nema ég var að syngja á íslensku.

Presturinn var svo með predikun. Nú kemur játning. Ég var sjálf í kirkjukór og hef að þeirri ástæðu farið í nokkuð margar messur. Það leiðinlegasta í þessum messum finnst mér alltaf vera predikun prestsins. Þessi predikun var aftur á móti alger snilld, ég bara hló og hló. Presturinn taldi upp ástæður þess hvers vegna við ættum ekki að lesa Biblíuna. Biblían væri sundurslitin og samhengislaus, í henni væru fordómar, hryðjuverk, endurtekningar og texti mjög erfiður aflestrar. Þar fyrir utan væri bókin sjálf óheillandi, hún væri svört, með endalausum númerum, letrið væri eins og í símaskránni og hún væri dálkaskipt eins og Lögbirtingablaðið og þar að auki væri vonlaust að lesa hana uppi í rúmi því hún væri svo þung....! Minns sat nú bar og gapti, hef bara aldrei heyrt íslenskan prest tala svona. Nema hvað eftir 15 mínútuna upptalningu á alls kyns neikvæðum hlutum skyldi presturinn mann eftir í lausu lofti með galopinn munn og setninguna "og allir horfðu til himins"!

Algerlega frábært og svei mér þá, ef allar messur væru svona skemmtilegar og hvetjandi myndi Janus smella sér mun oftar í messu. Alla vega bíð ég spennt eftir næstu poppmessu!

Hér er svo einn góður texti sem sungin var í kvöld.

Dag í senn, eitt andartak í einu,
eilíf náð þín, faðir, gefur mér.
Mun ég þurfa þá að kvíða neinu,
þegar Guð minn fyrir öllu sér?
Hann sem miðlar mér af gæsku sinni
minna daga skammt af sæld og þraut,
sér til þess að færa leið ég finni
fyrir skrefið hvert á lífsins braut.

Hann, sem er mér allar stundir nærri,
á við hverjum vanda svar og ráð.
Máttur hans er allri hugsun hærri,
heilög elska, viska, föðurnáð.
Morgundagsins þörf ég þekki eigi,
það er nóg, að Drottinn segir mér:
Náðin mín skal nægja hverjum degi,
nú í dag ég styð og hjálpa þér.

Guð, ég fæ af fyrirheitum þínum
frið og styrk, sem ekkert buga má.
Auk mér trú og haltu huga mínum
helgum lífsins vegi þínum á.
Svo að ég af hjartaþeli hreinu,
hvað sem mætir, geti átt með þér.
Daginn hvern, eitt andartak í einu,
uns til þín í ljóssins heim ég fer.

...og allir horfðu til himins, bæði þú og ég og Jesú á krossinum!

0 comments:

Post a Comment

<< Home