Döpur er dráttlaus kona.

...besti páskamálsháttur ever!!!

Saturday, September 17, 2005

..sem maður ei skilur.

Allt sem fer upp kemur niður, á eftir degi kemur nótt, 2+2 eru fjórir, svart og hvítt, maður og kona, norður og suður, feitur og mjór, sorg og gleði, gleði og sorg.

Oft hefur maður heyrt þessa frasa hér að ofan og hvað ef maður hreinlega ekki haldið að hlutirnir væru svona einfaldir. Allt sem fer upp kemur niður, nema það haldi bara áfram að fara upp þangað til við sjáum það ekki lengur, það týnist á bakvið tunglið. Ætti þetta svo ekki að virka í báðar áttir, það sem fer niður kemur upp? Kannski þegar það er kartafla, hún kemur á endanum upp aftur og endar í pottinum. Svo er það næsta víst að sumir fara upp þegar þeir kveðja lífið á þessari jörð meðan aðrir fara niður. Það breytist ekki - það sem er uppi er uppi og öfugt.

Á eftir degi kemur nótt, nema í júlí á Íslandi, þá kemur aldrei nótt. Hvað með þá sem vinna á nóttinni. Er þeirra dagur þá þegar nóttin er hjá okkur hinum. Og hvað með þá sem sofa aldrei eða þá sem sofa allan daginn, kemur þá nótt á eftir nótt og dagur á eftir degi eða kannski bara nótt á eftir degi?

2+2 eru 4 - samt eru einhverjir vitleysingar í heiminum sem halda að þeir geti sannað það að 2+2 séu í rauninni 5. Aðrir leggja saman 2+2 og fá út fáránlegustu kjaftasögur í heimi. Þar geta 2+2 orðið 10, jafnvel 11.

Andstæðan svart og hvítt, það sem er svart getur ekki orðið ólíkara því sem hvítt. Samt erum við öll eins sama þó við séum svört eða hvít eða eins og ég svona bleik. Ef við blöndum saman svörtu og hvítu verður til grátt - samt eru engar gráar manneskjur til. Við höfum kannski ekki fengið réttu litina í Múrbúðinni.

Maður og kona. Eitt sinn hélt einhver að það væri það eina rétta. En ekki nú, nú getur þetta verið kona og kona, karl og karl. Meira segja getur karl orðið kona og kona orðið karl. Innan skamms skilgreinum við okkur kannski bara sem hvorukyn. Þá myndi ekki vera neinn launamunur á milli kynja því þá værum við öll sama kyns með sömu skítalaunin.

Norður og suður - ef þú ert á leiðinni í norður og snýrð þér við ertu á leiðinni í suður, nema þú snúir ekki í rétta átt, þá veistu ekkert hvar þú ert - þú ert bara á þinni leið.

Feitur og mjór. Merkilegt nokk að við skulum vera farin að flytja inn fitubollur frá Noregi, maður myndi nú ætla að nóg væri hægt að krukka í Íslendinga svo við förum nú ekki að flytja inn fólk frá Noregi í þessar aðgerðir. Manni hefur nú sýnst að við á klakanum höfum að nógu að taka.

Sorg og gleði, gleði og sorg. Hvort er orsök og hvort er afleiðing. Pavlov myndi segja ef þú misnotar annað þá færðu ekki hitt, og ef þú prófar ekki hitt færðu ekki annað. Þýðir það að þegar sorgin bítur í hjartað sé það pottþétt að innan skamms komi gleðin og fylli hjartað aftur lífi? og ef þú sofnar á verðinum og leyfir gleðinni að fylla þig bjóðir þú sorginni heim. Væri kannski betra að fara í gegnum lífið með strik en ekki skeifu, upp eða niður.

Það er manni óskiljanlegt vitandi þessar staðreyndir að lífið komi manni á óvart. Stundum meira að segja læðist það aftan að manni og jafnvel bítur mann í rassinn án þess að við áttum okkur á því að það sé á leiðinni.

Það sem manni er erfiðast að skilja í þessu bjánalega samhengi er dauðinn. Í örfáum tilfellum er dauðinn líkn, samt vill engin kynnast slíkum dauða. Í öðrum tilfellum er dauðinn algerlega óskiljanlegur. Þetta á sérstaklega við þegar dauðinn tekur líf barna, jafnvel ófæddra barna. Hvers vegna vekur lífið væntingar í brjóstum fólks til þess eins að leggja á þetta sama fólk ómældan sársauka. Gleði og sorg - lítur þetta allt einhverjum lögmálum. Það getur samt ekki verið því alls staðar er börnin fagnað með gleði, engin verður sorgmæddur þegar barn er á leiðinni í heiminn. Þetta er bara óskiljanlegt, svona bara á ekki að gerast. Svona má ekki gerast.

Vei mér aumri manneskju sem heldur að klaufaleg orð geti haft áhrif. Samt geta orðin haft meiri áhrif en þögnin. Nema þögnin sé betri en orðin. Úffff...!

Tilvera okkar er undarlegt ferðalag.
Við erum gestir og hótel okkar er jörðin.
Einir fara og aðrir koma í dag
því alltaf bætast nýir hópar í skörðin.

Vangaveltur sem brjótast um í hausnum á mér eru stundum óskiljanlegar. Boðskapurinn einfaldur, maður gengur víst ekki að neinu vísu. Maður heldur að allir hlutir og persónur í kringum mann séu þekktir en...svo er það víst ekki. Endum þetta á einni góðri vísu og teljum okkur trú um að við höfum stjórn á öllu.

Guð, sem elskar öll þín börn,
ætíð, faðir, sért mín vörn.
Hjá mér vertu úti’ og inni,
allt mitt fel ég miskunn þinni.

Sendi þeim sem þennan texta skilja mínar dýpstu, dýpstu samúðaróskir. Lögmálið segir að á eftir sorg komi gleði.

0 comments:

Post a Comment

<< Home