Döpur er dráttlaus kona.

...besti páskamálsháttur ever!!!

Tuesday, February 01, 2005

Nú er lag!!

Hef ég sagt ykkur frá stelpunni minni sem var þangað til í haust strákur? Stelpan mín heitir Meera og er nú að verða 11 ára og er núna í sjötta bekk. Meera býr á heimili Litlu ljósanna, heimili fyrir munaðarlaus börn á Indlandi. Móðir hennar kom með hana á heimilið eftir að faðir hennar lést af slysförum og hún bjó með öll börnin sín fimm á götunni. Meera hefur nú verið á heimilinu í nærri fjögur ár og hef ég styrkt hana í að verða þrjú ár. Ég fékk bréf frá henni fyrir jólin, þar sem hún sagði mér ýmislegt um sjálfa sig t.d. að uppáhaldsliturinn hennar er gulur, uppáhaldsmaturinn er heitur matur, uppáhaldsíþróttin er blak, uppáhaldsfagið er stærðfræði og uppáhaldsskemmtunin hennar er að syngja....ohhh svo sætt. Ég fékk líka mynd af henni, afskaplega fallegt áhyggjulaust barn með tvær fléttur og fallegt bros. Á hverjum mánuði borga ég 3250 krónur til ABC barnahjálpar - fyrir þessar 3250 krónur fær Meera húsnæði, fæði, menntun, læknisaðstoð, föt og umhyggju. Að auki fer einhver prósenta af þessu til að reka heimilið á Indlandi og til að halda uppi starfinu á Íslandi. Hvað gætum við nú haldið uppi stóru heimili á Íslandi fyrir þennan pening? Einnig er hægt að taka að sér minni hlutverk t.d. styrkja barn bara til náms, til náms og fæði, náms og læknisaðstoðar...allt eftir því hversu miklu þið viljið spandera!!

Ég veit að sum ykkar hafa verið að hugsa um að taka að ykkur barn eða börn sem ekki eru svo heppinn að hafa fjölskyldu í kringum sig. Núna bráðvantar stuðningsaðila fyrir börn á Indlandi. Í kjölfar flóðbylgjunnar miklu þann 26. desember urðu fjöldamörg börn munaðarlaus í strandhéruðum Tamil Nadu á Indlandi og víðar í Asíu. ABC barnahjálp rekur El Shaddai barnaheimilið fyrir munaðarlaus og yfirgefin börn rétt við Chennai í Tamil Nadu. Eva Alexander forstöðukona heimilisins hefur verið beðin um að taka við eins mörgum munaðarlausum börnum og heimilið getur tekið á móti.

Oft er þörf en núna er nauðsyn....Látið nú verða af því að styrkja einn svona unga. Nánari upplýsingar finnið þið á www.abc.is - tengill hér til hægri!!

Sendið þetta á þá sem gætu haft áhuga og af stað nú.

0 comments:

Post a Comment

<< Home