Döpur er dráttlaus kona.

...besti páskamálsháttur ever!!!

Sunday, January 23, 2005

Dagarnir!

Það er svo skrítið hvað dagarnir eru misjafnir. Sumir dagar líða of hratt, aðrir of hægt og enn aðrir bara líða án þess að við veitum því neitt sérstaka athygli. Við erum líka svo misjafnlega upplögð - og það endurspeglast í skrifunum okkar.

Anyways - dagurinn í gær var einn af þessum dögum sem leið án sérstakrar eftirtektar. Hann leið, fullkomin eins og hann var. Ég þreif íbúðina hátt og látt. Henti úldnu serjósi (íslensk þýðing), tók niður jólaskrautið (sé mikið eftir því). Skipti á rúminu, snéri dýnunni, ryksugaði, skúraði og endaði svo á því að fara í sturtu. Um sexleytið lagði ég svo af stað til Reykjavíkur. Kom til Ágústs frænda Söndru um sjöleytið og byrjuðum við að elda. Fleiri tímaskakkir bættust svo í hópinn upp úr átta. Við elduðum alveg ólýsanlega góðan kjúklingarétt. Ég ætla mér að sníkja uppskriftina hjá Ágústi og deila henni með ykkur við fyrsta tækifæri. Mmmmm nammi, namm. Í desert var svo nýbökuð súkkulaðikaka með ís. Það fór sem sagt ekki mikið fyrir aðhaldi þennan dag - enda engin ástæða til að neita sér um svona veislu.

Fleiri bættust síðan í hópinn og fórum við sjö manna hópur í bíó að sjá mynd sem heitir Sideways. Myndin átti einstaklega vel við eftir svona rólegheita kvöld. Frábær mynd sem líður hægt áfram, raunveruleiki í hverju horni, fyndin atriði í bland við drama. Ráðlegg öllum að sjá þessa mynd, þið verðið samt að búa ykkur undir það að fara á þessa mynd með slökun í huga, þetta er svona fullorðinsmynd sem hentar pottþétt ekki öllum.

Næsta stopp eftir bíó var Ölstofan - máltækið hátt til lofts og vítt til veggja eiga ekki við þennan litla og þrönga stað. Staðurinn allur er ábyggilega ekki mikið stærri en íbúðin mín. Inni var mikill hiti og tóbakið sveið í augun. Þessi staður má samt eiga það að fólkið sem hann sækir er bara svona venjulegt fólk. Fólk sem er að kíkja út til að spjalla og hitta aðra. Ekki "feitustu" djammarar borgarinnar á ferð. Við sátum þar inni og fylgdumst með þessari skemmtilegu flóru og drukkum vatn. Við sátum líka svona miðsvæðis og fólkið við borðið okkar var sífellt að skiptast út og nýtt að koma í staðinn. Klukkan var gengin langleiðina í fjögur þegar ég lagði á brautina. Kom heim og fór í sturtu því önnur eins tóbaksstækja hefur sjaldan verið af mér og það var hreint á rúminu. Svei mér þá ef ég finn ekki fyrir astmanum í dag.

Alla vega frábært kvöld, með góðum mat og frábærum félagsskap.

Pæling Ölstofunnar var þessi....og hér talar Janus hinn fanatíski! Í gær gat ég flokkað reykingarmenn Ölstofunnar í fjóra nokkuð vel aðgreinda flokka:

1. Reykingarmaður sem reykir án þess að hinn reyklausi taki eftir því. Nær einhvern vegin að koma því þannig fyrir að hinn reyklausi fær aldrei reykinn framan í sig. Þetta er alveg sérstök tækni sem ekki er á allra færi að ná völdum á. Þetta er reykingamaðurinn sem er alltaf að fara að hætta. Reykir að þörf en ekki unun.

2. Reykingarmaður sem nær ekki fullu valdi á tækni reykingarmanns númer 1, er samt alveg meðvitaður um hinn reyklausa og reynir að passa upp á stefnu reyksins. Þetta er reykingarmaðurinn sem sveiflar hendinni eða blæs á reykinn svo hann breyti um stefnu. Reykingarmaðurinn sem er meðvitaður um slæm áhrif reykinga en langar samt ekki að hætta, kannski tengir það við að hætta við eitthvað sérstakt, t.d. ég ætla að hætta að reykja þegar ég verð ólétt!

3. Reykingarmaður sem hugsar litið um hinn reyklausa. Hann skilur sígrettuna eftir í öskubakkanum meðan hann snýr sér við og spjallar. Gengur jafnvel í burtu og gleymir því að hann hafi verið að reykja. Kveikir sér í annarri án þess að muna eftir hinni, púar í allar áttir og nýtur þessa viðbjóðar út í ystu æsar. Reynir þó að passa sig þegar bón er beint til hans, en bara kann ekki að reykja í hina áttina.

4. Reykingarmaður sem hugsar ekkert um hinn reyklausa. Þetta er reykingarmaðurinn sem brennir gat á fötin hjá manni nú eða á sjálfa húðina. Þetta er reykingarmaðurinn sem reykir á dansgólfinu. Hann heldur sígrettunni í sömu hæð og andlit annarrra sitja þannig að reykurinn svíður í lungum hins reyklausa. Hann bregst ókvæða við bón um að færa sígrettuna örlítið fjær og jafnvel púar reyknum beint í andlit þess sem biður. Hefur þá flugu í höfðinu að það fullkomni hans ímyndaða töffaraskap að reykja. Hann kveikir í nýrri sígrettu með glóðunum úr þeirri á undan. Ég þekki ekki marga svona reykingarmenn því þeir drepast flestir sundurreyktir fyrir fimmtugt.

Svo er nú það - þessi flokkun er aðeins byggð á reynslu gærkvöldsins og á ekki við nein fræðileg rök að styðjast. Meira til gamans gert heldur en hitt. Ég bíð þó spennt eftir að nýju tóbaksvarnarlögin taki gildi á Íslandi þ.e. ef ráðamenn þora í týpu 4.

Ég er búin að setja fyrstu söguna á gamla bloggið. Mér þætti gaman að þið mynduð lesa hana, en skil samt alveg ef þið nennið því ekki. Hefði gaman af að heyra hvað ykkur finnst. Gamla bloggið heitir Söguslóð hérna í tenglunum við hliðina. Mér finnst sagan skemmtileg svo þið deyið ekki úr leiðindum við lestur hennar.

Helgin liðin, góð helgi þar sem ég kom ótrúlega miklu í verk. Aðeins fjögra daga barna-vinnuvika framundan og eins dags kennara-starfsdagur...!

2 comments:

  • At 8:11 AM, Blogger Tilvera okkar.... said…

    Eins og flestar vinkonur mínar ertu týpa 1, sem gæti alveg sleppt því að reykja því það fer svo lítið fyrir því.

     
  • At 1:48 PM, Blogger Gugga said…

    Ég myndi halda að þetta væru einstaklega góðar skilgreiningar....þú fengir 10,5 fyrir þetta í mínum bókum. Sjáumst eftir 97 klukkutíma :)

     

Post a Comment

<< Home