Döpur er dráttlaus kona.

...besti páskamálsháttur ever!!!

Tuesday, January 18, 2005

Í fréttum er þetta helst...

1. Ég fór í hraðbanka í gær, átti eftir að borga viðgerðina á bílnum og ætlaði ekki að láta það bíða lengur. Ég kem því hlaupandi inn í hraðbanka úr storminum sem var úti. Tek út pening, hleyp út í bíl og keyri sem leið liggur út í Njarðvík, drep á bílnum og tek veskið mitt. Uppgötva þá mér til mikillar skelfingar að ég gleymdi peningnum í hraðbankanum, tók kortið og kvittun en gleymdi seðlunum. Ég bruna því aftur í bankann og þar er náttúrulega enga peninga að sjá. Hvernig er þetta hægt? Fara í hraðbanka til að taka út pening og gleyma honum svo. Alla vega Gurrý bankastarfsmaður sagði mér svo að þetta væri sko ekki í fyrsta skipti sem fólk gerði þetta. Kosturinn er svo sá að þegar svona aular eins og ég gleyma peningunum í bankanum þá gleypir bankinn þá aftur og þeir fara aftur inn á reikninginn. Í dag fór ég því í hraðbanka og mundi eftir peningnum.

2. Um helgina gramsaði ég í tölvunni hjá bróðir mínum og fann fullt, fullt af tónlist sem ég brenndi á diska. Einn diskinn skýrði ég "þungur", sem sagt disk sem inniheldur tónlist sem Janus er ekki frægur fyrir að hlusta á t.d. lög með gömlum hljómsveitum eins og Metalica og Guns N roses. Þennan disk var ég svo að hlusta á þegar ég keyrði í gegnum bæinn á sunnudaginn á leið minni til Keflavíkur. Græjurnar náttúrulega hátt stilltar og söngur (hæfileikar) gríðarlegur :) Í miðju lagi þar sem allt er á fullu, er meira að segja að hnykkja til hausnum í takt við tónlistina, þá þarf ég að stoppa á rauðu ljósi. Eftir smá stund í rokkæðinu lít ég til hliðar í bílinn við hliðina á mér. Þar inni er heil fjölskylda í hláturskrampa yfir þessum töktum....! Vá! Hvað ég roðnaði mikið og mikið ógeðslega logaði þetta rauða ljós lengi. Var skapi næst að bruna yfir á rauðu.

3. Spinning, tilgangslausasta líkamsrækt sem til er! Hefur þó sína kosti þar sem maður svitnar meira að segja á bakvið eyrun. Ég get svarið það að ég þarf að sitja á púða því mér er svo illt í....ritskoðað. Eins gott að enginn karlmaður er í lífi mínu þessa dagana.

4. Morgunmatur - nú skal mataræðið tekið í gegn. Fékk leiðbeiningar um þennan danska kúr sem tröllríður öllu núna. Ætlaði mér að prófa þetta í smá stund og athuga hvort þetta virkar eitthvað. Ég entist nákvæmlega í einn dag - hvernig á að vera hægt að borða að minnsta kosti 600 grömm af grænmeti á hverjum degi!! Og það ofan á annan mat. Ég held ég hafi aldrei á allri ævinni minni borðað eins mikið og í gær, þó var ég langt frá því að borða allt sem ég átti að borða. Var ennþá með stein í maganum eftir þessa vitleysu í morgun. Markið mun því ekki vera sett á þennan danska kúr, í staðinn verða þau
a)borða morgunmat,
b) borða í kaffinu klukkan 9:30,
c)borða hádegismat, (það er óhollt að venja sig á að borða bara einu sinni á dag),
d) drekka um það bil 2 lítra af vatni á dag,
e) drekka ekki meira en 1/2 líter af gosi á dag.
Mér finnst þetta hljóma betur en heill kálgarður á hverjum degi. Ég held að ég sé meira að segja með harðsperrur í kjálkunum eftir að bryðja allt þetta græna dót í sundur.

5. Uppeldi - kostur þess að starfa með börnum alla daga er sá að maður verður sjálfur fullkomin uppalandi, lærir svo mikið af mistökum annarra!!!! NOT!!! Ég fór spes ferð út í 11/11 að kaupa kattamat handa kisu minni því henni finnst kattamaturinn úr Bónus svo vondur. Bíð spennt eftir að venja börnin mín á mat úr Bónus, eða 11/11 :)

6. Rannsókn - bandarísk rannsókn sem sýnir svo ekki verður um villst að ástarsorg hefur áhrif á starfsemi heilans. Þáttakendur í rannsókninni sem allir höfðu nýlega hætt í ástarsambandi voru allir með skerta starfsemi í þeim svæðum heilans sem tilfinningar búa. Ef ekki er svo rétt staðið af "bata" þessara einstaklinga getur þessi sorg þróast út í tilfinningalegan doða og í framhaldi af því þunglyndi! Merkilegt finnst ykkur ekki.

7. Kór - ég ákvað eftir viku umhugsun að fara ekkert á aðra kóræfingu. Var engan vegin að nenna að eyða peningum og tíma í eitthvað svona óspennandi. Á reyndar eftir að hringja og segja bless, geri það á morgun. Er því að leita að öðrum kór til að syngja með. Það virðist þó lítið annað en kirkjukórar í boði. Þetta á allt eftir að koma í ljós - heyrði reyndar að gospelkórinn væri að auglýsa eftir fólki. Veit samt ekki hvort söfnuðurinn sem hann tengist sé eitthvað sem ég vilji láta tengja mig við!

8. Lýsi - þó þeir búi til lýsi með sítrónubragði sem ég fæ mér áður en ég borða stóra máltíð ropa ég samt upp lýsi marga tíma á eftir. Lýsis-ropi-með-sítrónukeim - oj bara.

Er að skrifa fyrstu söguna mína - mun koma henni í pörtum á gömlu síðuna mína!!

Eitt gott heilræði úr bókinni minni "1000 ástæður hamingju og gleði".
Lífið er ekki kapphlaup. Einu verðlaunin sem eru þess virði að vinna eru ást og kærleikur fjölskyldu og vina.

0 comments:

Post a Comment

<< Home