Döpur er dráttlaus kona.

...besti páskamálsháttur ever!!!

Tuesday, February 22, 2005

Það versta/besta?

Sat í vinnunni til að verða sjö og kom út með heiladoða, tvíburabróðirinn á hálsinum er orðin 5 merkur og svei mér þá ef ekki er farið að móta fyrir nefi. Óhugnalegt! Alla vega, heiladoða sökum of mikillar inniveru er auðveldast að lækna með útiveru. Ég fór því í keppnisgallann og fór út að hlaupa. Leyfði meira að segja tvíburabróðurnum að koma með mér út.

Úti var þoka þannig að ég sá bara svona fimmtíu metra fram fyrir mig á íþróttavallarhringnum. Fyrstu 2 hringina var ég ein á vellinum og þar sem skyggnið var svona lítið hefði ég allt eins getað verið ein í Keflavík. Allt í einu sé ég móta fyrir manneskju fyrir framan mig, hún var í gönguskóm, í útivistarúlpu, með hvíta lopahúfu og labbaði hringinn í rólegheitum. Góða kvöldið sagði ég og hljóp áfram.

Fljótlega mæti ég annarri konu, sú var ólétt og labbaði svona kraftgöngu með hendurnar í trimmstöðu og strunsaði áfram. Góða kvöldið sagði ég og hljóp áfram.

Eftir tvo hringi tek ég fram úr gömlum hjónum. Karlinn gengur öðru megin á stígnum, konan hinum megin, karlinn gengur svona 2 metrum á undan, konan svona tveim metrum á eftir. Góða kvöldið sagði ég og hljóp áfram.

Næstu hringi tek ég fram úr þessu fólki. Enginn annar virðist vera í augnsýn. Allt í einu heyri ég mikið tramp á bakvið mig. Ég færi mig út á aðra hliðina á brautinni og bíð átekta. Nú ryðst fram úr mér eitt stykki fótboltalið, svona um það 20 strákar, á takkaskóm á malbikinu. Ái. Hvers vegna skyldu fótboltamenn girða sokkana ofan í buxurnar? Hvers vegna skyldu fótboltamenn fara út að hlaupa í mars í stuttbuxum. Anyways - mér fannst ég hreyfast hratt miðað hitt fólkið á vellinum en samt sem áður var þetta blessaða fótboltalið alltaf að taka að taka fram úr mér. Ég reiknaði það út að á meðan þeir hlypu 1000 metra, hlypi ég 750 metra, þannig að þeir komu fram úr á eins og hálfshringsfresti. Þá birtust þeir út úr þokunni, brunuðu framhjá mér og hurfu svo eftir tuttugu metra.

Hvað gerist? Jú, jú allt í einu fannst mér að ég hlypi ekki nógu hratt og fór að hlaupa hraðar, fyrir vikið varð ég miklu móðari og miklu þreyttari. Og þó ég yki hraðann voru þessir fótboltagaurar alltaf að bruna fram úr mér. Það var því aðeins á þrjóskunni sem ég náði settu marki, ég komst tíu hringi sem eru 5 km.....og meira að segja með tvíburabróðirinn á hálsinum :)

Ég spyr því: var þetta það versta eða besta sem gat komið fyrir. Ég viðurkenni að 20 bakhlutar á fótboltamönnum héldu athyglinni á réttum stöðum, að minnsta kosti þangað til þeir hurfu í þokuna. 20 fótboltamenn í geðveiku formi fóru samt illa með egó-ið sem búið var að telja upp í mér :) Hvort var þetta það besta eða versta?

Fróðleikur: Fyrsta lagið sem sungið var á tunglinu er: Happy birthday!!!

0 comments:

Post a Comment

<< Home