Mislyndi
Eins og ég hef stundum haldið fram þá kemur það einstaka sinnum fyrir að ég fletti í gegnum Fréttablaðið, gerði það meira að segja í gær líka. Nokkuð mörg málefni bættust á "verð á skrifa á bloggið" listann minn og ætla ég fyrst að skrifa um það áhugaverðasta. Aftan á Fréttablaðinu í dag er að finna bakþanka Jón Gnarr sem að þessu sinni bera nafnið Mislyndi. Mjög áhugaverðir þankar sem ég vona vissulega að vekji fólk til umhugsunnar.
Í gegnum tíðina eignast maður kunninga, við suma þeirra heldur maður góðu sambandi og fær aldrei leið á samskiptum við þá við aðra neyðist maður hreinlega til að eiga samskipti við til lengri eða skemmri tíma. Eftir þann tíma getur maður blessunarlega klippt á öll samskipti við þann einstakling. Einhvers staðar hef ég lagt á minnið orð sem segja...Skyldmennin eru valin fyrir okkur en sem betur fer getum við valið okkur vini. Ekki það að skyldmenni mín séu alslæm, þvert á móti alveg einstaklega skemmtilegt fólk þó þar leynist úldin epli líka.
En þetta með mislyndið. Mér finnst það oft alveg ótrúlega magnað hvernig sumt fólk getur látið skapið hlaupa með sig í gönur og skil ekki hvernig það nennir yfirleitt að eyða deginum í skapillsku og leiðindi. Aðra stundina brosir þessi vinur manns út fyrir eyru og spyr mann spjörunum úr um hagi þína. Næst þegar þú hittir þennan vin tekur hann á móti þér með fýlusvip og svarar með skætingi og hefur engan áhuga á vera í nálægð við þig. Við eigum öll svona vini er það ekki? Vini sem maður horfir í augun á þegar maður mætir þeim til að athuga hvernig skapi þeir séu í áður en maður þorir að tala við þá. Ef vinurinn er á góðum degi er gaman að eiga samskipti við hann og maður nýtir sér tækifærið, fangar augnablikið og nýtur þess að eiga þennan góða vin. Ef aftur vinurinn er á slæmum degi er það besta í stöðunni bara að láta sig hverfa svo fýlupúkinn nái ekki að bíta mann sjálfan í rassinn. Ég þoli ekki að vera í kringum geðvonskupúka.
Ég tek því undir með Jón Gnarr og bið um leið afsökunnar á því að hafa misnotað svona hugmyndina úr greininni hans. Ég segi því fýlupúkum stríð á hendur og mun leggja mig fram um að eiga ekki frekari samskipti við þá fýlupoka sem ég þarf að umgangast. Ég vil ekki eyða tíma í það. Heimurinn er fullur af elskulegu fólki sem er ekki að kafna í sjálfu sér. Núna taka við skemmtilegri tímar :) Gangi ykkur vel.
0 comments:
Post a Comment
<< Home